Episoder

 • Meðvirkni er alvarlegt vandamál sem snertir flestalla strengi lífs þeirra sem við hana etja. Meðal þeirra tilfinninga, upplifunar og erfiðleika sem meðvirkni getur skapað eru skömm, öryggisleysi, undanlátsemi, framtaksleysi, þunglyndi, sektarkennd, samskiptaörðugleikar, vandi í samböndum, ótti við álit annarra, stjórnsemi, fíknir, tómleiki og lágt sjálfsmat svo eitthvað sé nefnt. Þó svo að margir telji sig vita hverjar birtingamyndir meðvirkni geta verið þá vita fáir hver raunveruleg orsök hennar er og hvað hún hefur mikil áhrif á öll okkar sambönd, samskipti og líðan. Við ræddum við Valdimar Þór Svavarsson en hann hefur sérmenntað sig í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody sem fjalla um meðvirkni og áfallavinnu. Helena Jónsdóttir danshöfundur og kvikmyndagerða kona, hefði, ef ekkert væri Covid, staðið að hreyfimyndahátíð sem kallast Physical Cinema sem átti að vera hluti af Stockkfish kvikmyndahátíðinni. En þar sem ekkert slíkt má vera í gangi hefur Stockfish verið frestað. Helena ákvað hins vegar að setja upp öll þau verk sem hægt er utandyra og þau munu standa til 17.apríl. Við heyrðum í Helenu í þættinum og fengum að vita hvar verkin eru staðsett, en það er hægt að sjá á www.physicalcinemafest.com. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Elfa Ýr Gylfadóttir, hún er með BA í bókmenntafræði, er fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgesturinn okkar að þessu sinni var Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður, eða Eyfi eins og hann er alltaf kallaður. Eyfi verður sextugur þann 17.apríl. Hann hefur verið að alveg síðan hann spilaði á gítar og söng fyrir skíðagesti í Kerlingarfjöllum á áttunda áratugnum, hvar hann starfaði sem skíðakennari. Hann spilaði með hljómsveitinni Hálft í hvoru og kom fram á vísnakvöldum þegar Vísnavinir voru uppá sitt besta. Hann var meðlimur í Bítlavinafélaginu og hefur átt farsælan sólóferil, átt nokkur af bestu Eurovisionlögum okkar t.d. Draum um Nínu sem þjóðin kaus einhverju sinni besta lagið í þeirri keppni. Á milli þess sem hann leggur stund á tónlist, hvíttar hann tennur og sveiflar golfkylfum. Í matarspjalli dagsins spjölluðum við um ódýran og góðan mat sem auðvelt er að rétta. Nýverið kom út bókin Undir 1000 fyrir tvo eftir Áslaugu Björgu Harðardóttur. Hún segist hafa tekið upp á því að setja saman þessa bók eftir að vera búin að púsla tíu þúsund púsl í kófinu. Áslaug var með okkur í matarspjalli dagsins. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Mangler du episoder?

  Klikk her for å oppdatere manuelt.

 • Í dag er fimmtudagur og þá kom sérfræðingur í þáttinn eins og alla fimmtudaga í vetur. Í þetta sinn var það Tinna Andrésdóttir lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu. Hún sagði okkur frá sínum störfum hjá félaginu og frá starfsemi félagsins almennt. Svo í seinni hluta þáttarins svaraði spurningum hlustenda. Það höfðu margir hlustendur sent inn spurningar og þær snéru að ýmsum ágreiningsmálum sem geta komið upp milli húseigenda, í fjölbýlishúsum af öllum stærðum og jafnvel útaf nágrönnum í öðrum húsum. Loftnet, bílastæði, óalandi nágranni, partýstand og leki eru meðal þess sem um var spurt. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Á morgun verður haldin málstofa í formi streymisfundar á netinu í framhaldi af afmælishátíð Félagsráðgjafafélags Íslands. Öll erindi fundarins snúa að ofbeldi í nánum samböndum. Fyrsta erindið er um áfallamiðaða þjónustu fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð. Annað erindið fjallar um vinnu félagsráðgjafa með börnum í Kvennaathvarfinu og þriðja erindið, sem Guðrún Kristinsdótir, félagsráðgjafi og prófessor emerita kom í þáttinn í dag til þess að segja okkur frá, en það er um leiðir karla út úr ofbeldi í nánum samböndum. Erindið byggir á viðtölum við karla og fjallað verður um útskýringar karla á eigin ofbeldi gagnvart sínum nánustu. Það er heldur kuldalegt um að litast í Höfuðborginni í dag og ekki vanþörf á að fá yl í hjartað með td tónlist. Í síðustu viku gaf Hafdís Huld út sitt nýjasta lag. Það er ábreiða af laginu Sól sól skín á mig sem Hanna Valdís og Sólskinskórinn gerðu frægt árið 1973. Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu sem kemur út í vor og ber heitið Vorvísur. Síðasta plata hennar Vögguvísur hefur verið ein af mest streymdu plötum á Íslandi ár hvert, en sú plata kom út árið 2012. Við hringdum uppí Mosfellsdal í dag og heyrðum í Hafdísi. Orgel, lírukassi og harmoníum - við fengum sendingu að sunnan frá Margéti Blöndal og að þessu sinni fór hún í Orgelsmiðjuna á Stokkseyri og heimsótti hjónin Björgvin Tómasson orgelsmið og Margréti Erlingsdóttur rafvirkja. En þau eru þessa dagana m.a. að breyta gömlum harmoníum hljóðfærum í koffort sem er ekki bara hægt að spila á, heldur líka ferðast með um heiminn, þegar það verður í boði aftur. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Lesandi vikunnar kom í þáttinn í dag á þriðjudegi, þar sem það var ekki þáttur í gær á öðrum í páskum. Lesandinn í þetta sinn var Lóa Hjálmtýsdóttir, myndasöguhöfundur, teiknari og tónlistarkona. Hún var einn höfunda Skaupsins í fyrra og hitteðfyrra og barnabókin hennar Grísafjörður hlaut tilnefningu til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skemmstu. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. Nýlega var opnaður upplýsingavefur fyrir Strandir www.strandir.is, þar geta gestir, íbúar og þeir sem hugsa sér mögulega að flytja á Strandir aflað sér upplýsinga af ýmsu tagi. Auglýsingastofan Aldeilis setti upp vefinn en Silja Ástudóttir er ritstýra og verkefnisstýra. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, settist niður með Silju og þær fóru yfir ýmislegt sem þar má finna. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Í mars 2018 skrifaði Tryggvi Hjaltason, þriggja barna faðir frá Vestmannaeyjum og sérfræðingur hjá CCP, færslu á facebook sem átti eftir að vinda upp á sig. Hann sá sig knúinn til að tjá sig eftir að hafa heyrt aftur og aftur vísbendingar um að íslenskum drengjum liði ekki vel í skólakerfinu og væru að dragast aftur úr, ekki aðeins stúlkunum heldur drengjum í löndunum sem við gjarnan berum okkur saman við, auk þess sem notkun á geðlyfjum, svefnlyfjum og klámnotkun hjá drengjum á Íslandi er talsvert meiri en í löndunum í kringum okkur. Færslan vakti mikla athygli og umræður enda tóku margir fjölmiðlar færsluna upp og birtu hana. En í fyrra, tveimur árum síðar, virtist lítið hafa gerst, mikið hafði verið talað, en lítið hafði breyst. Tryggvi kemur í þáttinn í dag og fer með okkur yfir stöðuna eins og hún er í dag. Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Í korti dagsins ber Magnús saman umræðuna vegna farsóttarinnar á Spáni og á Íslandi, en hann hefur verið í vetrarfríi hér heima í nokkrar vikur. Hann segir líka frá páskahátíðinni sem nú stendur yfir í dymbilvikunni á Spáni, en hún er hátíðlegasti tími ársins hjá Spánverjum. Það verður líka sagt frá tilraun um fjögurra daga vinnuviku sem fyrirhugað er að framkvæma næsta haust og margir binda miklar vonir við. Í lokin segir af 5000 manna tónleikum sem fóru fram í Barcelona síðastliðið laugardagskvöld sem eru þeir fjölmennustu sem hafa verið haldnir innandyra í Evrópu frá því að farsóttin byrjaði fyrir rúmu ári. Í lok þáttar veltum við aðeins fyrir okkur málsháttum, svona í tilefni páskanna og reyndum að komast að því hvaða hugmyndafræði elsti páskaeggjaframleiðandi landsins leggur til grundvallar þegar kemur að vali á málsháttum. Við slógum á þráðinn til Auðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Siríus í þættinum. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL

 • Í síðustu viku fór af stað kynningarherferð á starfi Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Unnin hafa verið myndbönd sem gefa innsýn í starfið og úrræðin sem Bjarkarhlíð hefur upp á að bjóða. Að auki er ný herferð kynnt Þekktu rauðu ljósin þar sem fólk greinir frá reynslu sinni úr ofbeldissamböndum. Jenný Kristín Valberg ráðgjafi hjá Bjarkarhlíð kom í þáttinn og sagði frá starfseminni og deildi með okkur sinni eigin sögu úr ofbeldissambandi. Sendiherra Frakka Graham Paul veitti Mireyu Samper æðstu orðu Frakklands á sviði lista og bókmennta L'Ordre des Arts et des Lettres 19. mars síðast liðinn við hátíðlega athöfn. Mireya kom í þáttinn fræddi okkur um þessa orðu og ekki síður um sig sjálfa. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur hefur rannsakað selveiðar við Ísland og leitað fanga í ýmsum heimildum. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Vilhelm á selaslóðum eða á Hvammstanga þar sem einmitt selasetrið er til húsa. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL

 • Valdemar Gísli Valdemarsson, skólastjóri raftækniskólans, kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá geislun í umhverfinu í kringum okkur. Flest okkar höfum til dæmis farsímann, eða snjallsímann alltaf innan seilingar, svo er það allt rafmagnið í kringum okkur í öllum raftækjunum sem koma strax upp í hugann. Gísli fræddi okkur um þessa geislun sem er allt í kringum okkur og við veltum fyrir okkur hvort hún sé hættuleg og hvort við eigum að gera einhverjar ráðstafanir vegna geislunarinnar. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Helga Soffía Einarsdóttir þýðandi, hún sagði okkur frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Hún sagði líka frá starfi sínu sem þýðandi og æsku sinni í Tansaníu. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL

 • Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Óðinn Jónsson. Hann starfaði auðvitað lengi hér á RÚV sem frétta- og dagskrárgerðarmaður og var fréttastjóri. Hann var fréttamaður á Norðurlöndum með aðsetur í Kaupmannahöfn, síðan þingfréttamaður. Hann lærði sagnfræði, íslensku og opinbera stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Árið 2019 söðlaði Óðinn um og tók til starfa sem ráðgjafi hjá ráðgjafa- og almennatengslastofunni Aton JL. Það var um nóg að tala við hann í dag, fréttamennskuna, fjölmiðlastarfið, Bítlana og ferðalagið í gegnum lífið. Í matarspjalli dagsins ákvað besti vinur bragðlaukanna, Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, að heyra í Snorra Ásmundssyni, listamanni. Hann hefur verið að passa hús og ketti í sænskum skógi nálægt landamærum Svíþjóðar og Noregs. Hann hefur notað tímann og einveruna til þess að búa til list og svo hefur hann sett af stað matreiðsluþætti á netinu, þar sem hann hefur til dæmis gefið uppskriftina að ristuðu brauði með smjöri og sænskum kjötbollum. Við hringdum í Snorra í sænska skóginum í matarspjallinu í dag. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG SIGURLAUG MARGRÉT JÓNASDÓTTIR

 • Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2016 var meðalævilengd karla á Íslandi 80,7 ár og meðalævilengd kvenna 83,7 ár. Þessar tölur hafa hækkað stöðugt síðustu hundrað ár. Í þættinum í dag ætlum við að velta því fyrir okkur hversu lengi það getur haldið áfram. Og það sem meira er, geta framfarir í læknavísindum undanfarið jafnvel gefið okkur von um að mannfólkið geti lifað talsvert lengur? Jafnvel orðið 150 ára eða eldri? Það sem kveikti áhuga okkar á þessu var að einn þekktasti vísindamaður í heiminum á þessu sviði, David Sinclair hjá læknadeild Harvard háskóla, hefur talað um það í ræðu og riti að ekki sé nóg með að hægt sé að hægja á og jafnvel stöðva aldurstengda hrörnun líkamans, heldur sé jafnvel hægt að snúa slíkri þróun við. Í rauninni sé hægt að yngja fólk samkvæmt þessu. Þetta, ef satt reynist, er auðvitað einhver stærsta frétt sem hefur komið fram og þetta snertir alla, eða hlýtur að gera það. Þá var ekkert annað að gera en að fá okkar þekktasta vísindamann til þess að fara með okkur yfir það hvað væri til í þessu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kom í þáttinn í dag og fór yfir það hvort honum fyndist eitthvað til í þessu og hvort þessar fullyrðingar Sinclair héldu vatni. Er 150 ára mannfólk handan við hornið? UMSJÓN GUNNAR HANSSON

 • Dr. Janus Guðlaugsson kom í þáttinn í dag og kynnti fyrir okkur niðurstöður nýrra kannana sem hann hefur gert meðal eldri borgara nú á tímum Covid sem sýna hversu mikilvægar styrktaræfingar og hreyfing eru og ef ekki er sérstaklega er passað upp á það á svona tímum, þá getur aðgerðarleysi leikið eldri borgara grátt. Janus sagði frá þessum mælingum og mikilvægi styrktarþjálfunar og forvarna í þættinum. Í dag opnar sýning í Kringlunni þar sem ólíkar listgreinar skapa eina nýstárlega heild. Um er að ræða tónlist, málverk, danslist og kvikmyndagerð. Á veggjum sýningarinnar verða 12 málverk og við hlið þeirra skjáir með listrænum myndböndum sem innihalda 12 lög. Sýningargestir geta með heyrnartólum á staðnum hlustað á lögin sem málverkin eru um, séð þau verða til í myndbandi og horft samtímis á þau fullsköpuð á sýningarveggnum. Bjarni Hafþór Helgason ssagði nánar frá þessu í þættinum en þessi viðburður er haldin til styrktar Parkisonssamtökunum. Tellington T Touch er tækni sem snýr að þjálfun dýra og er notuð í yfir 40 löndum víða um heim. Markmiðið með henni er að auka vellíðan hesta, hunda, katta og raunar allra dýra sem hafa taugakerfi, þar á meðal manna. Nú hefur þessi aðferðafræði skotið rótum í Flóanum og við fengum að heyra í þættinum þegar Margrét Blöndal að fór að heimsækja Maríu Weiss fiðlukennara og Tellington T Touch þjálfara og fræddist um hugmyndafræðina sem liggur að baki. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Rótin, félag um konur áföll og vímugjafa, í samvinnu við Bata og Vörðuna, standa fyrir kynningarnámskeiði á verkefninu Karlar og áföll ? leiðir til bata. Námskeiðið er ætlað til að styðja karla á batabraut og að í vinna úr afleiðingum áfalla. Það þurfti að flytja námskeiðið í stærri sal vegna mikillar aðsóknar. Við fengum þær Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Kristínu I. Pálsdóttur, sem leiðbeina á námskeiðinu, til að segja okkur meira frá þessu verkefni í þættinum í dag. Andrés Jónsson almannatengill, setti fyrir þremur árum saman færslu þar sem hann fór yfir aldur og kyn forstjóra skráðra fyrirtækja í Kauphöll Íslands. Fyrir viku gerði hann aftur sama hlut, skráðu félögunum á Íslandi hefur fjölgað um þrjú og í 10 af þeim var skipt um forstjóra á þessu þriggja ára tímabili, en kynjahlutföllin eru enn óbreytt. Ef hægt er að tala um hlutfall. Sem sagt allir forstjórarnir eru karlar, eins og fyrir þremur árum. Á föstudaginn verður haldinn málfundur þar sem þetta verður rætt og við fengum Andrés og Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Eyri Venture Management, í þáttinn í dag til að segja okkur meira frá þessu og málfundinum. Húmorþing var fyrst haldið á Hólmavík árið 2009 og hefur verið haldið nokkrum sinnum síðan. Nú stendur til að slíkt þing komi saman laugardaginn 27. mars. Á þinginu verða fluttir stuttir fyrirlestrar og umfjöllunarefnin eru t.d. húmor og ísbirnir, covidbrandarar, stórlygasögur og einn fyrirlesara á þinginu er okkar kona Kristín Einarsdóttir, sem mun tala um Bakkabræður og tengda aðila. Við heyrðum í Kristínu í þættinum í dag og fengum að heyra meira af þessu þingi. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Mars er alþjóðlegur mánuður endómetríósu á heimsvísu og vikuna 19.-25. mars nk. verður dagskrá á vegum Samtaka um endómetríósu af því tilefni.Um 200 milljónir kvenna um heim allan eru með endómetríósu og í 60% tilfella byrja verkir við fyrstu blæðingar. Á morgun standa samtökin fyrir málþingi á Grand Hótel sem ber yfirskriftina: ?Er barnið þitt með endómetríósu? og mun forseti Íslands verða viðstaddur þingið. Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali og lýsir sér á þann veg að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum og honum fylgir mikill sársauki. Lilja Guðmundsdóttir, ritari Samtaka um endómetríósu, kemur í þáttinn ásamt Eyrúnu Thelmu Jónsdóttir sem ætlar að deila reynslu sinni af því að vera barn og unglingur með þennan sjúkdóm sem engin veit hvað veldur og ekki er til nein lækning. Lesandi vikunnar í þetta sinn er Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur, við fáum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var rithöfundurinn Gerður Kristný. Hún hlaut á dögunum Fjöruverðlaunin fyrir bókina Iðunn og afi pönk. Það eru langt því frá einu verðlaunin sem hafa fallið henni í skaut á farsælum ferli, þar sem hún hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur, viðtalsbók og ferðasögu, svo eitthvað sé nefnt. Við ræddum við Gerði um heima og geima, lífið og tilveruna í þætti dagsins. Sigurlaug Margrét var auðvitað á sínum stað með matarspjallið í þættinum. Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri var gestur hennar í dag. Hún kom færandi hendi, kalda tómatsúpu að katalónskum hætti og það sem hún kallaði guacamús, sem er sambland af guacamole og hummus. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Við fengum sérfræðing í þáttinn í dag eins og aðra fimmtudaga í vetur. Í þetta sinn var sérfræðingur þáttarins Fríða Rún Þórðardóttir næringarfræðingur. Öll þurfum við að borða og næra okkur, samt er svo merkilegt að við látum ekki endilega það ofan í okkur sem er best fyrir okkur. Og stundum jafnvel það sem við vitum að er alls ekki gott fyrir okkur og líkamann, en samt gerum við það. Við festumst gjarnan í mynstri sem er erfitt að komast útúr. Gylliboð og kraftaverkakúrar sem lofa öllu fögru eru við hvert fótmál. Því var forvitnilegt að fræðast með Fríðu Rún um næringu og mataræði í þættinum í dag og í seinni hlutanum gerði Fríða sitt besta til að svara spurningum hlustenda sem hafa borist okkur í netfang þáttarins, mannlegi@ruv.is. Þær spurningar sem hún náði ekki að svara ætlar hún að svara við fyrsta tækifæri á www.heilsutorg.is UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Við fræddumst um hugleiðslu og núvitund í þættinum í dag. Tolli Morthens myndlistarmaður kom í þáttinn en hann hefur stundað búddisma og núvitundarhugleiðslu í hartnær tvo áratugi og t.d. kennt og leitt hugleiðslu í fangelsum landsins. Tolli hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um hugleiðslu og fræddi okkur um núvitund í þættinum. Við veltum fyrir okkur sálfræðilegum áhrif umhverfis og bygginga á líðan fólks í dag. Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði og aðjúnkt við sálfræðideild HÍ heldur námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ um þessi áhrif. Á námskeiðinu kynnir Páll, skoðar og ræðir áhrif náttúru og byggðs umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega líðan fólks út frá umhverfissálfræði. Hann kom í þáttinn í dag og gaf okkur smá forskot á sæluna. Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Í korti dagsins var sagt frá kuldakasti sem er væntanlegt um næstu helgi. Það er mikill og vaxandi skjálfti í spænskri pólitík vegna kosninga sem hafa verið boðaðar í Madridarhéraði í byrjun maí. Það var líka sagt frá ótta Spánverja við Þjóðverjana sem nú hafa fengið leyfi til að ferðast til Spánar um páskana, en Mallorca er sem fyrr efst á vinsældalista Þjóðverja. Kórónusmit er miklu útbreiddara í Þýskalandi um þessar mundir en á Spáni og þess vegna eru Spánverjar nú á milli tveggja elda, óttans við smit og óttans vegna tekjutaps í ferðaþjónustunni. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Dagur Norðurlanda verður að vanda haldinn hátíðlegur þann 23. mars nk. Að þessu sinni fagnar Norræna ráðherranefndin fimmtíu ára afmæli og af því tilefni verður efnt til fimm umræðufunda þar sem rætt er hverju Norðurlöndin hafa áorkað í sameiningu. Tekin verða fyrir fimm málefni sem formennskuland ársins, Finnland, leggur áherslu á en það eru norrænar lausnar á sviði jafnréttis, stjórnsýsluhindrana, hringrásarhagkerfis, tjáningarfrelsis og menningar og málefni menningar verður í brennidepli hér á landi og Norræna húsið og Norræna félagið bjóða til pallborðsumræðu. Hrannar B. Arnarson, formaður Norræna félagsins, kom í þáttinn í dag. Ullarþon er nýsköpunar- og hugmyndasamkeppni haldin á netinu til að ýta undir nýsköpun og vöruþróun, auka verðmæti ullarinnar og þá sérstaklega verðminnstu ullarflokkanna. Íslenska ullin er auðlind sem býður upp á áhugaverða möguleika, til dæmis að vinna ull við mismunandi hitastig og mismunandi rakastig breytir henni talsvert. Því verður forvitnilegt að sjá hvort jafnvel verði fundnar upp einhverjar nýjar aðferðir til að vinna vörur úr ull og jafnvel hvort ullin fá einhver ný hlutverk. Textílmiðstöð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda Ullarþonið dagana 25. - 29. mars nk.og til að segja okkur meira frá því og ullinni kom til okkar Hulda Birna Baldursdóttir verkefnastjórí Ullarþonsins fyrir Nýsköpunarmiðstöð. Stóra upplestrarkeppnin fór fram á Ströndum, eins og annars staðar á landinu, og var haldin á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Kristín okkar Einarsdóttir fór á keppnina og ræddi við Aðalbjörgu Óskarsdóttur kennara, Þórð Helgason fulltrúa Radda og sigurvegara keppninnar Kristjönu Kríu Lovísu Bjarnadóttur sem las sigurljóðið Veislu eftir Gerði Kristnýju. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Opnað verður fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða í borginni, en um 600 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar. Sigurður Unuson er nemi í Landbúnaðarháskólanum, lærði áður Vistrækt og er í stjórn félagasamtaka sem standa að Seljagarði Borgarbýlis. Síðustu þrjú ár hafa þau haldið uppskeruhátíð með litlum grænmetisútimarkaði, tónlist, veitingum og þar sem gestir gátu fræðst um Seljagarð. Sigurður kom í þáttinn í dag og fræddi okkur t.d. um matjurtarrækt, einærar og fjölærar jurtir, ætan sjálfsprottin gróður og ræktunaraðferðir. Félag eldri borgara í Reykjavík á 35 ára afmæli í dag og formaður þess Ingibjörg Sverrisdóttir kom í þáttinn og sagði frá starfsemi félagsins og við ræddum einnig um kjör eldri borgara. Félagsmenn eru um 12 þúsund, svo þetta er með fjölmennari félögum á landinu. Félagsstarfið er smám saman að fara í gang á ný eftir lægð í vetur. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og ein fjögurra höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Bókin hlaut nýlega Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslanna auk tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Föstudagsgesturinn okkar var enginn annar en Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari. Ólafur er íslenskum óperu- og tónleikagestum að góðu kunnur. Hann var fyrsti fastráðni söngvarinn við Íslensku óperuna árin 2001-2004 og fór þar með fjölmörg hlutverk. Síðast kom hann fram á Íslandi árið 2017 sem Scarpia í Toscu og hlaut Íslensku tónlistarverðalaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverkinu. Hlutverkalisti Ólafs Kjartans er orðinn langur og fjölbreyttur, en á undanförnum misserum hafa burðarhlutverk í óperum Wagners og Verdis verið hvað fyrirferðarmest; Rigoletto, Falstaff, Macbeth, Iago, Renato, Alberich, Hollendingurinn fljúgandi, Telramund og Klingsor. Næsta sumar fer Ólafur Kjartan með hlutverk Biterolf í Tannhäuser á Wagnerhátíðinni í Bayreuth í Þýskalandi ásamt því að hefja æfingar á nýrri uppfærslu á Niflungahringnum sem frumsýndur verður í Bayreuth sumarið 2022, en þar fer hann með hlutverk Alberich. Það eru tónleikar hér á landi og ferðalög framundan hjá Ólafi í tengslum við sönginn, við fengum að vita allt um það í þættinum. Matarspjallið var svo auðvitað á sínum stað, Sigurlaug Margrét, besti vinur bragðlaukanna kom til okkar og við vorum á söngmatarnótum í dag. Hvað borða almennilegir óperusöngvarar? Hvaða matur fer vel í söngvara og æsa óperur upp matarlyst og matarást á einhverjum sérstökum mat? Ólafur Kjartan, föstudagsgestur þáttarins sat sem sagt áfram með okkur og talaði um mat frá ýmsum hliðum. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

 • Í dag fengum við sérfræðing í þáttinn eins og aðra fimmtudaga í vetur. Í þetta sinn var það sjúkraþjálfarinn Gunnar Svanbergsson sem svaraði spurningum frá hlustendum. Spurningarnar sem við fengum sendar frá hlustendum sneru t.d. að fótum, doða, vöðvabólgu og bólgueyðandi lyfjum, stirðleika í baki, tinnitus o.fl. Gunnar sagði líka frá því í fyrri hluta þáttarins að hann fékk Covid-19 um jólin og er enn að glíma við afleiðingar, sem lýsa sér í þolleysi og hann hefur ekki náð fullu starfsþreki enn, u.þ.b. þremur mánuðum síðar. Í framhaldi af því nefndi hann að talsverður fjöldi fólks sem er einnig að glíma við afleiðingar Covid-19 er farinn að leita til sjúkraþjálfara til að reyna að ná árangri og framförum. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR