Episódios

 • Á fimmtudaginn verður Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús 10 ára. Það tók marga áratugi frá því að samtök um tónlistarhús voru stofnuð þangað til að Harpa var loks risin og komin í gagnið. Í raun má rekja fyrstu hugmyndirnar um tónlistarhús í Reykjavík aftur til ársins 1881. Nú er Harpa eitt helsta kennileiti Reykjavíkurborgar þar iðar allt af lífi, tónlist og menningu, þ.e.a.s. yfirleitt, þó auðvitað undanfarið ár hafi verið sérstakt hjá Hörpu eins og hjá flestum á tímum Covid. Karitas Kjartansdóttur viðskiptaþróunarstjóri hóf störf í Hörpu í apríl 2010 og hefur tekið þátt í uppbyggingu hússins frá upphafi. Hún kom í þáttinn í dag og hagði frá mörgu eftirminnilegu að segja frá þessum fyrsta áratug Hörpu. Það verður opnuð sérstök hannyrðapönkssýningu á Akureyri um hvítasunnuhelgina. Sigrún Braga og Guðrúnardóttir verður þar með verk þar sem hún notar byggingavinnugarn og svo mannshár í áklæði í rokkokóstól sem hún hefur verið að gera upp og stólinn málar hún með svartri málningu sem gleypir allt að 99% ljóss. Verkið kallar hún sjálf Meyjarsæti og notar mannshárið til að bródera orð sem stúlkur/konur/fólk fékk að heyra um sig og/eða kynfæri sín fyrir 12 ára aldur. Sigrún kom í þáttinn og sagði okkur frá þessu áhugaverða verki. Það eru aðrar aðstæður í vinnunni hjá lögreglukonunni Bjarnþóru Maríu Pálsdóttur á Ströndum en hjá kollegum hennar á höfuðborgarsvæðinu. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, settist upp í lögreglubifreiðina hjá Bjarnþóru þar sem hún var við umferðareftirlit og ræddi við hana um þennan aðstöðumun og ýmislegt annað. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Stórsveit Íslands er svokallað big band eða stórsveit. Þau fengu styrk á síðasta ári til þess að láta útsetja fyrir sig lög eftir Sigfús Halldórsson og Oddgeir Kristjánsson en eins og svo margir aðrir þurftu þau að fresta og aflýsa fjölmörgum tónleikum vegna Covid. Nú hyllir vonandi undir betri tíma. Þeir Daði Þór Einarsson, básúnuleikari og stjórnandi Stórsveitarinnar og Halldór Sighvatsson saxófónleikari komu í þáttinn og sögðu okkur frá sögu sveitarinnar, sögu nafnsin og því hvað þarf til að teljast stórsveit. Við forvitnuðumst um félag áhugafólks um breytingaskeið kvenna í þættinum í dag. Félagið heldur úti síðu á facebook sem nýtur vinsælda hjá konum á miðjum aldri og þessi síða var stofnuð árið 2013 og formaðurinn Margrét Jónsdóttir Njarðvík sagði nánar frá félaginu í þættinum, en auk þess að vera formaður félagsins er hún líka rektor Háskólans á Bifröst og eigandi ferðaskrifstofunnar Mundo. Lesandi vikunnar var Haukur Gröndal tónlistarmaður. Hann er meðal annars klarínett- og saxófónleikari, hann hefur leikið inná fjölmargar hljómplötur, unnið við upptökustjórn, útsett fyrir ýmsar hljómsveitir, auk þess að leika með ýmsum hljómsveitum um allt land og víða erlendis. En í dag kom hann í þáttinn og sagði frá þeim bókum sem hann hefur verið að lesa undanfarið og svo í lokin hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Estão a faltar episódios?

  Clique aqui para atualizar o feed.

 • Gísli Einarsson var föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn. Einn vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins er Landinn og í vetur fagnaði hann 10 árum. Gísli er ekki bara þáttastjórnandi heldur er hann líka nýlega orðin forseti Ferðafélags Borgfjarðarhéraðs. Við spurðum hann nánar útí það og forvitnuðumst um uppvöxtinn í Borgarfirði, sjónvarpsþáttagerðina og fleira. Bólusetningaveisla er hugmyndin á bak við matarspjall dagsins. Þetta var hugmynd sem átti að ræða fyrir viku síðan en eins og kom fram í spjallinu frestaðist það um viku út af svolitlu. Hvað er hægt bjóða upp á í svona bólusetningarþemaveislu? Við komum ekki að tómum kofanum hjá Sigurlaugu í því frekar en öðru. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Það er fimmtudagur í dag og þá fengum við sérfræðing í þáttinn eins og aðra fimmtudaga. Í þetta sinn var það Arnar Pétursson, hlaupari. Hann hefur 38 sinnum orðið íslandsmeistari í hlaupum, allt frá 1500 metra hlaupi upp í maraþon. Arnar skrifaði Hlaupabókina sem inniheldur þekkingu sem hann hefur aflað sér með því að æfa með bestu hlaupurum og þjálfurum í heiminum. Þessa þekkingu notar hann sem hlaupaþjálfari þar sem Arnar hefur unnið með öllum getustigum hlaupara, allt frá þeim sem vilja komast af stað og taka fyrstu skrefin til þeirra sem keppa í hlaupum. Hann fræddi okkur um allar hliðar á hlaupum, hlaupastíl, rétta líkamsbeitingu, hvað það er að æfa rétt og hvernig setjum við okkur markmið. Og svo í seinni hlutanum svaraði hann spurningum sem hlustendur hafa sent okkur í pósthólf þáttarins, mannlegi@ruv.is. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Salka Sól Eyfeld, tónlistar- og prjónakona, hefur umsjón með handverkskaffinu sem haldið verður í Borgarbókasafninu Gerðubergi í kvöld. Þar deilir hún prjónasögu sinni með gestum og segir frá fyrstu prjónabókinni sem hún gaf út með Sjöfn Kristjánsdóttur prjónahönnuði fyrir síðustu jól. Sú bók hefur selst í yfir 5000 eintökum og margar ungar konur hafa stigið sín fyrstu skref í prjónaskap í kjölfarið enda vita allir sem hafa prófað að prjóna að það er bæði skemmtilegt og gefandi. Við fengum Sölku Sól til að koma í þáttinn og ræða prjónaskapinn. Árlegri fjáröflun Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur verður hleypt af stokkunum við athöfn að Bessastöðum í dag, í rauninni byrjaði athöfnin klukkan 11 þegar Eliza Reid, forsetafrú og velunnari sjóðsins tók við ?Mæðrablóminu? sem líkt og undanfarin ár er í formi leyniskilaboðakertis. Frá upphafi stofnunar sjóðsins hefur hann veitt rúmlega 300 styrki fyrir tekjulágar konur til mennta. Anna H. Pétursdottir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, kom í þáttinn og sagði frá þessari fjáröflun og starfi sjóðsins. Vorið er komið og grundirnar gróa og um leið vakna alls kyns spurningar varðandi gróður og garðastúss. Margrét Blöndal var á labbinu á Selfossi og bankaði uppá hjá Auði Ottesen garðyrkjufræðingi og ritstjóra Sumarhússins og garðsins og fékk að vita ýmislegt um sáningu, ætar begóníur og músíkalskar plöntur. Við heyrðum spjall þeirra í lok þáttar. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Um síðastliðna helgi gengu 126 konur á Kvennadalshnúk eins og þær nefndu Hvannadalshnúk í þessari göngu. Flestar gengu þær í minningu konu eða kvenna sem hafa fengið krabbamein og þær söfnuðu fé fyrir Lífskraft styrktarfélag Kvennadeildar Landsspítalans. Þetta var mögnuð ganga segja þær og afar tilfinningarík og allar komust þær niður aftur en það er ekki svo sjálfsagt þegar gengið er þessa leið sem er ein erfiðasta dagleið í Evrópu. Brynhildur Ólafsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, sem voru meðal þessara 126 kvenna, komu í þáttinn og sögðu frá þessari mögnuðu reynslu. Breiðfirðingurinn og æðarbóndinn, Eggert Thorberg Kjartansson samdi og sendi inn fimm lög í danslagakeppni SKT árið 1953. Svo illa vildi til að nóturnar að lögunum glötuðust en nú, tæpum 70 árum síðar, hafa þau verið útsett og nýr texti saminn við þrjú þeirra. Dóttir Eggerts, Lilja, hefur útsett lögin og hljómsett og bróðir hennar Snorri samdi textana. Þau systkinin komu í þáttinn og sögðu okkur þessa fallegu sögu. Nýlega var stofnað fyrirtæki í Strandabyggð sem hlaut nafnið Kyrrðarkraftur. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti forsprakkann, Esther Ösp Valdimarsdóttur sem útskýrir markmið og áherslur þessa merkilega fyrirtækis sem er að hennar sögn endurhleðslusetur. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Það er yndislegt að fylgjast með vorinu vakna um þessar mundir. Farfuglarnir eru að koma til landsins og grasið að grænka. Reiðhjólum fer fjölgandi í umferðinni og það er líka ákveðin vorboði þótt reiðhjólin séu nú í auknum mæli í notkun allan ársins hring. Sesselja Traustadóttir hefur verið framkvæmdastýra Hjólafærni frá stofnun þess, hún er handhafi Samgönguviðurkenningar Reykjavíkurborgar frá árinu 2014, fyrir frumkvöðlastarf. Hún hefur á liðnum árum farið um allt land og alla leið til Ástralíu með fyrirlestra, ástandsskoðun Dr. Bæk og kennt hjólviðgerðir á námskeiðum og í skólum. Sesselja kom í þáttinn í dag. Við hringdum norður í land og fengum upplýsingar um söfnun fyrir smíði á styttu af risakúni Eddu. Styttan verður þriggja metra há og fimm metra löng og verður heiðursvarði um allar Búkollur, Auðhumlur, ló ló mínar Löppur og aðrar gæðakýr þessa lands. María Pálsdóttir er í stjórn ferðamálafélagsins sem ýtti þessari söfnun úr vör og sagði okkur frekar frá þessari risakú. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Erna Kristín Stefánsdóttir, hún er guðfræðimenntuð, kláraði diplómu í sálgæslufræðum og er rithöfundur. Hún er talskona fyrir jákvæðri líkamsímynd og heldur fyrirlestra sem slík auk þess að halda úti Ernulandi, sem við fáum hana til að segja okkur hvað er. En auðvitað sagði hún okkur líka frá því hvað hún hefur verið að lesa og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgesturinn í þetta sinn var leikkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir. Hún hefur auðvitað leikið í fjölda sjónvarpsþátta, kvikmynda og leikhúsverka. Hún frumsýndi í gær nýtt leikrit eftir Elísabetu Jökulsdóttur, Haukur og Lilja - opnun, í Ásmundarsal þar sem Edda Björg og Sveinn Ólafur Gunnarsson fara með hlutverk hjóna sem eiga erfitt með að koma sér af stað í veislu. Við spjölluðum við Eddu um lífið og listina og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag. Í fjarveru Guðrúnar og Sigurlaugar lá beinast við að fá Eddu Björgu, föstudagsgest þáttarins, til að sitja áfram í matarspjallinu. Edda Björg er listakokkur, hvað finnst henni skemmtilegast að elda, hvað eru hennar sérréttir? Hvað er hennar uppáhaldsmatur? Hver er matur æsku hennar og hvar í heiminum hefur hún fengið besta matinn? UMSJÓN GUNNAR HANSSON

 • Það er fimmtudagur í dag og þá var með okkur sérfræðingur eins og á öðrum fimmtudögum í vetur. Í þetta sinn var sérfræðingur þáttarins Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. Valdimar var hjá okkur fyrir nokkrum vikum og ræddi þá um meðvirkni og í framhaldi af því ákváðum við að fá hann sem sérfræðing. Umræðuefnið okkar í dag var aðallega meðvirkni en við komum einnig inná samskipti,virðingu, að læra að setja mörk og fleira. Hlustendur sendu inn spurningar sem flestar tengdust meðvirkni. Valdimar hefur menntað sig í áfalla- og uppeldisfræðum og hefur sérstaklega unnið með meðvirkni. Meðvirkni getur birst á ýmsan hátt og er yfirleitt eitthvað sem við tökum með okkur yfirleitt úr æsku, meðvirkni birtist í samböndum, á vinnustað, innan fjölskyldna og víðar. En eins og Valdimar lýsti því síðast: Meðvirkni er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum, sem svo getur þróast út í að verða óeðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Gunnar Hrafnsson bassaleikari og formaður félags hljómlistarmanna kom í þáttinn í dag. Hljómlistarfólk eins og flest sviðslistafólk hefur ekki getað sinnt sinni vinnu í heimsfaraldrinum og við heyrðum hvernig staðan er og hvað kom fram á aðalfundi félagsins sem haldin var í gærkvöldi. Við fræddumst aðeins um fjármál við starfslok í þættinum í dag, enda er það eitthvað allir þurfa að huga að þegar að því kemur og í rauninni borgar sig að huga að því talsvert fyrr. Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, stendur fyrir námskeiði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þar sem farið er yfir það sem er mikilvægast að hafa á hreinu í sambandi við fjármálin þegar starfsævi lýkur. Björn kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá þessu. Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni og í póstkorti dagsins segir frá því að það hefur verið slakað aðeins á reglum vegna covid 19 í Valensíuhéraði. Nú mega veitingastaðir til að mynda hafa opið til tíu á kvöldin. Smit hefur ekki greinst lægra í Alicante frá því í júní í fyrra, ellefu manns smituðust í gær en það búa rúmar tvær milljónir manna í sýslunni. Það var sagt meira frá þessu í póstkorti dagsins og frá miklum húsnæðisvandræðum í Alicante borg, pólitík í Madrid og frá skógarverðinum sem kveikti í skógi til þess að fá hrós fyrir að slökkva eldinn. Það fór ekki alveg eins og til stóð. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur og ritari ADHD samtakanna, efndi nýverið til fræðslufundar um ADHD meðal eldra fólks. Sólveig hefur verið brautryðjandi í umfjöllun um ADHD á Íslandi og m.a. gefið út bókina Ferðalag í flughálku, um ADHD og unglinga, sem nýverið fékk Hvatningarverðlaun ÖBÍ. Hvernig birtist ADHD hjá eldri kynslóðinni? Sólveig kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá því. Landssöfnun Barnaheilla til stuðnings forvörnum gegn kynferðisofbeldi á börnum hófst í síðustu viku. Við fengum til okkar Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, verkefnastjóra innlendra verkefna hjá Barnaheillum og Sævar Þór Jónsson lögfræðingur en nýlega kom út bók eftir hann, Barnið í garðinum, þar sem hann talar meðal annars um reynslu sína af kynferðisofbeldi í æsku. Við töluðum við þau um átakið og forvarnir gegn kynferðisofbeldi og spurningar og svör sem Barnaheill varpar fram í þeim tilgangi. Finnur Ólafsson er oddviti Kaldrananeshrepps, ræktar gómsæt kirsuber á Svanshóli í Bjarnarfirði og vinnur á fiskmarkaði Hólmavíkur og víðar. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Finn á bryggjunni á Hólmavík og ræddi við hann um grásleppu og fleiri fiska. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Í síðustu viku fór að bera á myndböndum á netinu og samfélagsmiðlum með yfirskriftinni ?Veldu núna.? Þar gafst áhorfendum færi á að aðstoða tvær persónur að komast undan í æsispennandi eltingaleik með því að velja reglulega milli tveggja valkosta. Sem sagt hvort að persónurnar ættu að velja leið A eða leið B í hvert sinn og þá auðvitað með mismunandi útkomu. Við fengum Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF í þáttinn til þess að segja okkur frá þessu verkefni og af hverju UNICEF er að koma að framleiðslu svona gagnvirkrar spennusögu og hvað hún kemur heimsforeldrum við. Óskarsverðlaunin voru afhend í nótt og því fengum við hina einu sönnu Húsavíkur-Siggu til að skoða með okkur úrslitin. Það er sem sagt Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, sem er fædd á Húsavík, eins og aðalpersóna Netflix-kvikmyndarinnar Eurovision sem heitir líka Sigga. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur RÚV. Hún og hennar deild aðstoðar okkur hér á RÚV við að vera á réttum slóðum þegar kemur að okkar ástkæra og ylhýra tungumáli, íslenskunni. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL

 • Föstudagsgestur þáttarins í þetta sinn var leikarinn Þröstur Leó Gunnarsson en hann á einmitt sextugsafmæli í dag. Þröst Leó ættu nú flestir að þekkja úr ótal sviðsverkum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Eins og skepnan deyr, Perlur og svín, Tár úr steini, Nói albínói, Reykjavík-Rotterdam og Síðasta veiðiferðin, til að nefna nokkrar kvikmyndir og það væri bara til að æra óstöðugan að reyna að telja upp eitthvað af ógrynni hlutverka sem hann hefur leikið á leiksviðum leikhúsanna. Við fengum að heyra skemmtilegar sögur úr æsku hans, sögur úr sjómennskunni, úr æsku hans á Bíldudal, leiklistinni og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag. Í matarspjalli dagsins ræddi Sigurlaug Margrét um grjúpán, eða sperðla, sem eru kannski betur þekkt sem bjúgu. Af hverju eru þau svona góð? Hvernig bjúgu eru í uppáhaldi hjá henni og hvað er best að hafa með þeim og eru bjúgu svokallaður sumarmatur? UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Mamiko Ragnarsdóttir kom í þáttinn í dag. Hún greindist með einhverfu þegar hún var 27 ára. Sem barn á skólaaldri lét hún lítið fyrir sér fara og hlýddi kennaranum, en félagslega var hún úti á túni, eins og hún orðar það. Hún skyldi ekki kaldhæðni og tvírætt grín og tók öllu bókstaflega og passaði engan vegin inn í hópinn. Þá tók við þráhyggja sem gekk út á að reyna að hætta að vera ?skrýtin? svo hún gæti eignast vinkonur. Mamiko deildi sögu sinni í þættinum í dag og hvað það þýddi fyrir hana að fá loksins greiningu. Sumarið er rétt handan við hornið og Margrét Blöndal ákvað að halda upp á vetrarlokin með því að heimsækja býflugnabændur í Rangárþing eystra - þetta eru hjónin Margrét Ísólfsdóttir og Þórður Freyr Sigurðsson sem búa að Uppsölum í Hvolhreppi. Margrét fékk að smakka eðalfínt hunang og heyrði af stöðu mála núna þegar náttúran er að vakna af vetrardvalanum. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Á morgun er liðin hálf öld frá heimkomu íslensku handritanna, en fyrstu íslensku handritin flutt aftur heim frá Danmörku með varðskipinu Vædderen 21.apríl 1971. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í Hörpu streymt til allra grunnskóla á landinu. Þennan dag kemur einnig í ljós hvaða handrit dómnefnd mat sem framúrskarandi ungmennahandrit í handritasamkeppni Árnastofnunar. Goddur, eða Guðmundur Oddur Magnússon, situr í dómnefnd handritasamkeppninnar og hann kom í þáttinn og sagði frá tengingu handritanna við til dæmis vinsælasta afþreyingarefni samtímans og frá handritakeppninni, sköpunargleði barna og ungmenna og mikilvægi hennar. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir kom í þáttinn, en hún er einn verkefnastjóra Vatnsdropans, sem er menningarverkefni sem snýr að því að valdefla börn og vinna með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Auglýst var eftir börnum í Kópavogi til að taka að sér sýningarstjórnina og taka þannig þátt í Vatnsdropanum, sem er marglaga menningarverkefni til þriggja ára og er ætlað að veita börnum aðgang að ákvarðanatöku í nokkrum helstu menningarstofnunum í Norður-Evrópu. Salvör Gullbrá sagði okkur meira af þessu verkefni í þættinum í dag og einnig frá Krakkaveldi, sem er annað verkefni sem hún vinnur með börnum, þar sem hún gefur þeim tækifæri til að segja hverju þau myndu vilja breyta í heiminum ef þau fengju til þess vald. Auður Höskuldsdóttir hefur búið næstum alla ævi á Drangsnesi og á Bæ á Selströnd. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Auði og fékk að heyra meðal annars um æðarrækt í Grímsey á Steingrímsfirði. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Hringurinn er kvenfélag sem var stofnað árið 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Mörg önnur verkefni sem tengjast veikum börnum hafa verið studd og styrkt, þeirra á meðal Barna- og unglingageðdeildin og ýmis sambýli fyrir fatlaða svo fátt eitt sé talið. Það er ekki einfalt að vinna að fjáröflun á Covid tímum en þær Hringskonur hafa ákveðið að efna til Sumarbingós á síðasta vetrardag sem er stílað inn á fjölskyldur. Við fengum Rakel Garðarsdóttur í þáttinn til að segja okkur frekar frá bingóinu og þessu góða starfi Hringsins. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Helga Dögg Björgvinsdóttir, hún er bókmennta- og viðskiptafræðingur og viðskipta- og þjónustustjóri hjá Crayon á Íslandi. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgesturinn okkar að þessu sinni er vanari því að taka viðtöl við fólk frekar en að vera í viðtali sjálfur. Hvað vitum við um Gísla Martein sem á hverjum föstudegi stýrir þættinum Vikan með Gísla Marteini? Við forvitnuðumst um líf hans og fyrri störf í dag, fórum í ræturnar og rifjuðum upp fortíðina og skoðuðum ferlinninn og ferðlagið í gegnum lífið, í gegnum pólítík og fjölmiðlana til dagsins í dag. Sósur voru undir smásjánni hjá okkur í Matarspjallinu með Sigurlaugu Margréti í dag og ef ykkur finnst þið ómöguleg í sósugerðinni þá væri tilvalið að hlusta á yfirferð okkar yfir landslag góðra, heitra sósuuppskrifta. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Á fimmtudögum í vetur koma sérfræðingar í þáttinn. Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu var aftur með okkur, en hún var sérfræðingur þáttarins líka í síðustu viku. Hún er sérfræðingur í því að leysa ágreiningsmál sem kunna að koma upp í fjölbýlishúsum og hlustendur okkar sendu inn spurningar sem þau vonuðust eftir því að hún gæti svarað. Spurningarnar voru svo margar í síðustu viku að hún náði ekki að komast yfir þær allar, því samþykkti hún að koma aftur og reyna að ná í gegnum bunkann núna, en það hafa reyndar bæst spurningar við þær sem voru komnar. Spurningarnar sem hún fékk í dag sneru að til dæmis reykingum, bílageymslum og bílastæðavandamálum, partýstandi, óalandi nágrönnum og fleiru.

 • Eurovisionkeppnin er orðin hálfgerður vorboði og þá hefja þættirnir Alla Leið einnig göngu sína í sjónvarpinu að nýju. Hvernig fer keppnin fram í ár í heimsfaraldrinum? Felix Bergsson kom til okkar með nauðsynlegar upplýsingar og sagði okkur allt sem við vildum vita um keppnina í ár. Arðsemi hamingjunnar á landsbyggðinni - Ný heimssýn á nýjum tímum er heitið á ráðstefnu á vegum FKA, eða landsbyggðadeilda Félags kvenna í atvinnulífinu. Þar verður velt fyrir sér hver tækifæri landsbyggðarinnar eru nú í kjölfar síðasta árs þar sem fólk hefur verið að vinna meira að heiman og í gegnum netið og fjarfundabúnað. Þar verður meðal annars rætt um sunnlenska-módelið, úthýsingu starfa, nándina í fjarlægðinni og hvort lítil bæjarfélög séu að endurheimta sinn fyrri sjarma og þar með fólkið. Við fengum Margréti Jónsdóttur Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst til þess að segja okkur meira frá því sem þarna fer fram, en hún er ein þeirra sem talar á ráðstefnunni. Við fengum póskort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Í korti dagsins greinir frá hugmyndum spænskra vísindamanna um nýja nálgun í baráttunni við kórónuveiruna sem felst aðallega í því að hætta að sótthreinsa alla snertifleti en taka þess í stað að lofthreinsa meira innandyra. Einungis 0,01 prósent smita verður við snertingu en mest allt smit verður innandyra og því meiri hætta eftir því sem loftgæði eru minni. Það var líka sagt frá lagasetningu sem bannar frá og með árinu 2040 alla sölu á bílum sem blása út koltvísýringi. Undir lokin var svo sagt frá netglæpum sem hafa margfaldast eftir að kórónufaraldurinn hófst. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu metur stofnunin út frá styrk loftmengunarefna, að á Íslandi megi rekja allt að 80 ótímabær dauðsföll á ári til svifryks. Við fengum Þröst Þorsteinsson prófessor í umhverfis-og auðlindafræði hjá Háskóla Íslands í þáttinn til að segja okkur frá niðurstöðum rannsóknar sem hann var að gera á áhrifum hraða umferðarinnar á loftmengun og svifryksmengun. Geirmundur Valtýsson tónlistarmaður á Sauðárkróki á afmæli í dag og við slógum á þráðinn norður til hans. Geirmundur er með 120 fjár á fóðrum á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð og fer daglega í fjárhúsin að gefa og það vakti landsathygli fyrir nokkrum vikum þegar tvö lömb litu dagsins ljós í miðjum rúningi. Auk þess sagði hann frá því þegar hann tvíbraut á sér ökklann þegar hann datt á svellbunka fyrir rúmu ári. Og meira tengt sauðburði. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að bændur nýti sér fósturtalningar í ám til hagræðingar í sauðburði. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, lagði leið sína að bænum Ytri-Fagradal á Skarðströnd þar sem Heiða Guðný Ásgeirsdóttir taldi fósturvísa í ám og huðnum. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON