Episodes

  • Í þættinum fjalla þær Guðrún Björnsdóttir og Soffía Bæringsdóttir dúlur mættar að ræða erfiða fæðingarreynslu og úrvinnslu vikurnar og mánuði á eftir, eða jafnvel enn síðar. Þær fjalla fallega um þetta málefni og gott er að hlusta á þær og gera upp sína eigin fæðingarreynslu í leiðinni.


  • Í þættinum fékk Dagný Hróbjartsdóttir Ágústu Rúnarsdóttur til sín í spjall um foreldrahlutverkið og þróun og þroska sinn í því frá því hún varð móðir fyrst, tæplega 17 ára gömul og svo aftur komin yfir fertugt. Tímarnir hafa breyst og fólkið breytist með.

    Yndislegt spjall sem við mælum með!

  • Missing episodes?

    Click here to refresh the feed.

  • Hér er á ferðinni fjórði þáttur dúlanna Guðrúnar Björnsdóttur og Soffíu Bæringsdóttur í Hönd í hönd. Þær ræða í þættinum um leiðir til þess að gera sængurleguna ánægjulegri og reynslu sína hvað það varðar.
    Fallegt og rólegt spjall sem er yndi að taka í göngutúrnum, með makanum í bíltúr eða á koddanum fyrir svefninn, sérstaklega ef þú eða einhver nákominn þér á von á barni.

  • Í þessum 90. þætti Virðingar í uppeldi kynnumst við viðhorfi Gests Pálmasonar, stjórnenda- og teymisþjálfara hjá breska þjálfunarfyrirtækinu Complete Coherence til foreldrahlutverksins í samtali við Guðrúnu Ingu Torfadóttur.
    Áhugi hans og starfsorka liggur í að vinna með fullorðnu fólki við að ná lengra í störfum og lífi sínu.
    Viðhorf okkar og orka segi til um hvernig við tengjumst öðrum sem hefur mikið að segja hversu langt við náum. Heilinn hafi möguleika á að aðlagast og breytast alla ævi og við höfum möguleika á að velja okkur viðhorf.
    Frábært spjall sem gefur orku inn í hversdaginn.

  • Öll höfum við stundum gott af því að hlusta á eitthvað sem peppar okkur í leiðtogahlutverkinu. Hér er stutt hugvekja um mörk í boði Guðrúnar Ingu Torfadóttur.

  • Enn á ný heiðra dúlurnar Guðrún Björnsdóttir og Soffía Bæringsdóttir í Hönd í hönd okkur með nærveru sinni í Virðingu í uppeldi með spjalli sínu og vangaveltum um parsambandið á meðgöngu og í fæðingu - og hvað aðkomu dúlur geta haft til að liðka fyrir og gefa því byr undir báða vængi áður en þau taka á móti barninu.

    Fallegt og rólegt spjall sem er yndi að taka í göngutúrnum, með makanum í bíltúr eða á koddanum fyrir svefninn.

  • Guðrún Inga Torfadóttir tók hér á móti Guðrúnu Jóhönnu Benediktsdóttur iðjuþjálfa. Hún er með réttindi sem leiðbeinandi í PEERS félagsfærni fyrir börn, unglinga og ungt fólk og heldur námskeið í því hjá Lífsbrunni ásamt því að vinna með börnum og fjölskyldum þeirra almennt við skynúrvinnslumöt til að mynda.

    Frábært og upplýsandi spjall!

  • Þær Guðrún Björnsdóttir og Soffía Bæringsdóttir dúlur hjá Hönd í hönd eru mættar aftur til að gefa konum og foreldrum sem eiga von á barni leiðir til að finna stuðning og ró í fæðingunni sjálfri sem og fæðingarundirbúningnum.

    Einkar ljúf hlustun sem við mælum heils hugar með.

  • Hvað gerist þegar tvær traustar vinkonur sem kynntust í gegnum félagsskap okkar í kringum virðingarríkt uppeldi og búa á Selfossi taka spontant viðtal við barnalækninn á svæðinu sem önnur þeirra var svo ánægð með í síðustu heimsókn?

    Þessi þáttur.

    Vignir Sigurðsson læknir leyfir sér hér að segja það sem stendur hjarta hans nær. Vinkonurnar tvær blómstra í þessu spjalli sömuleiðis.

    Sértu heilbrigðisstarfsmaður sem stundum eða alla daga þjónustar börn, hlustaðu.

    Sértu væntanlegt eða núverandi foreldri eða umönnunaraðili, hlustaðu.

    Uppeldisbækur sem hafa haft áhrif á Vigni að hans sögn eru Hjálp fyrir kvíðin börn og How To Talk So Kids Will Listen and Listen So Kids Will Talk. 59. þáttur þessa hlaðvarps fjallar einmitt um síðarnefndu bókina hvað viðkemur ungum börnum og við mælum líka með honum.

  • Framundan inn á milli annarra þátta eru nokkrir þættir úr smiðju þeirra Guðrúnar Björnsdóttur og Soffíu Bæringsdóttur. Þær starfa báðar sem doulur. Guðrún er ein stofnmeðlima Meðvitaðra foreldra og tveggja barna móðir. Segja má að foreldrahlutverkið og ástríða hennar fyrir virðingarríku uppeldi hafi leitt hana á þá braut sem hún starfar á í dag, með börnum hjá Hjallastefnunni og sem doula eftir að hafa lært hjá Soffíu. Soffía er þriggja barna móðir, eiginkona og félagsfræðingur og brennur því fyrir því að aðstoða fjölskyldur alveg frá meðgöngu og áfram og er með fyrirtækið Hönd í hönd.
    Báðar eru þær með hjartað í því að tilheyra og styðja samfélagið sitt, víkka það út (fjölskyldurnar sem þær þjónusta kalla þær fjölskyldurnar sínar) og halda rými utan um fólkið sem þær þjónusta.

    Við mælum með þessari rólegu og góðu hlustun á spjall Guðrúnar og Soffíu, sér í lagi ef þú ert að búa þig undir fæðingu.

    „Að vera til staðar í fæðingu án þess að vera með læti og taka yfir rýmið. Þegar fjölskyldan þakkar manni fyrir á maður að minna sig á að fjölskyldan gerði þetta sjálf.“ Þessi orð Soffíu úr þættinum hafa sterkan samhljóm við foreldrahlutverkið.
    Guðrún Inga Torfadóttir annaðist klippingu þáttarins.

  • Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu og Elísabet Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur hjá Barna og fjölskyldustofu spjölluðu í þættinum við Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Önnu Mjöll Guðmundsdóttur frá Fyrstu fimm - hagsmunafélagi foreldra og fagaðila um barnvænna samfélag.

    „Hvað á að gera þegar barn byrjar að eiga í vanda?“ er meðal þess sem Barna- og fjölskyldustofa einblínir á að leysa úr. Unnið er hörðum höndum að því að skapa vettvang þar sem tengiliður barns í nærumhverfi þess geti leyst úr vanda barnsins með samvinnu við foreldra og eftir atvikum annarra fagaðila með íhlutun eins fljótt og verða má. Stefnan með farsældarlögunum er að taka snemma á málunum og láta hlutina, sem hefur svo lengi verið talað um að þurfi að gera, gerast.

    Nú þegar er byrjað að útskrifa fjölmarga tengiliði farsældar í sérstöku viðbótardiplómanámi hjá HÍ og styrkja þá í komandi hlutverki. Hins vegar er fyrirséð að innleiðingin, sem nú er á öðru ári, muni taka tíma en kappkostað er við að innleiða stefnuna sem hraðast því það er gríðarlegur sálfræðilegur, efnahagslegur og samfélagslegur kostnaður sem hlýst af vanlíðan barns sem ekki fær tilhlýðilegan stuðning og aðstoð.

    Margt hefur breyst við tilkomu nýrrar stofnunar Barna- og fjölskyldustofu þar sem farsældarlögin eru rauði þráðurinn og samkvæmt Páli og Elísabetu felst það aðallega í því að stofnunin hefur beinna og skýrara þjónustuhlutverk við samfélagið.

    Það var því ákaflega áhugavert að heyra Elísabetu og Pál segja okkur frá starfi sínu og gott að heyra að þar fer fólk sem er samhljóma okkur í þessu hlaðvarpi almennt og vill gera kröfu um virðingarríka framkomu við börn, stuðning við þau og foreldra þeirra um leið og vandi byrjar og gerir sér jafnframt grein fyrir að margt er enn óunnið og verður það sjálfsagt alltaf en að það er ekki afsökun fyrir að gera ekki okkar besta fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

  • Marta Birna Baldursdóttir er einstæð móðir og sérfræðingur og verkefnisstýra í kynjaðri fjárlagagerð í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Hún spjallar hér við Guðrúnu Ingu Torfadóttur vítt og breitt um foreldrahlutverkið og upplifun sína við að afla sér þekkingar á því sviði, sem og hvernig er að vera í fullu starfi og halda öllum boltum á lofti sem einstætt foreldri með litla aðstoð.
    Þá bregður á góma jafnframt hvort rétt sé að stefna á einhvers konar heimgreiðslur til foreldra með gleraugum kynjaðrar fjárlagagerðar til að leysa leikskólavandann, hvernig upplifun hennar er í vinnunni af því að vinna í teymi sem styður við hvert annað í foreldrahlutverkinu og hvernig hún hefur stutt við umgengni barnsföður síns við barnið þeirra með góðum árangri.
    Frábær þáttur að venju!

  • Í þættinum fáum við að heyra sögu Huldu Margrétar Brynjarsdóttur í spjalli hennar við Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Hulda fer með miðilinn Leið að uppeldi og segir okkur frá því þegar hún kynntist uppeldisstefnunni RIE, hvaða bækur hún las fyrst, námskeið hennar hjá RIE Institute með Ruth Ann Hammond sem kennara og almennt um hvernig henni hefur fundist eftir að hún fluttist til Íslands og hóf störf í leikskóla eftir þriggja ára búsetu í Noregi. Hvað er það sem stendur upp úr að hennar mati fyrir íslenska foreldra að tileinka sér betur? Orðið er þriggja stafa, sem við höfum almennt ekki tamið okkur að nota mikið í þessu hlaðvarpi: AGI. Oft höfum við fjallað um það sem við nefnum mörk – en eftir þetta spjall er hugtakið agi mögulega komið aftur inn í orðaforðann.

    Bækur sem eru nefndar eru:
    · Unfolding of Infants’ Natural Gross Motor Development, RIE Institute
    · The Conscious Parent eftir dr. Shefali Tsabary
    · Respecting Babies eftir Ruth Ann Hammond
    og loks er minnst á fjórar tegundir uppeldisaðferða samkvæmt Diönu Baumrind.

  • Tryggvi Hjaltason er duglegur að tjá sig um málefni barna og stöðuna í menntakerfinu og er sjálfur fjögurra barna faðir á aldrinum eins til tólf ára. Hann er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP og er þeim eiginleikum gæddur að hann dýfir sér djúpt ofan í málefnin sem vekja áhuga hans.

    Guðrún Inga Torfadóttir ræddi við hann um sýn hans á uppeldið, hlutverk hans sem uppalanda og maka, hvernig hann hefur þroskast í hlutverkinu, hvaðan innblásturinn hans kemur hvað það varðar og stöðuna í dag hjá drengjum sem og varðandi skjánotkun barna.

    Frábært spjall í þessum áttugasta þætti okkar!

  • Perla Hafþórsdóttir heimsótti reynsluboltann, fag- og ástríðukonuna fyrir velferð barna, Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur, Öddu, og fékk að eiga við hana samtal um ævistarfið og þau tól og tæki sem hún hefur þróað í starfi sínum með börnum.

    Adda heldur utan um kennslu í forvörnum um ofbeldi fyrir börn, foreldra og kennara ásamt því að ræða um heilbrigð samskipti og kenna börnum að vera læs á tilfinningar sínar á stofu sinni.

    Fræðsluátakið kallast Samtalið - fræðsla ekki hræðsla. Hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2000 og hefur allar götur síðan unnið að forvörnum í ofbeldismálum fyrir börn. Í námskeiðs- og fræðslupakkanum sem farið er með inn í skóla og leikskóla er unnið að aðgerðaráætlun og áætlun um hvernig eigi að bregðast við ef grunur um ofbeldi vaknar. Fræðslan miðar að því að kenna fólki að þekkja merkin og auka meðvitund um ofbeldi.

    Lausnarhringurinn varð síðan til þegar hún starfaði í leikskólanum Brákarborg. Hún var með elstu börnin sem áttu erfitt að finna taktinn saman þar til Arnrún beindi kröftum þeirra sameiginlega að því að finna lausnir og geta unnið betur saman. Lausnarhringurinn er verkfæri með sjö gildum eða reglum sem aðstoða börn við að leita lausna í samskiptum. Börnin tóku því virkan þátt í gerð Lausnarhringsins ásamt fleira starfsfólki og það er lykillinn að því að hann virkar jafn vel og hann gerir.

    Þetta er því sérdeilis frábær þáttur fyrir foreldra jafnt sem fagfólk. Njótið vel.

  • Eftir gríðarlega neikvæðar fréttir að undanförnu um líðan barna, eineltismál, frásagnir af ofbeldi og með menntamálin í deiglunni töldum við rétt að taka aðeins púlsinn hjá tveimur frábærum sem vita talsvert um hlutina.

    Anna Rakel Aðalsteinsdóttir, félagsfræðingur og sáttamiðlari hjá Foreldrahúsi og Sólveig María Svavarsdóttir, heimakennari, unnu eitt sinn saman í grunnskóla. Þær hafa báðar gríðarmikla reynslu að baki að því að vinna með börnum, horfa á kerfið innan og utan frá, ala upp sín eigin börn og ala sig upp sjálfar aftur í leiðinni. Það var frábært að fá þær í opið spjall og barst talið m.a. að:
    - Hvert er hlutverk foreldra?
    - Hvernig setjum við mörk?
    - Hvert er skólasamfélagið að stefna?
    - Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru og hvernig getum við reynt að hreyfa þessa stóru skútu í átt til breytinga?

    Frábært og hugvekjandi spjall sem ég vona að við höfum öll gott af.

    Upptöku stjórnaði Guðrún Inga Torfadóttir en hún vitnaði nokkrum sinnum í nýja bók dr. Becky, Good Inside. Mælum með henni!

  • Í þættinum fékk Árni Kristjánsson til sín Unu Emilsdóttur, sérnámslækni í umhverfislæknisfræði, til að ræða um heilsuspillandi efni í nærumhverfi okkar og hvernig aukin þekking á skaðsemi þessara efna getur aukið sjálfstraust í foreldrahlutverkinu og stuðlað að virðingu í uppeldi. Una er brautryðjandi hér á landi í vitundarvakningu um áhrif efnanotkunar á heilsu okkar. Hún er jafnframt tveggja barna móðir ungra barna.

    Börn, sérstaklega á meðgöngu og hin fyrstu árin, eru með vanþróaðra hreinsikerfi en við fullorðna fólkið. Nýru og lifur eru ekki eins öflug hreinsunarlíffæri fyrstu árin mælast því ákveðin eiturefni í blóði barna oft mun hærra en hjá fullorðnu fólki - sem þó hefur farið í gegnum lífsskeiðið syndandi í alls kyns efnasúpum. Börn eru líka á meðan þau eru skríðandi, gjörn á að taka þar með sér ryk - en eiturefni eru einmitt mjög gjörn á að loða við ryk. Þá er fylgjan ekki eins mikill skjöldur og við upphaflega héldum. Eins er hormónakerfið og ónæmiskerfið enn ekki fyllilega þróað á þessum viðkvæmu fyrstu árum. Börn eru að mynda mikilvægar taugabrautir á þessum tíma, styrkja einar og tengja saman hinar, osfrv. En áhrif umhverfis koma ekki nauðsynlega fram fyrr en jafnvel löngu seinna á lífsskeiði barna, og því erfitt fyrir foreldra að tengja þetta beint.

    Það er ennþá svo margt sem við getum gert og margt sem við getum ráðið við að gera, til að reyna allt hvað við getum til að vernda meðgönguna og þess vegna er þetta umræðuefni svona mikilvægur þáttur í virðingu í uppeldi.

  • Kristín Björg Viggósdóttir fékk þau Viðar Halldórsson og Guðlaugu Ingibjörgu Þorsteinsdóttur í spjall um tilgang íþróttaiðkunar fyrir börn. Þau ræddu aðgengi barna að íþróttum og hvernig íþróttir gætu verið meira á forsendum barnanna frekar en á forsendum íþróttagreina. Til að mynda hefur sýnt sig að börn innflytjenda taka síður þátt í íþróttum og stelpur síður en strákar. Einnig getur verið flókið fyrir börn með tvö lögheimili að stunda íþróttir. Þá ræddu þau um mismunandi styrkleika barna, hversu óþarft og skaðlegt það getur verið að umbuna eða veita börnum á yngri árum verðlaun fyrir afrek í íþróttum. Hvernig getum við foreldrar sýnt góð og styðjandi viðbrögð við frammistöðu barnsins í íþróttum? Mikilvægt sé að ræða við börnin um hvernig þeim leið í keppni. Að lokum var rætt um skólasund og skólaíþróttir og hvað mætti betur fara þar.

    Viðar Halldórsson er prófessor í félagsfræði og hefur einnig starfað sem ráðgjafi fyrir mörg af bestu íþróttaliðum landsins. Viðar hefur rannsakað og skrifað um félagslegar forsendur árangurs. Viðar hefur látið til sín taka í umræðu um afreksvæðingu íþrótta á Íslandi en til eru margar greinar eftir hann og viðtöl við hann. Nýlega skrifaði Viðar bók um stemningu og liðsheild í íþróttum fyrir breska útgáfufyrirtækið Routledge. Bókin heitir Sport in Iceland: How small nations achieve international success og er meðal annars til á Amazon.

    Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir íþrótta- og lýðheilsufræðingur starfar hjá geðheilsuteymi Höfuðborgarsvæðisins. Guðlaug spilaði lengi íshokkí og var íþróttastjóri og þjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Að auki hefur Guðlaug þjálfað börn og fullorðna í íþróttum og heilsurækt. Þess má geta að Guðlaug er fyrrum nemandi Viðars úr íþróttafræði í HR.

  • Til Guðrúnar Ingu mættu þær Una Guðrún Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskólastigs og grunnskólakennari sem sérhæft hefur sig í kennsluaðferðum í lestri – en ekki síst fjögurra barna móðir - og Þórey Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri leikskólastigs og tveggja barna móðir og reynslubolti í aðlögun og alls konar tengdu leikskólanum í Urriðaholtsskóla.

    Þær þrjár ræddu allt og ekkert sem tengist því að byrja í leikskólanum og grunnskólanum. Lestrarnám bar auðvitað líka á góma sem og ýmislegt annað.

    Dúndur hugvekja fyrir nýtt leikskóla- og skólaár.

  • María Rún Bjarnadóttir er doktor í lögfræði og móðir og hefur haft stefnumarkandi áhrif á hvernig tekið er á stafrænum kynferðisbrotamálum hér á landi hin síðustu ár. Hún þekkir málaflokkinn sömuleiðis vel vegna núverandi starfa sinna hjá ríkislögreglustjóra sem verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá ríkislögreglustjóra.

    Þær Guðrún Inga Torfadóttir nutu þess afskaplega vel að leyfa umræðunni að fara út um allar trissur og bera saman bækur sínar hvað viðkemur stafrænu uppeldi barna, fræðslu til þeirra og eftirlit með þeim, fyrirmyndir og mörk. Þær ræddu m.a. um hvernig er hægt að styðja við örugga netnotkun barns og hvenær rétti aldurinn er til að gefa barni snjalltæki, leiðir til að barnið njóti stuðnings og tengsla við foreldri sitt lengi framan af en sé á sama tíma leyft að njóta frelsis og réttinda sinna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

    Mögulega er kjarni spjallsins alls að setja okkur vel inn í stafrænan veruleika barna - sem hefur runnið saman við hinn efnislega heim þeirra - með því að kynna okkur hin mismunandi öpp og leiki og taka virkan þátt á þessu sviði með barninu eftir að við höfum seinkað stafrænu ferðalagi þeirra sem mest við megum og gefið þeim ítarlega fræðslu. Á sama tíma beri okkur að forðast að hafa með höndum sérstakt eftirlit til dæmis um hvar barn er statt hverju sinni heldur treysta því - og þeim mun meira eftir hækkandi aldri þeirra.

    Minnst var á:
    ̶ Soniu Livingstone, prófessor við London School of Economics sem hefur haft með höndum rannsóknir á m.a. hvernig er að alast upp sem barn á stafrænni öld.
    ̶ Bókin Delete eftir Viktor Mayer-Schönberger.
    ̶ Bókin Hold On To Your Kids eftir dr. Gabor Maté og dr. Gordon Neufeld.
    ̶ RIE-uppeldisstefnu Mögdu Gerber og dr. Emmi Pikler.
    ̶ Robin Einzig og Visible Child.
    ̶ „Farsældarlögin“, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

    Að lokum hvetjum við ykkur til að heimsækja vefsíðurnar 112.is/netoryggi og 112.is/ofbeldi/oryggi-i-netsamskiptum-barna