Episoder
-
Ungur maður féll niður í líkamsrækt og í ljós kom að hann hafði fengið heilablæðingu. Hann var sendur til Svíþjóðar í aðgerð sem fór ekki eins og vonast var til og heili hans varð fyrir miklum súrefnisskorti. Hann hlaut alvarlegan heilaskaða og lífið breyttist, ekki bara hans eigið líf heldur allra aðstandanda hans. Í þættinum í dag heimsækir Viktoría Hermannsdóttir Einar Óla og móður hans, Aðalheiði Bjarnadóttur, á Grensásdeild. Þar hefur hann búið í eitt og hálft ár meðan beðið er eftir að hann komist í annað úrræði, en aðstandendur hans hafa upplifað algjört úrræðaleysi í kerfinu.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Aðalheiður Bjarnadóttir
Jóhanna -
Í þættinum í dag heyrum við sögu Sturlu Þórhallssonar, sem var dæmdur í tíu ár fangelsi í Danmörku fyrir skipulagningu á umfangsmiklu fíkniefnasmygli. Hann hefur á undraverðan hátt snúið blaðinu við. Fór í meðferð í fangelsinu og starfaði á hestaleigu síðustu fjögur ár afplánunartímans. Hann losnaði fyrir tveimur mánuðum við ökklaband sem hann bar síðasta árið í afplánunni og er nú orðinn frjáls maður á ný - sem hann segir ekki vera jafn einfalt og það kann að hljóma. Við heyrum magnaða sögu Sturlu - frá þaulskipulögðu fíkniefnasmygli yfir í frelsið í sveitinni.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Sturla Þórhallsson, Sólmundur Sigurðarson. -
Manglende episoder?
-
Hvernig getur það gerst að átján ára gamall strákur í blóma lífsins deyr úr lyfjaeitrun þegar fjölskylda hans hefur ekki hugmynd um að hann hafi verið í nokkurs konar neyslu? Einar Darri Óskarsson lést þann 25. maí síðastliðinn. Dagana eftir andlátið komst fjölskylda hans að því að hann hafði í skamman tíma áður en hann lést verið að taka lyfseðilsskyld lyf. Fyrir fjölskyldunni opnaðist heimur sem þau vissu ekki að væri til þar sem misnotkun sterkra lyfseðilsskyldra lyfja þykir ekkert tiltökumál. Í þættinum í dag ræðir Viktoría Hermannsdóttir við móður og systur Einars Darra sem óvænt hafa, á sama tíma og þær syrgja hann, leiðst út í baráttu fyrir því að fleiri hljóti ekki sömu örlög og Einar Darri.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Bára Tómasdóttir og Andrea Ýr Arnarsdóttir. -
Hvernig fer maður út í lífið eftir að hafa alist upp við mikið ofbeldi? Við heyrum àtakanlega sögu Áslaugar Maríu sem var beitt grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi fram á unglingsár.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Áslaug María, Jenný Valberg og Ragna Björg Guðbrandsdóttir. -
Í Kolaportinu er að finna flóru mannlífsins þó að kúnnahópurinn hafi vissulega breyst á undanförnum árum og nú eru ferðamenn meira áberandi en áður. Í þætti dagsins heimsækjum við Kolaportið, spjöllum við fólk sem hefur staðið söluvaktina í áratugi og kynnumst gestum og gangandi.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur:
Paul Ramses, Jörmundur Ingi, Bjorn, Sigurður Garðarsson, Guðrún Linda, Krissa, Guðrún, Stella Gunnarsdóttir, Marta Björnsdóttir, Reynir Sverrisson, Hjalti Snær Ægisson, Vilborg Auðunsdóttir, Berta Guðný Kjartansdóttir. -
Í Málið er í dag kynnir Viktoría Hermannsdóttir sér heim gámagramsara á Íslandi. Gámagrams er það þegar fólk nær sér í mat í matvörugáma verslana. Ólíkt því sem margir halda þá eru flestir sem stunda gámagrams ekki að gera það vegna fátæktar heldur af hugsjón. Við förum á rúntinn með Rakel Garðarsdóttur sem hefur lengi barist gegn matarsóun og skoðum gáma á höfuðborgarsvæðinu og hittum nokkra gámagramsara.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Rakel Garðarsdóttir, Hallur Heiðarsson, Gréta, Adam og Kasja. -
Rifjað upp við þegar yfir 300 verkafólk kom frá Þýskalandi til Íslands til þess að vinna hér. Fjölmennasti hópurinn kom með strandferðaskipinu Esju 8. júní árið 1949. 69 árum síðar rifjar hin 87 ára gamla Gisela Schulze upp ferðalagið til Íslands, aðdragandann að því og hvernig var að koma til Íslands frá Þýskalandi.
Viðmælendur: Gisela Schulze og Nína Rós Ísberg
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir. -
Í dag eru betri möguleikar en áður á að breyta um starfsferil þó maður sé komin á fullorðinsár. Við heyrum sögur fólks sem söðlaði um og breytti um stefnu, hvort sem það var í lífi eða starfi, eða jafnvel bæði. Við heyrum meðal annars sögu Kristjáns sem fór í kvikmyndanám þegar hann var orðinn 51 árs. Hann segir það hafa breytt lífi sínu og er í dag miklu glaðari en áður.
Viðmælendur:
Kristján Þór Ingvarsson, Fanney Birna Jónsdóttir, Rut Sigurðardóttir, Kristjana Mjöll Sigurðardóttir.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir -
Sífellt fleiri upplifa kulnun í starfi eða lífinu almennt. Í fimmtánda þætti af Málið er skoðum við kulnun og hvort það sé eitthvað við nútímasamfélag sem geri það að verkum að sífellt fleiri og yngra fólk upplifi kulnun. Við heyrum reynslusögur fólks sem hefur upplifað kulnun.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur: Auður Jónsdóttir, Íris Stefanía Skúladóttir, Linda Bára Lýðsdóttir, Margrét Marteinsdóttir. -
Í fjórtánda þætti af Málið er heimsækir Viktoría Hermannsdóttir, Vin á Hverfisgötu. Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Við hittum fyrir fólkið sem sækir athvarfið, meðal annars einn sem er sagður fyrirmyndin af einni af aðalpersónunum í Englum Alheimsins, annan mann sem hefur þróað umbunarkerfi sem hjálpar honum að lifa með geðklofa og heyrum af lífinu í VIN.
Viðmælendur:
Halldóra Pálsdóttir, Viðar Hafsteinn Eiríksson, Hörður Jónasson, Kristín Bjarnadóttir, Helgi Júlíusson, Ingi Hans Ágústsson, Sissa Hjördís Gestsdóttir, Jón Arnór, Sigurður Fáfnir. -
Í þrettánda þætti af Málið er kannar Viktoría Hermannsdóttir kattaheiminn á Íslandi. Kettir hafa fylgt manninum frá örófi alda og sérstakt samband skapast milli katta og manna. Við tölum við fólk sem hefur að einhverju leyti tileinkað líf sitt köttum og heyrum óvenjulegar og skemmtilegar sögur af köttum.
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir
Viðmælendur:
Halldóra Snorradóttir
Ragnheiður Gróa Hafsteinsdóttir
Hanna Ólafsdóttir
Gígja Sara Björnsson -
Í tólfta þætti af Málið er, er rætt við Helga Óskarsson, sem var á unglingsárum sínum lengdur um 40 sentimetra í þremur kvalarfullum aðgerðum í Rússlandi. Rætt er við Helga og spilað upp úr gömlu viðtali við hann og föður hans, Óskar Einarsson, úr Kastljósi sjónvarpsins 1983. Þar er einnig rætt við Gunnar Þór Jónsson lækni en Sigurlaug Jónsdóttir tók viðtalið.
-
Í þættinum í dag rifjum við upp sögu mæðginanna Hans Mann Jakobsson og Helene Mann sem flúðu frá Þýskalandi til Íslands árið 1936 vegna ofsókna nasista.
Spilað viðtal við Hans Mann Jakobsson úr þættinum Á sunnudögum með Bryndísi Schram frá árinu 1993.
Spilað viðtal við Hans Mann Jakobsson úr heimildamyndinni Gyðingar á Íslandi eftir Einar Heimisson frá árinu 1989.
Viðmælendur: Kristrún Heimisdóttir, Hans Mann Jakobsson.
Umsjónarmaður: Viktoría Hermannsdóttir -
Í þættinum í dag rifjum við upp sögu Rottberger fjölskyldunnar sem kom til Íslands árið 1935 en voru rekin úr landi árið 1938. Ungu hjónin Hans og Olga Rottberger flúðu hingað eftir að hafa orðið fyrir ofsóknum gyðinga í heimalandinu. Í þættinum í dag rifjum við upp sögu þeirra.
Viðmælendur: Gísli Gunnarsson, Kristrún Heimisdóttir, Þór Whitehead. Spilað úr viðtali Einars Heimissonar, sem birtist í heimildarmyndinni Gyðingar á Íslandi, við Olgu Rottberger.
Lestur Olgu: Sigurlaug Margrét Jónasdóttir
Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir -
Í þættinum í dag kynnumst við fólki sem hefur flúið heimaland sitt og sest að á Íslandi. Við kynnumst líka vinum þeirra á Íslandi, fólki sem hefur hjálpað þeim að aðlagast í nýju landi. Við byrjum í Safamýrinni þar sem við hittum vinkonurnar Þórdísi og Shiman, önnur er fædd á Íslandi og hin í Sýrlandi. Vinátta þeirra byrjaði fram á gangi þar sem þær voru báðar með börnin sín tvö að rogast upp með Bónuspokana. Við hittum líka Lindu Hreggviðsdóttur sem komst að því fyrir tilviljun að það væru flóttamannabúðir í bakgarðinum hjá henni í Sólheimum og nú hefur hún eignast vini frá mörgum löndum sem leita til hennar bæði í sorg og gleði. Við hittum líka vinina Mohammad og Sveinbjörn sem báðir eru verkfræðingar og kynntust í gegnum verkefni Rauða Krossins á Íslandi, leiðsögumenn flóttafólks. Einnig er rætt við Sigrúnu Erlu Egilsdóttur, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum á Íslandi. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir.
-
Heimilislausum hefur fjölgað mikið í Reykjavík á undanförnum árum. Í þættinum í dag kynnum við okkur heim þeirra, heimsækjum Gistiskýlið við Lindargötu, Kaffistofu Samhjálpar og heyrum í fólkinu á götunni. Viðmælendur: Þór Gíslason, forstöðumaður Gistiskýlisins, Róbert Gunnarsson, matreiðslumaður á Kaffistofunni, Guðrún Bjarnadóttir, Gunný, Pálmi Sigurðarson, Sigurður, Halldór og Baldur. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir.
-
Á hverju ári verða slys af mannavöldum þar sem einstaklingar valda öðrum skaða. Við heyrum af slysunum en sjaldnast því sem á eftir kemur. Þrátt fyrir að um slys hafi verið að ræða þá reynist það flestum erfitt að lifa með það á samviskunni að hafa valdið öðrum skaða.
Þórður Gunnar Þorvaldsson þekkir þá reynslu vel. 26. maí 2004 var örlagaríkur dagur sem breytti öllu i hans lífi. Þá varð hann valdur að dauða konu þegar hann var að bakka bíl sínum úr stæði í miðborg Reykjavíkur.
Þórður ræðir um slysið og hvaða áhrif það hafði á líf hans í þættinum. Á einu augnabliki fór hann frá því að vera góður námsmaður og íþróttamaður yfir í að ráða ekki við lífið.
Rætt við Þórð Gunnar Þorvaldsson og séra Vigfús Bjarna Albertsson sjúkrahúsprest sem þekkir vel til slíkra mála. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir. -
Í sjötta þætti af Málið er rýnum við í lestur ungmenna. Er ungt fólk hætt að lesa eða er þessum lesendahópi kannski ekki sinnt nægilega vel? Viðmælendur eru Brynhildur Þórarinsdóttir, Melkorka Gunborg Briansdóttir, Egill Örn Jóhannsson og Lilja Alfreðsdóttir. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir.
-
Matthildur Jónsdóttir Kelley á merkilega ævi að baki. Hún fæddist í Reykjavík en rúmlega tvítug flutti hún til Chicago í Bandaríkjunum og hefur búið þar í rúm fimmtíu ár. Hún fór á botninn, var í mikilli neyslu fíkniefna lengi sem hún fjármagnaði meðal annars með vændi. Hún sneri blaðinu við og hefur undanfarna áratugi hjálpað fíklum á götum Chicago borgar. Viktoría Hermannsdóttir ræðir við Matthildi og dóttur hennar, Angelique Kelley.
-
Einmanaleiki er svo vaxandi vandamál í nútímsamfélögum. Svo stórt er vandamálið orðið í Bretlandi að þar var á dögunum skipaður ráðherra einmanaleika. Í þættinum í dag heimsækir Viktoría Hermannsdóttir Hlutverkasetrið - stað þar sem fólki er hjálpað við að rjúfa félagslega einangrun og koma sér út í lífið á nýjan leik. Rætt er við þá sem bæði vinna í setrinu og sækja það. Viðmælendur eru: Elín Ebba Ásmundsdóttir, Ásta Gunnarsdóttir, Ágústa Karla Ísleifsdóttir, Kristín Guðbjörg Sigursteinsdóttir, Guðmundur Árni Sigurðsson, Anna Henriksdóttir, Katla Lind Þórhallsdóttir, Þór Örn Víkingsson og Ismael.
- Vis mere