Episodes

 • Í fertugasta þætti okkar skyggnumst við á bak við barnabókina Vandræðasögur og fáum að heyra lýsingu höfunda bókarinnar á hugmyndafræðinni sem fyllir þær báðar ástríðu um hvernig við getum sem best hjálpað börnum að leysa úr klípum sín á milli og aðkomu hinna fullorðnu til að það megi heppnast sem best.

  Sögur eru vel til þess fallnar að fá börn í samræður um þær klípur sem geta komið upp í samskiptum barna. Við skyggnumst inn í hvernig við getum sem best lesið sögurnar til að koma þeim til skila og fanga athygli barna og hvernig við getum síðan rætt þær með börnunum. Einnig ræddum við hvernig samtöl við getum átt við börnin okkar til að heyra sem flestar hliðar atburða sem áttu sér stað í fjarveru okkar með jafningjum og hver aðkoma okkar getur verið til að efla félagsþroska barnanna og efla þau í samkennd með öðrum þegar atburðirnir eru liðnir og heim er komið.

  Gestir okkar í dag voru þær Alexandra Gunnlaugsdóttir, kennari, margra barna móðir og uppeldisfræðingur sem hefur unnið að rannsóknum á einelti í grunn- og menntaskólum og starfar sem deildarstjóri leikskóla í Danmörku, og Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir, hagfræðingur og tvíburamóðir sem hefur sérhæft sig á sviði atferlishagfræði.
  Perla Hafþórsdóttir, deildarstjóri á leikskóla, var einnig með Guðrúnu Ingu Torfadóttur stjórnanda þáttarins frá félagi Meðvitaðra foreldra.

  Atriðisorð sem voru nefnd í þessu samhengi voru t.d.:
  -Social situations – klípusögur.
  -Narratíf sálfræði Michaels White; að geta tekið tilfinningu og fengið fjarlægð á hana.
  -Resource thinking; hvað getur barnið komið með inn í hópinn?

 • Í þessum þætti er farið yfir bókina The Objectivist Parenting eftir Roslyn Ross í fjarbókaklúbbi. Sem fyrr var tæpt á helstu atriðum bókarinnar og svo fjörlegar umræður inni á milli. Við vitum aldrei hverjir mæta á þessa fjarbókaklúbba en það sýnir sig að þegar stjórnartaumunum er sleppt kemur eitthvað frábært upp úr dúrnum.

  Þessi bók er knöpp og fer ítarlega yfir allt sem Roslyn og aðrir telja vera að atferlisstefnu (e. behaviorism) og hvað megi þá gera í staðinn. Svo skemmtilega vildi til að á meðal þátttakenda var PMTO-meðferðaraðili mættur og því hægt að vega þetta og meta saman, þá stefnu sem enn er kennd í nokkrum sveitarfélögum landsins, bæði í skólum og af heilsugæslum og sem talsmenn virðingarríks uppeldis myndu telja vera afsprengi atferlisstefnu þótt margt geti líka talist vera virðingarríkt í henni. Þarf endilega að kenna foreldrum og kennurum að umbuna börnum fyrir að komast hraðar út um dyrnar eða í háttinn? Er skólakerfið okkar með nægilega mikið svigrúm til að ýta undir sjálfstæði og val barna? Þetta og margt fleira var á meðal þess sem rætt var á þessum frábæra bókaklúbbi.

  Þátttakendur í umræðum voru Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Gyða Björg Sigurðardóttir, Ólafía Helga Jónasdóttir, Perla Hafþórsdóttir og Sólveig Rós. Þættinum stýrði Guðrún Inga Torfadóttir.

 • Episodes manquant?

  Cliquez ici pour raffraichir la page manuellement.

 • Í þessum þætti, sem spratt upp sem sjálfstætt framhald af frábærum síðasta þætti um minimalisma og virðingarríkt uppeldi, ræddum við nokkrar um hvernig við forgangsröðum í lífum okkar hvað varðar hagsmuni barnanna og okkar sjálfra. Ólíkir foreldrar forgangsraða með ólíkum hætti en það þýðir ekki að einhver þeirra hafi rétt fyrir sér og aðrir rangt. Þetta reyndist vera prýðisgott umræðuefni og hægt að velta ýmsu fyrir sér hvað þetta varðar.

  Þátttakendur að þessu sinni voru Gyða Björg Sigurðardóttir, Kristín Björg Viggósdóttir og Perla Hafþórsdóttir ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur.

 • Þær Sigurlaug Elín Þórhallsdóttir og Þórhildur Magnúsdóttir frá Kyrru lífsstíl hafa marga fjöruna sopið þegar kemur að því að ræða einföldun umgjarðar fjölskyldulífs enda verið að veltast með stóru spurningarnar undanfarin ár. Hvernig er best að haga gjöfum? Haga húsverkum? Hugsa um neyslu okkar? Raða í fataskápana? Huga að þvottinum?

  Þessi einföldu atriði geta flækt lífið afar mikið þegar við setjum okkur ekki í sérstakar stellingar og hugum að skipulagi og rútínu af fullri alvöru. Þá getur morgunrútínan skipt miklu máli til að koma okkur vel af stað inn í daginn. Þessa hluti ræddu þær Kyrru-konur í þaula við Guðrúnu Ingu Torfadóttur og báru saman við markmið í virðingarríku uppeldi almennt.

 • Í þessum fyrsta þætti eftir sumarfrí ræddi Guðrún Inga Torfadóttir við Sigrúnu Yrju Klörudóttur, sem er konan á bak við heimasíðuna, fb-hópinn og Instagram-reikninginn Always Remember To Play. Hvernig datt henni í hug, búandi á Austfjörðum með börnin sín í fæðingarorlofi, að hefja þá vegferð að gerast áhrifavaldur um leik barna með metnaðarfullum hætti? Við mælum með að hlusta á þetta spjall við frábæra konu.

  M.a. ræddum við:
  •Hvernig hún kynntist virðingarríku uppeldi.
  •Að búa úti á landi í fæðingarorlofi langt frá skarkala borgarinnar.
  •Hvað er eðlilegt að sýna af börnunum sínum á samfélagsmiðlum?
  •Samskipti kynjanna í foreldrahlutverkinu.
  •Hvernig hún reynir að hjálpa drengnum sínum að sýna tilfinningar.
  •Hvaða bækur liggja á náttborðinu hennar.
  •Um kennslustarfið með 12-13 ára börn og hvernig reynsla hennar nýttist í því og hvað henni þykir eftir þessi fyrstu kynni af kennarastarfinu.
  •Gildi útiveru barna.
  •Að spyrja börnin sín: Hvað þarftu í dag til þess að líða vel?
  •Að velja búsetu eftir gæðum skólastarfs – jafnvel á milli landa.

 • Við vorum þrjár í þessum þætti hver á sínum stað á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð var það Ingibjörg Ólafsdóttir, sem kallar sig Hjálp ég er útbrennd á Instagram, en hún hefur tiltölulega nýlokið meðferð að sænskum hætti við kulnun og hefur viðað að sér miklum fróðleik um málefnið og miðlað því til annarra. Í Danmörku var það Stefanía Rut Hansdóttir, sem skrifaði lokaritgerð sína í sálfræði ásamt vinkonu sinni um kulnun mæðra í starfi og hefur skrifað hreinskilið um tilveru sína að búa ein með börn sín þrjú burtu frá fjölskyldu sinni. Og á Íslandi Guðrún Inga Torfadóttir sem stjórnaði upptökum og hefur í gegnum tíðina rambað á mörkum kulnunar oftar en einu sinni og þekkir sig í ýmsum einkennum hennar.

  Við ræddum hvernig það er að eiga þunga, erfiða daga, sitja með sjálfa sig í fanginu og reyna að gefa af sér til þeirra sem mest eiga það skilið að fá alla okkar bestu hliðar eins og við almennt ræðum um hér í þessu hlaðvarpi – en oft erum við hér að ræða um að vera frekar svona en hinsegin, vera virðingarrík, tryggja mikla útiveru, frjálsan leik, óskilyrta ást með öllu, burt með harðar ögunaraðferðir, útilokun, hunsun, niðrandi og skammandi tiltal, takmarka fyrirskipanir sem mest við megum en halda sterkum og öruggum mörkum þegar við á. Þetta eru allt háleit markmið sem krefjast mikils af okkur.

  Við höfum komið áður inn á þessi þemu öll í fjölmörgum þáttum, svo sem í þætti 2 um gleði í uppeldi, 10. þætti um triggera með Kristínu Maríellu, 11. þætti með Bjarti Guðmunds um að vera í topp tilfinningalegu formi, 22. þætti um RIE fyrir fullorðna með stelpunum í Hraust þjálfun, og svo komið inn á þetta víða í öðrum þáttum.

 • Í þessum þætti er upptaka birt af bókaklúbbi um bókina Hold On To Your Kids eftir þá Gordon Neufeld uppeldissálfræðing og lækninn og rithöfundinn Gabor Maté frá árinu 2004.

  Höfundar þessarar bókar eru þeirrar skoðunar að börn séu að renna foreldrum úr greipum, að verða nánast týnd kynslóð og þá sér í lagi með skjáina alls staðar í sjónlínu og unglinga sem vilja sem minnst vita af foreldrum sínum. Það sem foreldrar þurfi að skilja segir þeir, er að hegðunarerfiðleikar eru í raun ekki hegðunarerfiðleikar – heldur erfiðleikar með tengsl.

  Og í hjarta tengslaerfiðleika er nokkuð sem Neufeld og Maté nefna „jafningjamiðun“. Sumir myndu telja að aukin tengsl við jafningja séu þroskamerki. Maté segir að svo sé ekki, ef þau tengsl koma í staðinn fyrir grundvallartengsl barna við uppalendur sína. Og hvað á foreldri að gera sem hefur misst tengsl við barn sitt til jafningja þess? Náðu þeim tilbaka, segja þeir, og gefa fáein dæmi um hvað sé hægt að taka til bragðs.

  Við ræddum þessa bók sundur og saman fjórar sem mættu á þennan bókaklúbb, Ágústa Margrét Arnardóttir, Guðrún Birna le Sage og Sólveig Ösp Haraldsdóttir, ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur sem stjórnaði umræðum.

 • Í þættinum er fjallað vel og ítarlega með hæfilegu kæruleysi að venju um hreyfiþroska barna út frá kenningum dr. Emmi Pikler og RIE með Freyju Barkardóttur sjúkraþjálfara og Kristínu Björgu Viggósdóttur iðjuþjálfa. Okkur þótti þetta vera góður tímapunktur fyrir foreldra allra barnanna þarna úti sem eru ekki enn farin að ganga og geta spreytt sig liggjandi á jörðinni úti við, helst berfætt eins og við gleymdum að koma inn á í þættinum sjálfum.
  Upptökum stjórnaði Guðrún Inga Torfadóttir.

 • Í dag ræðum við Guðrún Birna le Sage, Ágústa Margrét Arnardóttir og Guðrún Inga Torfadóttir við Þóru Jónsdóttur, lögfræðing hjá Barnaheillum og markþjálfa. Hugmyndin var Ágústu Margrétar eftir að þær kynntust í gegnum markþjálfarahitting á netinu. Þetta er því spjall tveggja lögfræðinga og þriggja markþjálfara og eðlilega var komið aðeins inn á bæði hlutverkin.

  Þóra kemur í þættinum inn á hlutverk laga og mannréttindasáttmála sem ramma utan um samfélög og smæstu stofnanir þess og þá sér í lagi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Svo fór umræðan um víðan völl og vék þar að persónulegri vegferð Þóru sem fyrrverandi barns, foreldris og eiginkonu og leiðir hennar í námi, sjálfsvinnu og starfi. Góðkunningjar hlaðvarpsins, Ágústa Margrét og Guðrúnarnar tvær höfðu einnig frá ýmsu að segja til að bera undir Þóru og bæta við hennar frásögn.

  Við elskum hlaðvarpsformið þar sem við getum leyft okkur að fara á dýptina og tala ekki bara um eitthvað eitt málefni í einu. Við mælum innilega með hlustun á þennan frábæra þátt. Mörg gullkorn féllu í þættinum, m.a.:

  „Það er dásamlegt að fylgjast með foreldrum í dag og hvað þau eru miklu flinkari, miklu þroskaðri, miklu tilbúnari til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að börnunum þeirra líði vel.“

 • Rafrænn bókaklúbbur, svo til óklipptur, fær að flakka í þessum þætti. Bókin er The Whole Brain Child eftir Daniel J. Siegel og Tinu Payne Bryson.

  Fæst okkar myndu bara standa á öðrum fæti ef við gætum notað báða fætur. En hið furðulega er að mörg okkar – sérstaklega börn – nýta sér ekki mikilvæga hluta heilastarfsemi sinnar án þess þó að það sé meðvitað val. Vandinn er að hlutar heilans þroskast á mismiklum hraða og á ólíkum tímum, svo að barnið þekkir oft ekki heilastarfsemi sína frekar en margt okkar hinna fullorðnu. Þessu hefur verið líkt við tvílyft hús, fyrsta hæðin er neðri heilinn en önnur hæðin sá efri og þróaði en þegar barn fæðist er fyrsta hæðin fullbúin en efri hæðin hjóm eitt.

  En hvernig getum við leiðbeint barni í áttina að nota allan heilann sinn? Við þurfum að byrja á að nota allan heilann okkar segja höfundar bókarinnar. Og meðfram öllu: Að byrja á að viðurkenna tilfinningar barna okkar.

  Þær sem mættu og deildu ýmsum hugleiðingum voru Ágústa Margrét Arnardóttir, Arndís Anna Kristínardóttir, Guðrún Birna le Sage, Gyða Björg Sigurðardóttir, Hafdís Ósk Pétursdóttir, Inga Kristín, Sólveig Rós og Guðrún Inga Torfadóttir sem stjórnaði upptökum.

 • Í þessum þætti er brjóstagjöfin rædd stuttlega en ófullkomlega eins og reynslusögur eru flestar. Fullt af góðum litlum punktum koma þarna fram hjá þeim Elsu Borg Sveinsdóttur, Guðrúnu Birnu le Sage, Guðrúnu Björnsdóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Gyðu Björg Sigurðardóttur og Perlu Hafþórsdóttur.
  Skilaboðin eru að þú getur leitað hjálpar og ráða hjá fagfólki, vinkonum og öðrum góðum. Stundum þarftu engin ráð heldur stuðning og hlustun. Brjóstagjöfin er krefjandi verkefni fyrir nýja móður, jafnvel þótt hún hafi áður haft barn á brjósti.

 • Í þessum þætti settumst við Guðrún Björnsdóttir, Guðrún Inga Torfadóttir, Gyða Björg Sigurðardóttir og Perla Hafþórsdóttir niður yfir fáeinar upptökur með börnunum okkar þar sem reyndi á eitthvað sem okkur þótti vera þess virði að taka upp. Þetta er því eins konar raunveruleg tilraunastofa þar sem við deilum upptökum okkar með hlustendum, ræðum þær og gefum hvor annarri endurgjöf. Það reynir hér á að koma nærri þriggja ára barni í daglúr og ein okkar fer yfir atburðarrás með nærri þriggja ára stúlkunni sinni eftir að hún missti þolinmæðina seint að kvöldi að koma henni heim úr matarboði. Þá er annar lítill strákur sem langar mikið að komast í sund og móðir hans ákveður að taka tíma og rými í að ræða það ofan í kjölinn með honum og litlu systur hans og finna lausnir. Að lokum birtum við langa hljóðupptöku af tiltekt Perlu með þriggja ára barninu sínu sem reynist hin fínasta núvitundarhlustun. Við komumst m.a. að því að það er mjög sniðugt að taka sig upp með þessum hætti í samskiptum okkar við börnin, því oft höldum við að við hljómum betur en við gerum og þetta er jafnvel þá aðhald fyrir okkur þegar á reynir.

 • Ágústu Margréti Arnardóttur kynntust hlustendur okkar í 17. þætti. Þegar hún kom í bæjarferð um daginn gripum við tækifærið og Guðrún Inga Torfadóttir og Guðrún Birna le Sage fengu hana aftur í settið og þær spjölluðu út frá nýrri bók Daniels Siegels og Tinu Brysons, The Power of Showing Up.

  Þegar kom að því að klippa þáttinn komst Guðrún Inga að því að hann á fullt erindi við okkur í dag. Við gerðum svo það sem allir eru að gera í dag, fórum á fjarfund og tókum upp inngang að þættinum til þess að tala um stöðuna núna og hvernig okkur er að takast að kljást við ástandið. Af því að við getum sjaldan verið stuttorðar að því er virðist var það nánast efni í annan þátt, eða heilar 40 mínútur.

  Við ræddum hvernig getum við komist út fyrir dyrnar, jafnvel strax að morgni. Og hvernig maður getur verið þakklátur fyrir allt sem maður hefur til taks, en samt horfst í augu við að þetta er áskorun og vekur upp margar tilfinningar. Sóttkvíin er ekki eitthvað til að hræðast, heldur má taka henni fagnandi og gera það besta úr henni. Jafnvel þótt foreldrarnir þurfi að framkvæma vinnuna heiman frá sér og uppfylla mörg hlutverk í einu vetfangi.

  En eftir hinn örstutta 40 mínútna inngang er svo komið að sjálfum þættinum. Grundvallarþemað í fyrrnefndri bók Daniels og Tinu er að það áhrifaríkasta sem foreldrar geti gert er að „show up“ eða vera til staðar fyrir börn sín. Og þau tala um hin fjögur S sem börn þurfa að finna í tengslum við foreldra sína, eða sem útleggst á ensku sem „safe, seen, soothed og secure“. Einnig tala þau um PEACE, eða „presence, engagement, affection, calm og empathy“. Við fórum á hundavaði yfir fræði bókarinnar og tengdum við okkar eigin reynslu að venju.

 • Við hefjum þáttinn á örlitlu innskoti um stöðuna í dag frá Guðrúnu Ingu Torfadóttur og um framhaldið næstu vikur en við munum engan bilbug láta á okkur finna ef við getum einhverju um það ráðið og höldum áfram dagskrá okkar.

  Aðalheiður Sigurðardóttir, fyrirlesari og samskiptaráðgjafi, er móðir stúlku sem fékk einhverfugreiningu átta ára gömul. Hún kom til Guðrúnar Birnu le Sage og Kristínar Bjargar Viggósdóttur og sagði þeim frá reynslu sinni sem móðir barns á einhverfurófi. Hún talar um áfallið sem greiningin er fyrir foreldri og hið langa ferðalag að finna réttu úrræðin fyrir stúlkuna sína og koma á samvinnu við skólayfirvöld. Aðalheiður lýsir því hvernig hún hefur tekið sér hlutverk túlks fyrir dóttur hennar við skólann hennar og hvernig þeirra góða samvinna varð til þess að dóttir hennar öðlaðist betra líf. Ef líðanin er ekki góð verði lærdómurinn enginn. Þegar dóttir hennar tjái mótþróa þurfi að byrja að rannsaka og setja á sig stækkunar- og forvitnisgleraugun – því þar sé eitthvað sem stoppi hana, því hún vilji alltaf standa sig vel.


  Aðalheiður lýsir því líka hvernig hún getur unnið með barninu sínu skref fyrir skref, í gegnum það sem hún nefnir lykla til að hjálpa dóttur sinni að gera nýja hluti, sem Aðalheiður vissi að hún myndi hafa gaman af, eða sé mikilvægt fyrir hana að þjálfa upp. Þá geti hún virt þegar dóttir hennar segir „NEI“ eða sýnir mótþróa og fundið svo smávægilegar leiðir til að feta sig með henni í átt að nýju verkefni. Aðalheiður talar um að hún hafi lært að undrast yfir viðbrögðum dóttur sinnar, í stað þess að dæma eða stimpla tjáningu hennar og hegðun.

  Við mælum með þessu mannbætandi viðtali. Greiningar eru að mati Aðalheiðar ekki stimplar – heldur leiðarvísar. Í framtíðinni þar sem við höfum náð að búa til hið kærleiksríka samfélag þar sem allir fá að vera eins og þeir eru, þá þurfi ekki greiningar. En á meðan því marki er ekki náð þurfum við greiningar sem leiðarvísa fyrir umönnunaraðila og skóla.

  Boðskapur Aðalheiðar á svo sannarlega erindi til allra foreldra, ekki einungis foreldra barna á einhverfurófi. Það er svo margt sem við getum lært af hennar reynslu, sem hún dregur ekki síst frá reynsluheimi einstaklinga á einhverfurófi.

 • Í dag er komið að þriðja þætti í umfjöllun okkar um fræði og boðskap Alfies Kohns áfram, út frá bókinni hans Unconditional Parenting. Við nældum okkur í nýjar raddir í síðasta bókaklúbbi um bókina. Eða svo til nýjar sumar, Eva Rún Guðmundsdóttir, Elsa Borg Sveinsdóttir, Hafdís Ósk Pétursdóttir og loks Sólveig Rós!
  Í fyrsta þætti okkar um kenningar Alfies Kohns fórum við yfir hvað sé að skilyrtu og stjórnunartengdu uppeldi. Í öðrum þætti ræddum við ástæðurnar fyrir því að við dettum í skilyrt og stjórnunartengt uppeldi ef það er svona hrikalega slæmt. Að auki fórum við yfir 12 grundvallarlögmál í uppeldi.
  Alfie gefur okkur þrjár meginleiðir til að innleiða skilyrðislaust uppeldi og það ræðum við hér: að tjá skilyrðislausa ást, gefa börnum fleiri tækifæri til að taka ákvarðanir og að ímynda sér hvernig hlutirnir líta út frá sjónarhorni barna.
  Alfie segir að spurningin sé ekki hvort við eigum að reyna að komast nálægt markmiðinu – og ekki heldur sé neinn vafi á að við ættum að geta það. Ástæðan að alltaf sé hægt að gera betur er ekki ástæða til að reyna ekki að gera betur en við erum nú að gera. Við getum það og við ættum að gera það. Spurningin er hvernig.

 • Í þessum þætti höldum við umfjöllun okkar um fræði og boðskap Alfies Kohns áfram, út frá bókinni hans Unconditional Parenting. Með Guðrúnu Ingu Torfadóttur eru mættar þær Eva Rún Guðmundsdóttir, Guðrún Birna le Sage og Gyða Björg Sigurðardóttir.

  Í síðasta þætti stikluðum við á stóru um fyrri helming bókarinnar Unconditional Parenting. Við fórum yfir hegðunarvandamál sem leiða af skilyrtri ást foreldra og af hverju vinsælar uppeldisaðferðir láta börnum líða eins og þau séu samþykkt aðeins ef þau fara að kröfum foreldra sinna. Þá fjölluðum við um þegar börnum líður eins og foreldrar þeirra elski þau bara ef þeim vegnar vel í einhverju, t.d. skóla eða íþróttum.

  Í síðari helmingi bókarinnar fjallar Alfie síðan um hvernig við getum fært okkur frá þessum sem hann nefnir úreldu aðferðum og yfir í eitthvað allt annað og betra.

  Spurningin sem á okkur brennur eftir umfjöllun síðasta þáttar er:
  Af hverju gerum við þetta? Ef skilyrt og stjórnunartengt uppeldi er svona hrikalega slæmt eins og rannsóknir og reynsla margra segir okkur, af hverju erum við þá mörg okkar að detta inn í þess konar uppeldisaðferðir?

  Jafnvel mjög vel hugsandi fólk getur fest í ómarkvissri uppeldistaktík, því léleg agastjórnun er mjög auðveld og krefst lítils af okkur við að gera eitthvað við börnin okkar. Að gera eitthvað með börnunum er mun erfiðar. Og ef við þekkjum ekki seinni aðferðirnar þá höldum við áfram að gera hið fyrra því við vitum ekki hvað annað við ættum að gera.

  Þá fórum við yfir 12 grunngildi skilyrðislauss uppeldis að mati Alfies, sem að hans mati geta verið leiðarljós við að fara í þá hugrakka vegferð að horfast í augu við okkur sjálf sem foreldrar og gera örlítið betur á morgun en í dag og í gær.

 • Í dag hefjum við umfjöllun okkar um fræði og boðskap Alfies Kohns, og þá sérstaklega út frá bókinni hans Unconditional Parenting sem hann gaf út árið 2005 og fjallar um skilyrðislaust uppeldi ásamt því að við ræðum lítillega eina frægustu fyrri bóka hans, Punished by Rewards, frá árinu 1993.

  Í Time magazine hefur Alfie verið lýst sem „ef til vill mesta gagnrýnanda Bandaríkjanna um áhuga menntakerfisins á einkunnum.“ Hann gagnrýnir samkeppni og verðlaunadýrkun og hefur verið óþreytandi að tala og skrifa um málefnið.

  Við ætlum sem sagt aðeins að fjalla um bókina Unconditional Parenting með því að stikla á stóru í fyrri helmingi bókarinnar í þessum þætti og svo síðari helmingi í þeim næsta út frá okkar eigin reynslu að venju.

  1.-4. kaflar bókarinnar fjalla um hegðunarvandamál sem leiða af ást foreldra á börnum með skilyrðum, og af hverju vinsælar uppeldisaðferðir láta börnum líða eins og þau séu samþykkt aðeins ef þau fara að kröfum foreldra sinna. Fimmti kafli fjallar síðan um þegar börnum líður eins og foreldrar þeirra elski þau bara ef þeim vegnar vel í einhverju, t.d. skóla eða íþróttum. Í síðari helmingi bókarinnar fjallar Alfie síðan um hvernig við getum fært okkur frá þessum sem hann nefnir úreldu aðferðum og yfir í eitthvað allt annað og betra, sem verður þá umfjöllunarefni næsta þáttar.

  Þátttakendur að þessu sinni eru þær Guðrún Birna le Sage og Gyða Björg Sigurðardóttir ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur.

 • Við höldum áfram að ræða um líkama okkar mæðranna. Djúpt samþykki, tenging og tjáning með líkamanum er bransinn sem Margrét Erla Maack lifir og hrærist í. Guðrún Inga Torfadóttir fékk þessa vinkonu sína úr framhaldsskóla og ballett til þess að opna á það með hlustendum okkar hversu mikilvægt það er að við konurnar samþykkjum okkur sjálfar. Hennar leið er að standa á sviði misfáklædd og gera grín að sjálfri sér og kenna öðrum konum í Kramhúsinu að detta í gírinn. Enginn líkami er rangur líkami og að missa vitundina frá hálsi og niður um ástand síns eigin líkama er eitthvað sem við tengjum margar við eftir meðgöngu og fæðingu.
  Hressandi og ljúft spjall við þessa yndislegu konu sem afsakar hvorki rýmið sem hún lifir og hrærist í né hvaða þarfir hún hefur. Það er eitthvað sem við getum allar tekið okkur til fyrirmyndar.

 • RIE fyrir fullorðna? Við fengum þær stöllur Agnesi Ósk Snorradóttur og Köru Elvarsdóttur sjúkraþjálfara frá Hraust þjálfun í heimsókn til okkar í skrautlega upptöku þar sem þær ræddu við þrjár Guðrúnar úr hópi Meðvitaðra foreldra, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, sem þurfti svo að hlaupa í burtu að ná vinnufundi, Guðrúnu Birnu le Sage sem stýrði þessu af stakri rósemd áfram, og loks náði Guðrún Björnsdóttir í lokin til okkar eftir lok vinnufundar hjá sér til að deila hvernig heilsan hennar hrundi nú í haust.

  Þetta var frábært spjall sem mætti þó draga saman með þeim hætti að væntanlegum, nýbökuðum og alls óbökuðum mæðrum og bara foreldrum yfir höfuð er réttast að huga að heilsu sinni vandlega og kveikja á merkjum líkamans. En hreyfingin þarf þó alls ekki að fara fram með offorsi heldur einmitt öfugt, að fara fram með þeim hætti að á líkamann sé hlustað, rétt eins og börnin okkar.
  Agnes Ósk og Kara deildu því með okkur hvernig þær tóku sjálfar U-beygju sem sjúkraþjálfarar eftir að hafa tekið upp virðingarríka uppeldishætti og í kjölfarið endurskoðað sitt eigið hugarfar og skoðað hvaða lífsstíl þær gætu haldið uppi án þess að eiga í hættu að lenda í títt nefndri kulnun.

  Þær Kara og Guðrún Inga eiga það sameiginlegt að hafa verið í krefjandi menntaskóla á unga aldri ásamt krefjandi dansnámi og Guðrún Birna á bakgrunn í krefjandi þjálfun í fimleikum. Það er áhugavert að bera það saman við síðan það sem RIE-fræðin kenna okkur sbr. aðra þætti í Virðingu í uppeldi. En, minna er alls ekki alltaf meira og stundum er það bara til að senda okkur á bólakaf, eins og við heyrðum af reynslusögu Guðrúnar Björnsdóttur. Og kannski er okkur öllum hollt að hafa gagnrýnið hugarfar þegar við hlustum á ráð annarra og jafnvel fagfólks, sem er eitthvað sem fæstum var kennt í æsku.

  Og grindarbotninn! Ekki má gleyma honum.

  Njótið.

 • Í þessum þætti svona skömmu fyrir jól heimsækjum við það efni sem við flest viljum komast hjá yfirleitt að ræða eða verða fyrir: sorgina. Til Guðrúnar Ingu Torfadóttur komu þær Aldís Rut Gísladóttir prestur, jógakennari og þriggja barna móðir og Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona, íþróttakona og tveggja barna móðir. Þær hafa báðar ástríðu fyrir virðingarríku uppeldi og deildu með Guðrúnu Ingu visku sinni og reynslu hvað viðkemur sorginni, sorgarúrvinnslu og viðbrögðum.

  Kristín Sif sagði okkur Aldísi frá reynslu sinni síðasta árið eftir að hafa misst manninn sinn og barnsföður úr sjálfsvígi og komið að honum sjálf á heimili þeirra. Hvernig fyrstu dagarnir voru og svo áfram. Sjálf er hún orðin sérfræðingur í sorgarúrvinnslu eftir að hafa nýtt flest þau úrræði og haldreipi sem í boði voru og stutt einnig við börn sín við missinn með raunsæi og samkennd. Ljóst er að því verkefni er hvergi nærri lokið.

  Aldís fræddi okkur um sálgæslufræðin og áhrif sorgar á börn sem fullorðna sem og eigin upplifun af sorg við umskipti í lífinu þegar fjölskyldumynstrið breytist. Guðrún Inga tókst einnig ung á við áföll, að missa bróður úr sjálfsvígi og móður úr Alzheimer og lýsir því hvernig sorgin býr enn í hjartanu og hvernig unnt er samt að upplifa gleði og þakklæti og ala börnin upp við að þekkja hina látnu og umgangast dauðann.

  Okkur er kennt hvernig við öflum okkur hluta, en ekki hvað við eigum að gera þegar við töpum þeim. Foreldrar, vinir og jafnvel samfélagið hvetja okkur til að breiða yfir sorgina frekar en að takast á við hana og fara í gegnum hana. „Ekki láta þér líða illa. Bættu fyrir tapið. Vertu sterkur fyrir aðra. Hafðu nóg að gera.“ Þetta eru dæmi um sagðar og ósagðar uppástungur sem okkur eru gefnar, frá unga aldri, til að takast á við sorg eða harm. Þær krefjast þess af okkur að hunsa heiðarlegar tilfinningar okkar, halda þeim inni, grafa þær niður. Þær eru sagðar af góðum hug, enginn vill sjá okkur líða illa. En þessar leiðbeiningar eru aðeins til þess fallnar að aftra okkur við að tjá sannar tilfinningar okkar og stýra okkur í þá átt að takast ekki á við sorg og missi.

  Bældar tilfinningar sem ekki hefur verið unnið úr munu bæla getu okkar til að upplifa lífsgleði og gera lífsorkuna gegndræpa. Við gætum leitað í óheilbrigðar leiðir til að takast á við missi og vonbrigði og haldið í óheilbrigðar venjur sem ógna hamingju okkar og heilbrigði. Þetta er ástæðan fyrir að það er lífsnauðsynlegt að læra hvernig við tökumst á við missi snemma á lífsleiðinni og í einföldum tilvikum. Við getum gert betur fyrir okkur og fyrir börnin okkar.