Episoder
-
Elsa Borg Sveinsdóttir og Kristín Björg Viggósdóttir ræddu í þættinum við Guðrúnu Ingu Torfadóttur vítt og breytt um virðingarríkt uppeldi og þroskasögu sína þegar kemur að foreldrahlutverkinu og foreldraráðgjöf. Allar þrjár hafa verið vinkonur í sjö til átta ár og mynduðu félagsskapinn Meðvitaða foreldra með fleiri góðum.
Heilmikið vatn hefur runnið til sjávar frá því þær Elsa og Kristín urðu fyrst mæður fyrir nærri því einum og hálfum áratug, kynntust RIE og virðingarríka arminum og hófu nám í faginu sömuleiðis með ólíkum hætti. Við heyrum um þetta ferðalag þeirra og hvernig hefur verið að samþætta akademískan þátt uppeldisfræðanna við innsæi sitt og svo áfram vítt og breytt um foreldrahlutverkið og þroskaferlið sem það felur í sér.
----
Elsa er menntaður foreldra- og uppeldisfræðingur og jógakennari. Hún er lærdómsfús og fær aldrei nóg af því að afla sér þekkingar og hefur setið hin ýmsu námskeið og vinnustofur. Þar má nefna ígrundaðar samræður foreldra (RDPED), “polyvagal informed treatment”, “fierce self-compassion”, “the power of mindful self-compassion”, doulunámskeið, BIO TRIO (erasmus verkefni um samskipti) o.fl. Elsa starfar einnig sem verkefnastjóri þróunarverkefnis um foreldrafærni við HÍ og kennir jóga í Yogavin studio.
Kristín Björg er foreldra- og uppeldisfræðingur, iðjuþjálfi, jógakennari og með MA í dans- og hreyfimeðferð. Hún er þriggja barna móðir sem henni þykir meiri lærdómur en nokkur háskólagráða. Helstu áhugasvið Kristínar eru virðing og tengsl í uppeldi, skynúrvinnslu kenningar (e. sensory integration) og allt sem viðkemur vinnu með líkamann. -
Kona á samtal við konu um hvernig á að koma á nýjum svefnvenjum og eignast kvöldin sín aftur; fyrir raunveruleikaþætti, prjónaskap eða að stara út í loftið eða í augu makans. Skiptir ekki öllu máli fyrir hvað, en meira máli skiptir að trúa því að það er hægt!
Í þetta sinn voru það vinkonurnar Birna Almarsdóttir og Guðrún Inga Torfadóttir sem rifjuðu upp hvernig gekk að gera stórar breytingar með litlu samtali á tilhögun háttatímans hjá einni frábærri stelpu sem nú arkar almennt betur sofin út í dagana sína eftir breytingarnar.
Vonandi hjálpar þessi litla umfjöllun þér að taka á einhverju sem þarf e.t.v. að breyta eða hnika til í svefnuppeldinu á þínu barni. Ef ekki, þá má benda á stóra þáttinn, nr. 50 í Virðingu í uppeldi sem fer mun nánar ofan í svefnsálmana. -
Manglende episoder?
-
Auður Bjarnadóttir, eigandi Jógasetursins og dásamlegur meðgöngujógakennari, kom beint úr tíma með fullan sal af verðandi mæðrum sem dönsuðu og önduðu ásamt Birnu Almarsdóttur sem á brátt von á sér. Þær ræddu við Guðrúnu Ingu Torfadóttur um undirbúning fæðingar, stuðning maka, að vinna sig í gegnum tilfinningar sem vakna á meðgöngu og góðar möntrur sem hjálpa við að sjá fyrir sér góða fæðingu.
Dásamlegt spjall sem fer í góðan sarpinn með öðrum þáttum Virðingar í uppeldi sem fjalla um fæðingar. -
Perla Hafþórsdóttir tók á aðventunni á móti þeim Marit Davíðsdóttur og Yrju Kristinsdóttur sem saman sköpuðu Gleðiskrudduna og eru mjög virkar við að halda námskeið fyrir börn og ungmenni. Þær gáfu jafnframt út samnefnda dagbók fyrir börn að vinna með sem er mjög vel heppnuð og notuð víða.
Gleðiskruddan byggist á jákvæðri sálfræði og leggur áherslu á að efla sjálfsþekkingu og auka vellíðan og við kynnumst í þessum þætti aðeins hvernig þær hugsa þetta allt saman.
Eflandi og jákvætt upphaf hjá okkur á nýju ári í Virðingu í uppeldi! -
Vinkonurnar til margra ára sem stofnuðu Hugarfrelsi og hafa í um tíu ár eða meira starfað við að heimsækja leik- og grunnskóla og kenna börnum að hugleiða, sem og foreldrum á ótal námskeiðum, heimsóttu þær Dagnýju Hróbjartsdóttur og Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Þetta eru þær Hrafnhildur Sigurðardóttir og Unnur Arna Jónsdóttir, sem saman hafa búið til auð af efni, alls konar spjöld, hugleiðslur og bækur en ekki síst kennt í eigin persónu í bekkjum vítt og breitt um landið.
Í þættinum leyfðu þær Dagný og Guðrún sér að vera ákafar (styrkleiki, fróðleiksfýsi) og spyrja út í alls konar og tala mikið (styrkleiki, tjáning og samskipti). Hrafnhildur og Unnur (styrkleiki, rósemd) biðu rólegar á meðan og svöruðu svo sem lýsti djúpri reynslu þeirra af málefnunum (styrkleiki, drifkraftur og seigla).
Við tæptum sem sagt á ýmsu í þættinum, allt frá umfjöllun um starf þeirra, meðhöndlun kvíða, svefn barna, sjálfstal, styrkleikaeflingu og foreldrahlutverkið í víðum skilningi.
Sjá hugarfrelsi.is ef þú vilt vita meira. -
Í þættinum fjalla þær Guðrún Björnsdóttir og Soffía Bæringsdóttir dúlur mættar að ræða erfiða fæðingarreynslu og úrvinnslu vikurnar og mánuði á eftir, eða jafnvel enn síðar. Þær fjalla fallega um þetta málefni og gott er að hlusta á þær og gera upp sína eigin fæðingarreynslu í leiðinni.
-
Í þættinum fékk Dagný Hróbjartsdóttir Ágústu Rúnarsdóttur til sín í spjall um foreldrahlutverkið og þróun og þroska sinn í því frá því hún varð móðir fyrst, tæplega 17 ára gömul og svo aftur komin yfir fertugt. Tímarnir hafa breyst og fólkið breytist með.
Yndislegt spjall sem við mælum með! -
Hér er á ferðinni fjórði þáttur dúlanna Guðrúnar Björnsdóttur og Soffíu Bæringsdóttur í Hönd í hönd. Þær ræða í þættinum um leiðir til þess að gera sængurleguna ánægjulegri og reynslu sína hvað það varðar.
Fallegt og rólegt spjall sem er yndi að taka í göngutúrnum, með makanum í bíltúr eða á koddanum fyrir svefninn, sérstaklega ef þú eða einhver nákominn þér á von á barni. -
Í þessum 90. þætti Virðingar í uppeldi kynnumst við viðhorfi Gests Pálmasonar, stjórnenda- og teymisþjálfara hjá breska þjálfunarfyrirtækinu Complete Coherence til foreldrahlutverksins í samtali við Guðrúnu Ingu Torfadóttur.
Áhugi hans og starfsorka liggur í að vinna með fullorðnu fólki við að ná lengra í störfum og lífi sínu.
Viðhorf okkar og orka segi til um hvernig við tengjumst öðrum sem hefur mikið að segja hversu langt við náum. Heilinn hafi möguleika á að aðlagast og breytast alla ævi og við höfum möguleika á að velja okkur viðhorf.
Frábært spjall sem gefur orku inn í hversdaginn. -
Öll höfum við stundum gott af því að hlusta á eitthvað sem peppar okkur í leiðtogahlutverkinu. Hér er stutt hugvekja um mörk í boði Guðrúnar Ingu Torfadóttur.
-
Enn á ný heiðra dúlurnar Guðrún Björnsdóttir og Soffía Bæringsdóttir í Hönd í hönd okkur með nærveru sinni í Virðingu í uppeldi með spjalli sínu og vangaveltum um parsambandið á meðgöngu og í fæðingu - og hvað aðkomu dúlur geta haft til að liðka fyrir og gefa því byr undir báða vængi áður en þau taka á móti barninu.
Fallegt og rólegt spjall sem er yndi að taka í göngutúrnum, með makanum í bíltúr eða á koddanum fyrir svefninn. -
Guðrún Inga Torfadóttir tók hér á móti Guðrúnu Jóhönnu Benediktsdóttur iðjuþjálfa. Hún er með réttindi sem leiðbeinandi í PEERS félagsfærni fyrir börn, unglinga og ungt fólk og heldur námskeið í því hjá Lífsbrunni ásamt því að vinna með börnum og fjölskyldum þeirra almennt við skynúrvinnslumöt til að mynda.
Frábært og upplýsandi spjall! -
Hvað gerist þegar tvær traustar vinkonur sem kynntust í gegnum félagsskap okkar í kringum virðingarríkt uppeldi og búa á Selfossi taka spontant viðtal við barnalækninn á svæðinu sem önnur þeirra var svo ánægð með í síðustu heimsókn?
Þessi þáttur.
Vignir Sigurðsson læknir leyfir sér hér að segja það sem stendur hjarta hans nær. Vinkonurnar tvær blómstra í þessu spjalli sömuleiðis.
Sértu heilbrigðisstarfsmaður sem stundum eða alla daga þjónustar börn, hlustaðu.
Sértu væntanlegt eða núverandi foreldri eða umönnunaraðili, hlustaðu.
Uppeldisbækur sem hafa haft áhrif á Vigni að hans sögn eru Hjálp fyrir kvíðin börn og How To Talk So Kids Will Listen and Listen So Kids Will Talk. 59. þáttur þessa hlaðvarps fjallar einmitt um síðarnefndu bókina hvað viðkemur ungum börnum og við mælum líka með honum. -
Framundan inn á milli annarra þátta eru nokkrir þættir úr smiðju þeirra Guðrúnar Björnsdóttur og Soffíu Bæringsdóttur. Þær starfa báðar sem doulur. Guðrún er ein stofnmeðlima Meðvitaðra foreldra og tveggja barna móðir. Segja má að foreldrahlutverkið og ástríða hennar fyrir virðingarríku uppeldi hafi leitt hana á þá braut sem hún starfar á í dag, með börnum hjá Hjallastefnunni og sem doula eftir að hafa lært hjá Soffíu. Soffía er þriggja barna móðir, eiginkona og félagsfræðingur og brennur því fyrir því að aðstoða fjölskyldur alveg frá meðgöngu og áfram og er með fyrirtækið Hönd í hönd.
Báðar eru þær með hjartað í því að tilheyra og styðja samfélagið sitt, víkka það út (fjölskyldurnar sem þær þjónusta kalla þær fjölskyldurnar sínar) og halda rými utan um fólkið sem þær þjónusta.
Við mælum með þessari rólegu og góðu hlustun á spjall Guðrúnar og Soffíu, sér í lagi ef þú ert að búa þig undir fæðingu.
„Að vera til staðar í fæðingu án þess að vera með læti og taka yfir rýmið. Þegar fjölskyldan þakkar manni fyrir á maður að minna sig á að fjölskyldan gerði þetta sjálf.“ Þessi orð Soffíu úr þættinum hafa sterkan samhljóm við foreldrahlutverkið.
Guðrún Inga Torfadóttir annaðist klippingu þáttarins. -
Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu og Elísabet Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur hjá Barna og fjölskyldustofu spjölluðu í þættinum við Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Önnu Mjöll Guðmundsdóttur frá Fyrstu fimm - hagsmunafélagi foreldra og fagaðila um barnvænna samfélag.
„Hvað á að gera þegar barn byrjar að eiga í vanda?“ er meðal þess sem Barna- og fjölskyldustofa einblínir á að leysa úr. Unnið er hörðum höndum að því að skapa vettvang þar sem tengiliður barns í nærumhverfi þess geti leyst úr vanda barnsins með samvinnu við foreldra og eftir atvikum annarra fagaðila með íhlutun eins fljótt og verða má. Stefnan með farsældarlögunum er að taka snemma á málunum og láta hlutina, sem hefur svo lengi verið talað um að þurfi að gera, gerast.
Nú þegar er byrjað að útskrifa fjölmarga tengiliði farsældar í sérstöku viðbótardiplómanámi hjá HÍ og styrkja þá í komandi hlutverki. Hins vegar er fyrirséð að innleiðingin, sem nú er á öðru ári, muni taka tíma en kappkostað er við að innleiða stefnuna sem hraðast því það er gríðarlegur sálfræðilegur, efnahagslegur og samfélagslegur kostnaður sem hlýst af vanlíðan barns sem ekki fær tilhlýðilegan stuðning og aðstoð.
Margt hefur breyst við tilkomu nýrrar stofnunar Barna- og fjölskyldustofu þar sem farsældarlögin eru rauði þráðurinn og samkvæmt Páli og Elísabetu felst það aðallega í því að stofnunin hefur beinna og skýrara þjónustuhlutverk við samfélagið.
Það var því ákaflega áhugavert að heyra Elísabetu og Pál segja okkur frá starfi sínu og gott að heyra að þar fer fólk sem er samhljóma okkur í þessu hlaðvarpi almennt og vill gera kröfu um virðingarríka framkomu við börn, stuðning við þau og foreldra þeirra um leið og vandi byrjar og gerir sér jafnframt grein fyrir að margt er enn óunnið og verður það sjálfsagt alltaf en að það er ekki afsökun fyrir að gera ekki okkar besta fyrir börn og fjölskyldur þeirra. -
Marta Birna Baldursdóttir er einstæð móðir og sérfræðingur og verkefnisstýra í kynjaðri fjárlagagerð í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hún spjallar hér við Guðrúnu Ingu Torfadóttur vítt og breitt um foreldrahlutverkið og upplifun sína við að afla sér þekkingar á því sviði, sem og hvernig er að vera í fullu starfi og halda öllum boltum á lofti sem einstætt foreldri með litla aðstoð.
Þá bregður á góma jafnframt hvort rétt sé að stefna á einhvers konar heimgreiðslur til foreldra með gleraugum kynjaðrar fjárlagagerðar til að leysa leikskólavandann, hvernig upplifun hennar er í vinnunni af því að vinna í teymi sem styður við hvert annað í foreldrahlutverkinu og hvernig hún hefur stutt við umgengni barnsföður síns við barnið þeirra með góðum árangri.
Frábær þáttur að venju! -
Í þættinum fáum við að heyra sögu Huldu Margrétar Brynjarsdóttur í spjalli hennar við Guðrúnu Ingu Torfadóttur. Hulda fer með miðilinn Leið að uppeldi og segir okkur frá því þegar hún kynntist uppeldisstefnunni RIE, hvaða bækur hún las fyrst, námskeið hennar hjá RIE Institute með Ruth Ann Hammond sem kennara og almennt um hvernig henni hefur fundist eftir að hún fluttist til Íslands og hóf störf í leikskóla eftir þriggja ára búsetu í Noregi. Hvað er það sem stendur upp úr að hennar mati fyrir íslenska foreldra að tileinka sér betur? Orðið er þriggja stafa, sem við höfum almennt ekki tamið okkur að nota mikið í þessu hlaðvarpi: AGI. Oft höfum við fjallað um það sem við nefnum mörk – en eftir þetta spjall er hugtakið agi mögulega komið aftur inn í orðaforðann.
Bækur sem eru nefndar eru:
· Unfolding of Infants’ Natural Gross Motor Development, RIE Institute
· The Conscious Parent eftir dr. Shefali Tsabary
· Respecting Babies eftir Ruth Ann Hammond
og loks er minnst á fjórar tegundir uppeldisaðferða samkvæmt Diönu Baumrind. -
Tryggvi Hjaltason er duglegur að tjá sig um málefni barna og stöðuna í menntakerfinu og er sjálfur fjögurra barna faðir á aldrinum eins til tólf ára. Hann er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og starfsmaður greiningardeildar CCP og er þeim eiginleikum gæddur að hann dýfir sér djúpt ofan í málefnin sem vekja áhuga hans.
Guðrún Inga Torfadóttir ræddi við hann um sýn hans á uppeldið, hlutverk hans sem uppalanda og maka, hvernig hann hefur þroskast í hlutverkinu, hvaðan innblásturinn hans kemur hvað það varðar og stöðuna í dag hjá drengjum sem og varðandi skjánotkun barna.
Frábært spjall í þessum áttugasta þætti okkar! -
Perla Hafþórsdóttir heimsótti reynsluboltann, fag- og ástríðukonuna fyrir velferð barna, Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur, Öddu, og fékk að eiga við hana samtal um ævistarfið og þau tól og tæki sem hún hefur þróað í starfi sínum með börnum.
Adda heldur utan um kennslu í forvörnum um ofbeldi fyrir börn, foreldra og kennara ásamt því að ræða um heilbrigð samskipti og kenna börnum að vera læs á tilfinningar sínar á stofu sinni.
Fræðsluátakið kallast Samtalið - fræðsla ekki hræðsla. Hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2000 og hefur allar götur síðan unnið að forvörnum í ofbeldismálum fyrir börn. Í námskeiðs- og fræðslupakkanum sem farið er með inn í skóla og leikskóla er unnið að aðgerðaráætlun og áætlun um hvernig eigi að bregðast við ef grunur um ofbeldi vaknar. Fræðslan miðar að því að kenna fólki að þekkja merkin og auka meðvitund um ofbeldi.
Lausnarhringurinn varð síðan til þegar hún starfaði í leikskólanum Brákarborg. Hún var með elstu börnin sem áttu erfitt að finna taktinn saman þar til Arnrún beindi kröftum þeirra sameiginlega að því að finna lausnir og geta unnið betur saman. Lausnarhringurinn er verkfæri með sjö gildum eða reglum sem aðstoða börn við að leita lausna í samskiptum. Börnin tóku því virkan þátt í gerð Lausnarhringsins ásamt fleira starfsfólki og það er lykillinn að því að hann virkar jafn vel og hann gerir.
Þetta er því sérdeilis frábær þáttur fyrir foreldra jafnt sem fagfólk. Njótið vel. - Vis mere