Episódios

  • Róbert Lagerman FIDE meistari og alþjóðlegur skákdómari mætti í settið á Útvarpi Sögu en þetta var sextugasti þáttur Kristjáns Arnar Elíassonar Við skákborðið. Róbert lærði skák frekar seint miðað við marga aðra sem náð hafa langt en hann var orðinn 15 ára gamll þegar fósturfaðir hans Hörður Victorsson kenndi honum fyrst að tefla. Skákkennslan stóð stutt þar sem Hörður nennti ekki lengur að tefla við hann eftir að Róbert fór að vinna hann reglulega. Fljótlega kom í ljós að Róbert var einstaklega hæfileikaríkur við skákborðið og ári síðar var hann orðinn Íslandsmeistari undir 20 ára (U-20). Róbert er margfaldur Norðurlanda- og Íslandsmeistari með Menntaskólanum við Hamrahlíð en liðsfélagar hans á menntaskólaárunum voru stórmeistararnir Jón L. Árnason, Margeir Pétursson og Jóhann Hjartarson ásamt FIDE meistaranum Þorsteini Þorsteinssyni. Róbert ræddi um langan og vægast sagt skrautlegan skákferil sinn. Hann talaði um kynni sín og vináttu við Hrafn Jökulsson, gímuna við þunglyndi, Bakkus og eltingaleik sinn við konur. Róbert er rétt að byrja frásögn sína en hann kemur fljótlega aftur í annan þátt.

  • Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir, landsliðskonur í skák, segjast afar ánægðar með Reykjavíkurskákmótið sem heppnaðist vel þrátt fyrir að þeim finnist að þeim hefði mátt ganga betur eins og gengur. Stemningin á slíkum mótum sé einstök og gaman að sjá hversu margir sæki mótið aftur ár eftir ár. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Við skákborðið en Kristján Örn Elíasson ræddi við þær Hallgerði og Veroniku.

    Þær segja ákveðinn kjarna fólks sem telji um 150 til 200 manns mæti á hverju ári á mótið og þær séu farnar að kynnast vel fólkinu innan þess hóps og það sé alltaf jafn gaman að taka þátt. Þá sé ekki síður gaman að taka þátt í þeim viðburðum sem fara fram til hliðar við mótið sjálft eins og pub-quiz, hraðskákmót og þá fari erlendir keppendur oft Gullna hringinn sem þeim finnist afar skemmtilegt. Þær segjast finna vel fyrir því að þátttakan á mótinu hafi aukist verulega undanfarin ár og það sé auðvitað jákvætt en það séu þó orðin svolítil þrengsli á svona fjölmennu Reykjavíkurskákmóti.

    Hallgerður og Veronika ræddu um konur í skák, sögðu skoðun sína á hvort munur væri á styrkleika kvenna og karla við skákborðið, samskipti kynjanna, ferðalög erlendis, Ólympíumót, landsliðsþjálfara, mikla samkeppni stúlkna um sæti í kvennalandsliðinu og margt fleira áhugavert og skemmtilegt.

  • Estão a faltar episódios?

    Clique aqui para atualizar o feed.

  • Stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson er gestur Kristjáns Arnar í þættinum Við skákborðið á Útvarpi Sögu að þessu sinni. Héðinn varð strax ungur að árum mjög sterkur skákmaður. Hann varð margsinnis Norðurlandameistari barna- og unglinga, hann varð heimsmeistari barna undir 12 ára árið 1987 og var aðeins 15 ára gamall þegar hann varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari í skák en það ár náði hann styrkleika upp á 2500 eló-skákstig. Í þættinum talar Héðinn meðal annars um rannsóknir sínar á skák og gervigreind, áform ríkisstjórnarinnar (Alþingis) um að leggja niður stórmeistaralaunin í núverandi mynd, góðan árangur sinn á nýafstöðnu Reykjavíkurskákmótinu en Héðinn hreppti skipt annað sæti ásamt sex öðrum skákmönnum.

  • Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands kom í settið til Kristjáns Arnar á Útvarpi Sögu. Umræðuefnið var Reykjavíkurskákmótið en gríðarleg spenna er hlaupin í mótið þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Áttunda umferð verður tefld í dag og lýkur mótinu á morgun þegar níunda umferð verður tefld kl. 11:00 um morguninn.

    Stórmeistarinn Alisher Suleymenov frá Kasakstan er einn efstur með sex vinninga þegar sjö umferðir hafa verið tefldar en alls sautján keppendur fylgja honum fast á eftir með fimm og hálfan vinning og þar af fjórir Íslendingar, stórmeistararnir Guðmundur Kjartansson, Héðinn Steingrímsson, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson!

    Í þættinum eru spilaðir hljóðbútar af stuttum viðtölum sem tekin voru við aðstoðarmótshaldara og keppendur seint í gærkvöldi þegar sjöundu umferð var að ljúka í Hörpunni.

  • Gestir Kristjáns Arnar í þessum þætti eru FIDE meistararnir Sigurbjörn Björnsson frá skákdeild Fjölnis og Halldór Grétar Einarsson frá skákdeild Breiðabliks. Þeir ræddu um nýafstaðið Íslandsmót skákfélaga en lið þeirra urðu sigurvegarar úrvalsdeildar og 1. deildar. Firnasterk skákdeild Fjölnis varð Íslandsmeistari skákfélaga og skákdeild Breiðabliks varð efst í 1. deild og tekur því sæti í úrvalsdeildinni í haust.

    Þeir Halldór og Sigurbjörn ræddu einnig fyrirkomulag Íslandsmótsins en þeir vilja gera smávægilegar breytingar á úrvalsdeildinni. Frábær árangur Alexandr Domalchuk-Jónassonar kom til tals en hann náði lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli ásamt fyrst áfanga sínum að stórmeistartitli á Íslandsmótinu. Halldór greindi að hluta frá nýrri metnaðarfullri 5 ára áætlun skákdeildar Breiðabliks um að styðja við bakið á ungum og efnilegum liðsmönnum skákdeilarinnar, bæði fjárhagslega og félagslega. Hann tók skýrt fram að hluti áætlunarinnar væri "hernaðarleyndarmál" en stefnt væri meðal annars á að úr afrekshópi þeirra kæmu nokkrir titilhafar innan 5 ára.

    Reykjavíkurskákmótið kom einnig til tals en það hefst á föstudaginn kl. 15:00 og stendur yfir dagana 15. til 21. mars. Á meðal keppenda er Úkraínumaðurinn Vasyl Ivanchuk, fyrrum heimsmeistari í hraðskák og atskák. Hann var á sínum tíma annar stigahæsti skákmaður heims með 2787 eló-skákstig. Hann er talinn af mörgum kollegum sínum einn mesti snillingur skáklistarinnar.

    Heimasíða og dagskrá Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu tónlistarhúsi

  • Gestur Kristjáns Arnar í dag er Gauti Páll Jónsson ritstjóri tímairtsins Skákar. Ræddu þeir ákvörðun stjórnar Skáksambands Íslands um að leggja niður útgáfu tímaritsins, viðbrögð við því og hvað sé hægt að gera til að snúa þeirri ákvörðun við. Fóru þeir um víðan völl í viðtalinu, ræddu ungmennastarfið, HM ungmenna á Ítalíu, starfið í Taflfélagi Reykjavíkur og spáðu í síðari hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fer fram í Rimaskóla um helgina svo fátt eitt sé nefnt. En á endanum barst talið alltaf að tímaritinu Skák enda er það hinum unga ritstjóra kappsmál, og í raun allri skákhreyfingunni, að blaðið haldi áfram göngu sinni.

    Meðal efnis í blaðinu:

    Skákskýringar frá Íslandsmeistara kvenna.Skákskýringar frá Íslandsmeistara í atskák.Skákannáll haustið 2023.Bókarkafli úr sögulegri skáldsögu um einvígið 1972. Elostigatölfræði íslenskra skákmanna 2023. Rokkað og rólað gegn Nimzanum.“Kynni mín af skák” eftir rithöfund sem kann ekki mannganginn.… og margt fleira …

    Skilaboð frá ritstjóra: "Allir lausapennar blaðsins skrifa launalaust og flestar pizzur á matseðli Domino´s kosta meira en blaðið. Björgum blaðinu, kauptu blaðið!😊"

    Hér er hægt að kaupa nýjasta blaðið og um leið skora á SÍ að draga ákvörðun sína til baka.

    Tímariðtið Skák verður til sölu á Íslandsmóti skákfélaga í Rimaskóla um helgina. Aðrir sölustaðir eru Spilavinir, Bóksala stúdenta og Bókakaffið Ármúla.

  • Ritstjórar www.skak.is, þeir Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands og Ingvar Þór Jóhanesson FIDE meistari kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Tilgangurinn var að fara yfir Reykjavíkurskákmótið sem hefst 15. mars næstkomandi. Uppselt er á mótið en skráðir keppendur eru 429 frá 49 þjóðlöndum. Í ár eru 60 ár liðin frá því að fyrsta Reykjavíkurskákmótið fór fram í Lídó árið 1964. Þá var mótið lokað, eða svokallað boðsmót, og voru keppendur 14 talsins. Sigurvegari mótsins var fyrrverandi heimsmeistari í skák, sjálfur töframaðurinn frá Riga, Mikhail Tal en hann hlaut 12,5 vinning í 13 skákum. Þáverandi heimsmeistari kvenna, Nona Gaprindashvili, var einnig á meðal keppenda.

    Eins og áður hjá þeim félögum var farið um víðan völl í spjalli um skákina, sagðar skákfréttir frá viðburðum hér heima og erlendis, spáð í spilin um hver verður næsti heimsmeistari í skák, spilað hljóðbrot þar sem Magnus Carlsen syngur rapplag sem kallast Hvem Stjal Spenolen eða Hver stal andlitskreminu með rapparanum Mr. Pimp-Lotion og margt fleira. Sjá slóð: Magnus Carlsen is Singing His Rap Song!


    Stóra spurningin sem ekki náðist að svara í þættinum er: Verður Hans Moke Niemann umdeildasti skákmaður heims með á Reykjavíkurskákmótinu 2024? Það kemur í ljós í kvöld eða á morgun en á meðan við bíðum...Chess speaks for itself!

  • Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu aðra vikuna í röð í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Þeir félagarnir tóku upp þráðinn frá því sem frá var horfið í síðasta þætti og ræddu meðal annars mikla og góða samvinnu þeirra við stúderingar en einnig innbyrðis "stríð" þeirra við skákborðið. Það kom fram í máli þeirra að þeir þekktu hvorn annan svo vel að skákir þeirra væru farnar að þróast í eins konar jafnteflismaraþon þeirra á milli, þeir væru í raun bestu óvinir! Langar skákir, tvöfaldar umferðir í svokölluðum túrbómótum og þreyta kom til tals og hversu mikilvægt það væri að sofa vel, borða rétt og stunda líkamsrækt reglulega. Þeir segja að það sé mjög gaman að sjá, að það sé kominn svo mikill metnaður hjá ungu skákmönnunum í dag. Þessi metnaður hafi ekki verið til staðar fyrir nokkrum árum þegar þeir voru að alast upp en nú séu flest allir að stúdera margar klukkustundir á dag. Menn séu einbeittir, haldi sér við efnið, taki alvöru æfingarnar og engin tími gefist fyrir fíflalæti. Vignir og Heimir fóru yfir helstu mót sem þeir ætla að taka þátt í á árinu og markmið sem þeir hafa sett sér á næstu tveimur árum. Vignir sagði að hann hefði rætt við hinn umdeilda og nú heimsþekkta Hans Moke Niemann í vikunni og að Niemann væri að velta fyrir sér að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í Hörpu í næsta mánuði.

  • Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, nýjasti og yngsti stórmeistari okkar Íslendinga og núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Vignir fagnar 21 árs afmælisdegi sínum í dag, 7. febrúar en Heimir verður 23 ára síðar á árinu. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson var í pólitísku viðtali á útvarpsstöðinni í þættinum á undan og því lá beinast við að fá hann til að segja nokkur orð í upphafi þáttar og spyrja hann hvaða ráðleggingar hann hefði fyrir ungu landsliðsmennina. Ekki stóð á svörum frá Helga: "Fimm ára planið!" Helgi segir að þeir séu báðir öflugir skákmenn. Vignir sé stórkostlega hæfileikaríkur skákmaður og það sé mjög erfitt að eiga við hann við skákborðið. Hilmir sé mjög hugmyndaríkur skákmaður og baráttumaður. Helgi segir það mjög jákvætt við þá báða að þeir séu að leggja á sig mikla vinnu til að ná árangri. Hann er bjartsýnn á að þeir muni verða atvinnumenn í skák og nái að finna leiðir til að lifa af skáklistinni og að þeirra sé framtíðin. Þeir Vignir Vatnar og Heimir Freyr fóru síðan um víðan völl í mjög skemmtilegu viðtali. Þeir hafa frá mörgu að segja og stefna á að mæta í framhaldsþátt í næstu viku.

  • CAD-bræðurnir (Chess After Dark) Birkir Karl Sigurðsson forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Heimkaupum og Leifur Þorsteinsson viðskiptastjóri hjá Creditinfo eru gestir Kristjáns Arnar Elíassonar að þessu sinni. Þeir eru báðir skákmenn frá barnsaldri, skákþjálfarar og hafa verið öflugir mótshaldarar undanfarið eitt og hálft ár. Þeir hafa meðal annars skipulagt og stjórnað mótum eins og Bankinn Bistro mótaröðinni þar sem há peningaverðlaun voru í boði, Íslandsmótinu í Fischer-slembiskák, Íslandsmótinu í Atskák sem haldið var á Selfossi, Arena mótaröðinni, hraðskákmóti á Ölveri í Glæsibæi og Sykursalnum. Ekki má gleyma Blush mótinu skemmtilega þar sem vinningshafar voru leystir út með miklu magni af vörum þessarar verslunar hjálpartækja ástarlífsins. Mótið gekk "smurt" fyrir sig eins og Róbert Lagerman skákstjóri hafði lofað fyrir keppni og voru pokar verðlaunahafa í lok móts stútfullir af smokkum, titrurum og gjafabréfum í verslunina.

    Hlaðvarpsþættir þeirra félaga, Chess After Dark, eru orðnir 153 að tölu og er hlaðvarpið orðið eitt stærsta og vinsælasta hlaðvarp landsins.

  • Þátturinn Við skákborðið er að þessu sinni tvöfalt lengri en vanalega. Gestir Kristjáns Arnar Elíassonar eru báðir fyrir löngu orðnir þjóðþekktir menn. Friðrik Ólafsson er fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák og var einn allra sterkasti skákmaður heims á sínum tíma. Hann er fyrrverandi forseti Alþjóðaskáksambandsins FIDE og fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis og því æðsti embættismaður þess. Guðmundur G. Þórarinsson er verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður. Hann var forseti Skáksambands Íslands þegar skákeinvígi aldarinnar var haldið í Laugardalshöll árið 1972 á milli þeirra Spasskís og Fischers.

    Efni þessa þáttar er fyrst og fremst skákin, eðli hennar og uppruni. Þróun skáklistarinnar og byltingarkenndar breytingar og kannski síðast en ekki síst þróun mannlegrar hugsunar. En hvað er skák og hvar er hún upprunnin? Kristján Örn dró sig að mestu í hlé og bað þá Friðrik og Guðmund um að taka spjall og skyggnast inní þessa hulinsheima listagyðjunnar. Í lok þáttarins syngur 7. heimsmeistarinn í skák (1957-1958), Vasily Smyslov lagið Stenka Razin (Volga, Volga) ásamt karlakórnum í Tilburg ("La Renaissance"). Skákborðið, platan og Staunton taflmennirnir á myndinni á milli þeirra Guðmundar og Friðriks er gjöf til Friðriks frá kúbanska byltingarleiðtoganum Fidel Castro eftir Ólympíuskákmótið í Havana á Kúbu árið 1966.

  • Magnús Pálmi Örnólfsson skákmeistari og hagfræðingur MBA var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar í skákþætti hans Við skákborðið á Útvarpi Sögu. Þeir félagarnir fóru um víðan völl í spjalli sínu. Nöfn eins og Katrín Jakobsdóttir, Ásgeir Jónsson, Donald Trump, Gunnar Nelson og Mugison koma við sögu og hugtök eins og vísindi, íþróttir og viðskipti.

    Þeir Magnús og Kristján fóru inn á "hættulegar brautir" þegar þeir fóru að ræða ágreiningsmál í hjónaböndum. Hvenær á til dæmis að setja uppþvottavél af stað? Er það þegar hún er hálffull eða full? Magnús hefur mjög sterkar skoðanir á því. Er hægt að semja jafntefli við fjall? Er réttlætanlegt að tefla blindskák í kennslustundum? Á þessu hefur Magnús Pálmi einnig svör á reiðum hödum.

  • Ritstjórar www.skak.is, þeir Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands og Ingvar Þór Jóhanesson FIDE meistari kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Tilgangurinn var að fara lauslega og á léttu nótunum yfir skákárið 2023, bæði hér heim og erlendis, og að reyna að skyggnast aðeins inn í framtíðina, þ.e. skákárið 2024.

    "Hvar er Ding Liren ríkjandi heimsmeistari í skák? Hann hefur ekki snert viðartaflmenn í 236 daga! Þessari spurningu ásamt mörgum öðrum er svarað í þættinum.

  • Í dag var aftur á dagskrá viðtal sem Kristján Örn Elíasson átti við Ríkharð Sveinsson formann Taflfélags Reykjavíkur 15. nóvember 2023. Ríkharður lést 20. desember s.l. eftir skammvinn veikindi aðeins 56 ára að aldri. Jarðarför hans fór fram frá Grafarvogskirkju í dag að viðstöddu fjölmenni. Til minningar um Rikka, eins og hann var gjarnan kallaður af vinum sínum, var viðtalið aftur flutt í skákþættinum á Útvarpi Sögu í dag.

    (Repost E44 from Nov 15, 2023)

  • Gestur Kristjáns Arnar í skákþættinum í dag var Omar Salama alþjóðlegur skákdómari, skákkennari og eigandi ferðaskrifstofunnar Kleopatra Tours. Omar er frá Egyptalandi en hann fæddist í borginni Alexandríu árið 1980. Þegar hann var 24 ára gamall fluttist hann til Íslands. Hann var varaforseti Skáksambands Íslands um tíma, kosinn framkvæmdastjóri Skáksambands Norðurlanda árið 2021 og sat í skákdómaranefnd Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) í 8 ár. Hann hefur gegnt fjölda starfa fyrir íslenska skákhreyfingu og fyrir alheimsskákhreyfinguna, verið vinsæll og eftirsóttur, og ferðast út um allan heim í störfum sínum. Í þættinum talar Omar um unga syni sína, Adam og Jósef, sem eru efnilegir skákmeistarar og skákstarfið á leikskólanum Laufásborg sem hann hóf fyrir nokkrum árum og margt annað áhugavert og skemmtilegt svo sem ferðalög um heimaland sitt, Egyptaland.

  • Skákmeistararnir Magnús Pálmi Örnólfsson og Sigurbjörn Björnsson voru gestir Kristjáns Arnar í skákþætti hans Við skákborðið. Umræðuefnið var Fischer Random eða chess 960 sem á íslensku hefur hlotið nafnið slembiskák. Opinberu Íslandsmóti í slembiskák lauk um helgina með sigri stórmeistarans og stigahæsta skákmanns Íslands Hjörvars Steins Grétarssonar. Sigurbjörn og Magnús Pálmi voru á meðal keppenda og stóðu sig frábærlega, komust í undanúrslit og enduðu í 3. og 4. sæti á eftir alþjóðlega meistaranum Birni Þorfinnssyni sem hafnaði í 2. sæti.

    Magnús og Sigurbjörn fóru yfir helstu reglurnar í slembiskák, töluðu um sterkasta slembiskákmót allra tíma sem haldið verður í Þýskalandi í febrúar á nýju ári. Þar munu etja kappi átta af sterkustu skákmönnum heims en þeir eru: Magnus Carlsen Noregi (2830), Fabiano Caruana Bandaríkjunum (2794), Ding Liren Kína (2780), Alireza Firouzja Frakklandi (2763), Vincent Keymer Þýskalandi (2738), Nodirbek Abdusattorov Úsbekistan (2727), Levon Aronian Bandaríkjunum (2723) og Gukesh Dommaraju Indlandi (2720). Aldeilis elo-skákstigin á ferð þarna!

    Athygli vekur þó að núverandi heimsmeistari i slembiskák, en mótið fór fram í Reykjavík 2022, Hikaru Nakamura (2788) og fyrrverandi heimsmeistari í slembiskák Wesley So (2752) eru ekki á meðal keppenda. Bandaríkjamennirnir Nakamura og So eru skráðir #3 og #8 á stigalista FIDE yfir sterkustu skákmenn heims.

    Sú nýbreyttni varð að þessu sinni að hlustendum gafst kostur á að hringja inn í þáttinn og svara nokkrum "laufléttum" skákspurningum. Í verðlaun var bókin "Einvígi allra tíma" eftir Guðmund G. Þórarinsson en hann var forseti Skáksambands Íslands þegar heimsmeistaraeinvígi Spassky og Fischer fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík árið 1972.

  • Kristján Örn Elíasson ræðir við Þorvarð Fannar Ólafsson skákmeistara og sölumann hjá Myllunni. Þorvarður bjó í Grindavík og lærði þar mannganginn ungur að árum eða þegar hann var aðeins 5 ára gamall. Í fyrstu tefldi hann aðallega í heimahúsum við ættingja og vini. Blómlegt skáklíf var í Grunnskóla Grindavíkur á þessum tíma og fljótlega varð Þorvarður meðal sterkustu skákmanna skólans. Hann varð skólameistari í skák árin 1984, 1985 og 1986. Sigurinn gaf honum þátttökurétt í Gullbringu-sýslumótinu sem Þorvarður nýtti sér með góðum árangri. Þeir félagarnir fóru um víðan völl í spjalli sínu, m.a. yfir hálfan hnöttinn þar sem þeir lentu á Filippseyjum árið 2009. Þar tók Þorvarður þátt í að kaupa borð, stóla og töfl fyrir nokkra skákáhugamenn sem stofnuðu skákfélag sem hefur vaxið og dafnað allar götur síðan. Þorvarður hefur reglulega heimsótt klúbbinn, tekið þátt í skákmótum en hann segir að hann hafi aldrei teflt við jafn marga sterka stigalausa skákmenn.

    Slóð á skákfélagið á Filippseyjum

    San Carlos-Negros Chess Club

  • Ríkharður Sveinsson formaður Taflfélags Reykjavíkur og alþjóðlegur skákdómari settist Við skákborðið að þessu sinni. Ríkharður sagði frá stofnun taflfélagsins og starfsemi þess en TR er elsta og eitt virkasta skákfélag landsins, stofnað laugardaginn 6. október 1900 og því 123 ára.

    Af vefsíðu Taflfélags Reykjavíkur:

    Upphafið að stofnun Taflfélags Reykjavíkur kom frá Danmörku eins og svo margt annað gott á þessum tíma. Þar hafði Pétur Zóphóníasson stundað nám og kynnst starfsemi danskra taflfélaga. Hann sneri nú heim sumarið 1900 og ákvað að láta á reyna hvort hægt væri að stofna taflfélag í Reykjavík. Pétur Zóphóníasson hóf nú að smala saman skákáhugamönnum í Reykjavík og leitað fyrst til móðurbróður síns, Sturlu Jónssonar kaupmanns, sem var ágætur skákmaður. Fleiri bættust í hópinn, m.a. Sigurður Jónsson fangavörður en skák var nokkuð tefld í fjölskyldu hans.

    Að lokum var ákveðið að láta „tafllista” liggja frammi á vel völdum stöðum í borginni. Nú skyldi reyna á hvort áhugi væri fyrir stofnun taflfélags í Reykjavík. Hinn 2. október 1900 rituðu forsvarsmennirnir þrír, Pétur, Sigurður og Sturla, auglýsingu og sendu í blöðin. Þar var stofnun T.R. auglýst og áhugasamir menn beðnir að mæta til skráningar.

    Stofnfundur T.R. fór fram 6. október 1900 í „húsi Jóns Sveinssonar” trésmiðs í Pósthússtræti 14b á horni Kirkjustrætis. Þar rak dóttir Sigurðar Jónssonar fangavarðar, sem varð fyrsti formaður félagsins, kaffiteríu og leyfði skákmönnum að nota aðstöðuna til skákiðkunar.


    Stofnfélagar Taflfélagsins voru 29 talsins, flestir úr „efri millistétt” en þeir voru:

    Sigurður Jónsson fangavörðurPétur Zóphóníansson gagnfræðingurSturla Jónsson kaupmaðurPétur Pétursson bæjargjaldkeriFriðrik Jónsson kaupmaðurEinar Benediktsson athafnamaður og skáldBjörn M. Ólsen rektorIndriði Einarsson assessor og skáldJakob Jónsson verslunarstjóriIngvar Pálsson kaupmaðurHelgi Helgason verslunarstjóriJúlíus Guðmundsson kaupmaðurPétur Bogason læknirSkúli Bogason læknirSturla Guðmundsson cand. phil.Sigurður Guðmundsson presturJens Waage bankastjóriÁgúst Sigurðsson prentariPétur G. Guðmundsson prentiðnmaðurÓlafur Björnsson ritstjóriSigurjón Jónsson framkvæmdastjóriÞórður Sveinsson læknirBaldur Sveinsson blaðamaðurMagnús Magnússon skipstjóriLudvig Andersen heildsaliog fjórir aðrir

    Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirfarandi:

    Sigurður Jónsson formaðurSturla Jónsson gjaldkeriPétur Zóphóníasson ritari
  • Að þessu sinni settist Við skákborðið hjá Kristjáni Erni Elíassyni Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla. Helgi segir að hann hafi fyrst og fremst tengst skákinni í gegnum skólastarf og þá mest eftir að hann tók við starfi skólastjóra við Rimaskóla sem hann gengdi í 26 ár en skólinn var stofnaður árið 1993. Á tíu ára afmæli skólans árið 2003 urðu skáksveitir skólans Íslandsmeistarar bæði í stúlknaflokki og opnum flokki en Helgi segir að skólinn hafi verið með skákstarf frá upphafi og þá aðallega í gegnum tómstundastarf hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur (ÍTR). Afraksturinn kom því fljótlega í ljós en á fyrsta borði tefldi Hjörvar Steinn Grétarsson, nú stigahæsti skákmaður landsins, þá aðeins 9 ára gamall. Sigurbjörn Björnsson FIDE meistari og liðsmaður skáksveitar Fjölnis í efstu deild á Íslandsmóti skákfélaga kom svo símleiðis inn í miðjan þáttinn og ræddi við þá Helga og Kristján Örn. Umræðuefnið var meða annars fjölmennt, skemmtilegt og sterkt tveggja daga atskákmót taflfélaga sem lauk í Taflfélagi Reykjavíkur í gærkvöldi með sigri Víkingaklúbbsins og Íslandsmót skákfélaga en skáksveit Fjölnis trjónir þar nú eitt liða á toppnum með fullt hús stiga eftir að fyrri hluta keppninnar hefur farið fram. Ljóst er að baráttan um Íslandsmeistaratitilinn verður á milli skákdeildar Fjölnis, Taflfélags Reykjavíur og Víkingaklúbbsins en síðari hluti keppninnar verður tefldur dagana 29. febrúar til 3. mars á næsta ári.

  • Helgi Áss Grétarsson stórmeistari og fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar að þessu sinni. Margt hefur drifið á daga íslenskra skákmanna að undanförnu og margt spennandi er á dagskrá næstu vikurnar sem þeir Helgi og Kristján Örn fóru yfir í þættinum.

    Má þar nefna að í dag hefði Hrafn Jökulsson rithöfundur, blaðamaður og skákfrömuður orðið 58 ára gamall en hann lést á síðasta ári. Vinaskákfélagið heldur glæsilegt hraðskákmót að Aflagranda 40 í Reykjavík síðar í dag til minningar um Hrafn og hafa flestir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar sem eru á landinu boðað þátttöku sína. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, mun leika fyrsta leikinn fyrir Hjörvar Stein Grétarsson stórmeistara á efsta borði.

    Helgi sagði frá athyglisverðri og stórskemmtilegri grein sem hann skrifaði í síðasta tölublað Tímaritsins Skák sem hann kallar "5 ára planið" með undirfyrirsögninni "Reynslusaga miðaldra stórmeistara af endurkomu í skákheiminn". Í lok greinarinnar segir hann að aðalatriðið sé að vinna í að bæta ákvarðanir sínar og finna leiðir til að skapa erfiðleika fyrir andstæðinginn, að taka skynsamlegar ákvarðanir. Á þann hátt sé líklegast að maður hámarki árangur sinn á hverjum tíma.

    Annað sem þeir félagar ræddu var staðan á Íslandsmóti skákfélaga 2023-2024 sem nú er hálfnað, frábæran árangur Birkis Hallmundarsonar á HM í flokki 10 ára barna og yngri, nýlokinni sterkri mótaröð Bistro-banka í Mosfellsbæ þar sem peningaverðlaun voru ein milljón króna á glæsilegu lokamóti, Uppsala unglingamótið, Hannes Hlífar á HM 50 ára og eldri, Ofurmótið á eyjunni Mön, EM landsliða sem er fram undan og margt fleira áhugavert og skemmtilegt.