Episoder
-
Það var langt í frá sjálfgefið að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir, héldu áfram samstarfi í nýrri ríkisstjórn, eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Myndun nýrrar ríkisstjórnar er aldrei einföld. Allra síst þegar fulltrúar ólíkra póla í stjórnmálum gerast samverkamenn, jafnvel þótt reynslan af rúmlega sex ára samstarfi sé í mörgu góð.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Fyrir alla stjórnarflokkana er mikilvægt að þeim verði mætt og að árangur náist á þeim stutta starfstíma sem ríkisstjórnin hefur. Aðeins árangur réttlætir ákvörðun flokkanna um að halda samstarfinu áfram.
-
Sundrung og skautun vestrænna samfélaga eru ógnir sem fæstir virðast leiða hugann að. Umburðarlyndi á raunverulega í vök að verjast. Óþol gagnvart þeim sem eru á annarri skoðun vex, óþolinmæði og fordómar sundra og grafa undan lýðræði. Eitrið seytlar um æðar háskólasamfélaga, sem áður voru brjóstvörn frjálsra skoðanaskipta. Skautun samfélagsins birtist í áhrifamiklum fjölmiðlum sem er fyrirmunað að fjalla af yfirvegun og sanngirni um mikilvæg samfélagsleg málefni. Hér á Íslandi hefur Ríkisútvarpið verið að breytast í kirkjudeild pólitísks rétttrúnaðar þar sem hlutleysi er fórnarlambið en skattgreiðendur eru neyddir til að borga reikninginn.
-
Manglende episoder?
-
Þegar spurðist út að formaður Samfylkingarinnar telji nauðsynlegt að breyta stefnunni í málefnum hælisleitenda fóru margir af taugum. Stór orð voru látin falla. Svo mikill var pólitíski skjálftinn innan raða Samfylkinga að tveir gamlir formenn töldu sig nauðbeygða til að taka til varna fyrir Kristrúnu. Össur Skarphéðinsson hafnaði því að Kristrún hafi verið að boða stefnubreytingu og í svipaðan streng tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Kristrún hafi bara verið með „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála. Ingibjörg Sólrún hafði hins vegar áhyggjur af því að hinar almennu „vangaveltur“ Kristrúnar væru að ala á sundrungu innan flokksins: „Látum ekki siga okkur hverju á annað.“
Stefnubreyting eða ekki stefnubreyting? Kannski skiptir svarið ekki öllu en hitt er augljóst að Kristrún Frostadóttir talar með allt öðrum hætti en þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa gert á undanförnum árum. Og það er lítill samhljómur með orðum Kristrúnar og ályktana flokksins.
-
Samkvæmt fjárlögum liðins árs var skattgreiðeindum ætlað að greiða Ríkisútvarpinu um 5,7 milljarða króna og á þessu ári um 6,1 milljarð. Þetta þýðir að á ellefu árum hefur ríkismiðilinn fengið í sinn hlut yfir 61 milljarð frá skattgreiðendum með milligöngu ríkissjóðs. Við þetta bætast tekjur af samkeppnisrekstri.
Á sama tíma og ríkismiðilinn fitnar líkt og púkinn í fjósinu hans Sæmundar, berjast sjálfstæðir fjölmiðlar í bökkum. Með skipulegum hætti gerir Ríkisútvarpið strandhögg á flestum sviðum fjölmiðlunar, allt frá auglýsingum til dagskrárgerðar og hlaðvarpsþátta.
-
Alls greiddu einstaklingar um 333 milljörðum króna lægri fjárhæð í tekjuskatt á ellefu ára tímabili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatthlutföll og skattareglur hefðu verið óbreytt frá tíð vinstri ríkisstjórnarinnar Samfylkingar og Vinstri grænna 2009 til 2013.
Tryggingagjöld hafa lækkað verulega og sama má segja um tolla og vörugjöld, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt tekjulægri hópa með verulegri hækkun frítekjumarks. Alls eru þeir skattar sem hafa lækkað nær 128 milljöðrum lægri en þeir væru að óbreyttu. Á móti koma hins vegar ýmsar skattahækkanir alls upp á 43 milljarða króna.
Ekki er hægt að mæla á móti því að frá árinu 2013 hafi töluvert áunnist í að hemja skattagleði ríkisins þetta er þvert á möntru sem jafnvel hægri menn í dygðaskreytingum halda fram. Árangurinn blasir við þegar rýnt er í tölulegar upplýsingar. En jafnvel þótt flest skrefin sem stigin hafa verið síðasta áratuginn séu í rétta átt, stendur sú staðreynd óhögguð að Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði. Ég hef verið óþreytandi við að benda á að skattbyrði launafólks og fyrirtækja, hafi bæði áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar og á lífskjör.
Skattaglaðir vinstri menn fara yfirleitt af taugum þegar minnst er á skattalækkanir. Kaldur hrollur fer um þá alla þegar þeir átta sig á því að árangur (ekki nægilega mikill) hefur náðst á síðustu tíu árum við að létta skattbyrðar einstaklinga og fyrirtækja. Með skattalækkunum hafa ráðstöfunartekjur heimilanna aukist og hlutfallslega hefur aukningin verið mest hjá þeim sem lægstu launin hafa.
-
Pabbi var meðalmaður á hæð, með þykkt hrafntinnu svart liðað hár sem fór ekki að grána fyrr en hann stóð á fimmtugu. Hann var kvikur í hreyfingum enda hjólaði hann alla daga í og úr vinnu, jafnt sumar sem vetur.
Pabbi féll frá árið 1991. Aðeins 58 ára gamall. Hann fékk heilablóðfall nokkrum árum áður og var aldrei sami maður. Hann gat sætt sig við hreyfihömlun en aldrei við lömun í tali. Fyrir áfallið var pabbi fljúgandi mælskur – leikari af guðs náð – magnaður ræðumaður – ótrúlegur sögumaður og eftirherma. Hann var maður orðsins. Hann lamaðist á hægri hlið og því varð rithöndin ónýt. Með þrautseigju og meðfæddri þrjósku fór pabbi að skrifa með vinstri hendi, þá 53 ára gamall. En það fór í taugarnar á honum að rithöndin var ekki sú sama fallega sem hann erfði frá afa Jóni og hann náði aldrei sama hraða og áður.
Margt í sögu föður míns er hulið.
-
Af bréfaskriftum Kára er augljóst að það hefur ekki verið einfalt fyrir hann að taka ákvörðun að snúa aftur heim til Íslands. Hann segir móður sinni 25. febrúar 1955 að ekki sé ráðlegt að koma heim að sinni þrátt fyrir atvinnuleysið. Hann vilji vinna sér „inn pening og koma ekki með öllu allslaus heim“. Hann biður móður sína að sýna sér skilning í þessum efnum. Kári viðurkenndi í bréfi til föður síns 15. september 1954 að hann viti ekki hvað bíði hans þegar hann snúi aftur heim en „vera má að ég fái eitthvert það starf, sem mér fellur vel“. Ekki komi annað til greina en fast starf „ella sest ég ekki að á Króknum, sem þó er ósk mín“.
Þetta er fjórði hluti frásagnar um tvo æskuvini sem leituðu betra lífs í Kanada 1954/55.
-
Eftir því sem líður á dvöl æskuvinanna í „fyrirheitna landinu“ verður tóninn þyngri og greinilegt er að Kanada olli þeim töluverðum vonbrigðum. Kári talar um þetta „óttalega“ land og að engin hætta sé á að Ameríka gleypi hann enda sé hann „fullseigur biti og bragðvondur að auki“. Kári og Haukur voru atvinnulausir í marga mánuði.
Kári tekur fram að þótt ekki hafi allt gengið eftir eins og hann vonaðist til þá beri hann ekki kala hvorki til landsins né fólksins – þvert á móti þyki honum vænt um hvorutveggja. Dvölin í Kanada hafi á margan hátt verið ánægjuleg og ógleymanleg:
„Nú í fyrsta sinn hefi ég eiginlega reynt hvað lífið er. Heima lifði maður svo dæmalaust vel að lífið var bara leikur. Það er líka gaman að kynnast framandi fólki og kanna ókunna stigu.“
Þetta er þriðji hluti frásagnar um unga menn frá Króknum sem leituðu fyrir sér í Kanada 1954 og 1955.
-
Á fyrstu árum sjötta áratug tuttugustu aldarinnar voru fá tækifæri fyrir unga menn á Sauðárkróki. Það er því skiljanlegt að tveir æskuvinir - Kári Jónsson og Haukur Stefánsson - freistuðu gæfunnar í öðru landi; Kanada.
Æskuvinirnir voru fullir tilhlökkunar og bjartsýni þegar þeir héldu utan í júní 1954. Kári segir í bréfi til vinar síns að þeir séu loksins komnir „til fyrirheitna landsins og ég get tekið það strax fram að okkur líkar dvölin vel“:
„Fólkið er hér frjálslegt og allir virðast ánægðir. Hirði ég ekki um að lísa því nánar en skal segja þér frá því þegar maður kinnist lífinu nánar. Við lifum hér hinu bezta lífi og V. Íslendingar vilja allt fyrir okkur gera...“
Ekki voru þeir eins hrifnir af New York en þar gistu félagarnir á leið sinni til Kanada og breytti engu þótt þar hafi þeir í „fyrsta sinn séð sjónvarp og fundið bragð af góðum bjór“:
„Ekki geðjast okkur af borginni, hún er ekki annað en steinn og stál og efnishyggjan virðist vera að kæfa þann litla vott sem nefna mætti líf.“
Þetta er II. hluti frásagnar af tveimur æskuvinum sem lögðust í víking til Kanada.
-
Saga af tveimur æskuvinum frá Króknum sem freistuðu gæfunnar í Kanada
Árið 1954 ákváðu tveir ungir menn frá Sauðárkróki að freista gæfunnar í öðru landi. Æskuvinir vildu reyna fyrir sér í Kanada. Annar þeirra var pabbi, Kári Jónsson og hinn Haukur Stefánsson.
Fyrir síðustu jól gaf ég út litla bók um þetta ævintýri og leitinni að grænna grasi. Bókin kom út í takmörkuðu upplagi og sendi ég hana ættingjum og nokkrum vinum. Frásögnin – um vonir, væntingar og vonbrigði – byggir á sendibréfum. Annars vegar eru það bréf pabba til foreldra, systur og góðgerðarmanns og bréf þeirra til hans. Hins vegar eru það bréf Hauks til foreldra sinna.
Tilgangurinn með skrifunum var að gefa nokkra innsýn í hugarheim og aðstæður ungra manna á sjötta áratug síðustu aldar. Tækifærin á Íslandi voru takmörkuð, atvinnuástand erfitt og þjóðfélagið í fjötrum opinberra afskipta og hafta. Og líkt og svo oft áður heillaði Vesturheimur. Grasið reyndist hins vegar ekki grænna í nýja heiminum.
Í næstu hlaðvarpsþáttum ætla ég að segja þessa sögu og nýta bókina að mestu leyti.
-
Ég hef lengi haft töluverðar áhyggjur af menntakerfinu og gæði menntunar, allt frá grunnskóla- til háskólastigs. Áhyggjur mínar hafa síst minnkað með árunum og þá sérstaklega þegar kemur að gæðum grunnskólanáms, sem er undirstaða alls annars náms. Hér er ekki við kennara eða foreldra að sakast. Kerfið er brotið.
Við Íslendingar rekum einn dýrasta grunnskóla heims. Sem hlutfall af landsframleiðslu verjum við um 2,3% til grunnskólans. Ekkert þróað land ver jafnmiklu og Ísland í rekstur grunnskóla. Árangurinn er hins vegar ekki í samræmi við kostnaðinn.
Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun: Að endurskipuleggja grunnskólann og treysta grunn menntunar. Þannig efnum við fyrirheitið um að tryggja börnunum okkar góða menntun og veganesti sem nýtist til allrar framtíðar.
-
Í mörg ár hef ég skrifað reglulega pistla í Morgunblaðið – varla er sá miðvikudagur á árinu sem fellur úr. Á árinu 2023 skrifaði ég 48 pistla um margvísleg efni. Skólamál, trúmál, atvinnumál, félagafrelsi, skatta, ríkisrekstur, heilbrigðismál, frelsið sem á í vök að verjast, fjölmiðla, ríkisfjármál, sveitarfélög, loftlagsmál, orkumál, og þannig má lengi telja.
Ég ætla að ljúka árinu með að hlaupa yfir tilvísanir í nokkrar greinar í þeirri von að yfirferðin gefi nokkra innsýn fyrir hvað ég stend í stjórnmálum.
-
Áform um sameiningu MA og VMA byggir á miklum misskilningi. Hér er ekki verið að sameina stjórnsýslustofnanir eða eftirlitsstofnanir ríkisins. Ekki einkynja sýslumannsembætti eða dómstóla, ekki skatt- og tollstjóri, ekki veikburða ríkisstofnanir sem sinna afmörkuðum verkefnum. Nei. Ætlunin er að sameina menntastofnanir, með ólíkar hefðir, uppbyggingu og skipulag náms. Skóla sem byggja á ólíkri hugmyndafræði, sögu og menningu og hafa hvor um sig náð góðum árangri. Skóla sem bjóða nemendum mismunandi nám. Skóla sem eiga samvinnu en keppa engu að síður um nemendur. Skóla sem hafa myndað festu og tækifæri á öllu Norðurlandi.
Tveir sjálfstæðir framhaldsskólar á Akureyri eru ekki dæmi um báknið - heldur fjölbreytileika og valmöguleika ungs fólks til menntunar.
-
Hvers vegna er ríkisbáknið orðið ófreskja? Þannig spurði Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í erindi sem hann flutti árið 1976. Yfirskriftin var „Embættisvaldið gegn borgurunum”.
Orðrétt sagði Eykon:
„Á því leikur naumast vafi, að útþensla ríkisbáknsins meðal vestrænna lýðræðisþjóða er orðið alvarlegt vandamál, enda má segja að kerfið stjórni sér orðið sjálft — það stjórni mannfólkinu en enginn mannlegur máttur ráði við það, eða eins og einhver sagði:
„Kerfið er ófreskja — og ef einhverjir reyna að taka henni taki þá bara hristir hún sig og menn hrökkva af henni."“
-
Fyrir síðustu kosningar spurðu nokkrir framhaldsskólanemar mig: „Hvað ætlar þú að gera fyrir okkur?“ Nemarnir höfðu gengið á milli frambjóðenda flokkanna og krafið þá svara. Og fengið loforð – sum stór. „Ég ætla að láta ykkur í friði,“ svaraði ég, „en leita allra leiða til að tryggja að þið hafið aðgengi að öflugu menntakerfi, þar sem þið getið ræktað hæfileika ykkar, fundið farveg fyrir það sem hugurinn þráir, – menntakerfi sem býr ykkur undir lífið og gefur ykkur tækifæri í framtíðinni. Og ég mun standa við bakið á ykkur þannig að þið fáið að njóta hæfileika ykkar og dugnaðar.“
Unga fólkið var undrandi yfir svarinu, enda bjóst það við einhverju allt öðru; fyrirheitum um hækkun námslána, aukin framlög ríkisins til framhaldsskóla og háskóla eða kannski enn stærri loforð. Í mörgu lýsir svar mitt grunnhugsjónum mínum ágætlega.
-
Tíminn og tæknin grafa oft undan lögum – gera þau úrelt, tilgangslaus eða það sem verra er, lögin hamla framþróun samfélagsins. Löggjafinn á þá um tvennt að velja. Annars vegar að fella viðkomandi lög niður og/eða breyta þeim í takt við breytta tíma. Eða hins vegar að þráast við, berja hausnum við steininn og neita að horfast í augu við samtímann og skynja í engu framtíðina. Velji löggjafinn síðari kostinn er hættan sú að virðing fyrir gildandi lögum hverfi, almenningur hunsi lögin og leiti lausna utan hins löglega.
-
Hún er í Samfylkingunni. Ég í Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt bókstaf stjórnmálafræðinnar erum við pólitískir andstæðingar. Þó er fleira sem sameinar okkar en sundrar. Við eigum meiri samleið en ætla mætti af þeirri einföldu mynd sem stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar draga gjarnan upp. Við erum bæði sannfærð um að þrátt fyrir ýmsa galla sé íslenskt samfélag gott samfélag, sem er mótað af sögu og menningu, samofið kristnum gildum.
-
Markmið Sjálfstæðisflokksins er að vinna að framgangi hugsjóna og hafa áhrif á framtíð samfélagsins. Hugsjónum er erfitt að hrinda í framkvæmd án þátttöku í samsteypuríkisstjórn enda hafa kjósendur aldrei veitt stjórnmálaflokki umboð sem dugar til að mynda meirihlutastjórn eins flokks. Einmitt þess vegna höfum við þurft að rækta hæfileikann til að koma til móts við andstæð sjónarmið án þess að missa sjónar á hugsjónum. Forsenda fyrir árangri í samstarfi við aðra flokka í ríkisstjórn er að hafa burði til að gera málamiðlanir. Sá sem ekki getur gert málamiðlun án þess að missa sjónar á hugsjónum er dæmdur til áhrifaleysis.
Stjórnmálaflokkur sem berst fyrir framgangi hugsjóna – vill hrinda hugmyndum í framkvæmd – þarf stöðugt að vega og meta með hvaða hætti það er best gert.
Fjölmennasti flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var fyrir skömmu, var með skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar.
-
Réttur þingmanna til að leggja fram vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórn í heild sinni, er ótvíræður. Þennan rétt nýttu fjórir stjórnarandstöðuflokkar undir forystu Pírata 30. mars síðastliðinn. Vonin um að vinna pólitísk strandhögg rættust ekki. Eftir standa stóryrðin líkt og minnisvarði um upphlaup sem engu skilaði.
-
Ekki var það til að auka bjartsýni mína á framtíðina sem menntskælings að þurfa að lesa bókina „Endimörk vaxtarins“ eftir nokkra vísindamenn sem kölluðu sig Rómarsamtökin. Boðskapurinn var ekki uppörvandi. Það væri komið að endimörkum hjá mannkyninu, mikilvæg hráefni væru á þrotum og vöxtur efnahagslífsins gæti ekki haldið áfram. Hér eftir yrði mannkynið að læra nægjusemi og láta af neysluhyggju. Með öðrum orðum: Lífskjör mín og minnar kynslóðar yrðu lakari, jafnvel miklu lakari, en foreldra minna.
- Vis mere