Episódios
-
Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu og Elísabet Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur hjá Barna og fjölskyldustofu spjölluðu í þættinum við Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Önnu Mjöll Guðmundsdóttur frá Fyrstu fimm - hagsmunafélagi foreldra og fagaðila um barnvænna samfélag.
„Hvað á að gera þegar barn byrjar að eiga í vanda?“ er meðal þess sem Barna- og fjölskyldustofa einblínir á að leysa úr. Unnið er hörðum höndum að því að skapa vettvang þar sem tengiliður barns í nærumhverfi þess geti leyst úr vanda barnsins með samvinnu við foreldra og eftir atvikum annarra fagaðila með íhlutun eins fljótt og verða má. Stefnan með farsældarlögunum er að taka snemma á málunum og láta hlutina, sem hefur svo lengi verið talað um að þurfi að gera, gerast.
Nú þegar er byrjað að útskrifa fjölmarga tengiliði farsældar í sérstöku viðbótardiplómanámi hjá HÍ og styrkja þá í komandi hlutverki. Hins vegar er fyrirséð að innleiðingin, sem nú er á öðru ári, muni taka tíma en kappkostað er við að innleiða stefnuna sem hraðast því það er gríðarlegur sálfræðilegur, efnahagslegur og samfélagslegur kostnaður sem hlýst af vanlíðan barns sem ekki fær tilhlýðilegan stuðning og aðstoð.
Margt hefur breyst við tilkomu nýrrar stofnunar Barna- og fjölskyldustofu þar sem farsældarlögin eru rauði þráðurinn og samkvæmt Páli og Elísabetu felst það aðallega í því að stofnunin hefur beinna og skýrara þjónustuhlutverk við samfélagið.
Það var því ákaflega áhugavert að heyra Elísabetu og Pál segja okkur frá starfi sínu og gott að heyra að þar fer fólk sem er samhljóma okkur í þessu hlaðvarpi almennt og vill gera kröfu um virðingarríka framkomu við börn, stuðning við þau og foreldra þeirra um leið og vandi byrjar og gerir sér jafnframt grein fyrir að margt er enn óunnið og verður það sjálfsagt alltaf en að það er ekki afsökun fyrir að gera ekki okkar besta fyrir börn og fjölskyldur þeirra. -
Marta Birna Baldursdóttir er einstæð móðir og sérfræðingur og verkefnisstýra í kynjaðri fjárlagagerð í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hún spjallar hér við Guðrúnu Ingu Torfadóttur vítt og breitt um foreldrahlutverkið og upplifun sína við að afla sér þekkingar á því sviði, sem og hvernig er að vera í fullu starfi og halda öllum boltum á lofti sem einstætt foreldri með litla aðstoð.
Þá bregður á góma jafnframt hvort rétt sé að stefna á einhvers konar heimgreiðslur til foreldra með gleraugum kynjaðrar fjárlagagerðar til að leysa leikskólavandann, hvernig upplifun hennar er í vinnunni af því að vinna í teymi sem styður við hvert annað í foreldrahlutverkinu og hvernig hún hefur stutt við umgengni barnsföður síns við barnið þeirra með góðum árangri.
Frábær þáttur að venju! -
Estão a faltar episódios?
-
Í þættinum fáum við að heyra sögu Huldu Margrétar Brynjarsdóttur í spjalli hennar við Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Hulda fer með miðilinn Leið að uppeldi og segir okkur frá því þegar hún kynntist uppeldisstefnunni RIE, hvaða bækur hún las fyrst, námskeið hennar hjá RIE Institute með Ruth Ann Hammond sem kennara og almennt um hvernig henni hefur fundist eftir að hún fluttist til Íslands og hóf störf í leikskóla eftir þriggja ára búsetu í Noregi. Hvað er það sem stendur upp úr að hennar mati fyrir íslenska foreldra að tileinka sér betur? Orðið er þriggja stafa, sem við höfum almennt ekki tamið okkur að nota mikið í þessu hlaðvarpi: AGI. Oft höfum við fjallað um það sem við nefnum mörk – en eftir þetta spjall er hugtakið agi mögulega komið aftur inn í orðaforðann.
Bækur sem eru nefndar eru:
· Unfolding of Infants’ Natural Gross Motor Development, RIE Institute
· The Conscious Parent eftir dr. Shefali Tsabary
· Respecting Babies eftir Ruth Ann Hammond
og loks er minnst á fjórar tegundir uppeldisaðferða samkvæmt Diönu Baumrind. -
Tryggvi Hjaltason er duglegur að tjá sig um málefni barna og stöðuna í menntakerfinu og er sjálfur fjögurra barna faðir á aldrinum eins til tólf ára. Hann er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP og er þeim eiginleikum gæddur að hann dýfir sér djúpt ofan í málefnin sem vekja áhuga hans.
Guðrún Inga Torfadóttir ræddi við hann um sýn hans á uppeldið, hlutverk hans sem uppalanda og maka, hvernig hann hefur þroskast í hlutverkinu, hvaðan innblásturinn hans kemur hvað það varðar og stöðuna í dag hjá drengjum sem og varðandi skjánotkun barna.
Frábært spjall í þessum áttugasta þætti okkar! -
Perla Hafþórsdóttir heimsótti reynsluboltann, fag- og ástríðukonuna fyrir velferð barna, Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur, Öddu, og fékk að eiga við hana samtal um ævistarfið og þau tól og tæki sem hún hefur þróað í starfi sínum með börnum.
Adda heldur utan um kennslu í forvörnum um ofbeldi fyrir börn, foreldra og kennara ásamt því að ræða um heilbrigð samskipti og kenna börnum að vera læs á tilfinningar sínar á stofu sinni.
Fræðsluátakið kallast Samtalið - fræðsla ekki hræðsla. Hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2000 og hefur allar götur síðan unnið að forvörnum í ofbeldismálum fyrir börn. Í námskeiðs- og fræðslupakkanum sem farið er með inn í skóla og leikskóla er unnið að aðgerðaráætlun og áætlun um hvernig eigi að bregðast við ef grunur um ofbeldi vaknar. Fræðslan miðar að því að kenna fólki að þekkja merkin og auka meðvitund um ofbeldi.
Lausnarhringurinn varð síðan til þegar hún starfaði í leikskólanum Brákarborg. Hún var með elstu börnin sem áttu erfitt að finna taktinn saman þar til Arnrún beindi kröftum þeirra sameiginlega að því að finna lausnir og geta unnið betur saman. Lausnarhringurinn er verkfæri með sjö gildum eða reglum sem aðstoða börn við að leita lausna í samskiptum. Börnin tóku því virkan þátt í gerð Lausnarhringsins ásamt fleira starfsfólki og það er lykillinn að því að hann virkar jafn vel og hann gerir.
Þetta er því sérdeilis frábær þáttur fyrir foreldra jafnt sem fagfólk. Njótið vel. -
Eftir gríðarlega neikvæðar fréttir að undanförnu um líðan barna, eineltismál, frásagnir af ofbeldi og með menntamálin í deiglunni töldum við rétt að taka aðeins púlsinn hjá tveimur frábærum sem vita talsvert um hlutina.
Anna Rakel Aðalsteinsdóttir, félagsfræðingur og sáttamiðlari hjá Foreldrahúsi og Sólveig María Svavarsdóttir, heimakennari, unnu eitt sinn saman í grunnskóla. Þær hafa báðar gríðarmikla reynslu að baki að því að vinna með börnum, horfa á kerfið innan og utan frá, ala upp sín eigin börn og ala sig upp sjálfar aftur í leiðinni. Það var frábært að fá þær í opið spjall og barst talið m.a. að:
- Hvert er hlutverk foreldra?
- Hvernig setjum við mörk?
- Hvert er skólasamfélagið að stefna?
- Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru og hvernig getum við reynt að hreyfa þessa stóru skútu í átt til breytinga?
Frábært og hugvekjandi spjall sem ég vona að við höfum öll gott af.
Upptöku stjórnaði Guðrún Inga Torfadóttir en hún vitnaði nokkrum sinnum í nýja bók dr. Becky, Good Inside. Mælum með henni! -
Í þættinum fékk Árni Kristjánsson til sín Unu Emilsdóttur, sérnámslækni í umhverfislæknisfræði, til að ræða um heilsuspillandi efni í nærumhverfi okkar og hvernig aukin þekking á skaðsemi þessara efna getur aukið sjálfstraust í foreldrahlutverkinu og stuðlað að virðingu í uppeldi. Una er brautryðjandi hér á landi í vitundarvakningu um áhrif efnanotkunar á heilsu okkar. Hún er jafnframt tveggja barna móðir ungra barna.
Börn, sérstaklega á meðgöngu og hin fyrstu árin, eru með vanþróaðra hreinsikerfi en við fullorðna fólkið. Nýru og lifur eru ekki eins öflug hreinsunarlíffæri fyrstu árin mælast því ákveðin eiturefni í blóði barna oft mun hærra en hjá fullorðnu fólki - sem þó hefur farið í gegnum lífsskeiðið syndandi í alls kyns efnasúpum. Börn eru líka á meðan þau eru skríðandi, gjörn á að taka þar með sér ryk - en eiturefni eru einmitt mjög gjörn á að loða við ryk. Þá er fylgjan ekki eins mikill skjöldur og við upphaflega héldum. Eins er hormónakerfið og ónæmiskerfið enn ekki fyllilega þróað á þessum viðkvæmu fyrstu árum. Börn eru að mynda mikilvægar taugabrautir á þessum tíma, styrkja einar og tengja saman hinar, osfrv. En áhrif umhverfis koma ekki nauðsynlega fram fyrr en jafnvel löngu seinna á lífsskeiði barna, og því erfitt fyrir foreldra að tengja þetta beint.
Það er ennþá svo margt sem við getum gert og margt sem við getum ráðið við að gera, til að reyna allt hvað við getum til að vernda meðgönguna og þess vegna er þetta umræðuefni svona mikilvægur þáttur í virðingu í uppeldi. -
Kristín Björg Viggósdóttir fékk þau Viðar Halldórsson og Guðlaugu Ingibjörgu Þorsteinsdóttur í spjall um tilgang íþróttaiðkunar fyrir börn. Þau ræddu aðgengi barna að íþróttum og hvernig íþróttir gætu verið meira á forsendum barnanna frekar en á forsendum íþróttagreina. Til að mynda hefur sýnt sig að börn innflytjenda taka síður þátt í íþróttum og stelpur síður en strákar. Einnig getur verið flókið fyrir börn með tvö lögheimili að stunda íþróttir. Þá ræddu þau um mismunandi styrkleika barna, hversu óþarft og skaðlegt það getur verið að umbuna eða veita börnum á yngri árum verðlaun fyrir afrek í íþróttum. Hvernig getum við foreldrar sýnt góð og styðjandi viðbrögð við frammistöðu barnsins í íþróttum? Mikilvægt sé að ræða við börnin um hvernig þeim leið í keppni. Að lokum var rætt um skólasund og skólaíþróttir og hvað mætti betur fara þar.
Viðar Halldórsson er prófessor í félagsfræði og hefur einnig starfað sem ráðgjafi fyrir mörg af bestu íþróttaliðum landsins. Viðar hefur rannsakað og skrifað um félagslegar forsendur árangurs. Viðar hefur látið til sín taka í umræðu um afreksvæðingu íþrótta á Íslandi en til eru margar greinar eftir hann og viðtöl við hann. Nýlega skrifaði Viðar bók um stemningu og liðsheild í íþróttum fyrir breska útgáfufyrirtækið Routledge. Bókin heitir Sport in Iceland: How small nations achieve international success og er meðal annars til á Amazon.
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir íþrótta- og lýðheilsufræðingur starfar hjá geðheilsuteymi Höfuðborgarsvæðisins. Guðlaug spilaði lengi íshokkí og var íþróttastjóri og þjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Að auki hefur Guðlaug þjálfað börn og fullorðna í íþróttum og heilsurækt. Þess má geta að Guðlaug er fyrrum nemandi Viðars úr íþróttafræði í HR. -
Til Guðrúnar Ingu mættu þær Una Guðrún Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskólastigs og grunnskólakennari sem sérhæft hefur sig í kennsluaðferðum í lestri – en ekki síst fjögurra barna móðir - og Þórey Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri leikskólastigs og tveggja barna móðir og reynslubolti í aðlögun og alls konar tengdu leikskólanum í Urriðaholtsskóla.
Þær þrjár ræddu allt og ekkert sem tengist því að byrja í leikskólanum og grunnskólanum. Lestrarnám bar auðvitað líka á góma sem og ýmislegt annað.
Dúndur hugvekja fyrir nýtt leikskóla- og skólaár. -
María Rún Bjarnadóttir er doktor í lögfræði og móðir og hefur haft stefnumarkandi áhrif á hvernig tekið er á stafrænum kynferðisbrotamálum hér á landi hin síðustu ár. Hún þekkir málaflokkinn sömuleiðis vel vegna núverandi starfa sinna hjá ríkislögreglustjóra sem verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá ríkislögreglustjóra.
Þær Guðrún Inga Torfadóttir nutu þess afskaplega vel að leyfa umræðunni að fara út um allar trissur og bera saman bækur sínar hvað viðkemur stafrænu uppeldi barna, fræðslu til þeirra og eftirlit með þeim, fyrirmyndir og mörk. Þær ræddu m.a. um hvernig er hægt að styðja við örugga netnotkun barns og hvenær rétti aldurinn er til að gefa barni snjalltæki, leiðir til að barnið njóti stuðnings og tengsla við foreldri sitt lengi framan af en sé á sama tíma leyft að njóta frelsis og réttinda sinna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Mögulega er kjarni spjallsins alls að setja okkur vel inn í stafrænan veruleika barna - sem hefur runnið saman við hinn efnislega heim þeirra - með því að kynna okkur hin mismunandi öpp og leiki og taka virkan þátt á þessu sviði með barninu eftir að við höfum seinkað stafrænu ferðalagi þeirra sem mest við megum og gefið þeim ítarlega fræðslu. Á sama tíma beri okkur að forðast að hafa með höndum sérstakt eftirlit til dæmis um hvar barn er statt hverju sinni heldur treysta því - og þeim mun meira eftir hækkandi aldri þeirra.
Minnst var á:
̶ Soniu Livingstone, prófessor við London School of Economics sem hefur haft með höndum rannsóknir á m.a. hvernig er að alast upp sem barn á stafrænni öld.
̶ Bókin Delete eftir Viktor Mayer-Schönberger.
̶ Bókin Hold On To Your Kids eftir dr. Gabor Maté og dr. Gordon Neufeld.
̶ RIE-uppeldisstefnu Mögdu Gerber og dr. Emmi Pikler.
̶ Robin Einzig og Visible Child.
̶ „Farsældarlögin“, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.
Að lokum hvetjum við ykkur til að heimsækja vefsíðurnar 112.is/netoryggi og 112.is/ofbeldi/oryggi-i-netsamskiptum-barna -
Guðrún Björnsdóttir, doula og einingastýra hjá barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði, tók þau Davíð Alexander Östergaard, sem er í MA-gráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, og Ragnheiði Láru fjölskylduráðgjafa tali um samvinnu foreldra eftir skilnað. Ragnheiður stofnaði ráðgjafarþjónustuna Tvö Heimili árið 2019 og hefur langa reynslu sem ráðgjafi á þessu sviði hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Bæði hafa þau líka persónulega reynslu af skilnuðum og samstarfi eftir skilnað og eru vottaðir SES-skilnaðarráðgjafar.
„Það sem ég var að sjá hjá sýslumanni í sáttameðferðinni var að það kannski byrjar einhver ágreiningur fyrir tveimur árum síðan af því að kannski annað er vegan og hinn ekki og barnið borðaði pizzu með pepperoni á öðrum staðnum… það er komin spenna og komin vanlíðan og það er farið að speglast yfir til barnsins og allt í einu eru foreldrar farnir í eitthvað stjórnsýslumál, það þarf að breyta umgengni, forsjá eða lögheimili eða einhverju, þegar vandinn var einhverjir samskiptaerfiðleikar fyrir löngu síðan…“ segir Ragnheiður.
„Það ættu allir með vinnu og pælingum og þankagangi og smá ígrundun, þá ættu allir í raun og veru í hið minnsta geta komið fram við barnsforeldri bara eins og vinnufélaga. Bara hlutlaus samskipti,“ segir Davíð.
„Barnið þarf að virkjast í því að rödd þeirra sé heyrð, að þau hafi áhrif á dýnamíkina og þannig er auðveldara að mæta þörfum þeirra,“ segir Davíð.
„Ég er búin að tala við hundruði barna í þessum málum frá því ég fór að vinna í þeim og svo langoftast er þeirra draumsýn að mamma og pabbi væru bara saman. Þau hafa alltaf þörfina fyrir að þau væru einhvers staðar eining. Það er ekkert hægt að bregðast við því og taka aftur saman en það er þá hægt að mæta þessum þörfum barnsins og vera stundum saman með barninu,“ segir Ragnheiður.
Þetta er frábær þáttur og yfirferð yfir þetta mikilvæga málefni hjá þeim Davíð og Ragnheiði.
Það er margt í mörgu hvað viðkemur þessu málefni og við munum taka þetta aftur fyrir síðar enda skemmtu þau sér stórvel að ræða þetta málefni saman, ef það er þá hægt að skemmta sér yfir jafn alvarlegu málefni.
Við fjölluðum jafnframt um sambandsslit með Siggu Dögg kynfræðingi og Soffíu Bærings félagsráðgjafa í 45. þætti ef þú vilt heyra meira strax. -
Í þessum þætti ræðir Gyða Björg Sigurðardóttir við þrjár konur, þær Karen Lind Gunnarsdóttur, sálfræðing hjá Þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar, Gró Einarsdóttur, doktor í félagssálfræði, og Emblu Vigfúsdóttur, listrænan leikjahönnuð.
Þær starfa í teymi sem vinnur að verkefninu „Betri borgar fyrir börn“ sem unnið er í samstarfi milli þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies. Verkefnið felur í sér þjónustuumbreytingu á opinberri þjónustu við börn af hálfu borgarinnar. Á Hönnunarmars var sett upp sýning í Hörpunni þar sem afrakstur rannsóknarvinnunnar var sýnd á listrænan, áþreifanlegan og sjónrænan máta. Við fjöllum um rannsóknaraðferðir, þær áskoranir sem helst komu upp á yfirborðið og hvernig nýta mætti listina til að miðla og túlka þjónustuferli og upplifun fólks. Vonir eru bundnar við að þetta verkefni muni leiða til bættrar þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra til að hjálpa þeim sem lenda í krókaleiðum í kúluspili lífsins. -
Í þessum þætti settust þær Stefanía Rut Hansdóttir og Alexandra Kjeld niður með Guðrúnu Ingu og sögðu henni allt af létta um textíliðnaðinn og sjónarmið um umhverfisvernd með ýmsum leiðum - s.s. með ungbarnafataleigu og endurnýtingu en ekki síst kaupum á umhverfisvænum textíl.
Eftir um 30 mínútna spjall um það var sjónum vikið að öðrum áhugamálum þeirra og Guðrúnar Ingu um foreldrakulnun, að ala sig upp aftur, að ala upp börn með þekkingu um taugakerfið og svo framvegis.
Frábært, létt spjall sem kemur okkur mjúkum inn í páskaleyfið.
Gleðilega páska! -
Guðmundur Ingi Þorvaldsson ræðir hér við Árna Kristjánsson um hvernig var að alast upp sem drengur í sveitinni sinni og verða síðan faðir fremur seint á lífsleiðinni. Umhverfið þá gjörólíkt og væntingar og hugmyndir um hlutverk feðra allt annað en áður var. Verandi faðir tveggja drengja hefur hann hugsað sig í gegnum ýmislegt sem varðar uppeldi stráka. Hann segir okkur einnig frá viðhorfum sínum til skjánotkunar og uppeldis barna eftir að hafa unnið að heimildarmynd um efnið – og hvernig hann forgangsraðar fjölskyldulífinu umfram svo margt annað sem gæti verið spennandi.
Frábært spjall á ferð hér hjá þeim tveimur Guðmundi og Árna. Bestu þakkir. -
Heimsækjum aðeins orð Robin Einzig, stofnanda Visible Child: „Visible Child styður ekki að börn séu sett í skipulagða tíma eða tómstundir þar til þau hafa náð um 7 ára aldri – og þá aðeins að þeirra eigin beiðni og á máta sem býður upp á frjálsa aðferð og sem helst felur ekki í sér skuldbindingu í lengri tíma svo þau geti hætt eða byrjað hvenær sem þeim langar.“
En hvernig líður þá 7 og 8 ára gömlum stúlkum sem um þessar mundir hoppa upp á svið og halda heilu leiksýningunum uppi nánast stundum oft í viku? Þær geta ekki hætt þegar þeim hentar eða þegar þetta verður leiðigjarnt – heldur hafa skuldbundið sig á unga aldri í vinnu með fullorðnu fagfólki á sviði leiklistar. Er þetta bara eðlilegt?
Þær Guðrún Inga Torfadóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir áttu samtal við Þórunni Obbu Gunnarsdóttur, sem leikur Ídu í Emil í Kattholti sem sýnt er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir fyrir fullu húsi, og Nínu Sólrúnu Tamimi, dóttur Guðrúnar Ingu, sem leikur hana Eyju í leikverki sem gert hefur verið eftir bækur Bergrúnar Írisar og sett upp í Gaflaraleikhúsinu og nefnist Langelstur að eilífu.
Við höfum ekki áður tekið viðtöl við börn í þessu hlaðvarpi – en mögulega er það fyrirtaks efni fyrir bæði okkur sem eldri erum og einnig önnur börn. Við mælum því með þessari hlustun fyrir allan aldur fyrstu rúmu 20 mínútur þáttarins.
Við tók hann Ásgrímur Geir Logason með þeim Bergrúnu Írisi og Guðrúnu Ingu – að fjalla um leiklist og uppeldi og hvernig þetta tvennt getur stutt hvort annað. Grunnregla þessa hlaðvarps að hlátrasköll heyrist helst ekki eru þverbrotin – enda eiga reglur ekki vel við okkur. En hvað geta grunnreglur í spuna t.d. kennt okkur um uppeldi? Ási, Bergrún og Guðrún spjölluðu fram og tilbaka hratt og í þvílíku flæði að varla er hægt að ýta á pásu. Þetta er greinilega eitthvað sem þau hafa smá áhuga á. Og við hin fáum að njóta og grípa ef til vill eitt og annað inn í hversdaginn með börnunum okkar. -
Bryndís Jóna Jónsdóttir átti frábært núvitundarspjall við þrjár okkar úr hópi Meðvitaðra foreldra sem jafnframt eru eða hafa verið nemendur hennar hjá Háskóla Íslands, þar sem hún starfar sem aðjúnkt. Bryndís er jafnframt núvitundarkennari hjá Núvitundarsetrinu, með MA diplóma í jákvæðri sálfræði, MA í náms- og starfsráðgjöf og B.Ed. í grunnskólafræðum með áherslu á íþróttir og heilsu. Þá er hún viðurkenndur núvitundarkennari frá Breathworks samtökunum í Bretlandi og með kennaraþjálfun í núvitund frá Bangor University í Wales og hefur skrifað námsefni í núvitund fyrir börn og unglinga auk þess sem hún hefur stýrt innleiðingu og þróun kennslu í núvitund og jákvæðri menntun í Flensborgarskólanum.
Bók hennar, Núvitund í dagsins önn, er aðgengileg á Storytel og aftast í henni er æfingasafn. Hún er einnig með heimasíðuna núvitundarsetur.is sem er með talsvert af núvitundaræfingum.
Með henni voru þær Elsa Borg, Kristín Björg Viggósdóttir og Perla Hafþórsdóttir.
„…sá sem ætlar að sýna öðrum samkennd þarf alltaf að byrja á því að þjálfa sig í að sýna sjálfum sér samkennd.“ -
Í dag höggvum við á hnútinn og ljúkum loks umfjöllun okkar um hina frábæru bók dr. Monu Delahooke Beyond Behaviors.
Til þess að gefa meira fyrir hlustendur að melta og sofna ekki endanlega yfir sefandi rödd Guðrúnar Ingu ákváðum við að klippa inn bestu augnablik úr fjarbókaklúbbi Virðingar í uppeldi. Þátttakendur sem hljóma í þættinum eru þær Anna Mjöll Guðmundsdóttir , Ágústa Margrét Arnardóttir, Halldóra Mark, Kristín Björg Viggósdóttir, Laufey Ósk, Margrét Thelma Líndal og Perla Hafþórsdóttir.
5:40 Um sögu barnsins og hvaða hegðun það er að sýna.
14:45 Um skynfærin og notkun þeirra til að róa líkama sinn.
29:15 Um hegðun barna með einhverfu og taugafjölbreytileika
41:00 Að styðja við börn sem hafa orðið fyrir áföllum
1:02:00 Framtíðarsýnin -
Í þessum fyrsta þætti Virðingar í uppeldi í umsjón Árna Kristjánssonar kynnumst við Waldorf-skólanum á Íslandi örlítið með spjalli hans við Waldorfkennarana Martein Teit Kristjánsson og Ingibjörgu Jónu Sigurðardóttur, sem bæði eru reynslumiklir kennarar í Waldorf-stefnunni og hafa jafnframt alið upp börn sín eftir gildum hennar.
Stefna Waldorfskólans byggir á heimspeki og heildrænum lífskenningum Rudolfs Steiner. Í stuttu máli snýst stefnan um að allt skólastarfið byggi á jafnvægi og kærleik, hvort sem litið er til litavals á veggjum, reglum um fatnað eða einstaklingsmiðaðri kennslu.
Waldorf-stefnan hefur á margan hátt samhljóm með því sem við ræðum almennt um hér í hlaðvarpinu og skemmtilegt er að heyra hvernig kennarar og foreldrar með mikla reynslu af stefnunni sjá hana sem mjúka leiðsögn utan um ryþma fjölskyldulífs og samskipti við börn en ekki sem harðlínustefnu sem fylgja beri í einu og öllu. Þá ræddu þau þrjú um hvernig Waldorf nálgunin tengist skjánotkun, matarinnkaupum og virðingu fyrir umhverfinu. -
Þau Árni Kristjánsson og Harpa Fönn Sigurjónsdóttir fara hér yfir barnæskur sínar með Guðrúnu Ingu og setja í samhengi við hvernig þau mættu til leiks sem foreldrar. Þau ræða um mikilvægi ömmu og afa og tengslamyndunar þeirra við börnin og einnig hvernig við getum reynt að fá þau til liðs við okkur í að gera hlutina af virðingu. Þau ræða áfall sem þau urðu fyrir skömmu eftir að hafa orðið foreldrar og úrvinnslu þess. Það kom þeim alvarlega af stað í að endurhugsa og skoða allt umhverfi fjölskyldunnar og hvernig þau vildu haga lífi sínu sem uppalendur og hjón og í starfi sínu sem listamenn og alls konar. Ekki síður hefur það haft áhrif á Árna sem og Hörpu að taka þátt í starfi Fyrstu fimm hagsmunafélags og þau leyfa sér að tala opinskátt um hvað það er sem virkilega má skipta máli þegar kemur að samfélagsgerðinni og umgjörð okkar um börnin.
Í stuttu máli:
Magnað spjall við heiðursfólk um allt sem snýr að umgjörð fjölskyldunnar – mælum virkilega með að halla sér aftur og njóta þess að hlusta. -
Í þessum frábæra þætti í umfjöllun Bókaklúbbs Meðvitaðra foreldra um bókina Handan hegðunar eftir dr. Monu Delahooke fékk Guðrún Inga Torfadóttir þær Önnu Mjöll Guðmundsdóttur, Margréti Thelmu Líndal og Sólveigu Rós til þess að lesa með sér yfir ítarlegan útdrátt úr fyrri hluta bókarinnar. Saman stöldruðu þær af og til við og leyfðu sér að velta upp ýmsum hugleiðingum um efnið.
Bókin Handan hegðunar, eða Beyond Behaviors á frummálinu, kom út í mars á árinu 2019 og vekur sífellt meiri athygli í fræðasamfélaginu sem og hjá foreldrum og umönnunaraðilum sem aðhyllast virðingarríkt uppeldi.
Í bókinni byggir klíníski sálfræðingurinn Mona á 30 ára reynslu sinni og rannsóknum til að útskýra aðferðafræði sína þegar hún mætir börnum með krefjandi hegðun. Hún samþættir hugmyndir sínar byggðar á Polyvagal-kenningu dr. Stephen Porges, rannsóknum um þroskaferli barna, leik þeirra og skynfærum til að finna út hvers vegna vandi barna birtist í hegðunaráskorunum.
Í stað þess að nálgast hvert barn í anda þess að breyta þurfi hegðun – sem sé nálgun sem líti niður á börn – þá hvetur Mona fullorðna til að byrja á því að tengjast og skilja barnið.
Bókin er praktísk, nákvæm, aðgengileg og stútfull af reynslusögum og í þessum fyrsta hluta brunum við yfir fyrri helming bókarinnar.
Eins og segir í Journal of the American Academy of Child & Adolescent Psychiatry nýtist bókin vel fyrir fræðimenn og sálfræðinga á miðjum eða enda ferils síns, til þess að uppfæra þekkingu sína og skilja hugmyndir sem hafa sprottið fram síðustu tíu til 20 árin, s.s. um polyvagal kenninguna og taugafjölbreytni.
Hjálpið okkur að dreifa þessari umfjöllun okkar sem víðast! - Mostrar mais