エピソード
-
Nýr heimur opnaðist þeim Lenu og Margréti þegar þær ræddu við Birgittu sem er einn af fjórum stofnendum frumkvöðlafyrirtækisins Sea Growth. Fyrirtækið hlaut Gulleggið 2024 en hugmyndin gengur út á það að framleiða fiskhrávörur úr fiskfrumum svokallaðan vistfisk. Ferlið er þannig að frumusýni er tekið úr villtum heilbrigðum fiski og frumurnar ræktaðar upp í þar til gerðum líftönkum. Draumurinn er að hefja starfsemina á Íslandi til þess að nota endurnýjanlega orku og íslenskt vatn. Til tals komu 3D prentarar í tengslum við matvæli og margt annað framandi. Lena og Margrét spyrja spurninganna eins og þær séu börn því þessi vísindi eru fyrir þeim eins og í vísindaskáldsögu. En raunin er sú að þess er ekki langt að bíða að vistfiskur, framleiddur úr frumum, verði lentur á disknum okkar ef allt gengur að óskum hjá Sea Growth.
-
„Við verðum amk næstu tvö árin með öfug orkuskipti sem þýðir að við erum með neikvæða þróun í grænu orkunni sem við státum okkur af. Það er skortur á raforku og því þurfa fyrirtæki í stóriðju að fara í olíu aftur, losun eykst og loftslagsbókhaldið okkar hefur farið niður,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra í viðtali í hlaðvarpinu Ekkert rusl. Hann segir að við verðum vinna hratt og láta hendur standa fram úr ermum til þess að mæta orkuþörfinni og lítið hafi verið hugsað til framtíðar síðustu 15-20 árin, þessi staða sé afleiðing þess. Hann segist þó ekki hafa áhuga á að vera með barlóm og tala um allt sem er miður heldur hugsa í lausnum og hætta að væla.
„Við getum algjörlega náð markmiðum okkar um 100% græna orku árið 2040 sem þýðir að við verðum sjálfbær og laus við jarðeldsneyti en við verðum að vinna hratt og þess vegna er ég að losa um hömlur sem varða virkjanir,“ segir Guðlaugur Þór.
-
エピソードを見逃しましたか?
-
Ásdís Nína Magnúsdóttir sem starfar hjá Carbfix segir okkur frá á lifandi hátt en Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur frá árinu 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni og íslensku hugviti. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins en markmiðið með því verkefni er að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík.
-
Bergrún er með ótrúlegan kraft og í raun framúrstefnulega hugsun þegar kemur að því að nýta matvæli. Hún þekkir það vel sjálf að þurfa að spara og nýta vel það sem er í ísskápnum og hefur risastórt hjarta, bæði gagnvart þeim sem minna mega sín og móður jörð. Hún hikar ekki við að fara með afganga í Frískápana svokölluðu sem eru víðsvegar um bæinn og segir okkur frá því þegar hún fór í frí og tæmdi ísskápinn sinn og fór með allt í Frískáp. Hún grípur sér líka stundum samloku þar fyrir sjálfa sig þegar hún er á hlaupum eða að keyra á milli verslana. Henni finnst að slíkir ísskápar eigi ekki eingöngu að þjóna þeim sem hafa lítið á milli handanna heldur að verða til þess að við öll nýtum matvæli betur og sækjum þangað mat ef svo ber undir og setjum að sjálfsögðu matvæli þangað á móti. Í starfi sínu hjá Hjálpræðishernum leiddi Bergrún verkefni um mataraðstoð, gegn matarsóun en það gerði hún með Samkaupum sem á fyrstu fimm mánuðum verkefnisins leiddi til rúmlega 20 milljóna króna styrks og hefur leitt tli þess að allt að 300 einstaklingum er daglega gefin heit máltíð í hádeginu. Bergrún er menntuð í fata- og textílhönnun og hefur hlotið umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu. Bergrún er mikil uppspretta fróðleiks um þessi mál.
-
Gunnar Dofri er skemmtilegur viðmælandi enda er hann því vel vanur að tala í mikrófóninn þar sem hann heldur sjálfur úti hlaðvarpinu Leitin að peningunum. Hann segir okkur frá því að 7 tonn eða heilir 2 gámar komi inn í góða hirðinn á dag! Við fræðumst hjá honum um plastið en það sem er óendurvinnanlegt er allt brennt. Nú fyrir jólin er gott að huga að því að frauðplastið utan um tæki og dót á alltaf að fara í endurvinnslustöð, alls ekki í plasttunnuna. Það má alls ekki brenna það með öðru plasti. Íslendingar hafa staðið sig virkilega vel eftir að nýtt flokkunarkerfi tók gildi og matarleyfarnar í brúnu pokunum eru að skila sér mjög hreinar og mun betur en vonir stóðu til. "Gaia" er gas- og jarðgerðastöð Sorpu sem tekur matarleifarnar og vinnur úr þeim metangas og moltu. Þetta er hægt að gera með hreinar matarleifar. Ef ekki er þekking á því hvernig skuli flokka ákveðna hluti þá finnst svarið við langflestu í uppflettilausn Sorpu sem er það fyrsta sem blasir við þegar farið er á vefsíðu Sorpu Sorpa.is. Ruslinu er slegið inn í leitarvél og þá vitum við nákvæmlega hvert hluturinn á að fara. Við prófuðum til dæmis kassann með mandarínunum og hann flokkast sem ómálað timbur. Gleðilega hátíð öll og njótið þess að fræðast á mannamáli um ruslið okkar.
-
Þátturinn okkar er nú í fyrsta sinn tekinn upp sem pop-up hlaðvarp og það í Hörpu þann 15. nóvember á þingi um hringrásarhagkerfið í tengslum við matvælaframleiðslu, - dreyfingu og -neyslu. Matvælaráðuneytið stendur fyrir þinginu sem haldið var í annað sinn og er þátturinn stútfullur af fræðslu sem á beint erindi til neytenda. Til að mynda fáum við að kafa ofan í ruslið og sjáum hversu miklu hvert mannsbarn hendir ár hvert og tölurnar eru sláandi. Það kemur okkur á óvart að vökvi er ekki með í tölfræðinni þannig að mjólkurvörur, súpur og annað sem fer í vaskinn, fer einmitt í vaskinn í orðsins fyllstu merkingu. Ari Eldjárn er í viðtali og segir farir sínar ekki sléttar í umleitan sinni til þess að vera góður neytandi og flokkari. Hann var með frábær innlegg á þinginu til þess að brjóta upp formið en fyrirlestrarnir voru heilt yfir ekki bara fræðandi heldur skemmtilegir. Fyrirlesarar voru flestir íslenskir og fáum við marga þeirra til þess að fræða okkur. Einnig fáum við tvær þungavigtakonur í bransanum; Anne, sviðsstjóra hjá dönsku Matvælastofnunni en hún sýnir okkur fram á að Danir eru að nálgast þessi mál aðeins öðruvísi en við. Ladeja frá Slóvaníu, stofnandi Circular Change - henni finnst að Ísland sé í lykilstöðu til þess að leiða með góðu fordæmi í umhverfismálum.
-
Lena varð kaupsjúk eftir að hafa sett sjálfa sig í kaupstraff allt árið 2022. Hjól atvinnulífsins fundu heldur betur fyrir því þetta árið að Lena væri farin að strauja kreditkortið sitt. Nú hugar hún að því að fara aftur í það að hefta kaupagleðina 2024. Sjáum hvað setur en Margrét greinir frá því að hún notar árlega vel yfir 2000 bómullaskífur til þess að þrífa á sér andlitið kvölds og morgna. Lena segir að hún eigi að hætta þessu rugli og byrja að nota þvottapoka í staðinn. Þetta og margt fleira ræða þær í glænýjum haustþætti af EKKERT RUSL, sá fyrsti sem tekinn er upp í nýrri aðstöðu í Góða hirðinum. Þær Lena og Margrét keyptu sér notaðar hlaðvarps-upptökugræjur og eru búnar að koma sér vel fyrir í nýju og glæsilegu húsnæði Góða hirðisins. Í þennan fyrsta þátt eftir hlé kemur Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringafræðideild Háskóla Íslands og hann er með fullt af nytsamlegri fræðslu um matvæli og næringu bæði út frá lýðheilsusjónarmiðum en ekki síður umhverfisjónarmiðum. Lena og Margrét urðu til dæmis smá sjokkeraðar yfir því að heyra hvað keto matarræðið skilur eftir sig mikið kolefnaspor í samanburði við annað matarræði. Þátturinn er stútfullur af skemmtilegum fróðleik sem allir ættu að geta nýtt sér að einhverju leyti á leið sinni til betri heilsu og bættrar umgengni við móður jörð.
-
Steinunn Sigurðardóttir er Íslands farsælasti fatahönnuður. Hún umgengst föt og textíl á sinn einstaka hátt enda eru líklega fáir með þá þekkingu sem hún hefur á ólíkum efnum, vefnaði og öllu því sem viðkemur að velja hvað passar best í flík. Hún vann á árum áður í stóru tískuhúsunum og fékk að byggja upp prjónadeildir heimsfrægra merkja. Nálgun hennar er einstök og það má enginn missa af þessum þætti, sem áhuga hefur á því hvernig við neytum og klæðum okkur og umhverfismálum því tengt.
-
Þeir eru hressir viðmælendur þessa þáttar en Freyr Eyjólfsson hjá Sorpu lýsir fyrir okkur hugmyndafræðinni sem tengist opnun á risastórri Góðs hirðs verslun í gömlu kassagerðinni. Bjarni Ágústsson hjá ON er fróður um rafbílavæðinguna og hvernig við sem neytendur getum fengið sem besta nýtingu á rafstöðvum.
-
Þessar tvær frábæru konur eru viðmælendur þessa fyrsta þáttar á nýju ári. Vala Kristín vill fá dópamínkikkið sem fylgir því að kaupa sér eitthvað en hún fer þá og dólar sér í Verzlanahöllinni og leitar að gersemum til þess að klæðast. Hún notar líka fjölnota dömubindi. Hún varð umhverfissinni um 12 ára gömul þegar hún heimsótti Sorpu í fyrsta sinn. Aðalheiður Jacobsen er frumkvöðull en hún stofnaði Netparta á Selfossi sem er bílapartasala en "next level". Þar eru um 30 þúsund bílapartar geymdir og flokkaðir eftir gríðarlegu skipulagi enda segist Aðalheiður raða fötunum sínum í skápinn eftir litum. Hún vill geta farið og fundinn bílapartinn án fyrirhafnar og án þess að verða skítug í leiðinni. Hún stofnaði fyrirtækið upp úr fjármálakreppunni þegar hún þurfti að finna sér eitthvað að gera. Þettaeru einstaklega skemmtilegir viðmælendur.
-
Nú þegar jólin nálgast þá örlar á öfund hjá Lenu Magnúsdóttur, þáttastjórnanda hlaðvarpsins Ekkert rusl, því hún upplifir að konur í kringum hana komi í hamingjukasti úr verslunarferðum með nýja skó, skart og föt. Hún er búin að hemja sig allverulega árið 2022 og kaupa ekkert nýtt nema samfellu sem hana bráðvantaði þegar hún var á leið í brúðkaup og áttaði sig á því að kjóllinn var hálfgagnsær og gamla samfellan hennar spratt af henni. Lena er mannleg og spennt fyrir því að kaupa sér eitthvað nýtt og fallegt á nýju ári. Hún talar um þetta í nýjasta þættinum og segir Margréti Stefánsdóttur, hinum þáttastjórnandanum að hún hafi oft séð föt með merkimiðanum á fatamörkuðum því fólk kaupi kannski flík í einhverju kaupæði sem kemur kannski ekki nógu vel út yfir brjóstin o.sfrv. Þær ræða í því samhengi föt og brjóst.
Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurstofustjóri og pabbi Lenu, er viðmælandi þáttarins en þegar hann var að læra veðurfræði þá var talið að við værum að fara inn í ísöld og aukin koltvísýringur í andrúmsloftinu væri í því samhengi til góðs og myndi seinka því ferli eða koma í veg fyrir það. Raunin varð vissulega önnur – ísöld var fjarri lagi og nú eru langflestir veðurfræðingar sammála um það að jörðin sé að hitna og það um of – og alltof hratt.
-
Í þættinum segir Guðný Nielsen einn stofnenda SoGREEN okkur frá íslenskri lausn sem framleiðir kolefniseiningar með því að mennta stúlkur í lágtekjuríkjum - 132 milljónir stúlkna ganga ekki í skóla. „Stúlkur í þróunarríkjum giftast margar ungar og eignast börn löngu áður en það er tímabært - ástæðan er mikil fátækt. SoGreen er fyrsta fyrirtækið í heiminum sem hefur þróað lausn í loftslagsmálum sem snýr að menntun stúlkna í lágtekjuríkjum og mætir þeim síauknu kröfum að fyrirtæki þurfa að kolefnisjafna starfsemi sína,“ segir Guðný Nielsen stofnandi SOGREEN en hún er ein fjögurra kvenna sem hefur þróað lausnina. „Þannig valdeflast stúlkurnar og geta tekið ákvarðanir um það hvenær þær gifta sig og eignast börn. Með Guðnýju er Gunnar Sveinn Magnússon en hann hefur starfað með SoGreen að þessari þróun sem yfirmaður sjálfbærni og loftslagsmála hjá Deloitte á Íslandi. Hann segir reglur varðandi kolefnisjöfnun séu í auknum mæli að þrengja að fyrirtækjum og þau verði að fara að huga að þessum málum núna því það styttist í hert regluverk sem snýr að Evrópu og tekur gildi 1. Janúar 2023.
-
Kristín Laufey Guðjónsdóttir hefur áhugaverða sögu að segja frá árunum sem hún starfaði í Þýskalandi fyrir Adidas. Nú er hún komin heim og sér m.a. um sjálfbærnimál hjá 66°Norður. Hún segir að öll framleiðsla hafi áhrif á jörðina, gildi einu hvort þú kaupir jakka sem brotnar niður í náttúrunni því ef þú þarft að kaupa þér nýjan á hverju ári þá er það á vissan hátt eyðileggjandi fyrir náttúruna . Ofneysla, offramleiðsla, sóun og léleg ending plaga tískuiðnaðinn en "sjálfbærni er ekki bara bóla heldur raunverulegt markmið okkar hjá 66°Norður", segir Kristín Laufey í áhugaverðu spjalli við hana. Með henni er Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Pure North í Hveragerði. Hann er þrjóskur og útsjónasamur maður því honum var sagt að ekki væri mögulegt að endurvinna plast á Íslandi með arðbærum hætti. Fyrirtækið Pure North hefur afsannað það og endurvinnur nú plast þ.m.t. heyrúlluplastið af jörðum landsins sem fer í hringrásarkerfið og verður að girðingastaurum. Pure North sinnir einnig ráðgjöf til fyrirtækja og á samstarf við 66°Norður.
-
Dinna er hún kölluð og talar um að alvöru áhrifavaldar, sé fólk sem lætur til sín taka í málum sem skipta máli fyrir framþróun. Hina "áhrifavaldana" kallar hún FLENSU, stytting úr influensers. Hún segir að nú verði að vængstífa gráðuga, ríka og freka karlinn sem hengir sig á almannakerfi þjóðarinnar og græðir á því. Íslendingar verði að vinna að lausn á loftslagsvandanum í sameiningu. Allt sem þurfi er vilji og hugrekki yfirvalda og vísar Dinna með þeim orðum í nýlega skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kölluð er Lokaviðvörun og er tekin saman af helstu vísindamönnum heims.
-
Við köllum hann bara Mumma því okkur finnst hann svo skemmtilegur og við þekkjum hann pínulítið. Okkur finnst bæði fróðlegt og gaman að heyra hann segja frá sjálfum sér í samhengi við umhverfismál en einnig hvernig Ísland er að standa sig í stóru myndinni. Við tölum líka við stelpur á unglingsaldri sem unnu samkeppni með sögu um hann Kalla. Kalli er svolítill umhverfissóði, eins og mörg okkar án þess að gera sér grein fyrir því. Hann tekur sig á í daglegu lífi og litlu skrefin sem hann tekur í breyttum lífsstíl til þess að hugsa um umhverfið skipta sköpum en taka raunhverulega ekki mikið á Kalla. Sagan vakti athygli okkar og fengum við þessar hæfileikaríku stelpur til þess að koma og lesa söguna fyrir okkur segja okkur frá uppsprettu hennar.
-
Við höldum áfram að kafa ofan í umhverfismálin og í þessum nýja þætti af EKKERT RUSL tölum við við góða sérfræðinga um rafbílavæðinguna í Íslandi. Þeir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju komu í stúdíóið til okkar og sögðu frá þeirri þróun sem er ansi hröð í framleiðslu rafbíla. Lena ætlar að kaupa sér rafbíl og Margrét er enn að hugsa þetta því uppáhaldsbíllinn hennar er bensínþambandi jebbi sem hana hefur dreymt um að eignast. Skottið á honum gæti örugglega geymt trommurnar hennar þegar hún fer að túra.
Sérfræðingarnir eru sannfærðir um að Íslendingar þurfi ekki að virkja meira þó að allir Íslendingar fari á rafmagnsbíla. Rafhleðslur má nýta betur og hlaða bílana á næturna. Það yrði þjóðhagslega hagkvæmt ef við færum öll á rafmagnið og best væri ef við sem þjóð yrðum í farabroddi.
-
Nágrannarnir í Vesturbænum, þær Ragna Sara Jónsdóttir og Rakel Eva Sævarsdóttir eru báðar leiðtogar á sviði sjálfbærni en í mjög ólíkum geirum, ein í hönnunargeiranum og hin í flugbransanum. Ragna Sara á og rekur fyrirtækið Fólk Reykjavík sem hannar og selur vandaðar hönnunarvörur undir vörumerkinu hérlendis og erlendis. Rakel Eva starfar sem yfirmaður sjálbærni hjá flugfélaginu Play. Þær eru viðmælendur nýjasta þáttarins í hlaðvarpinu EKKERT RUSL.
-
Að fljúga til og frá New York héðan samsvarar því að fólksbíl sé ekið fjóra hringi í kringum Ísland út frá CO2 losun á hvern flugfarþega. En eins og fram kemur í þessum þætti EKKERT RUSL þá er talið að flugumferð í heiminum muni tvöfaldast á næstu tuttugu árum og því leikur þáttastjórnendum forvitni á að vita hvað flugbransinn sé að gera út frá umhverfissjónarmiðum varðandi þessa auknu eftirspurn og flugumferð til framtíðar. Til þess að skrafa um þetta fengu þær til sín Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair. Hann er þeirrar skoðunar að stjórnvöld í hverju landi eigi að búa til hvata fyrir fyrirtækin til þess að þau fari í nauðsynlegar aðgerðir í þeim tilgangi minnka kolefnislosun en segir lykilþáttinn í fluggeiranum vera þróun sjálfbærs eldsneytis. Þar liggi mestu áhrifin sem skipt geta máli og fært nálina, eins og Bogi orðar það.
-
Einar Bárðarson er landsmönnum kunnur fyrir æði margt og þá ekki síst fyrir að vera öflugur plokkar og auðvitað mikill poppari. Hann stýrir Votlendissjóði og hefur mikinn áhuga á því hvernig við getum bætt okkur sem land í kolefnisjöfnun. Hann segir að fyrirtæki séu í raun fljót út af markaðnum ef þau ætla sér ekki að huga að þessum málum hjá sér og taka þátt í að snúa þróuninni við. “Um 60% af heildar CO2 losun Íslendinga kemur frá framræstu landi, sem eru skurðir sem voru grafnir á sínum tíma,” segir Einar og útskýrir þetta vel og á mannamáli fyrir Margréti og Lenu. Þeir sem samþykkja að fá Votlendissjóð til þess að fylla upp í skurði á landinu sínu geta búið til fjárhagsleg verðmæti fyrir sig og sína til framtíðar að sögn Einars. Hann segist ekki vera með neinn loflagskvíða og fullyrðir að við séum að standa okkur betur í dag en t.d. fyrir 5 árum. Fólk sé að opna augun og sjá mikilvægi þess að breyta um kúrs.
-
Lena kaupir eldrauðan rafmagnsbíl og ætlar að greina frá sparnaði og lífsstílnum sem fylgir því að kaupa ekkert nýtt árið 2022. Vangaveltur um endurnýtanlega smokka koma upp. Margrét kaupir sér notaða úlpu á nytjamarkaði í Kaupmannahöfn og finnst að við öll ættum að líta í okkar eigið rusl og finna góða leið í endurnýtingu - hún leitar leiða til að bæta sig í umhverfisvernd. Þær stöllur eru nýkomnar úr skíðaferð frá Ítalíu en þær kolefnisreiknuðu flugið fyrir 4 farþega - 24 tré þarf að gróðursetja til þess að kolefnisjafna flugferðina fram og tilbaka.
- もっと表示する