Episodes
-
Sjötti hlaðvarpsþáttur Slaka Babarsins er tileinkaður bjórdeginum 1. mars, deginum þegar gylltu droparnir fengu fyrst að flæða löglegir um kverkar landsmanna. Andapabbi hins íslenska öls, sagnfræðifurstinn, Gettu betur goðsögnin, Morfís meistarinn, friðardúfan og baráttujálkurinn Stéfan Pálsson leggur leið sína til Slaka Babarsins ásamt fulltrúum eins nýjasta og ferskasta brugghússins, Böl Brewery. Hér er hitað upp í ylgrænum Tuborg og í kjölfarið tekin stíf stunga með þrefaldri skrúfu í öldurót skemmtilegustu afurða Böl. Ölbaðaðir svömlum við um bjórsögu Íslands, heimsmálin, friðarbaráttu Stefáns, öll vandræðulegu áfengisfrumvörp pabbastrákanna í SUS og kraftbrugg-pólitíkina almennt. Gríðarlegur föl-öl frá Böl flæðir um kverkar viðstaddra og það gefur á galeiðuna. Þetta er smábruggaður glussi, ekkert bjórlíki hér venör. Til hamingju með daginn kæru bjórbelgir!
-
Fimmti hlaðvarpari Slaka Babarsins nöllar létt. Pírataþingmaðurinn Jón Þór Ólafsson hefur nýtt sér reynslu sína af slönguspileríi íslenskra stjórnmála til að hanna svæsið Þingmannaspil þar sem kafað er í fenjum Alþingis. Til að átta okkur á gangverki elsta samfellda þings heims rennum við í gegnum ýmis atriði. Vægi skítkasts og almannatengsla þegar valdamenn gubba í brók, frjálshyggjufantasíur, Samherja-hrollvekjur, frjálshygginn sósíalisma, larpið á þinginu, fullorðnun Pírata, að kjósa gegn Orkupakkanum og hvort persónukjör nýju Stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir að við fáum alltaf lélegu molana í Quality Street dollunni. Teningunum er kastað!
-
Missing episodes?
-
Í fjórða hlaðvarpsþætti Slaka Babarsins hrynur Flórgoðinn í það með tveim bláedrú hiphoppfésum. Gríngreifinn og KefCity kóngsinn Kiló og myrkrahöfðinginn Njarðlem-Blaffi renna í gegnum súrt og sætt, hjartaáföll, 5 daga kókaín bender, pabbastráka, AA samtökin, flasshneigðir, hatursglæpi, svæsin rappstjörnu-ævintýrin og svo skeggræða menn jólaplötuna í ár, Partýlestina hans Blaffa. Fýrupp!
-
Hlaðvarp Slaka Babarsins númer 2 er í formi notalegs spjalls yfir flöskuborði og fellur þar af leiðandi í syndsamlegan sekk seríunnar, Flórgoðann. Kamilla Einarsdóttir og Donna Naglalakk mæta galvaskar í hyldjúpar umræður um helstu bókmenntaperlur sögunnar, Andrés Önd, Múmínálfana, Mein Kampf, Einar Áskell og Kópavogskróniku. Lagt er á ráðin um hvaða styttur eigi að rífa eða reisa, túttur og tettlenga, hómó-erótík í Gráskallakastala og Strumpalandi, Kópavogsrómantík... og hafsjó af öðrum stórfenglegum þvætting. Velkomin í Flórgoðann, hreiður hins mesta glæsifyglis til að fleyta flórinn.
-
Þriðji þáttur hins epíska hlaðvarps Slaka Babarsins fjallar á galsaþrunginn hátt um pyntingar, trúarbragðastríð, kynþáttahatur, hörmungar, Mangó Mússólíni, þrælahald og hjól á hjólabretti. Það smellpassar í dagskrárliðinn Slönguspilið sem hverfist um sögu, trúarbrögð, heimspeki, stjórnmál og annað sem lætur okkur hljóma gáfulega. Gestur okkar að þessu sinni er blaðamaðurinn, fjörkálfurinn, sendiráðsbarnið og fyrrverandi þingmaðurinn, Gunnar Hrafn Jónsson. Hokinn af fjarlægum ferðalögum, æsandi ævintýrum á fréttastofu RÚV og hasarblendinni veru í sölum Alþingis miðlar hann til okkar af visku sinni. Gunnar segir okkur af alþjóðapólitrixum, mýtum stórvelda, Antifa, BLM, Engeyingum og Slaki Babarinn grípur síðan fram í af gömlum vana. Sérdeilis fræðandi og sturlað. Góða ferð.
-
Fyrsti hlaðvarpsþáttur Slaka Babarsins er á menningarlegu nótunum og fellur þar með í menningarsekk seríunnar, Rauðu mylluna. Í rauðbrúna leðrinu að þessu sinni er enginn annar en sísvæsni spindilgosinn og listhneigði Lúsíferinn, Hugleikur Dagsson. Sá hinn sami hefur spúð kynngimögnuðum ósóma yfir heimsbyggðina og reynum við hér eftir fremsta megni að svara stóru spurningunum sem sérhver menningadjákni þarf að hafa svör við á reiðum höndum: Ertu rasisti ef þú öskrar eingöngu N-orðið einn úti í skógi? Sleppum við Hulli alltaf við "heygaffla Góða fólksins"? Af hverju fáum við fellarnir að leggj´ann margfalt meira en ljónvöðvaðir ljósabekkjagosar? Vessgú og veisluð!