Episoder
-
Stýrivextir voru lækkaðir um 0,5 prósentustig á miðvikudaginn og peningastefnunefnd hittist ekki aftur fyrr en í febrúar. Ef verðbólga hjaðnar í takt við spár má gera ráð fyrir að raunvextir hækki um heilt prósentustig á næstu þremur mánuðum. Áfram er verðbólga þó langt yfir markmiði og vextir himinháir, og ýmsir óvissþættir kunna að setja strik í reikninginn.
Hagfræðingar í Greiningardeild Landsbankans stikla á stóru um stöðuna í efnahagsmálum í nýjasta hlaðvarpsþætti Umræðunnar. -
Horfurnar eru nokkuð bjartar, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans, þrátt fyrir lítils háttar samdrátt á þessu ári. Með hjaðnandi verðbólgu og auknum slaka á vinnumarkaði skapast svigrúm til áframhaldandi vaxtalækkana sem blása lífi í hagkerfið.
Hagfræðingar Greiningardeildar bankans ræða hagspána í nýjasta þætti Umræðunnar. -
Manglende episoder?
-
Eftir heilt ár af óbreyttu vaxtastigi virðist enn bið eftir að hægt verði að slaka á aðhaldinu. Verðbólga færðist lítillega í aukana í sumar, íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka og kortavelta landsmanna hefur aukist milli ára að raunvirði. Staðan er snúin og væntingar um verðbólguþróunina eru enn langt yfir markmiði.
Þetta er á meðal þess sem er til umræðu í nýjasta hlaðvarpsþætti Umræðunnar.
-
Fjölmargir lántakendur standa frammi fyrir því að fastir vextir á íbúðalánum þeirra eru að losna og horfa fram á að taka ákvörðun um hvað skuli gera næst. Í þætti Umræðunnar förum við yfir stöðuna, hvernig endurfjármögnun virkar og kynnum nýja lausn í appinu sem gerir endurfjármögnun þægilegri.
-
Verðbólga var umfram spár í maí og jókst milli mánaða. Hagkerfið dróst saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi og þar með varð samdráttur í fyrsta sinn síðan í byrjun árs 2021.
Hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir, Hjalti Óskarsson og Una Jónsdóttir ræða stöðuna í efnahagsmálum í nýjasta hlaðvarpsþætti Umræðunnar. -
Hagfræðideild spáir því í nýrri hagspá að enn sé þó nokkur bið eftir fyrstu vaxtalækkun. Verðbólgan hjaðni smám saman á næstu árum og efnahagsumsvif aukist eftir því sem vextir lækka.
Hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir, Hjalti Óskarsson og Una Jónsdóttir ræða hagspána í nýjasta hlaðvarpsþætti Umræðunnar.
-
Seðlabankinn hélt vöxtum óbreyttum á miðvikudag og sló harðari tón en búist var við. Markaðsaðilar gerðu flestir ráð fyrir að vaxtalækkunarferli gæti hafist í maí, en lengist biðin kannski fram í haust? Hvað þarf að gerast áður en hægt verður að slaka á taumhaldinu?
-
James Ashley, forstöðumaður markaða og stefnumála í Goldman Sachs, er gestur í nýjasta þætti Umræðunnar. Hann ræðir efnahagshorfur í heiminum, óvissuþætti í tengslum við komandi kosningar í Bandaríkjunum og ólgu í alþjóðastjórnmálum.
Karítas Ríkharðsdóttir, sérfræðingur í Samskiptum, stýrir þættinum og með henni er Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur.
-
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vöxtum verði haldið óbreyttum í næstu viku. Þótt verðbólguhorfur hafi batnað stígi peningastefnunefnd varlega til jarðar, ekki síst í ljósi óvissu í tengslum við náttúruhamfarir og kjaraviðræður.
Hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson ræða meðal annars vaxta- og verðbólguhorfur í nýjasta hlaðvarpsþætti Umræðunnar. -
Verðbólguhorfur hafa versnað lítillega á síðustu vikum. Seðlabankinn hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í vetur, íbúðaverð er aftur á uppleið en hagvöxtur er mun minni en í upphafi árs. Hagfræðideildin ræðir þetta og fleira í nýjasta hlaðvarpsþættinum.
-
Hófstilltur hagvöxtur, háir vextir og hjaðnandi verðbólga. Þetta er á meðal þess sem einkennir efnahaginn næstu ár, samkvæmt nýrri hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Í nýjasta þætti Umræðunnar ræða hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson efnahagshorfurnar og fara yfir það helsta úr spánni.
-
Fjármál ungs fólks hafa verið sérstaklega til umfjöllunar hjá fræðsludeild Landsbankans að undanförnu.
Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans, og Guðrún H. Bjarnadóttir, sérfræðingur í viðskiptalausnum, ræða við Karítas Ríkharðsdóttur um hvað gögn bankans segja um fjárhagsstöðu ungs fólks.
Meðal annars kemur fram að nokkuð sé um að ungt fólk geymi háar fjárhæðir á veltureikningum og að ungir karlar fjárfesti í hlutabréfum í meiri mæli en ungar konur. Þá eru ungar konur síður skráðar einar fyrir fasteignalánum.
-
Fjölgun ferðamanna og aukin einkaneysla eru á meðal þeirra þátta sem halda uppi hagvexti. Laun hafa hækkað, enda spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki. Þrátt fyrir háa vexti kyndir kröftug eftirspurn undir verðbólgu, sem þó vonandi er á niðurleið.
Hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson spjalla um þetta og ýmislegt fleira í nýjasta þætti Umræðunnar.
-
Landsbankinn bauð fólki nýlega í fyrsta sinn í nýtt húsnæði sitt við Reykjastræti á viðburði í tengslum við HönnunarMars. Viðburðirnir voru vel sóttir og ljóst að mikill áhugi er á hönnun og virkni hússins.
Í þættinum ræðir Karítas Ríkharðsdóttir við Halldóru Vífilsdóttur, framkvæmdastjóra arkitektastofunnar Nordic og verkefnastjóra nýbyggingarinnar, Helga Mar Hallgrímsson arkitekt hjá Nordic og Jonas Toft Lehmann, arkitekt og partner hjá dönsku arkitektastofunni CF Möller, um hugmyndafræði hússins frá samkeppnistillögu að raunverulegum vinnustað, áskoranir og árangur.
-
Útlit er fyrir ágætis hagvöxt næstu ár þótt hægi á hagkerfinu, samkvæmt nýrri hagspá Hagfræðideildar. Ferðamönnum fjölgar og einkaneysla eykst áfram, en allt í skugga þrálátrar verðbólgu. Vextir hækka áfram og byrja ekki að lækka fyrr en á næsta ári.
Hagspáin er til umræðu í nýjasta hlaðvarpsþættinum þar sem Una Jónsdóttir, Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson fara yfir helstu atriðin.
-
Netsvik hafa sótt verulega í sig veðrið að undanförnu og eru dæmi um að tugir milljóna hafi verið sviknir út úr einstaklingum og fyrirtækjum. Viðbragð við netsvikum er orðinn hluti af daglegri starfsemi Landsbankans.
Í þættinum ræðir Karítas Ríkharðsdóttir við Brynju Maríu Ólafsdóttur, sérfræðing í regluvörslu, og Arinbjörn Ólafsson, framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs, um netsvik og varnir og viðbrögð við þeim. -
Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta í næstu viku. Verðbólguhorfur versnuðu í febrúar, verðbólgan er almennari en áður og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur aukist. Þrátt fyrir að meginvextir bankans hafi hækkað úr 0,75% í 6,5% á tæpum tveimur árum virðast þeir síður en svo hafa dregið allan þrótt úr hagkerfinu.
Í þættinum ræða hagfræðingarnir Una Jónsdóttir og Hildur Margrét Jóhannsdóttir stýrivaxtaspána og stikla á stóru um stöðuna í hagkerfinu. -
Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir fyrstu stýrivaxtaákvörðun ársins miðvikudaginn 8. febrúar. Verðbólgan hefur hjaðnað hægar en búist var við og samsetning hennar hefur breyst á síðustu mánuðum. Fasteignamarkaðurinn fer kólnandi og ýmis merki eru um kröftuga íbúðauppbyggingu. Kann að vera að verið sé að byggja of mikið?
Í þættinum spá hagfræðingarnir Una Jónsdóttir, Ari Skúlason og Hildur Margrét Jóhannsdóttir fyrir um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans, ræða verðbólguna, launahækkanir, fasteignamarkaðinn og fleira.
-
Fyrirtæki í verslun og þjónustu hafa þurft að aðlagast sveiflukenndu rekstrarumhverfi á síðasta áratugnum. Ferðamannabylgja, heimsfaraldur og hvað svo? Horfurnar virðast góðar fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu en róðurinn hugsanlega þyngri fyrir þau sem selja vörur og þjónustu á innlendum markaði.
Í þættinum er fjallað um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi. Þar spjalla saman þær Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar bankans, Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur og Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði bankans.
-
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig í gær, enda hafa verðbólguhorfur versnað lítillega á síðustu vikum. Hvað þýðir að kjölfesta verðbólguvæntinga hafi veikst og hvenær getur Seðlabankinn slakað á taumhaldinu? Hvernig getur fjármálageirinn brugðist við loftslagsvandanum og hver er ábyrgð hans?
Þetta er á meðal þess sem farið er yfir í nýjasta hlaðvarpsþættinum. Þátturinn er tvískiptur, fyrst ræða hagfræðingarnir Ari Skúlason, Gústaf Steingrímsson og Hildur Margrét Jóhannsdóttir stýrivexti, verðbólgu og fleira. Í seinni hluta þáttarins kemur Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri bankans, og ræðir við Hildi Margréti og Ara um sjálfbærni í fjármálageiranum og samfélagslegar fjárfestingar.
- Vis mere