Folgen

  • Í sjöunda þættinum af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK! heimsækjum við tónlistarmanninn, leikarann, uppistandarann, lagahöfundinn og gull-barkann Eyþór Inga Gunnlaugsson.

    Við settumst niður í hljóðveri Eyþórs í Hafnarfirðinum, miðvikudaginn 20. nóvember 2019, og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar. En þó aðallega tónlist!
    Enda hefur hann afrekað ótrúlega margt á ótrúlega stuttum tíma.

    Eyþór Ingi hefur meðal annars leikið í Hárinu, Vesalingunum, Oliver Twist, Rocky Horror og Jesus Christ Superstar. Hann vann söngkeppni framhaldsskólanna, Bandið hans Bubba og söngvakeppni sjónvarpsins, þrátt fyrir að vera lítið hrifinn af því að keppa í tónlist.
    Hann var söngvari í Stuðmönnum í þó nokkurn tíma og hefur verið fastur söngvari í Todmobile í 10 ár!

    Við heyrum hvernig mamma hans lét Heilsubælis videospóluna hverfa þegar hann var krakki enda Laddi og Elvis Presley aðal átrúnaðargoðinn.
    Eyþór segir okkur líka frá undarlegri heimsókn Bubba Morthens í vinnuna til hans á Dalvík, afhverju hann varð að selja fínu harmonikkuna sína eftir tvö innbrot, hvernig hann endaði óvænt í Stuðmönnum eftir súpu og hamborgara með Jakobi Frímann og helstu ráðamönnum þjóðarinnar, hvernig hann átti upprunalega að leika hinn fullkomna mann í Rocky Horror en fékk stöðulækkun niður í kryppling, hvernig ótrúlegasta fólk gaf honum allskonar ráð áður en hann fór fyrir hönd þjóðarinnar í Eurovision, hvernig hann notaði hvíta lygi til að Rock Paper Sisters fengu hita upp fyrir Billy Idol, hvað varð til þess að hann byrjaði í Todmobile og hvernig hann varð vitni af yfirgengilegri símafíkn tónleikagesta á tónleikum Jack White í London.

    Þetta og svo miklu, MIKLU, M I K L U meira í AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/5QKsuinGOnhKvV3NAJNjt5?si=aprHMmauTU-gVF8CuP6Cmw

    www.hlynurben.net

  • Einar Vilberg tónlistarmaður, upptökustjóri og forsprakki rokksveitarinnar NOISE er gestur minn í sjötta þættinum af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hann hefur marga fjöruna sopið í tónlistinni og rekur nú einnig hið magnaða studíó Hljóðverk. Þar hefur hann tekið upp og hljóðblandað listamenn eins og Skálmöld, Dr. Spock, Dúkkulísurnar, Svavar Knút, The Vintage Caravan, Úlf Úlf, Dimmu, Paunkholm og Lay Low, svo örfáir séu nefndir.

    Í þættinum heyrum við af því þegar rafmagnið fór af Dillon á sama tíma og erlendir tónleikahaldarar voru mættir til landsins sérstaklega til að sjá NOISE á tónleikum, nýju plötunni sem hefur verið tekin upp nokkrum sinnum alveg frá grunni, sóló-laginu sem endaði í einni vinsælustu íslensku sjónvarpsseríu seinni ára og hvernig tilfinningin var að koma við eitt frægasta upptökuborð (mixer) tónlistarsögunnar.

    Einar segir okkur líka hvernig tónlistarferill föður hans gerir það að verkum að fólk heldur að hann sé búinn að vera í bransanum í tæp 50 ár, hvað varð til þess að NOISE spilaði óvænt á Gay Pride hátíð í Bretlandi, hvernig starf upptökustjóra á Íslandi er í raun og veru, afhverju hann eldaði kjötsúpu fyrir Mark Lanegan sem leiddi svo til samstarfs við strengjasveitina hans og hvernig hann endaði í Foo Fighters hljóðverinu í Los Angeles þar sem hann djammaði með Stone Temple Pilots.

    Þetta og svo margt, margt, margt fleira í AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/4NDyKiA9aaV6xyqTlahMye?si=nTErT9UrSf6nkBjFsz5lYQ

    www.hlynurben.net

  • Fehlende Folgen?

    Hier klicken, um den Feed zu aktualisieren.

  • Stefanía Svavarsdóttir er gestur minn í fimmta þætti hlaðvarpsins AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!.

    Þessi magnaða söngkona á að baki ótrúlegan feril þrátt fyrir ungan aldur.
    Hún sigraði á sínum tíma söngvakeppni Samfés og athyglin sem því fylgdi leiddi hana í eina ástsælustu hljómsveit íslenskrar poppsögu.
    Stefanía hefur komið fram í ótal söngsýningum (Meat Loaf, ABBA, Spice Girls, Skonrokk o.fl.) og gert það gott í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hún kennir stjörnum framtíðarinnar í Söngskóla Maríu Bjarkar og er sem stendur að vinna að sinni fyrstu sólóplötu.

    Í þættinum fáum við að heyra af því hvernig unglingahljómsveitin sem hún var í var sífellt ráðin í fimmtugs- og sextugsafmæli því þau spiluðu svo gamla tónlist, Jóhanna Guðrún kynnti hana óbeint fyrir erlendum dívum, hún vafraði um dalinn á Þjóðhátíð með hvítvínsbelju og stútfulla möppu af textum með gítargripum, passaði að missa ekki kúlið á MSN á sínum tíma, borðaði hamborgara með Jónsa (Í Svörtum Fötum), nennir alls ekki að horfa á grindverk Hollywood stjarnanna og syngur hástöfum í bílnum á rauðu ljósi.

    Stefanía segir okkur líka hvað gerist þegar nokkrar dívur fara saman í Kareoke, hvernig hún hefur lært að standa með sjálfri sér, hvað það er gaman að syngja allt frá þungarokki yfir í píkupopp og hvernig hún endaði sem söngkona í Stuðmönnum.

    Þetta og svo margt, margt, margt fleira í AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/2yGpNLyRSR7B2ZXb8oMuxw?si=0dimr7-UTxWO56IVoY3-rA

    www.hlynurben.net

  • Ingvar Valgeirsson er einn af þessum einstaklingum sem virðist þekkja alla og allir virðast þekkja hann. Allavega það fólk sem kemur að tónlist að einn eða annan hátt.
    Í hartnær 30 ár hefur hann skemmt fólki á böllum, í veislum og á öldurhúsum landsins. Þess á milli selur hann öllum og ömmum þeirra hljóðfæri í Rín / Hljóð X.

    Nýlega byrjaði Ingvar að læða frá sér frumsömdu efni, bæði undir eigin formerkjum og með hljómsveitinni Swizz, og hafa lögin hans hljómað þó nokkuð á öldum ljósvakans undanfarið.

    Ég heimsótti hann í búðina, eftir lokun, þar sem við ræddum um lífið og tónlistina.

    Við heyrum hvernig hann byrjaði ferilinn í KFUM og samdi íslenska texta með trúarlegu ívafi við lög hljómsveitarinnar The Cars, fór á einn túr á togara til að eiga fyrir hljóðkerfi til að auka líkurnar á að vera ráðinn í band, breytti rólegum matsölustað í rokkbúllu, móðgaði Bruce Dickinson söngvara Iron Maiden, vingaðist við Russel Crowe, djammaði með Emmu Watson án þess að þekkja hana og pissaði næstum því á sig við hliðina á Ian Gillan úr Deep Purple.
    Ingvar segir okkur einnig frá því þegar hann gekk um Akureyri og safnaði tónlist á hljóðsnældu, reyndi að henda sjónvarpi út um glugga með Skítamóral, fór á rakarastofuna sem The Beatles sungu um í laginu Penny Lane, varð heltekinn af Gary Numan, spilaði lengi með Önnu Vilhjálms, hvað þú átt að gera þegar þig langar í óskalag og hvernig það er að vinna í hljóðfæraverslun.

    Þetta og svo margt, margt, margt fleira í fjórða þættinum af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/15JbTPbteqDYzHizpjQr6x?si=C045OdxiR-m0laJt3zhLnQ

    www.hlynurben.net

  • Tónlistarmaðurinn og kórstjórinn Halldór Gunnar Pálsson sest í stólinn að þessu sinni.

    Halldór hefur unnið við ýmislegt í gegnum tíðina. Þar á meðal sem bílstjóri á bananabíl, verslunarstjóri í plötubúð og múrari þegar góðærið stóð sem hæst.
    Það var þó skrifað í skýin að hann yrði tónlistarmaður og það hefur svo sannarlega gengið eftir.

    Hann stofnaði og stjórnar kórnum Fjallabræður, dælir út slögurum og skemmtir á böllum með hljómsveitinni Albatross, hefur átt farsælt samstarf með Sverri Bergmann og tekið upp plötu í Abbey Road.
    Halldór Gunnar hefur líka samið, ekki eitt, heldur tvö Þjóðhátíðarlög sem eru með þeim vinsælli í þeim lagabálki.

    Við heyrum skemmtilegar sögur af því hvernig hann flakkaði um landið og tók upp rúmlega 30 þúsund Íslendinga fyrir eitt lag, endaði óvart sem verslunarstjóri yfir öllum verslunum Skífunnar á sínum tíma, borgaði sjálfur mótframlag bæjarfélagsins fyrir tónlistarnám svo hann þyrfti ekki að flytja lögheimilið sitt frá Flateyri, stofnaði einn vinsælasta kór landsins með því að hringja í gamla skólafélaga sem gengu undir viðurnefninu víkingasveitin og auðvitað hvernig Fjallabræður náðu að klára allt áfengið á barnum í einu flottasta hljóðveri heims á örfáum klukkutímum.

    Þetta og svo margt, margt fleira í þessum þriðja þætti af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/37Xh6wiWPRLMpQUPz7QYkd?si=3zYjH2vyRqaY90rj781bFQ

    www.hlynurben.net

  • Pétur Örn Guðmundsson, tónlistarmaður og leikari, er gestur minn í þessum öðrum þætti af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!
    Hann er með eindæmum fjölhæfur og hefur komið fram í söngleikjum eins og Evita, Stone Free, Hárinu og auðvitað Jesus Christ Superstar. En í þeim síðast nefnda fór hann með hlutverk hins eina sanna Jesú Krists. Það var árið 1995 og síðan þá hefur Pétur oftar en ekki verið kenndur við þennan sívinsæla guðs son.
    Hann poppar með Buff, rokkar með Dúndurfréttum, hefur komið fram í sjónvarpsþáttum eins og Það var lagið og Björn og félagar, er margfaldur Eurovision-fari og hefur samið og gefið út helling af frábærri tónlist.

    Það var ýmislegt sem bar á góma í þættinum, enda stórskemmtilegt að spyrja Pétur spjörunum úr.
    Hann hljóp úr miðju partýi í áheyrnarpurfur hjá Baltasar Kormáki og Jóni Ólafs, kallaði Hemma Gunn "pabba", fékk röddina og Jesú-nafnið í arf frá alvöru pabba sínum, Guðmundi Benediktssyni. Við heyrum hvernig Buff bjargaði gömlum grínsketsum frá glötun á síðustu stundu, hvernig hljómsveitin Dúndurfréttir var stofnuð af sjálfsbjargarviðleitni á gamla Gauki á Stöng og fullt af fleiri skemmtilegum sögum af lífshlaupi og tónlistarbrölti Péturs í gegnum tíðina.

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/1u4bygjv8CIoz4DtX7CSMh?si=pIVjPNQiScqH1sA9eKi7FA

    www.hlynurben.net

  • Ólafur Páll Gunnarson, eða Óli Palli á Rás 2 eins og margir þekkja hann, er einn ástsælasti útvarpsmaður þjóðarinnar.
    Í gegnum þætti eins og Rokkland, Poppland, Fuzz og Stúdíó A hefur hann glatt þjóðina og haldið á lofti tónlist, jafnt íslenskri sem erlendri, í áraraðir.
    Mér þótti því tilvalið að fá Óla Palla sem gest í fyrsta þáttinn af AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!

    Heimapartý með Ivan Rebroff, fuglaskoðun í frímínutum, 1001 nótt, fyrstu plötukaupin, kaffi með Johnny Rotten, skróp í leikfimi, Chris Martin og U2 frænkur, lífstíðarpassi í bíó, erfiðasta útvarpsviðtalið, klarinett og barnakór, hvernig hann slysaðist til þess að verða útvarpsmaður, stóð einu sinni á sviðinu hjá Iron Maiden með James Hetfield og margt, margt fleira!
    Já, það kom ýmislegt áhugavert og stórskemmtilegt fram.

    Hér er svo linkur á Spotify playlista sem geymir allskonar tónlist sem tengist spjallinu okkar í þættinum: https://open.spotify.com/playlist/0nHd0niGIDGVReOkPoZt6s?si=E05zxTjdTf-9cUnziNfBUg

    www.hlynurben.net

  • Kynning á þættinum AÐEINS MEIRA PODCAST Í MONITOR... TAKK!
    Fjölmiðla- og tónlistarmaðurinn Hlynur Ben spjallar við áhugavert og skemmtilegt fólk um allt á milli himins og jarðar... en þó aðallega tónlist!