Episodes

 • Ég bað vini mína um að taka umræðu um umræðuna er sneri að karlmennsku og jafnrétti á meðan ég tók örstutt „sumarfrí“ með fjölskyldunni. Núverandi og fyrrverandi fótboltaáhugamenn rýna í áhugamálið sitt og menninguna í kringum það undir dyggri stjórn Svölu Hjörleifsdóttur. Svala Hjörleifsdóttir stýrði samtali við Einar Ómarsson og Hörð Ágústsson þar sem þau fara víða og ræða m.a. karlmennskuspjallið, fótboltamenningu og áhangendur hópíþróttaliða, vangetu íslensks samfélags til að gera fólk ábyrgt gjörða sinna, skrímslavæðingu gerenda ofbeldis, KSÍ og kvenleika og karlmennsku. Þau velta fyrir sér heilagleika í kringum fótboltann, hvort bergmálshellirinn þeirra eigin sé að stækka, hvort viðhorf karla séu að breytast og margt fleira temmilega kaótískt. Eins og húsfundur, nema um jafnrétti, ofbeldi og fótbolta.

  Umsjón: Svala Hjörleifsdóttir
  Intro: Futuregrapher
  Outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

 • „Í staðinn fyrir að líta á okkur sem heild eða hluta af mengi þá erum við farin að líta á okkur og börnin okkar sem einhverskonar frífljótandi einstaklinga og okkar hlutverk er að besta okkur sjálf og börnin okkar sem samkeppnishæfasta einstaklinginn sem fer út og skapar peninga.“ segir Auður Magndís Auðardóttir í samtali við Sunnu Símonardóttur og Þorstein V. Einarsson um foreldrahlutverkið. Auður Magndís og Sunna hafa báðar gert doktorsrannsókn á kröfur á foreldra og hvernig þær hafa aukist undanfarna áratugi sem þær tengja við stéttaskiptingu, markaðsvæðingu, nýfrjálshyggju og ákafa mæðrun.

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

 • Missing episodes?

  Click here to refresh the feed.

 • „Ég hef alla tíð verið frekar ringlaður og svo er ég bullukollur og rugludallur. Ef það er einhver hæfileiki sem ég hef þá er það þvaður. Ég get þvaðrað endalaust.“ segir Jón Gnarr meðal annars í samtali sem átti að vera 30 til 45 mínútur um kallakalla og vináttu en leiddist út í 75 mínútna spjall um allskonar. Enda er ekki auðsótt að leiða samtal við Jón Gnarr inn á eina braut. Við ræðum um kallakallinn sem hefur stundum af honum völdin, hvernig það er að vera hvítur miðaldra karlmaður, afahlutverkið, foreldrahlutverkið, karllægni íslenskunnar, karlmennsku og upphandleggsvöða, móðurmissinn, borgarstjórnartímann og vináttu svo fátt eitt sé nefnt.

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

 • „Þú sérð manneskju [í speglinum] og veist að þetta á að vera þú en þetta er ekki þú.“ segir Aron Daði þegar hann er beðinn um að lýsa þeirri upplifun að tilheyra ekki því kyni sem honum var úthlutað við fæðingu. Aron Daði Jónsson og Arna Magnea Danks veita innsýn í reynsluheim sinn, áskoranir og frelsið við að koma út sem trans. Þau segja kyn sitt ekki vera spurningu um val eða upplifun heldur það sem þau einfaldlega eru og orðræða um annað sé fordómafull, smættandi og meiðandi. Við ræðum baráttuna við að koma út, tilheyra og fitta inn í samfélag sem er mjög svo upptekið af kynjatvíhyggju og rótgrónum hugmyndum um karlmennsku.

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

  Intro/Outro: Futuregrapher

 • „Í kjarasamningum upp úr 1900 eru launataxtar fyrir karla og svo fyrir konur og unglingsstráka, sem þóttu vera á pari.“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir ný-endurkjörin formaður BSRB um sögulegar rætur launamisréttis á Íslandi. Við Sonja ræðum kynbundinn launamun og hvernig störf eru metin á ólíkan hátt þannig að störf þar sem konur eru í meirihluta eru gjarnan metin lægra til launa. Sonja telur að nú sé tíminn til að hækka laun kvennastétta og vekur athygli á tillögum stjórnvalda til aðgerða sem nú eru í samráðsgátt.
  Við ræðum norrænu velferðina sem byggð er á baki láglaunakvenna, launataxta og gildismat starfa og þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að hækka laun og leiðrétta kynbundinn launamun.

  Þátturinn er tekinn upp ú stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla á karlmennskan.is/styrkja.

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

 • „Það er ekkert gott að geta verið drulluhali í einrúmi með vinum þínum“ segir Atli Sigþórsson sem er þekktari undir listamannsnafninu Kött Grá Pjé. Atli segist hafa verið bældur maður og Kött Grá Pjé hafi verið alteregó sem hafi hjálpað honum að takast á við sviðsskrekkinn. Alteregóið hafi þó verið heiðarleg gríma því í gegnum hana hafi hluti af Atla komist fram og Kött Grá Pjé orðið að sönnum Atla, eða öfugt.
  Við ræðum um tilfinningar, kvíða og þunglyndi sem Atli hefur talað opinskátt um. Við tölum um pólitík, prinsipp og málamiðlanir. Ræðum róttækan femínisma, feðraveldi, karlmennsku og naglalakk.

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og bakhjarla karlmennskunnar, en þú getur stuðlað að frekari hlaðavarpsþáttagerð og efnissköpun á samfélagsmiðlum með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili á karlmennskan.is/styrkja.

 • „Í staðinn fyrir að fara í vörn að fólk sé bara tilbúið til að hlusta, læra og aflæra þessar hugmyndir.“ segir Chanel Björk Sturludóttir umsjónarkona Mannflórunnar sem er útvarps- og hlaðvarpsþáttur á Rúv og Instagram, þar sem hún leitast við að svara djúpstæðum spurningum um fjölmenningu í íslensku samfélagi. Chanel er blandaður Íslendingur og kannast við á eigin skinni hvernig við flokkum fólk eftir ríkjandi hugmyndakerfi. Þótt enginn munur sé á fólki eftir uppruna og kynþætti þá verðum við að taka inn í myndina hvernig nýrasismi hefur félagsleg áhrif á fólk. Chanel gagnrýnir gerendafókus í umræðu um menningarnám og rasisma og telur fólk ekki nægjanlega meðvitað um eigin fordóma. Jafnvel upplýst róttækt fólk eigi til að nota orðfæri úr poppmenningunni án þess að tengja það við yfirtöku ráðandi hóps á menningareinkennum undirokaðra hópa. Chanel, ásamt Miriam Petru, bjóða skólum, félagsmiðstöðvum og vinnustöðum upp á fræðslu um kynþáttahyggju og menningarfodóma á Íslandi.
  Í 51. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar fræðumst við um rasisma, nýrasisma, öráreitni, fordóma, menningarnám, AAVE og kynþáttahyggju í íslensku samfélagi.

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • Landsátakið plastlaus september er hafið í fimmta sinn sem er að fyrirmynd Plastic free july frá ástralíu. Skipuleggjendur plastlauss september leggja aherslu á jákvæðni og lausnir með vitundavakningu um plastnotkun. Markmiðið sé ekki að útrýma plasti heldur að við reynum að takmarka notkun þess með aukinni meðvitund. Stjórnvöld hafa innleitt reglugerðir sem hafa svipað markmið og hafa t.d. plastpokarnir, plaströr og plastskeiðar fengið að fjúka við takmarkaðan fögnuð sumra.
  Kolbrún G. Haraldsdóttir fræðir okkur um markmið plastlauss september með áherslu á einstaklingsframtakið en Guðmundur Ingi Guðbrandsson svarar fyrir aðgerðir og stefnu stjórnvalda hvað varðar plastleysi og umhverfisvernd. Hver á að bera ábyrgð á plastinu í sjónum, dreifingu plasts og takmörkun á plastnotkun? Er rétt að velta ábyrgðinni á einstaklinga eða ætti að beina spjótum enn frekar að fyrirtækjum og stóriðjunni? Og hvar eru karlarnir í umhverfisaktívismanum?

  Intro: Futuregrapher
  Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Við vitum að yfir 10% kvenna er nauðgað og yfir 30% lenda í kynferðisofbeldi sem hefur áhrif á þær til framtíðar [...] samt erum við ekki tilbúnir til að trúa þolendum.“ segir Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu.

  Í kjölfar frásagna af þöggun KSÍ um ofbeldisbrot leikmanna íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, afsagnar formannsins, afsagnar stjórnar og brotthvarf framkvæmdastjórans (allavega tímabundið) hefur verið töluverð umræða um eitraða íþróttamenningu, skaðlega karlmennsku og klefamenningu. Á síðustu dögum hefur þó meira farið fyrir skoðanapistlum miðaldra karlmanna, löglærðra manna, og annars málsmetandi fólks sem gefa í skyn að þolendur sem stigið hafa fram séu ótrúverðugir og í raun hafi ekki verið tilefni til afsagnar formanns og stjórnar KSÍ. Vararíkissaksóknari, sem aðstoðar ríkissaksóknara æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, virðist deila þeim viðhorfum að brotaþolar sem stigið hafa fram séu ótrúverðugir. Þótt vararíkissaksóknari hafi sjálfur útskýrt læk og share, á facebook-pistli sem var síður en svo þolendavænn, sem stuðning við tjáningafrelsið.

  Síðustu vikuna hef ég óskað eftir samtali við fyrrverandi formann KSÍ, landsliðsþjálfarann og nokkra karlkyns einstaklinga sem eru fyrrverandi knattspyrnumenn eða starfa við umfjöllun um fótbolta. Enginn sem ég leitaði til gaf kost á sér í spjall við mig, nema Pétur Marteinsson sem þó var aðeins tvístígandi.

  Í 49. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar veltum við því fyrir okkur hvers vegna svo margir þora ekki að tjá sig eða forðast umræðuna um ofbeldi, fáum innsýn fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu í klefamenninguna, karlasamstöðuna og forréttindi. Snertum á því hvernig umræðan sem hverfist núna um KSÍ og fótboltamenn er útbreiddur samfélagslegur vandi sem byltingar kvenna undanfarin ár hafi svo sannarlega varpað ljósi á og að karlar sem þráast við breytingunum muni tapa.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: Futuregrapher

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Ég hef það ágætt, þetta er búið að vera stormur en ekki í versta skilningi“ segir Hanna Björg Vilhjálmsdóttir framhaldsskólakennari og forkona jafnréttisnefndar KÍ. Hanna Björg skrifaði pistil sem birtist á Vísi 13. ágúst síðastliðin með fyrirsögninni „Um KSÍ og kvenfyrirlitningu“. Þar gagnrýndi hún KSÍ fyrir að þagga niður ofbeldisbrot leikmanna íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og bregðast þolendum. Í kjölfarið hefur formaður og síðan stjórn KSÍ sagt af sér og síðast í gær var tilkynnt um að framkvæmdastjórinn væri komin í leyfi. Hanna Björg segir að KSÍ sé höfuðvígi feðraveldis og íhaldssamra karlmennsku á Íslandi sem riði nú til falls. Hún ætlar að trúa því að ferlið sem komið er að af stað innan KSÍ og íþróttahreyfingarinnar muni skila árangri.
  Við ræðum um hvaða breytingar hún vilji sjá innan KSÍ og íþróttahreyfingarinnar í heild, hvernig skaðleg karlmennska litar fótboltastráka, vonbrigðin yfir afstöðuleysi landsliðsjálfara og fyrirliða karlalandsliðsins, leitum skýringa og lausna.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: Futuregrapher

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Hvernig kemst maður yfir eða lifir með þeirri lifsreynslu að barnið mans hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu manns sem maður var í sambandi með?“ spyr Aníta sem er bæði brotaþoli sjálf og aðstandandi dóttur sinnar sem beitt var kynferðisofbeldi af hálfu sama manns og kallar hún eftir umræðu um aðstandendur brotaþola. Aníta, sem er dulnefni, lýsir áfallinu og sektarkenndinni sem það er að frétta að barnið hennar hefði orðið fyrir ofbeldi og upplifir Aníta að aðstandendur brotaþola fái lítinn sem engan stuðning. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta tekur undir með Anítu að betur þurfi að styðja við aðstandendur brotaþola vegna þess að það skipti svo miklu máli að bregðast rétt við þegar sagt er frá ofbeldi.

  Aníta gefur innsýn í aðstæður sínar og reynslu af ofbeldi og Steinunn útskýrir algeng viðbrögð aðstandenda brotaþola, hvers vegna mikilvægt er að bregðast rétt við, hvaða þjónustu Stígamót bjóða aðstandendum og flækjurnar í umræðunni um gerendur, skrímsli og afleiðingar ofbeldis.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Það voru alveg margir sem hættu að vera vinir mínir en svo var ég bara okei bæ“ segir Sigurjón Baltasar Vilhjálmsson betur þekktur sem Bassi Maraj um það þegar hann kom út úr skápnum í 10. bekk. Bassi er ein af stjörnunum í raunveruleikaþáttunum Æði sem gerði hann að áhrifavaldi á Instagram og poppstjörnu en fyrsta lagið hans fór beint á topplista Spotify. Ný sería af Æði fer að koma út og sömuleiðis er Bassi að fara að gefa út EP plötu á næstunni.

  Við kryfjum frasana low key, living, sliving, slay og child (cheeld), rifjum upp unglingsár Bassa, fordóma og hómófóbíu, goons og pólitíska drauma Bassa. Sennilega einn kaótískasti hlaðvarpsþáttur sem ég hef gefið út þar sem ég reyndi stöðugt að fara á dýptina en vissi aldrei hvort Bassi væri að teyma mig í grín eða tala af alvöru. Hlustaðu á 46. hlaðvarpsþátt Karlmenskunnar með Bassa Maraj.

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

 • „Stundum er þetta bara skemmtilegt en stundum er það smá þreytandi sérstaklega þegar það er fjallað um hvað ég er að borða í morgunmat.“ segir Edda Falak fjármálafræðingur, hlaðvarpsstjórnandi og áhrifavaldur um nærgöngulan áhuga fjölmiðla á lífi hennar. Edda hefur verið ansi áhrifamikil í umræðunni undanfarana mánuði með 30 þúsund fylgjendur á Instagram, þúsundir á Twitter og með vinsælasta hlaðvarpið á Íslandi. Skoðanir Eddu og málefnin sem hún fjallar um vekja oft upp sterk viðbrögð og hreyfa við mörgum.

  Í 45. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar ræðum við Edda um fyrirmyndir, fordóma, áhrifavalda, gillz-áhrifin og mini-gillzara og þau áhrif sem Edda vill hafa á íslenskt samfélag.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Við erum að sjá börn og ungmenni koma snemma út úr skápnum í faðmi fjölskyldu og vina og geta áttað sig á tilfinningum sínum með þeim.“, segir Ásgeir Helgi Magnússon formaður Hinsegin daga sem fara fram dagana 3. til 8. ágúst með allskyns viðburðum, þrátt fyrir að ekkert verði af Gleðigöngunni vegna samkomutakmarkanna. Þótt Ísland standi framarlega í jafnréttismálum segir Ásgeir Helgi að enn vanti margt upp á í lagaumhverfinu, sem tengist hinsegin fólki og að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi fyrir mannréttindum fólks. Það sjáist best á löndum á borð við Pólland og Ungverjaland þar sem verulega er vegið að hinsegin fólki.

  Hinsegin dagar, árangur og bakslag í baráttu hinsegin fóks, hómófóbía, fordómar og leiðir sem gagnkynhneigt fólk getur farið til að styðja við mannréttindi og hinsegin fólk er umræðuefni 44. þáttar Karlmennskunnar.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson (Karlmennskan)
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
  Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Ég er að reyna vernda grunngildi karlmennskunnar og er hérna í snákagryfjunni þinni“, segir Birgir Fannar sem hefur reglulega poppað upp á samfélagsmiðli Karlmennskunnar og lýst með athugasemdum andstöðu sinni við þau sjónarmið sem þar liggja til grundvallar. Telur hann femínisma það versta sem komið hafi fyrir íslenskt samfélag, telur Druslugönguna ala á framhjáhaldi og að samfélagsmiðilinn Karlmennskan stuðli að bælingu á eðli karlmanna. Viðmið Birgis Fannars koma úr Biblíunni og telur hann að sannkristið fólk geti ekki beitt ofbeldi. Þessi þáttur er tilraun mín til samtals við einstakling sem er á öndverðum meiði við sjálfan mig og tilraun til að skilja hans sjónarmið.

  Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson og Unnur Gísladóttir.

  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

 • „Ég er alveg hrædd við að viðurkenna að ég sé buguð í sumarfríi með börnunum mínum,“ segir Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur og móðir í samtali við maka sinn Þorstein V. Einarsson, þar sem þau gera upp sumarfríið með börnunum sínum og ómeðvitaða ójafna skiptingu ábyrgðar í foreldrahlutverkinu. Hið ósýnilega mental load, fjarverandi viðvera við morgunverðarborðið og ólíkar kröfur og væntingar heimsins til mæðra og feðra eru umtalsefni 42. þáttar hlaðvarpsins Karlmennskan.

 • Inga Hrönn Jónsdóttir og Karitas M. Bjarkadóttir úr skipulagsteymi Druslugöngunnar eru viðmælendur í þessum þætti í tilefni þess að Druslugangan verður farin í Reykjavík laugardaginn 24. júlí nk. Fyrirmynd viðburðarins er erlend, þar sem fyrsta druslugangan eða Slut Walk, var farin í Toronto í Kanada árið 2011 eftir að lögreglustjórinn þar í borg sagði að „konur ættu ekki að klæða sig eins og druslur ef þær vildu ekki verða fyrir kynferðisofbeldi“. Druslugangan er því mótmæli gegn menningu sem nærir ofbeldi og því viðhorfi að það sé þolendum ofbeldis um að kenna að verða fyrir ofbeldi. Einnig er gangan, allavega á Íslandi, samstöðuviðburður með þolendum ofbeldis. Í ár verður sérstök áhersla á valdaójafnvægi og jaðarsetta einstaklinga sem vegna stöðu sinnar eru berskjaldaðri en aðrir fyrir ofbeldi og hafa síður rödd til að tjá sig um það eða ná fram réttlæti.
  Druslugangan, kynferðisofbeldi, berskjölduð staða kvenna í vímuefnaneyslu gagnvart ofbeldi, meiðandi viðhorf, fordómar, andspyrna og byltingar eru umfjöllunarefni 41. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
  Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Ó þú ert vegan, þá er ég bara vegan líka“, segir Sigvaldi Ástríðarson, kallaður Valli dordingull, um ástæðu þess að hann varð vegan þegar hann sá að pönk fyrirmynd hans var vegan. Valli stofnaði dordingull.is fyrir 22 árum síðan, sem var grunnur þungarokks og pönkmenningar á Íslandi og selur brot- og borvélar í dag. Valli hefur verið vegan í 17 ár fyrir dýrin og var veganmanneskja fjölmiðla í „gamla daga“. Valli kannast því við margar mýtur sem fólk heldur fram um veganisma og hefur margoft fengið athugasemdir eða skot tengt veganismanum þótt fólki geri það sjaldan í dag. Hann kom að stofnun samtaka grænmetisæta á Íslandi, núna vegansamtakanna og hrinti Veganúar af stað enda telur hann bestu leiðina til að ginna fólk í veganisma í gegnum góðan mat.
  Í 40. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar ræðum við um veganisma, karlmennsku, dýravernd, mýtur um soja, umhverfi sem er andsúið veganisma, hvernig á að gera tófú bragðgott og hvernig fólk geti byrjað að stíga inn í veganismann hafi það áhuga á því.

  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
  Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Við ætlum að fella feðraveldið,“ segja Hulda Hrund og Ólöf Tara um markmið hins nýstofnaða femíníska aðgerðahóps ÖFGAR í samtali við Þorstein V. Einarsson í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar. Hópurinn hefur hleypt krafti í seinni eða aðra bylgju metoo með nafnlausum frásögnum tugi kvenna af kynferðisofbeldi og áreitni þjóðþekkts tónlistarmanns. Þá sendi hópurinn frá sér yfirlýsingu, ásamt AGN (aðgerðahópur gegn nauðgunarmenningu), til þjóðhátíðarnefndar þar sem þess var krafist að Ingólfur Þórarinsson yrði afbókaður til að stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
  Í 39. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar er orðræða fólks í athugasemdakerfum fréttamiðla um afbókun Ingólfs krufin, skyggnst á bakvið markmið hópsins ÖFGAR, rætt um styðjandi og mengandi kvenleika og því velt upp hvað þurfi til svo konum sem eru þolendur kynferðisofbeldis verði trúað og þær njóti stuðnings samfélagsins.

  Viðmælendur: f.h. Öfgar, Ólöf Tara og Hulda Hrund.
  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
  Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.

 • „Það er kannski ekkert valdeflandi þegar það er sagt við mann þegar maður er tvítugur að maður sé með ólæknandi heilasjúkdóm“ segir Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar í samtali við Hörð Ágústsson fyrrverandi meðlim AA samtakanna, Kalla (dulnefni) núverandi meðlim AA samtakanna og Þorstein V. Einarsson í hlaðvarpinu Karlmennskan. Ræða þau AA samtökin á gagnrýnin hátt byggt á eigin reynslu og rannsóknum sem sýnt hafa að fíknivandi er flóknari en svo að hann sé einungis líffræðilegur og megi lækna með trúarlegum leiðum. Hörður segist hafa getað sparað börnunum sínum og konu nokkur ár af þroti ef honum hefði strax verið bent á að leita aðstoðar sálfræðings og Kalli lýsir því hvernig AA samtökin virka, hvernig brugðist er við ofbeldi innan samtakanna og hvers vegna hann er búinn að vera viðloðandi samtökin frá tvítugsaldri. Þótt samtalið sé gagnrýnið á nálgun SÁÁ og AA samtökin telja þau öll að með gagnrýnum huga og fjölbreyttum leiðum til bata, geti félagsskapurinn hjálpað fólki að öðlast ágætis líf. Í 38. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar er rætt um AA samtökin, fíkn, áföll, ofbeldi og leiðir til bata við fíknivanda.

  Viðmælendur: Hörður Ágústsson, Kalli (dulnefni) og Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar.
  Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
  Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
  Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.