Episodes
-
Rómaveldi hafa flestir væntanlega heyrt um. Það hafði gífurleg menningarleg áhrif og átti mjög stóran þátt í því að móta þá Evrópu sem við nú þekkjum. Rómverjar notuðust oft við nokkurs konar lýðræði en æðstur var keisarinn. Margir keisarar stóðu sig afar vel en aðrir alls ekki. Flosi segir Baldri hér frá þeim sem hann telur verstu Rómarkeisara sögunnar. Segja má að þema þáttarins sé um það að setja ekki fólk í aðstæður sem það höndlar engan veginn og vill jafnvel ekkert vera í.
-
Um aldamótin síðustu var könnun í Þýskalandi og fólk beðið um að velja merkustu Þjóðverja sögunnar. Ung stúlka sem ýmsir utan Þýskalands kannast mögulega lítið við, var þar hærra á listanum en nöfn eins Johann Sebastian Bach, Goethe og Albert Einstein. Í löndum sem Þjóðverjar hernámu í seinni heimsstyrjöld, spruttu upp allskyns andspyrnuhópar. Þetta voru hugrakkir menn og konur sem lögðu líf sitt í bráða hættu. Við höfum flest heyrt um vopnaða andspyrnu í löndum eins og Póllandi, Noregi og Frakklandi og henni hefur verið gerð góð skil í bókum, sjónvarpi og kvikmyndum. En hvað með sjálft Þýskaland? Þar var einnig mótspyrna en það krafðist ótrúlegar hugdirfsku enda var það fólk hreinlega í gini ljónsins. Við beinum hér sjónum okkar að slíkum hópi og sérstaklega einum liðsmanna hennar, Sophie Scholl.
-
Missing episodes?
-
Flestir hafa þá mynd af sagnfræðingum að þeir sitji hoknir á skjalasöfnum og rýni í skruddur sem fjalla um eitthvað sem er löngu liðið. Sú er ekki alltaf raunin. Til er nokkuð sem heitir samtímasaga og spannar yfirleitt tímabilið frá lokum seinni heimsstyrjaldar til dagsins í dag. það getur hreinlega verið varasamt að stunda þá grein sagnfræðinnar. Viðmælandi okkar í þessum aukaþætti veit allt um það. Í fyrsta sinn erum við með gest í hlaðvarpinu og það er sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson. Svo skemmtilega vill til að hann er einnig forseti Íslands. Við settumst niður með honum í Thomsen-stofu á Bessastöðum og ræddum um söguna og sérstaklega nokkuð sem er ástríða bæði Flosa og Guðna: Þorskastríðin.
-
Umfjöllunarefni þáttarins er maður að nafni Eugene Bullard. Hann var fæddur í suðurríkjum Bandaríkjanna árið 1895. Bullard var svartur á hörund og hann ákvað á barnsaldri að hann yrði að komast burt. Hann hafði heyrt föður sinn segja frá landi í Evrópu þar sem „litað“ fólk væri ekki ofsótt og myrt eins og var allt of algengt á heimaslóðum Bullards. Þangað ákvað Bullard að fara og við tók sérlega viðburðarík ævi. Saga Bullards er saga mótlætis og illsku en einnig af hugrekki og sigrum.
-
Nágrannar þeirra höfðu vitað af þeim í hundruðir ára en óttuðust þá ekki. Enda þóttu þeir á lægra menningarstigi og gerðu meira af því að berjast innbyrðis en herja á aðra. Einn maður átti eftir að breyta því algjörlega og leggja grunninn að stærsta og víðfeðmasta heimsveldi sögunnar.
-
Flest þekkjum við náttúruhamfarir. Ef ekki af eigin reynslu, þá af afspurn. Yfirleitt er orðið „flóð“ tengt við vatn en getur verið að það hafi einhvern tíma orðið flóð sem innihélt síróp en ekki vatn? Það hljómar ótrúlega en slíkt hefur gerst og var allt annað en skemmtilegt fyrir fólkið sem lenti í þeim hryllingi.
-
Flosi fékk nett áfall við að heyra að Baldur les ekkert „nema texta á Netflix“. Því fékk hann þá hugmynd að segja Baldri frá einni af sínum uppáhalds bókum og hví hann telur hana mikilvæga. Bókin lýsir ástandi á bæjum á Norðurlandi upp úr aldamótunum 1900. Sérstaklega er sjónum beint að þeim sem voru föst í fátæktargildru og þurftu að láta börn sín frá sér. Tryggvi Emilsson, höfundur bókarinnar, var „niðursetningur“ en svo voru þeir kallaðir sem hreppsyfirvöld settu á ýmsa bæi og borguðu með. „Sveitarómagi“ er annað orð yfir þetta. Misgóð var þessi vist og kemur það vel fram í bókinni.
-
Þetta átti að vera venjulegur dagur í vinnunni. Einn lítill neisti breytti því allverulega. Raunar varð líf hans aldrei samt og allra síst hans geð og þróttur. Í þessum þætti skoðum við mál sem enn er, nærri tvöhundruð árum síðar, tilefni umræðna og virtra læknisgreina. Atriði í þættinum gætu valdið óhug.
-
Í þessum aukaþætti er sagt frá manni sem var heldur áfjáður í frægð og frama, sama hvað það kostaði. Lygar og innantóm loforð voru honum engin hindrun. Margir telja hann mesta og versta svikahrapp sögunnar.
-
Í þessum þætti skoðum við fortíðarvanda sem ýmsar þjóðir burðast með og þær aðferðir sem stundum eru notaðar til að fegra söguna. Eitt ákveðið land í Evrópu er sérstaklega tekið fyrir.
-
Flestir kannast við söguna af skipinu Titanic og örlagaríkri ferð þess vestur um haf árið 1912. Fæstir vita þó að miðað við versta skipsskaða sögunnar er mannfall í Titanic-slysinu lítið í samanburði. Af hverju höfum við þá svo lítið heyrt um Wilhelm Gustloff? Það er ákveðin skýring á því og við kryfjum þetta allt í þessum þætti.
-
Hún vildi fara í háskóla og verða vísindamaður. Vandamálið var þó að konum var ekki leyft að stunda nám við háskóla í hennar heimalandi. En þessi magnaða manneskja lét það ekki stöðva sig, frekar en nokkuð annað. Í þessum þætti skoðum við sögu Marie Cure sem er óumdeilanlega einn merkasti vísindamaður sögunnar.
-
Maímánuður 1945. Adolf Hitler hefur framið sjálfsmorð og flestir þýskir hermenn gefist upp fyrir herjum Bandamanna. Þó berjast enn fanatískar sveitir SS-manna sem neita að trúa því að nasisminn sé úr sögunni. Í þessum þætti tökum við fyrir einn af seinustu bardögum stríðsins sem átti sér stað í austurrísku ölpunum. Hann skipti ekki sköpum í mannkynssögunni en þó hafa verið skrifaðar um hann bækur og til stendur að gera kvikmynd um hann. Ástæðan er sú að þátttakendur og kringumstæður allar eru svo lygilegar að maður trúir því varla að þetta hafi gerst í raun.
-
Hvað gerum við ef við teljum okkur vera beitt misrétti? Líklega reyna flestir að fara löglegu leiðina en hvað ef það virðist ekki duga? Þáttur dagsins fjallar um mann sem fannst hann hafa verið króaður af úti í horni. Að lokum taldi hann aðeins eina leið vera í boði. Það var leið hefndar og eyðileggingar.
-
Í þessum þætti tökum við fyrir alveg hreint ótrúlegt og skelfilegt atvik. Þetta er þó einnig frásögn af hetjudáð og hreysti. Best er að vara fólk með flughræðslu við þættinum, sum atriði gætu valdið óhug.
-
Við vörum við því að umfjöllunarefni þáttarins er svo nöturlegt að það gæti hreinlega farið afar illa í suma. Árið 1966 gekk illa hjá Bandaríkjunum í stríðinu við Norður-Víetnam og suður-víetnamska skæruliða. Þörf var á fleiri hermönnum en ekki var hægt að skikka fleiri í herinn án þess að allt færi í bál og brand heima fyrir. Þá fékk Róbert McNamara varnarmálaráðherra ákveðna hugmynd. Sú hugdetta hans átti eftir að valda ómældri þjáningu, harmi og dauða.
-
Áramótaþáttur okkar er með frekar léttu sniði. Við veltum því fyrir okkur hvaðan þessi hugmynd kemur, að skipta tímanum niður í hólf sem við köllum ár, mánuði, daga o.sv.frv. Draugar fortíðar þakka kærlega fyrir frábærar viðtökur á þessu hörmulega ári. 2020 virðist þegar orðið alræmt í minni og sögu.
-
Það er komið að því að særa fram jóladrauga fortíðar. Þjóðverjar hafa löngum verið mikil jólaþjóð. Í desember árið 1914 logaði Evrópa þó í ófriði og flestir karlmenn fjarri heimilum sínum. Það stöðvaði þó ekki suma hermenn sem tókst í þessum ólíklegu aðstæðum að kalla fram sannkallaðan jólaanda.
-
Eins og venjulega var allt í drasli hjá honum. Skyndilega fann hann nokkuð sem hann hafði gleymt. Fyrir tilviljun kom hann auga á eitthvað einkennilegt. Sú tilviljun átti eftir að reynast mikilvæg fyrir mannkynið."
-
Draugar fortíðar fjalla að þessu sinni um eitt þekktasta og dularfyllsta mál Íslandssögunnar. Hvað gerðist á hálendinu kalda síðla hausts árið 1780?
- Show more