Episódios

 • Sálgreinirinn og rithöfundurinn Sæunn Kjartansdóttir er ein helsta hugsjónarmanneskja eldri kynslóðarinnar um virðingarríkt og tengslavænt uppeldi. Perla Hafþórsdóttir tók á móti henni í litla eldhúsið sitt í spjall um helstu hugðarefni Sæunnar, sem hún hefur verið mikilvirk við að setja í orð og birta á prenti hingað til.

  Bækur hennar Fyrstu 1000 dagarnir, Árin sem enginn man, Hvað gengur fólki til? og nú síðast bók hennar um eigin uppeldisár, Óstýriláta mamma mín... og ég, eru allar frábærar og sumar hverjar hafa komið foreldrum af stað í virðingarríkt uppeldi. Foreldrar hafa þannig lagt enn betur að sér fyrstu æviár barns að huga að því sem öllu máli skiptir; tengslunum við litla barnið, eftir að hafa lesið bækur hennar og það er ekki lítil gjöf til yngstu borgaranna okkar.

  Sæunn Kjartansdóttir er í dag starfandi hjá Miðstöð foreldra og barna sbr. fyrstutengsl.is en teymið hennar tekur á móti fjölskyldum barna yngri en fimm ára gegn tilvísunum. Úrræðið verður smátt og smátt stærra og öflugra því mikil þörf er fyrir hendi til að styðja betur við barnafjölskyldur.

  Annars fór spjall þeirra Perlu og Sæunnar um víðan völl:
  Allt frá umræðum um fyrstu tengsl, um mörk og að halda rými fyrir tilfinningar barnanna, svefn barna, greiningar barna, nauðsyn fyrir þekkingu leikskólastarfsfólks á tengslauppeldi, forgangsröðun fjármuna í þágu góðrar umönnunar ungra barna og þá t.d. til að efla foreldrana og styðja. Þá ræða þær stuttlega svefn ungbarna og sambönd foreldranna.

  Mælum með þessu frábæra þætti og bjóðum Sæunni nú þegar til okkar aftur síðar.

 • Þrír meðlimir úr stjórn Fyrstu fimm mættu til Guðrúnar Ingu Torfadóttur að ræða um þau sjónarmið sem leiddu þau saman og liggja að baki áherslumálum hagsmunafélagsins.

  Þau Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Matthías Ólafsson og Ólafur Grétar Gunnarsson eru öll í stjórn Fyrstu fimm og eru, eins og aðrir í stjórninni, blanda af fagfólki og foreldrum með reynslu af virðingarríku uppeldi. Þau hafa öll ástríðu fyrir að skapa hér á landi fjölskylduvænna samfélag og að bæta verulega stöðu Íslands þegar kemur að forgangsröðun í þágu barna, að auka virðingu fyrir og slá helgi yfir okkar yngsta og viðkvæmasta hóp og foreldra þeirra frá getnaði og þar til grunnskólaárin taka við.

  Við heyrum af áherslumálum félagsins um aukið val fyrir fjölskyldur t.d. hvað varðar lækkað starfshlutfall, meðgönguorlof, lengingu fæðingarorlofs og umönnunarorlof fyrir maka eftir fæðingu barns, betri aðstæður í leikskólum og mikilvægi foreldrafræðslu svo eitthvað sé nefnt. Við heyrum einnig Ólaf Grétar og Matthías lýsa mikilvægi þess að feður taki jafnan þátt í umönnun barna sinna og hver þeirra persónuleg reynsla og þroski hefur verið af því.

  Á heimasíðunni fyrstufimm.is geturðu kynnt þér áherslumál þeirra nákvæmar og skrifað undir áköll félagsins og á Facebook-síðu Fyrstu fimm geturðu tekið þátt í umræðum hópsins.

  Við mælum með þessum þætti innilega fyrir alla sem hafa áhuga á málefninu.

 • Estão a faltar episódios?

  Clique aqui para atualizar o feed.

 • Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í Félagsráðgjöf og stofnandi Tengsla meðferðarþjónustu fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur, var viðmælandi Kristínar Bjargar Viggósdóttur í þessum 52. þætti. Sigrún er reynslubolti á sínu sviði og hefur haft mikil áhrif á málefni barna og fjölskyldna á Íslandi síðastliðna áratugi. Hún hefur meðal annars haft áhrif á að foreldraviðtöl séu haldin í leikskólum og hvernig þeim skuli háttað, haldið námskeið fyrir stjúpforeldra, kennt mörgum háskólastúdentum, skrifað margar bækur og greinar og margt margt fleira.
  Ein sú bók sem Sigrún skrifaði ásamt öðrum og vildi vekja sérstaka athygli á heitir Velferð barna: Gildismat og ábyrgð samfélagsins.

  Þema þáttarins var áhrif annarra á uppeldi barnsins þíns: Hvernig tæklar þú misræmi í uppeldi? Þessi spurning er algeng á foreldramorgnum Meðvitaðra foreldra þar sem foreldrar lýsa áhyggjum sínum af því að fólk sem tengist barninu þeirra geti haft áhrif á það með því að beita allt öðrum aðferðum en þeir hafa tileinkað sér í uppeldinu.

  Þær Sigrún og Kristín Björg tóku fyrir misræmi milli foreldra barnsins, samskipti við ömmur og afa og ólíkar stefnur hjá foreldrum vina barnsins. Að lokum ræddu þær stuttlega um áhrif skólans sem og skjánotkun.

 • Birnu Almarsdóttur þekkja e.t.v. nokkrir glöggir hlustendur úr þáttum okkar nr. 43 og 44 um bókina sem þú vildir að foreldrar þínir hefðu lesið eftir Philippu Perry.

  Í þættinum fáum við að kynnast Birnu og ferðalagi hennar í gegnum krabbameinsmeðferð síðasta hálfa árið. Við heyrum hvernig RIE nýttist henni persónulega sem og með dóttur hennar og kærasta í gegnum þetta allt, hvar þurfti að gefa slaka á mörkum og reglum og þola að vera ekki sú kraftmikla unga kona sem hún alla jafna er.

  Samtalið er tekið upp daginn eftir að hún lauk meðferð og við getum hrifist með henni öll sem hlustum og haldið með henni áfram veginn.

 • Í sérstökum hátíðarþætti í tilefni þess að vera 50. þáttur hlaðvarpsins Virðingar í uppeldi fjöllum við ítarlega og af metnaði um svefnuppeldi.
  Gestir eru þau dr. Berglind Sveinbjörnsdóttir, dr. Erla Björnsdóttir, Ólafur Grétar Gunnarsson og Soffía Bæringsdóttir.
  Stjórnandi þáttarins er Guðrún Inga Torfadóttir og með henni þau Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, Konráð Jónsson og Perla Hafþórsdóttir. Matthías Ólafsson bættist síðan við með frábæra punkta.

  Þátturinn skiptist í:
  I. hluti: Ungbarnasvefn
  0:08 - Soffía Bæringsdóttir m.a. um svefnumönnun ungabarns.
  0:32 – Nokkur atriði sem aðstoða við svefn ungbarna; reifun, hvítt hljóð og snuð eða sog.
  0:42 – Svefnþjálfun ungra barna
  1:25 – Meðmæli með bókum og heimildum um svefnuppeldi.
  II. hluti: 1:27 – leikskólaaldur
  1:40 – Ólafur Grétar Gunnarsson um mikilvægi svefns fyrir fjölskylduna og líðan barna og almennt um svefnvenjur.
  1:51.– Háttatíminn og svefnrútínan
  2:03 – Matthías Ólafsson um þegar barn vaknar of snemma og um breytinguna frá rimlarúmi í opið rúm.
  2:13 – dr. Erla Björnsdóttir m.a. um svefnráðgjöf, svefn Íslendinga og meðvitund þeirra um svefn, svefn unglinga, svefnrútína á hennar heimili, skjánotkun og um svefnumönnun ungbarna, um hennar álit á svefnþjálfun, verkefnabók um svefn barna sem kemur út í apríl, hádegislúrar leikskólabarna.
  2:37 – dr. Berglind Sveinbjörnsdóttir m.a. um rannsóknir um svefn barna, um börn með þroskaraskanir, lyfjanotkun, um hvort skortur sé á úrræðum fyrir foreldra, munur á bandarísku og íslensku svefnmenningu t.d. í skynjun á hvað sé svefnvandi. Afstaða hennar til cry-it-out aðferða.
  III. hluti: 3:01 – Um læknisfræðileg svefnvandamál; munnöndun og kæfisvefn skv. Ingibjörgu sem starfar hjá Nox Medical.
  IV. hluti: 3:08 – Svefn fullorðna fólksins, hefndarsvefnfrestun og um rannsókn Þórhildar Magnúsdóttur um kostnað svefnvandamála.

 • Þær Hrefna Hugosdóttir og Ragnhildur Bjarkadóttir frá Auðnast spjölluðu í þessum þætti við Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Hrefna er hjúkrunarfræðingur og Ragnhildur sálfræðingur. Báðar eru þær með framhaldsmenntun í fjölskyldumeðferð en nefna sig aðallega mæður. Saman stofnuðu þær fyrirtækið með miklar hugsjónir um að huga að öllum þáttum heilsunnar til að ná jafnvægi í einkalífi og starfi.

  Í spjallinu, sem fór um víðan völl með þessum tveimur snillingum, bar það helst á góma hvernig þær höndla hlutina þegar dagarnir eru erfiðir bæði gagnvart sjálfum sér og börnum sínum, hvernig foreldrar geta stuðlað að heilbrigðu sambandi sín á milli, hvernig sé að vinna saman í eigin rekstri og vera bestu vinkonur á sama tíma og vera því lítið samfélag út af fyrir sig, hvernig foreldrahlutverkið er fyrir þeim og um mikilvægi heildrænnar heilsu þegar kemur að foreldrahlutverkinu.

  Frábært spjall og við hlökkum til þegar Auðnast fer af stað með eigið hlaðvarp. Engin pressa samt!

 • Í þessum þætti birtum við upptöku af fjarbókaklúbbi um snilldarbókina The Explosive Child eftir dr. Ross Greene. Guðrún Inga Torfadóttir sat sveitt í nokkra daga yfir að því er henni fannst ofvaxna verkefni að gera bókinni skil og heimfæra CPS-fræði Ross Greene yfir á aðra hluti sem við ræðum um í þessu hlaðvarpi, eins og RIE og almennt virðingarríka framkomu við börn. Frábærir gestir mættu sem betur fer og gátu gefið fyllingu í ágrip Guðrúnar Ingu og góðar samræður fóru fram og reynslusögur fengu að fljóta. Það voru þær Ágústa Margrét Arnardóttir, Elsa Borg Sveinsdóttir, Gyða Björg Sigurðardóttir, Margrét Thelma Líndal, Perla Hafþórsdóttir og Sif Grétarsdóttir sem tóku til máls.
  Við mælum eindregið með hlustun á þennan þátt, hvaðan sem þú ert að koma ef þú á annað borð annast börn.

  „Barnið þitt er ekki með hegðunaráskoranir öllum stundum allan sólarhringinn. Barnið á erfitt stundum, sér í lagi þar sem aðstæður krefjast aðlögunarhæfni, sveigjanleika, sjálfstjórnar og færni í að leysa úr vandamálum."

  Ross segir að þegar barn hafi færnina til að mæta þessum aðstæðum, þá geri það það. En af því að barnið skorti færni, þá mæti barnið miklum erfiðleikum við að bregðast væntingum umhverfisins og ræður ekki við aðstæður. Og því segir Ross – og þetta er rauði þráðurinn í gegnum alla bókina:

  „Börn gera vel ef þau geta."

 • Áslaug Björt Guðmundardóttir, rithöfundur bókarinnar Þökk til þín, verkefnabókar, Guðrún Birna le Sage markþjálfi með meiru og uppeldiskúnstner og Þórhildur Magnúsdóttir verk- og hagfræðibræðingur, Kyrrukona og þakklætisiðkandi ræddu í þessum þætti við Guðrúnu Ingu Torfadóttur um þakklæti.

  Í þættinum ræddum við hvernig við styrkjum þakklætisvöðvann með iðkun, líkamlegri sem og andlegri og getum þannig unnið gegn neikvæði-skekkjunni, þar sem heilinn leitar uppi hættur og neikvæða hluti og sleppir þeim jákvæðu í gegn eins og götótt sigti.

  Og hvernig förum við að því að virkja þakklætið hjá börnunum? „Segðu takk fyrir“ nær ansi skammt og fyllir barnið ekki af þessari sælutilfinningu sem fylgir því þegar þakklætistilfinning þekur miðjuna að innan.

  RIE myndi alltaf mæla með því að vera fyrirmynd að kurteisi fremur en að þvinga kurteisisviðbrögð barnsins fram. En þakklæti barns sem hefur fengið hlustun og útrás fyrir erfiðar tilfinningar og allt dettur skyndilega í dúnalogn, barnið hjúfrar sig að okkur, horfir djúpt í augu okkar eða fer beint að tralla og leika sér? Það er þakklæti barnsins til okkar í verki. Við héldum rýminu fyrir það að fara í gegnum djúpan dal tilfinninga og koma upp hinum megin og það þakkar okkur fyrir á sinn hátt.

  Þakklæti hefur smitandi áhrif. Það væri gaman ef þakklætið í þessum þætti nær að smita þig. Þessi þáttur er lítill konfektmoli.

 • Við fögnum því ákaflega að nýtt ár er runnið í garð en förum fyrst aðeins yfir hvernig hátíðirnar gengu. Hvað mætti gera betur og hvað mætti endurtaka? Þetta var því þáttur til að taka upp núna rétt eftir áramót og jafnvel hlusta á hann líka til að hugsa málið sjálf á meðan minnið er enn á sínum stað - en hlusta svo aftur fyrir næstu jól til að endurtaka ekki sömu vitleysurnar.
  Þátttakendur voru Gyða Björg Sigurðardóttir, Kristín Björg Viggósdóttir, Svava Margrét Sigurðardóttir og Guðrún Inga Torfadóttir.

 • Í þessum þætti fékk Guðrún Inga Torfadóttir þær Siggu Dögg kynfræðing og Soffíu Bæringsdóttur fjölskylduráðgjafa og doulu með sér til að spá aðeins í sambandsslitum foreldra. Þátturinn hefst á 7 mínútna langri og krefjandi einræðu Guðrúnar, ef þú vilt sleppa við hana, um tengslatýpur og hvernig þær geta haft áhrif á hvernig samband virðist fara hring eftir hring í þvottavél af spennu, upplausn og sátt. Og þótt þess konar sambönd geti enst í mörg ár eða ævilangt þá geta þau haft neikvæð áhrif á uppeldisumhverfi barna.

  Sigga Dögg fór fyrr á árinu í gegnum skilnað og skrifaði um það barnabók til að geta lesið með börnunum sínum þremur. Hún kaus að einblína á og grafa upp alla þá verndandi þætti sem geta hjálpað börnum að komast í gegnum það tímabil breytinga sem skilnaðir eru.

  En fyrst og fremst ræddum við um hvað geti búið að baki ákvörðun um skilnað og hvort von sé fyrir sambönd sem hafa gengið í gegnum erfiða tíma. Fræðsla, bæði um áhrif barneigna á sambönd, sem og um áhrif skilnaða á börn ef það er eina leiðin, getur hvort tveggja haft mjög mikið að segja skv. rannsóknum um velferð fjölskyldunnar. Það sem skipti einna mestu máli um góða aðlögun barna að skilnaði foreldra sinna eru einmitt erjurnar sem leiddu til skilnaðarins og hvort þær halda áfram eftir skilnað. Það getur samkvæmt rannsóknum skipt meira máli en skilnaðurinn sjálfur þegar kemur að líðan barna.

 • Í þessum síðari þætti um bók Philippu Perry, Bókin sem þú vildir að foreldrar þínir hefðu lesið, förum við yfir skilyrði góðrar geðheilsu og að setja mörk. Þetta var svo gott efni að við áttum erfitt annað en að tala djúpt og mikið og það var áskorun að klippa eitthvað í burtu til að þetta yrði ekki allt of langt.

  Þátttakendur að þessu sinni voru reynslu- og þekkingarbrunnar: Ágústa Margrét Arnardóttir, Birna Almarsdóttir, Brynja Gestsdóttir, Dagný Hróbjartsdóttir, Hulda Brynjarsdóttir, Laufey Ósk Magnúsdóttir og Perla Hafþórsdóttir, ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur sem annaðist upptökur.

 • Í þessum þætti gefum við hlustendum okkar færi á að hlusta á ítarlega umfjöllun okkar um bók Philippu Perry, Bókin sem þú vildir að foreldrar þínir hefðu lesið (og börnin þín fagna að þú gerir). Bókin er löng og yfirgripsmikil en auðlesin að okkar mati og rímar vel við kenningar Mögdu Gerber og fleiri virðingarríka sérfræðinga um uppeldi.

  Guðrún Inga Torfadóttir stjórnaði upptökum og leyfði sér að grípa niður hér og þar í bókina í yfirferð sinni en góðir gestir úr Bókaklúbbi Meðvitaðra foreldra deildu hugrenningum sínum af einlægni og innsæi. Þau sem tóku til máls voru Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Birna Almarsdóttir, Dagný Hróbjartsdóttir, Guðrún Birna le Sage, Gyða Björg Sigurðardóttir, Hulda Brynjarsdóttir, Laufey Ósk Magnúsdóttir, Matthías Ólafsson og Perla Hafsteinsdóttir.

  Í þessum þætti var farið yfir fyrri helming bókarinnar, þ.e. að skoða þína eigin baksögu sem barn foreldra þinna. Skoða síðan sambandið og samskipti þeirra sem eru í fjölskyldunni. Þá að fara yfir tilfinningar og hentuga svörun við þeim og loks um grunninn, meðgönguna, fæðinguna og fyrstu mánuðina.

 • Eftir rúmlega árs þögn er komið að öðrum pabbarabbs-þætti. Þeir Eiríkur Stefán Ásgeirsson, sem stýrði umræðum, Arnar Pétursson, Árni Kristjánsson og Matthías Ólafsson tengdu sig inn á sömu bylgjulengd á sama tíma og ræddu hvað virðingarríkt uppeldi er fyrir þeim og hvaða áhrif það hefur helst haft á þá í föðurhlutverkinu.

  Á meðal þess sem bar á góma var hvaða upplifun sumir þeirra hafa af feðraorlofi og hvernig þeir hlaða batteríin og hvað gefur þeim raunverulega hvíld og hvað ekki.

  Lauflétt og laggott hjá þeim pöbbum og hlustun sem við mælum með fyrir alla.

 • Í þættinum förum við nokkrar yfir hvað við erum að hugleiða í dag í tengslum við uppeldið og létum upptökutækið ganga á milli okkar. Það sem kom við sögu var ýmist uppeldi á okkur sjálfum eða börnunum okkar. Hér fengu vangaveltur að flakka um notkun uppnefna í systkinahópi, svefnrútínu, einkatíma, útiveru, húsverkaþátttöku, svefntíma, málþroska, að vera gagnsæ um okkar líðan við börnin og uppákomur og álag í miðju farsóttartímabili. Og dúndur hugleiðing um ofurkonuhugtakið.

  Þær sem voru til í tuskið að þessu sinni voru þær Svava Margrét Sigurðardóttir, Guðrún Björnsdóttir, Perla Hafþórsdóttir, Kristín Björg Viggósdóttir, Elsa Borg Sveinsdóttir og Gyða Björg Sigurðardóttir ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur.

 • Í fertugasta þætti okkar skyggnumst við á bak við barnabókina Vandræðasögur og fáum að heyra lýsingu höfunda bókarinnar á hugmyndafræðinni sem fyllir þær báðar ástríðu um hvernig við getum sem best hjálpað börnum að leysa úr klípum sín á milli og aðkomu hinna fullorðnu til að það megi heppnast sem best.

  Sögur eru vel til þess fallnar að fá börn í samræður um þær klípur sem geta komið upp í samskiptum barna. Við skyggnumst inn í hvernig við getum sem best lesið sögurnar til að koma þeim til skila og fanga athygli barna og hvernig við getum síðan rætt þær með börnunum. Einnig ræddum við hvernig samtöl við getum átt við börnin okkar til að heyra sem flestar hliðar atburða sem áttu sér stað í fjarveru okkar með jafningjum og hver aðkoma okkar getur verið til að efla félagsþroska barnanna og efla þau í samkennd með öðrum þegar atburðirnir eru liðnir og heim er komið.

  Gestir okkar í dag voru þær Alexandra Gunnlaugsdóttir, kennari, margra barna móðir og uppeldisfræðingur sem hefur unnið að rannsóknum á einelti í grunn- og menntaskólum og starfar sem deildarstjóri leikskóla í Danmörku, og Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir, hagfræðingur og tvíburamóðir sem hefur sérhæft sig á sviði atferlishagfræði.
  Perla Hafþórsdóttir, deildarstjóri á leikskóla, var einnig með Guðrúnu Ingu Torfadóttur stjórnanda þáttarins frá félagi Meðvitaðra foreldra.

  Atriðisorð sem voru nefnd í þessu samhengi voru t.d.:
  -Social situations – klípusögur.
  -Narratíf sálfræði Michaels White; að geta tekið tilfinningu og fengið fjarlægð á hana.
  -Resource thinking; hvað getur barnið komið með inn í hópinn?

 • Í þessum þætti er farið yfir bókina The Objectivist Parenting eftir Roslyn Ross í fjarbókaklúbbi. Sem fyrr var tæpt á helstu atriðum bókarinnar og svo fjörlegar umræður inni á milli. Við vitum aldrei hverjir mæta á þessa fjarbókaklúbba en það sýnir sig að þegar stjórnartaumunum er sleppt kemur eitthvað frábært upp úr dúrnum.

  Þessi bók er knöpp og fer ítarlega yfir allt sem Roslyn og aðrir telja vera að atferlisstefnu (e. behaviorism) og hvað megi þá gera í staðinn. Svo skemmtilega vildi til að á meðal þátttakenda var PMTO-meðferðaraðili mættur og því hægt að vega þetta og meta saman, þá stefnu sem enn er kennd í nokkrum sveitarfélögum landsins, bæði í skólum og af heilsugæslum og sem talsmenn virðingarríks uppeldis myndu telja vera afsprengi atferlisstefnu þótt margt geti líka talist vera virðingarríkt í henni. Þarf endilega að kenna foreldrum og kennurum að umbuna börnum fyrir að komast hraðar út um dyrnar eða í háttinn? Er skólakerfið okkar með nægilega mikið svigrúm til að ýta undir sjálfstæði og val barna? Þetta og margt fleira var á meðal þess sem rætt var á þessum frábæra bókaklúbbi.

  Þátttakendur í umræðum voru Anna Mjöll Guðmundsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Gyða Björg Sigurðardóttir, Ólafía Helga Jónasdóttir, Perla Hafþórsdóttir og Sólveig Rós. Þættinum stýrði Guðrún Inga Torfadóttir.

 • Í þessum þætti, sem spratt upp sem sjálfstætt framhald af frábærum síðasta þætti um minimalisma og virðingarríkt uppeldi, ræddum við nokkrar um hvernig við forgangsröðum í lífum okkar hvað varðar hagsmuni barnanna og okkar sjálfra. Ólíkir foreldrar forgangsraða með ólíkum hætti en það þýðir ekki að einhver þeirra hafi rétt fyrir sér og aðrir rangt. Þetta reyndist vera prýðisgott umræðuefni og hægt að velta ýmsu fyrir sér hvað þetta varðar.

  Þátttakendur að þessu sinni voru Gyða Björg Sigurðardóttir, Kristín Björg Viggósdóttir og Perla Hafþórsdóttir ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur.

 • Þær Sigurlaug Elín Þórhallsdóttir og Þórhildur Magnúsdóttir frá Kyrru lífsstíl hafa marga fjöruna sopið þegar kemur að því að ræða einföldun umgjarðar fjölskyldulífs enda verið að veltast með stóru spurningarnar undanfarin ár. Hvernig er best að haga gjöfum? Haga húsverkum? Hugsa um neyslu okkar? Raða í fataskápana? Huga að þvottinum?

  Þessi einföldu atriði geta flækt lífið afar mikið þegar við setjum okkur ekki í sérstakar stellingar og hugum að skipulagi og rútínu af fullri alvöru. Þá getur morgunrútínan skipt miklu máli til að koma okkur vel af stað inn í daginn. Þessa hluti ræddu þær Kyrru-konur í þaula við Guðrúnu Ingu Torfadóttur og báru saman við markmið í virðingarríku uppeldi almennt.

 • Í þessum fyrsta þætti eftir sumarfrí ræddi Guðrún Inga Torfadóttir við Sigrúnu Yrju Klörudóttur, sem er konan á bak við heimasíðuna, fb-hópinn og Instagram-reikninginn Always Remember To Play. Hvernig datt henni í hug, búandi á Austfjörðum með börnin sín í fæðingarorlofi, að hefja þá vegferð að gerast áhrifavaldur um leik barna með metnaðarfullum hætti? Við mælum með að hlusta á þetta spjall við frábæra konu.

  M.a. ræddum við:
  •Hvernig hún kynntist virðingarríku uppeldi.
  •Að búa úti á landi í fæðingarorlofi langt frá skarkala borgarinnar.
  •Hvað er eðlilegt að sýna af börnunum sínum á samfélagsmiðlum?
  •Samskipti kynjanna í foreldrahlutverkinu.
  •Hvernig hún reynir að hjálpa drengnum sínum að sýna tilfinningar.
  •Hvaða bækur liggja á náttborðinu hennar.
  •Um kennslustarfið með 12-13 ára börn og hvernig reynsla hennar nýttist í því og hvað henni þykir eftir þessi fyrstu kynni af kennarastarfinu.
  •Gildi útiveru barna.
  •Að spyrja börnin sín: Hvað þarftu í dag til þess að líða vel?
  •Að velja búsetu eftir gæðum skólastarfs – jafnvel á milli landa.

 • Við vorum þrjár í þessum þætti hver á sínum stað á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð var það Ingibjörg Ólafsdóttir, sem kallar sig Hjálp ég er útbrennd á Instagram, en hún hefur tiltölulega nýlokið meðferð að sænskum hætti við kulnun og hefur viðað að sér miklum fróðleik um málefnið og miðlað því til annarra. Í Danmörku var það Stefanía Rut Hansdóttir, sem skrifaði lokaritgerð sína í sálfræði ásamt vinkonu sinni um kulnun mæðra í starfi og hefur skrifað hreinskilið um tilveru sína að búa ein með börn sín þrjú burtu frá fjölskyldu sinni. Og á Íslandi Guðrún Inga Torfadóttir sem stjórnaði upptökum og hefur í gegnum tíðina rambað á mörkum kulnunar oftar en einu sinni og þekkir sig í ýmsum einkennum hennar.

  Við ræddum hvernig það er að eiga þunga, erfiða daga, sitja með sjálfa sig í fanginu og reyna að gefa af sér til þeirra sem mest eiga það skilið að fá alla okkar bestu hliðar eins og við almennt ræðum um hér í þessu hlaðvarpi – en oft erum við hér að ræða um að vera frekar svona en hinsegin, vera virðingarrík, tryggja mikla útiveru, frjálsan leik, óskilyrta ást með öllu, burt með harðar ögunaraðferðir, útilokun, hunsun, niðrandi og skammandi tiltal, takmarka fyrirskipanir sem mest við megum en halda sterkum og öruggum mörkum þegar við á. Þetta eru allt háleit markmið sem krefjast mikils af okkur.

  Við höfum komið áður inn á þessi þemu öll í fjölmörgum þáttum, svo sem í þætti 2 um gleði í uppeldi, 10. þætti um triggera með Kristínu Maríellu, 11. þætti með Bjarti Guðmunds um að vera í topp tilfinningalegu formi, 22. þætti um RIE fyrir fullorðna með stelpunum í Hraust þjálfun, og svo komið inn á þetta víða í öðrum þáttum.