Episodes
-
FIDE meistararnir Sigurbjörn J. Björnsson gæðatryggingastjóri hjá Algalíf og Björn Ívar Karlsson skólastjóri Skákskóla Íslands eru gestir Kristjáns Arnar að þessu sinni. Meginefni þáttarins er umfjöllun eða hugvekja um nýafstaðið heimsmeistaraeinvígi indverska áskorandans Gukesh Dommaraju og heimsmeistarans Ding Liren frá Kína. Einvíginu lauk með sigri Gukesh 7,5-6,5. Gukesh er þar með nýr heimsmeistari og langyngsti heimsmeistari skáksögunnar. Hann er aðeins 18 ára gamall og svo skemmtilega vill til að hann er einnig átjándi maðurinn til að hljóta þennan eftirsótta titil. Þeir félagar ræddu nýja bók eftir Sigurbjörn sem kom út í sumar. Hve þung er þín krúna er söguleg skáldsaga sem segir frá heimsmeistaraeinvíginu í skák á Íslandi á nýstárlegan hátt. Hún greinir frá því hvernig íslensku skipuleggjendurnir tókust á við margvísleg vandamál sem komu upp við skipulagningu einvígisins og það hvernig þeir Spasskí og Fischer tókust á við álagið og sundrungina sem kom upp i herbúðum beggja aðila sumarið 1972 þegar skák varð miðdepill heimsfréttanna. Einnig ræddu þeir starf Skákskóla Íslands, helstu áherslur og framtíðarplön.
-
Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák, er gestur Kristjáns Arnar í skákþættinum í þriðja skiptið í röð. Umræðuefnið er eins og áður heimsmeistaraeinvígið í Singapúr þar sem heimsmeistarinn Ding Liren frá Kína leitast við að verja heimsmeistaratitilinn gegn áskorandanum Gukesh Dommaraju frá Indlandi. Einvígið hófst 25. nóvember og stendur til 13. desember eða þar til annar hefur náð 7.5 vinningi en tefldar verða 14 kappskákir. Staðan í einvíginu er jöfn 6.5-6.5 eftir að tefldar hafa verið þrettán skákir. Ding vann fyrstu skákina og þá tólftu og Gukesh vann þriðju skákina og þá elleftu en öðrum skákum hefur lokið með jafntefli. Á morgun verður síðasta kappskákin tefld og ljúki henni með jafnteli verða tefldar 4 atskákir á föstudaginn með tímamörkunum 15 mínútur að viðbættum 10 sekúndum á hvern leik frá upphafi skákar til að fá úr því skorið hvor þeirra vinnur einvígið og hlýtur heimsmeistaratitilinn. Þeir Kristján og Helgi fóru einnig yfir helstu skákfréttir líðandi stundar.
-
Episodes manquant?
-
Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og núverandi Íslandsmeistari í skák er gestur Kristjáns Arnar í annað skiptið í röð. Umræðuefnið er, eins og í síðasta þætti, heimsmeistaraeinvígið í Singapúr þar sem heimsmeistarinn Ding Liren frá Kína leitast við að verja heimsmeistaratitilinn gegn áskorandanum Gukesh Dommaraju frá Indlandi. Einvígið hófst 25. nóvember og stendur til 13. desember eða þar til annar hefur náð 7.5 vinningi en tefldar verða 14 kappskákir. Staðan í einvíginu er jöfn 4-4 eftir að tefldar hafa verið átta umferðir. Ding vann fyrstu skákina, næsta fór jafntefli og þriðju skákina vann Gukesh. Helgi verður einnig með Kristjáni í næsta þætti eftir viku en þeir ætla að fylgjast vel með öllu einvíginu og fara yfir sögu heimsmeistaraeinvígjanna og segja skákfréttir líðandi stundar.
-
Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og núverandi Íslandsmeistari í skák er gestur Kristjáns Arnar að þessu sinni. Umræðuefnið er heimsmeistaraeinvígið í Singapúr þar sem heimsmeistarinn Ding Liren frá Kína leitast við að verja heimsmeistaratitilinn gegn áskorandanum Gukesh Dommaraju frá Indlandi. Einvígið hófst 25. nóvember og stendur til 13. desember eða þar til annar hefur náð 7.5 vinningi en tefldar verða 14 kappskákir. Staðan í einvíginu er jöfn eftir að tefldar hafa verið þrjár umferðir. Ding vann fyrstu skákina, næsta fór jafntefli og í dag vann Gukesh og jafnaði þannig stöðuna í einvíginu fyrir fyrsta hvíldardaginn en frídagur er á morgun. Helgi verður einnig með Kristjáni í næsta þætti eftir viku en þeir ætla að fylgjast vel með einvíginu og fara yfir sögu heimsmeistaraeinvígjanna og segja skákfréttir líðandi stundar.
-
Björgvin Víglundsson, margreyndur skákmeistari og byggingaverkfræðingur, er gestur Kristjáns Arnar í þessum þætti. Umræðuefnið er að mestu gamlir erlendir skákmeistarar og heimsmeistaraeinvígið í skák 2024 sem fara mun fram í Singapúr dagana 25. nóvember til 13. desember nk. Það verða Kínverjinn Ding Liren (32 ára) ríkjandi heimsmeistari og áskorandinn Gukesh Dommaraju (18 ára) frá Indlandi sem takast munu á um heimsmeistaratignina. Heildarverðlaunafé verður tvær og hálf milljón dollara eða um 350 milljónir íslenskra króna.
-
Gestur Kristjáns Arnar í þættinum í dag er Björn Þorfinnsson ritstjóri DV.is. Hann var útnefndur alþjóðlegur meistari í skák árið 2009 og hefur náð tveimur áföngum að stórmeistaratitli. Það er því engu logið þegar fullyrt er að hann sé í hópi sterkustu skákmanna landsins. Þeir félagar, Björn og Kristján, fóru um víðan völl og ræddu meðal annars um atskákkeppni taflfélaga sem lauk í gær, liðsgöngu Björns í Taflfélag Vestmanneyja, Íslandsmótið í netskák sem er rúmlega hálfnað, EM félagsliða í haust, EM einstaklinga sem er framundan, Arsenal-mótið í London í byrjun desember, skemmtileg kráarmót á Bretlandseyjum, heimsmeistaraeinvígið í skák sem hefst í Singapúr 25. nóvember nk. á milli Kínverjans Ding Liren (32 ára) ríkjandi heimsmeistara og áskorandans Gukesh Dommaraju (18 ára) frá Indlandi og margt fleira sem hlusta má í spilaranum.
-
Gestir þáttarins að þessu sinnu eru þeir Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, Einar S. Einarsson fyrrverandi forstjóri VISA á Íslandi og Hilmar Viggósson fyrrverandi bankaútibússtjóri. Guðmundur og Einar eru báðir fyrrverandi forsetar Skáksambands Íslands og Hilmar er fyrrverandi gjaldkeri sambandsins en þeir Guðmundur og Hilmar voru við stjórnvölinn þegar „Einvígi aldarinnar“ fór fram í Laugardalshöll árið 1972 á milli þáverandi heimsmeistara í skák, Sovétsmannsins Boris Spasskys og Bandaríkjamannsins Roberts Fischers.
Eins og flestir vita sem fylgjast með skák veitti Alþingi Fischer íslenskan ríkisborgararétt þann 21. mars árið 2005. Hann lést í Reykjavík 17. janúar 2008 eftir baráttu við alvarleg nýrnaveikindi. Hann var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk í kirkjugarði Laugardæla í Flóa.
Í þættinum rifja þeir upp „gömlu góðu dagana“ en einnig segja þeir frá, að á 100 ára afmæli FIDE sem haldið var í Búdapest fyrir stuttu hafi heimsmeistaraeinvígið í skák 1972 verið valið "Minnisstæðasti skákviðburður allra tíma" í sögu FIDE. Auk þess var Friðriki Ólafssyni, fyrrverandi forseta FIDE veitt þakkarviðurkenning fyrir störf hans í þágu Alþjóðaskáksambandsins (FIDE).
-
Kristján Örn tekur á móti Kjartani Briem formanni skákdeildar Breiðabliks og framkvæmdarstjóra Isavia ANS en félagið er dótturfélag Isavia sem annast flugumferðarstjórn í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Í upphafi þáttar segir Kjartan aðeins frá starfi eða hlutverki Isavia ANS en svo snúa þeir sér að starfinu hjá Skákdeild Breiðabliks. U-25 hópur Breiðabliks tekur nú í fyrsta skipti þátt í Evrópumóti félagsliða sem fer fram í Serbíu dagana 20. til 26. október. Þrjár umferðir hafa verið tefldar og hefur liðið staðið sig ágætlega og er í 38 sæti af 84 liðum sem taka þátt í keppninni. Í síðustu umferð gerði Vignir Vatnar jafntefli við Boris Gelfand sem á sínum tíma var einn allra sterkasti skákmaður heims (2.777 elo-skákstig árið 2013) og keppti m.a. einvígi við Vishy Anand um heimsmeistaratitilinn í skák árið 2012. Einvígið endaði með jafntefli 6-6 en Anand hélt titlinum á oddastigum, þ.e. þeir tefldu fjórar atskákir sem enduðu með sigri Anand 2,5 - 1,5. Kjartan talar um ungu og efnilegu krakkana í skákdeildinn og vill hann sjá átak í að fjölga stúlkum í skák og að skákhreyfingin setji sér mælanlega markmið. Hann segir fákeppni á milli þeirra helst há framförum hjá þeim. Sé horft fram um nokkur ár sér hann jafnvel fyrir sér sérstaka kvennadeild í skák sem yrði þá háð á öðrum tíma en hið hefðbundna Íslandsmót skákfélaga. Margt annað kom fram í spjalli þeirra Kristjáns og Kjartans en hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum.
-
Gestur Kristjáns Arnar Elíassonar í þættinum að þessu sinni er skákmeistarinn, heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Þorvaldur Logason en hann er höfundur hinnar umdeildu bókar Eimreiðarelítan - Spillingarsaga sem kom út í lok síðasta árs. Megin þema eða inntak þáttarins er spilling og svindl í skák, þ.e. misnotkun valds. Í þættinum skilgreinir Þorvaldur þessi hugtök, hann kemur inn á elítur og valdaelítur, beitingu valdsins, s.s. úthlutun embætta, segir skemmtilegar sögur af fyrrum heimsmeisturum og forsetum FIDE. Margt annað athyglisvert barst í tal sem hlusta má á í spilara þáttarins.
-
Gestur þáttarins er Vignir Vatnar Stefánsson stórmeistari og langstigahæsti skákmaður landsins. Vignir er 21 árs gamall, hann er atvinnumaður í skák og er stofnandi og eigandi vefsíðunar http://www.vignirvatnar.is en þar er að finna mikið og gott kennsluefni í skák fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Kjartan Briem formaður skákdeildar Breiðabliks kíkti einnig í heimsókn í byrjun þáttarins en hann kemur svo aftur sem gestur þann 23. október nk. Vignir Vatnar fór yfir skákárið hjá sér en hann hefur teflt yfir 100 kappskákir í sumar, nefndi mótin, sagði frá sterkum mótherjum sem hann mætti, markmiðunum sem hann hefur sett sér og sagði frá vefsíðu sinni og mörgu fleira.
-
Gestur Kristjáns Arnar er Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs hjá RÚV og núverandi ritstjóri Hagstofu Íslands. Þorsteinn er liðsstjóri Taflfélags Vestmannaeyja; hann er FIDE meistari og einn af betri skákmönnum landsins.
Í þættinum fer Þorsteinn yfir Ólympíumótið í skák og einstaka árangur hvers liðsmanns íslensku liðanna. Mótinu lauk fyrir nokkrum dögum en teflt var í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands. Þorsteinn segir að bjóða þurfi upp á sterk lokuð alþjóðleg skákmót hér á Íslandi fyrir okkar bestu skákmenn, að þeir þurfi að fá tækifæri til að tefla vel upp fyrir sig. Hann segir að fyrirkomulagið á opna Reykjavíkurskákmótinu henti þeim ekki og vill gera breytingar á mótinu á þann hátt að einnig sé keppt í lokuðum sterkum flokkum samhliða mótinu. Síðar í þættinum er fjallað um Íslandsmót skákfélaga sem hefst á morgun, fimmtudag. Það verða um 400 manns sem sitja munu að tafli í 5 deildum yfir helgina en keppt verður í Rimaskóla í Grafarvogi. Í lok þáttar minnist Þorsteinn vinar síns, FIDE meistarans Elvars Guðmundssonar sem lést 14. september sl. og tileinkar honum lagið The Rain Song með Led Zeppelin en þeir félagarnir héldu mikið upp á hljómsveitina Led Zeppelin.
-
Gauti Páll Jónsson er gestur Kristjáns í þessum þætti. Tímaritið Skák kemur út í næstu viku eða á sama tíma og fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga hefst í Rimaskóla. Þeir félagar fara inn á efnistök nýjasta blaðsins og annað skáktengt efni en ritstjórinn vildi þó ekki greina frá öllu efni tímaritsins og segir að það sé fyrir kaupendur blaðsins að lesa og skoða. Blaðið verður til sölu í Rimaskóla um næstu helgi eða á meðan Íslandsmótið fer þar fram.
-
Björgvin Víglundsson, margreyndur skákmeistari og byggingaverkfræðingur, heimsótti Kristján Örn í þáttinn að þessu sinni. Björgvin sagði að árið 1958, þegar hann var 12 ára gamall, hafi hann verið að fylgjast með og skrá niður skák Friðriks Ólafssonar og Inga R. Jóhannssonar í Landsliðsflokki. Þá hafi Bragi Kristjánsson komið að honum og hvatt hann til að taka þátt í Íslandsmótinu í 2. flokki í skák það árið sem hann og gerði. Það hafið verið upphafið að hans þátttöku í skákmótum.
Björgvin talaði um hversu feykilega mikilvægur Friðrik Ólafsson hafi verið fyrir íslenskt skáklíf og nefnir nokkra samferðamenn hans og þá sérstaklega stórmeistarann Guðmund Sigurjónsson.
Í þættinum kemur fram að Björgvin hefur tvisvar teflt fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótum. Hann kemur inn á gríðarlega öflugt starf Jóhanns Þóris Jónssonar fyrir skákhreyfinguna, talar um ómannlega taflmennsku Magnúsar Carlsen, uppgang Hans Niemanns sem nú sé loks viðurkenndur á meðal þeirra bestu í heimi. Björgvin talar um árangur Vignis Vatnars á skákmótum að undanförnu og þeirri trú sinni að hann geti náð langt. Hann segir að næstu skref Vignis hljóti að vera að tefla á sterkum skákmótum og þá helst á mótum sem hann teflir vel upp fyrir sig. Björgvin lýsir hugmynd sinni um opna mótaröð með háu gólfi þar sem útreikningur stiga ræður því hver fær úthlutað hæstu peningastyrkina frá skákhreyfingunni en stórmeistaralaunin munu heyra sögunni til eftir næstu áramót. Hann telur jafnframt að val í landsliðið eigi að ráðast af getu og virkni á sérstökum mótum meðal þeirra bestu. Margt annað kom til tals í þættinum sem heyra má í spilaranum.
-
Gestur Kristjáns Arnar í þættinum í dag er einn af okkar sterkustu og þekktustu skákmeisturum. Hann var á sínum tíma á meðal allra sterkustu skákmanna heims. Þetta er stórmeistarinn Jóhann Hjartarson en hann starfar í dag sem yfirlögfræðingur Íslenskrar Erfðagreiningar.
Þeir Kristján og Jóhann gefa sér góðan tíma til að ræða þátttöku Íslendinga á Ólympíumótunum í skák í gegnum tíðina en fyrsta formlega Ólympíumótið fór fram í London árið 1927. Íslendingar tóku fyrst þátt þegar mótið var haldið í Hamborg í Þýskalandi árið 1930 og hafa ávallt verið á meðal þátttökuþjóða utan árin 1931, 1935 og 1950. Þeir ræddu Ólympíumótin í Buenos Aires 1939, Havana 1966, Möltu 1980, Dubai 1986, Manila 1992 og svo spáðu þeir og spekúleruðu í Ólympíumótinu í Ungverjalandi sem hefst í höfuðborginni Budapest í næstu viku en 1. umferð verður tefld 11. september. Margt annað kom til tals hjá þeim félögum, eins og skákfréttir líðandi stundar, sem hlusta má hér í spilaranum.
-
Dr. Oddgeir Ágúst Ottesen var gestur Kristjáns Arnar að þessu sinni. Þeir ræddu aðallega um barna- og unglingstarf hjá KR, Íslandsmót skákfélaga í október og vendingar í félagaskiptum en KR-ingar hafa styrkt sig verulega frá því í fyrra. Einnig ræddu þeir EM ungmenna sem nú fer fram í Prag í Tékklandi, komu inn á Ólympíumótið í skák sem fram í Búdapest í Ungverjalandi í næsta mánuði og ýmislegt fleira.
-
Það er stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson núverandi Íslandsmeistari í skák sem setst niður Við skákborðið að þessu sinn.
Þeir Kristján Örn ræða um nýlokið Borgarskákmót sem lauk með sigri Helga, Ólympíuskákmótið sem haldið verður í Búdapest í Ungverjalandi dagana 10.-23. september nk. Þeir töluðu við Björn Ívar Karlsson nýráðinn skólastjóra Skákskóla Íslands sem í morgun fór utan með stóran hóp barna og unglinga á EM ungmenna í Prag í Tékklandi. Um er að ræða 23 keppendur, 4 þjálfara og fjölda aðstandenda eða alls um 60 manns. Þetta mun vera langstærsti hópur sem Skáksamband Íslands hefur sent til keppni á erlenda grund. Helgi sagði frá undirbúningi stórmeistarans Vignis Vatnars Stefánssonar fyrir Ólympíumótið en hann hefur verið iðinn við að keppa á mótum erlendis í sumar, hækkað mikið á skákstigum og hefur Helgi mikla trú á okkar yngsta stórmeistara.
Einnig ræddu þeir um flesta af sterkustu skákmönnum heims sem hafa verið að keppa sín á milli að undanförnu, s.s. á Saint Louis at- og hraðskákmótinu sem Alireza Firouzja vann, Sinquefield Cup mótinu sem er í fullum gangi, væntanlegt einvígi Magnúsar Carlsen og Hans Niemann í París í byrjun næsta mánaðar og heimsmeistaraeinvígi núverandi heimsmeistara kínverjans Ding Liren og indverjans Dommaraju Gukesh en það mun fara fram í Singapúr dagana 20. nóvember til 15. desember nk. Það er því hægt að fullyrða að heimsmeistaratitillinn verður áfram í Asíu.
-
Gestir þáttarins eru skákmeistararnir Þorvarður Fannar Ólafsson og Birkir Karl Sigurðsson. Þorvarður hefur margoft heimsótt Filippseyjar en eiginkona hans er ættuð frá borginni San Carlos sem er á eyju sem heitir Negros. Hann segir sögu af ferðalagi sínu á fjölmennt helgarskákmót sem haldið var í borginni Bacolod og kynnum sínum af grjóthörðum filippseyskum skákmönnum. Þorvarður segir það algengt að teflt sé upp á peninga í verslunarmiðstöðvum og því oft viðhöfð ýmis brögð í tafli eins og að hagræða úrslitum á efstu borðum í lokaumferðum skákmóta. Í síðari hluta þáttarins var slegið á línuna til Birkis Karls Sigurðssonar þáttastjórnanda hjá Chess After Dark en hann hefur komið að skipulagningu á Íslandsmótinu í netskák sem hefst 25. ágúst nk. Óánægju hefur orðið vart hjá einhverjum skákmönnum þar sem 13 keppendur af 16 fá boðsæti beint í útsláttarkeppnina og þurfa því ekki að tefla í sjálfri undankeppninni eins og aðrir skákmenn til að tryggja sér sæti í mótinu. Þrír af sterkustu netskákmönnum landsins fengu ekki boð en það eru alþjóðlegu meistararnir Arnar Gunnarsson, Jón Viktor Gunnarsson og Davíð Kjartansson en þeir hafa margoft orðið Íslandsmeistarar í netskák og staðið uppi sem sigurvegarar á sterkum netskákmótum undanfarin ár. Einnig hefur það vakið athygli að Rafíþróttasamband Íslands heldur mótið en ekki Skáksamband Íslands. Há peningaverðlaun eru í boði en verðlaunafé er ein milljón króna og verður sýnt beint frá mótinu í Sjónvarpi Símans. Heyra má svar Birkis Karls við ofangreindum athugasemdum í þættinum.
-
Gestur Kristjáns Arnar í skákþættinum í dag er Hörður Jónasson, forseti Vinaskákfélagsins en Vinaskákfélagið hlúir að skáklífinu í Vin jafnframt því að efna til viðburða í þágu fólks með geðraskanir í samvinnu við athvörf, búsetukjarna, geðdeildir, félagsamtök og einstaklinga. Í síðari hluta þáttarins spjalla þeir einnig símleiðis við Róbert Lagerman gjaldkera Vinaskákfélagsins og fyrrverandi forseta þess en hann er nýkominn heim úr enn einni skákferðinni til Grænlands. Í þættinum segir Hörður frá hvernig hann kynntist skákinni fyrst, hvernig hann hóf að vinna fyrir Vinaskákfélagið, var kosinn í stjórn þess og tók loks við embætti forseta félagsins árið 2022. Hörður fór yfir tilgang, stefnu og markmið Vinaskákfélagsins og segir það öðruvísi en flest önnur skákfélög. Hann talaði um alþjóðlega geðheilbrigðismótið, jólaskákmótið á Kleppi, heimsóknir í athvörf og búsetukjarna til að gefa skáksett og klukkur, Hrafn Jökulsson og fleira gott fólk sem kom að stofnun Vinaskákfélagsins árið 2003 og hefur starfaði og keppt fyrir félagið.
-
Það var fjölmennt og góðmennt Við skákborðið í dag. Kristján Örn tók á móti feðginunum Katrínu Ósk Tómasdóttur 9 ára og Tómasi Tandra Jóhannssyni ásamt FIDE meistaranum Halldóri Grétari Einarssyni fv. formanni skákdeildar Breiðabliks og fv. varaforseta Skáksambands Íslands. Síðar í þættinum bættist svo við FIDE meistarinn og skákkennarinn Björn Ívar Karlsson símleiðis frá Vestmannaeyjum en hann var mættur þar snemma til að taka þátt í Þjóðhátíðinni í ár. Umræðuefnið í þættinum er stuttur en glæsilegur skákferill Katrínar Óskar en hún hefur aðeins æft og telft skák síðan í febrúar á þessu ári en hún æfir hjá Haukum í Hafnarfirði undir leiðsögn Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur og Auðbergs Magnússonar. Áhugann fékk hún fyrst þegar hún tefldi drepskák við Sjöfn ömmu sína og þegar hún var í 3. bekk í Hvaleyrarskóla en þar var kennd skák undir handleiðslu Steinars Stephensen og Ægis Magnússonar. Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari hefur tekið Katrínu Ósk í einkatíma, eftir að hafa heyrt margt gott um hana, og undirbýr hana m.a. undir þátttöku í EM ungmenna sem fer fram í Prag í Tékklandi síðar í sumar. Í þættinum er rætt var um skák hjá yngstu kynslóðinni, samskipti við foreldra, æfingar og styrkjamál og hvernig best væri hægt að koma til móts við þarfir ungra og efnilegra skákbarna og unglinga.
- Montre plus