Episodes

 • Í tuttugasta og fimmta þætti Heimskviðna er fjallað um umskurð kvenna, en á hverjum fimmtán sekúndum eru kynfæri stúlku limlest einhvers staðar í heiminum og um 200 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna lifa með afleiðingum slíkra aðgerða. Umskurður er gjarnan notað fyrir þennan verknað en þau sem til þekkja vilja frekar tala um limlestingu á kynfærum kvenna. Áform eru um að útrýma þessum aldagamla sið, en það er ekki auðunnið verkefni. Birta Björnsdóttir fjallar um málið. Dýralæknir hefur áhyggjur af afkomu villtra dýra eftir fordæmalausa skógarelda í Ástralíu. Talið er að yfir milljarður viltra dýra hafi drepist á síðustu mánuðum, þar með talið dýr sem voru þá þegar í útrýmingarhættu. Eftir langvarandi ágang manna á búsvæði dýra í Ástralíu gætu eldarnir hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Halla Ólafsdóttir, fréttamaður sem er nú búsett í Sydney kynnti sér málið. Getur borgaraleg óhlýðni haft þau áhrif að stjórnvöld teki til hendinni í loftslagsaðgerðum. Grasrótarsamtökin Exitinction Rebellion eru ekki nema rétt tæplega tveggja ára gömul en hafa þegar náð að festa sig í sessi í yfir fimmtíu löndum. Samtökin fordæma ofbeldi, en það þýðir þó ekki að meðlimir þeirra hafi ekki komist í kast við lögin. Guðmundur Björn Þorbjörnsson segir frá. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tuttugasta og fjórða þætti Heimskviðna er fjallað um upplausnarástand í þýskum stjórnmálum, eftir að flokkur þjóðernissinna, AfD, studdi nýjan forsætisráðherra í sambandsríkinu Thuringen. Kristilegir demókratar og frjálslyndir og taldir hafa gengið á bak þeirra orða sinna um að vinna aldrei með flokkum þjóðernissinna. Þá hefur formaður Kristilegra demókrata sagt af sér formennsku. Það kom mörgum á óvart því hún var af mörgum talinn ótvíræður arftaki Angelu Merkel sem næsti kanslari. Guðmundur Björn ræðir við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, og Vanessu Moniku Isenmann, doktorsnema við Háskóla Íslands. Flóttamenn frá Venesúela streyma í þúsundatali yfir til Kólumbíu á hverjum einasta degi. Þar er þeim tekið opnum örmum enda eru þetta bræðraþjóðir frá fornu fari og voru í raun á fyrrihluta 19. aldar ein og sama þjóðin. En það gæti breyst á næstu misserum, nú eru efnahagsþrengingar í Kólumbíu og þá eru flóttamenn frá Venesúela ekki jafn vel séðir og áður. Jóhann Hlíðar Harðarson segir frá. Þá fjallar Ólöf Ragnarsdóttir um stöðu flóttafólks í heiminum. Á einni viku núna í febrúar neyddust yfir hundrað þúsund manns til þess að flýja heimili sín í Idlib-héraði í Sýrlandi. Það sem af er þessu ári hafa nærri tveir á dag drukknað á Miðjarðarhafinu á leið sinni til Evrópu. Frá því Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tók til starfa fyrir sjötíu árum, hafa aldrei verið fleiri á flótta. Hvaðan er fólk að flýja og hvert flýr það? Hver er munurinn á flóttamanni og hælisleitanda? Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Missing episodes?

  Click here to refresh the feed.

 • Í tuttugasta og þriðja þætti Heimskviðna er fjallað er um réttarhöldin yfir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en þeim lauk í vikunni. Forsetinn var sem kunnugt er ákærður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir embættisglöp í starfi; fyrir að misnota völd sín sem forseti annars vegar, og fyrir að hindra framgang rannsóknar fulltrúadeildarinnar hins vegar. Hvernig fór þetta allt saman, og hvernig kemur forsetinn út úr þessu, nú þegar um níu mánuðir eru þangað til forsetakosningar fara fram Vestanhafs? Rætt er við Silju Báru Ómarsdóttur, dósent í stjórnmálafræði. Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels kynntu á dögunum nýja friðaráætlun fyrir Palestínu. Hún hefur fallið í grýttan jarðveg þar. Er áætlunin raunveruleg leið til friðar eftir áratuga átök milli Ísraelsmanna og Palestínumanna eða gerir hún í raun illt verra? Hallgrímur Indriðason skoðaði áætlunina og ræddi við Magnús Þorkel Bernharðsson um næstu skref í þessari langvinnu deilu. Þá fer Birta Björnsdóttir yfir og rifjar upp samspil pólitíkur og Óskarsverðlauna, um umdeilda verðlaunahafa og hvernig sum þeirra hafa nýtt sviðsljósið til að koma málefnum í umræðuna. Og hvort að það hafi einhver áhrif. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tuttugasta og öðrum þætti Heimskviðna er fjallað er um AMIA-sprengjuárásina í landinu árið 1994, versta gyðingahatursglæp frá helförinni og saksóknarann Alberto Nisman. Nisman var líklega myrtur degi áður en hann ætlaði að greina opinberlega frá ásökunum um að þáverandi forseti og núverandi varaforseti hefði hylmt yfir með árásarmönnum í skiptum fyrir viðskiptasamninga við Íran. Dauði saksóknarans er til umfjöllunar í nýrri þáttaröð á Netflix, sem vakið hefur mikil viðbrögð í Argentínu. Brexit er orðið að veruleika, þremur og hálfu ári eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sem klauf bresku þjóðina og Bretar hafa loks yfirgefið Evrópusambandið. En þótt Bretar séu á leið út, er enn langur vegur fram undan og nú taka við ellefu mánaða samningaviðræður við Evrópusambandið um framtíðar samskipti þeirra. Dóra Sif Tynes er gestur Heimskviðna í síðustu Brexit umfjöllun þáttarins, Í bili. Einn besti körfuboltamaður allra tíma, Kobe Bryant, lést á sunnudagskvöld, aðeins 41 árs. Hver var Kobe Bryant og hver verður arfleið hans? Guðmundur Björn ræðir við Svala Björgvinsson, sálfræðing og körfuboltaspekúlant, um manninn að baki goðsögunni Kobe og linnulausa leit hans að fullkomnun. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tuttugasta og fyrsta þætti Heimskviðna er fjallað um málið sem skekur bresku pressuna um þessar mundir: Megxit. Hertogahjónin af Sussex, Harry Bretaprins og Meghan, vilja draga sig í hlé, draga úr embættisverkum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar og standa á eigin fótum. Það gera þau meðal annars til að forða sér og sínum undan vökulum augum fjölmiðla. En er víst að ákvörðun þeirra verði til þess að draga úr áhuga fjölmiðla og almennings á þeim Harry og Meghan? Birta Björnsdóttir segir okkur frá Megxit. Ríkisstjórn Rússlands fór frá völdum í síðustu viku og nýr forsætisráðherra tók af Dimitry Medvedev. Það er þó engin stjórnarkreppa í landinu, og en þessi óvænta uppstokun ríkisstjórnarinnar tengist fyrirhuguðum, og viðamiklum breytingum á stjórnarskrá landsins. Fjögur ár eru þangað til Vladimír Pútín forseti þarf að láta að völdum, og talið er að nú ætli hann tryggja áframhaldandi völd sín, eftir að forsetatíð hans lýkur. Þrátt fyrir þetta þykja fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar einnig benda til þess að Rússland sé að styrkjast sem lýðræðisríki. Guðmundur Björn fjallar um málið og ræðir við Dagnýju Huldu Erlendsdóttur, fréttamann, um nýjasta útspil Pútíns. Þá fjallar Hallgrímur Indriðason um rapparann Tupac Shakur, sem var myrtur í september 1996. Eða hvað? Samsæriskenningar um að hann hafi sviðsett dauða sinn hafa verið lífseigar - og nú fyrir skömmu fengu þær enn meiri byr á óhefðbundinn hátt, svo ekki sé meira sagt. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tuttugasta þætti Heimskviðna, og þeim fyrsta á nýju ári, er fjallað um samskipti Bandaríkjanna og Íran, en í upphafi árs hitnaði heldur betur í kolunum. Þann þriðja janúar síðastliðinn var Qasem nokkur Soleimani, yfirhershöfðingi í íranska hernum, myrtur í drónaárás bandaríska hersins í Bagdad í Írak. Árásin naut samþykkis Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, sem sagði hana nauðsynlega til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Morðið á Soleimani vakti strax mikla reiði í Íran, enda Soleimani einn af valdamestu mönnum landsins. Og Íranir létu morðið ekki óátalið. En hver er baksaga þessara átaka og hvað gerist næst? Ólöf Ragnarsdóttir og Guðmundur Björn fjalla um málið. Rætt er við Magnús Þorkel Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams háskóla í Massachusetts. Þá fjallar Bogi Ágústsson um sögulega samninga á Norður-Írlandi. Um helgina tókust samningar um að endurreisa heimastjórn í landinu. Þá voru liðin þrjú ár frá því að Sinn Féin, flokkur lýðveldissinna sem nýtur stuðnings flestra kaþólikka á Norður-Írlandi, sleit samstarfi við stærsta flokk sambandssinna, Democratic Unionist Party. Bogi ræðir meðal annars við Sólveigu Jónsdóttur, sem þekkir vel til á Norður-Írlandi. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í nítjánda þætti Heimskviðna er fjallað um eftirmála bresku þingkosningnanna. Breski Íhaldsflokkurinn, leiddur af Boris Johnsson forsætisráðherra, vann sögulegan sigur í þingkosningunum í síðustu viku. Helsti keppinauturinn, Jeremy Corbyn leiðtogi Verkamannaflokksins, beið afhroð. En hvað þýða þessi úrslit fyrir Breta? Sumir hafa áhyggjur af því að sameinaða konungsríkið Bretland liðist í sundur og jafnvel að það komi til átaka á Norður-Írlandi að nýju. Ólöf Ragnarsdóttir segir okkur frá. Þá verður dánaraðstoð í Belgíu og víðar til umfjöllunar. Aðeins fertug að aldri ákvað afreksíþróttakonan Marieke Vervoort nefnilega að yfirgefa þessa jarðvist og verða sér út um aðstoð við að binda enda á líf sitt. Það gat hún, vegna þess að hún er Belgi. Guðmundur Björn Þorbjörnsson fjallar um íþróttakonuna Vervoort og dánaraðstoð. Að síðustu eru samskitpi Rússa og Norðmanna til umfjöllunar. Rússar eru víða að færa sig upp á skaftið í vígbúnaði. Einn staðurinn er Kólaskagi, sem er skammt frá Norður-Noregi. Norðmenn, sem hingað til hafa lifað í góðri sátt við þessa granna sína, eru órólegir yfir þessari þróun. En uppbygging stafar af þáttum sem Norðmenn ráða illa við. Við skoðum ástæðurnar fyrir uppbyggingunni, stöðu Norðmanna hennar vegna og hvert framhaldið gæti orðið. Hallgrímur Indriðason segir frá.

 • Í átjánda þætti Heimskviðna er fjallað um stórsigur Íhaldsflokksins í bresku þingkosningunum á fimmtudag. Boris Johnson tókst ætlunarverk sitt, en hvort hann komi Brexit í gegnum breska þingið, er áfram óleyst ráðgáta. Hann hefur allavega sterkara vopnabúr en áður. Hallgrímur Indriðason um þau mótmæli og verkföll sem hafa staðið yfir í Frakklandi undanfarna viku, og þau áhrif sem þau hafa haft á franskt atvinnu- og þjóðlíf. Frakkar eru mun duglegri að mótmæla en flestar aðrar Evrópuþjóðir og það má rekja til ýmiss konar sérstöðu í franska kerfinu. Við skoðum hana nánar, og rýnum jafnframt í áhrif núverandi mótmæla og ástæðuna fyrir þeim, sem og fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunakerfi Frakka. Þá er einnig fjallað um frelsishetjuna og friðarverðlaunahafann Aung San Suu Kyi, valdamestu konu Mjanmar. Hún mætti fyrir Alþjóðadómstóllinn í Haag í vikunni. Stjórnvöld þar í landi eru ásökuð um þjóðarmorð og þjóðernishreinsari á Róhingjum í Rakhine héraði í vesturhluta Mjanmar. Fjallað er um Suu Kyi, baráttu hennar fyrir mannréttindum í Mjanmar, hvernig hún komst til valda, og hvernig hún virðist nú bera ábyrgð á dauða þúsunda saklausra borgara. Guðmundur Björn ræðir við Ingólf Bjarna Sigfússon, fréttamann, sem fór til Rakhine héraðs á síðasta ári. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í sautjánda þætti Heimskviðna er fjallað um morðið á Daphne Galizia, blaðakonu á Möltu, árið 2017. Dagný Hulda Erlendsdóttir ræðir við vinkonu Galizia, Dóru Blöndal Mizzi og Renete Schroeder, framkvæmdastjóra Evrópusamtaka blaðamanna. Rannsókn málsins hafði lítið miðað áfram þangað til leigubílstjóri var handtekinn á flugvelli á Möltu um miðjan síðasta mánuð. Hann var tengiliður milli leigumorðingjanna sem myrtu blaðakonuna og þeirra sem vildu hana feiga. Þingkosningar fara fram í Bretlandi í næstu viku, þann 12. desember. Vanalega fara kosningar fram á fimm ára fresti í Bretlandi, en líkt og alþjóð veit hefur ýmislegt gengið á í breskum stjórnmálum undanfarin ár. Brexit er sem fyrr í forgrunni, en það er einnig önnur mál sem eru kjósendum hugleikin. Guðmundur Björn segir frá. Í vikunni var ýjað að því að þættirnir um Simpson fjölskylduna renni bráðum sitt skeið á enda, þrjátíu þáttaröðum frá því að fyrsti þátturinn var sýndur. Aðdáendur þáttanna eru miður sín, eða hvað? Einn af eldheitustu aðdáendum þáttanna segir að þetta sé komið gott og að í raun hefði átt að loka Simpson-sjoppunni fyrir löngu. Hvernig ætli standi á því? Birta kannaði málið. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í sextánda þætti Heimskviðna förum við til Ástralíu. Halla Ólafsdóttir, fréttamaður, er búsett þar um þessar mundir og flytur hún okkur pistil um fordæmalausa skógarelda sem hafa geisað í landinu síðustu vikur, og ekkert lát er á. Það er ekki síst umfang eldanna og tímasetningin sem er fordæmalaus en í Ástralíu er sumarið rétt að byrja og og heitasti og þurrasti tíminn fram undan. Halla fór á stúfanna og ræddi við heimamenn um ástandið, og Íslendinga sem eru búsettir í nágrenni Sydney. Þann 3. nóvember á næsta ári fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þau eru þó nokkur sem ætla að freista þess að ná embættinu af sitjandi forseta fyrir hönd Demókrata. En tölfræðin er Trump í hag, meirihluti þeirra Bandaríkjaforseta sem sóst hafa eftir endurkjöri hafa haft erindi sem erfiði. En hvaða fólk er þetta sem vill verða keppinautar Trumps? Eiga þau möguleika? Og hvernig verður kosningabaráttan? Birta og Guðmundur Björn fjalla um málið. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í fimmtánda þætti Heimskviðna er fjallað um vaxandi óánægju íbúa í Líbanon með stjórnvöld í landinu. Síðustu daga hefur landinu verið lýst sem sökkvandi skipi og það komið ofan í djúpa holu sem erfitt verður að komast upp úr. Hundruð þúsunda hafa flykkst út á götur síðastliðnar fimm vikur til þess að mótmæla bágum efnahagi og vanhæfum gjörspilltum stjórnmálamönnum. En afhverju er þetta að gerast núna og hvers vegna gengur hægt að leysa málin? Ólöf Ragnarsdóttir ræðir við Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúa hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Tyrklandi, en bjó um tíma í Líbanon. Þá ræðir Ólöf einnig við Lama Fakih, forstöðukonu Human Rights Watch í Beirút. Andrés Brétaprins, næstelsti sonur Elísabetar Englandsdrottningar, stendur í ströngu þessa daganna og hefur dregið sig í hlé frá opinberum skyldum sínum, vegna ásakanna um að hafa misnotað stúlku undir lögaldri skömmu eftir aldamót. Stúlkunni kynntist hann í gegnum bandaríska fjárfestinn og barnaníðinginn Jeffery Epstein. Viðtal sem Breska ríkisútvarpið BBC tók við Andrés í síðustu viku hefur farið eins og eldur í sinu um netheima, en þar þótti Andrés gera stöðu sína enn verri. Guðmundur Björn fjallar um Andrés Bretaprins. Þá segir Birta Björnsdóttir okkur frá því að dauðarefsingu yfir bandarískum manni var frestað í vikunni eftir að hávær mótmæli náðu eyrum ríkisstjóra Texas. Mótmælin snerust um að ný sönnunargögn bentu til að maðurinn væri alls ekki sekur um glæpinn sem átti að lífláta hann fyrir. Kim Kardashian og Bernie Sanders eru meðal þeirra sem fagna því að Rodney Reed sé enn á meðal vor og að mál hans verði rannsakað á nýjan leik. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í fjórtánda þætti Heimskviðna er fjallað um vaxandi óánægju almennings út í ríkjandi stjórnvöld víða í Rómönsku-Ameríku. Fjölmenn mótmæli eru orðin daglegt brauð í morgun löndum. Á meðan einhverjir ráðamenn hafa hrökklast frá völdum, halda aðrir enn fastar í þau. Að baki þessari óánægju liggur rótgróið vantraust almennings á stjórnmálamönnum, enda er spilling meðal stjórnmálastéttarinnar í Rómönsku-Ameríku mjög algeng. En er það óskhyggja að vor sé í vændum í álfunni? Höfum við ekki séð þetta allt saman áður? Guðmundur Björn ræðir við Hólmfríði Garðarsdóttur, prófessor í spænsku, en hún er stödd í Síle um þessar mundir þar sem mikil óánægja gætir með forseta landsins, Sebastián Piñera. Sprengju- og skotárásir eru algengari í Svíþjóð en í nokkru öðru Evrópulandi. Árásirnar hafa verið tíðari á þessu ári en undanfarin ár - og síðustu vikur hafa þær orðið harðari og valdið meira manntjóni en áður hefur þekkst. Ástandið er séstaklega slæmt í Malmö. Sænsk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi en ástæðan fyrir þessum tíðu árásum á rætur sem má rekja djúpt inni í samfélaginu. Hallgrímur Indriðason fjallar um málið og ræðir meðal annars við Gunnhildi Lilý Magnúsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö. Á sunnudaginn kemur verður þriðja þáttaröðinn af The Crown aðgengileg á streymisveitunni Netflix. Í þáttaröðinni er sagt frá valdatíð Elísabetar Englandsdrottningar. Ævisaga drottningarinnar eru næst dýrustu sjónvarpsþættir sögunnar, enda er engu til sparað við að sviðsetja ævi konungsfjölskyldunnar. Ekki eru þó allir ánægðir með uppátækið, á meðan sum gagnrýna umfjöllun um persónuleg málefni tengd fjölskyldunni segja aðrir að söguleg ónákvæmni á köflum rýri heimildagildi þáttanna. Birta Björnsdóttir segir frá The Crown. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í þrettánda þætti Heimskviðna er fjallað um Suður-Afríku, sem fyrir nokkrum árum var stærsta efnahagsveldi Afríku og fánaberi mannréttinda og lýðræðis. Þessa stöðu hefur landið misst þessa titla vegna óstjórnar og spillingar. Nýjum forseta gengur hægt að komast úr djúpri efnahagslægð og óánægja íbúa með vaxandi ójöfnuð og mikið atvinnuleysi brýst út í mikilli andúð á útlendingum en ofbeldi á djúpar rætur í menningu Suður-Afríku og er arfur frá aðskilnaðarstefnunni. Bjarni Pétur Jónsson ræðir við Sigríði Dúnu Kristsmundsdóttur prófessor í mannfræði. Það er ekki bara í Suður-Afríku sem illa gengur að kveða niður drauga fortíðar. Í síðustu viku lýstu borgaryfirvöld í þýsku borginni Dresden yfir neyðarástandi vegna uppgangs nýnasista-hópa í borginni. Nasista-neyðarásand, var það kallað. Öfgafullar þjóðernishreyfingar, hafa sótt í sig veðrið í Þýskalandi síðustu ár. En hvað veldur því að slík hugmyndafræði virðist njóta vinsælda einmitt í því landi sem ber byrði nasismans og afleiðinga síðari heimsstyrjaldarinnar? Guðmundur Björn Þorbjörnsson fjallar um málið. Þá er mikill þrýstingur er á stjórnvöldum í Japan að breyta lögum um keisarafjölskylduna þannig að keisaraembættið geti erfst bæði til kvenna og karla. Eins og staðan er í dag erfist embættið aðeins í beinan karllegg. Japanska þingið fjallar líklega um málið á næstunni og þá gæti dregið til tíðinda. Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um þetta flókna mál, sem varpað hefur ljósi stöðu kvenna í japönsku samfélagi. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tólfta þætti Heimskviðna er fjallað um Brexit söguna endalausu, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Bretar eru nefnilega ekki enn farnir úr Evrópusambandinu, þó að enn einn fresturinn til þess hafi runnið út í gær. En þyki fólki það taka langan tíma fyrir Breta að komast úr Evrópusambandinu má hafa það í huga að það tók líka þó nokkur ár fyrir þá að komast í sambandið. Það togast nefnilega á í mörgum Bretum viljinn til að tilheyra og hagnast á veru innan Evrópusambandsins og minningin um heimsveldið sem þeir eitt sinn voru. Og nú eru Bretar margir hverjir dauðleiðir á allri umræðu um Brexit, umræðu sem er engu að síður hvergi nærri lokið. Birta Björnsdóttir ræðir við Eirík Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Þóru Helgadóttur Frost, hagfræðing og íbúa í Lundúnum. Þá fjallar Guðmundur Björn um fallinn leiðtoga Íslamska ríkisins, eða ÍSIS, Abu Bakr al-Baghdadi. Hann lést í síðustu viku þegar bandarískir sérsveitarmenn réðust inn á heimili hans í norðurhluta Sýrlands. Samtökin réðu á tíma yfir nær þriðjungi Íraks, en eru ekki svipur hjá sjón í dag miðað við það sem áður var. Langur vegur er þó frá því að samtökin leggi upp laupanna. Rætt er við Gunnar Hrafn Jónsson, sem starfaði um hríð sem fréttamaður á erlendu deild fréttastofu RÚV, um al-Baghdadi, hugmyndafræði samtakanna og rótina að baki þeirri hugmyndafræði sem mótar herskáa íslamista. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í ellefta þætti Heimskviðna er fjallað um nýafstaðnar þingkosningar í Póllandi, þar sem þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Lög og réttur vann stórsigur. Flokkurinn hefur gert umtalsverðar breytingar í landinu frá því hann tók við völdum 2015. Pólland er á hættulegri leið út af braut lýðræðis og frelsis - segja sumir. Pólverjar eiga rétt á því að ákveða sjálfir hvernig þeir vilja haga sínu samfélagi og gera það í frjálsum lýðræðislegum kosningum - segja aðrir. Ólöf Ragnarsdóttir fór til Póllands, fylgdist með kosningunum og ræddi við fólk. Þá er sömuleðis fjallað um stöðuna í Katalóníu, en síðustu viku voru níu katalónskir stjórnmálamenn dæmdir í 9 til 12 ára fangelsi fyrir aðkomu sína að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum þar sem greidd voru atkvæði um sjálfstæði Katalóníu. Sjálfsstæðissinnar höfðu betur og í kjölfarið lýsti Katalónía yfir sjálfstæði. Spænsk stjórnvöld tóku vægast sagt illa í þann gjörning eins og fólk kannski man, og sem fyrr segir féllu þessir hörðu dómar í síðustu viku. Mótmæli hafa færst í aukanna í þessari viku og erfitt er að segja til um hvað gerist. Guðmundur Björn fjallar um málið og ræðir við hinn katalónska Ramon Flavia Piera, sem er búsettur á Patreksfirði. Þá fjallar Birta Björnsdóttir um baráttuna við falsfréttir, og bætur sem bandarískum manni voru dæmdar í síðastliðinni viku. Bæturnar fær maðurinn frá samsæriskenningasmiðum sem halda því fram að dauði sex ára sonar mannsins hafi verið sviðsettur. Að skotárásin sem framin var í Sandy Hook barnaskólanum 2012, þar sem 20 börn voru myrt, hafi í raun aldrei átt sér stað. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í tíunda þætti Heimskviðna er fjallað um stutta, en afdrifaríka innrás Tyrkja inn í Sýrland, nánar tiltekið á landsvæði í norðurhluta landsins hvar Kúrder eru í meirihluta. Svæðið hefur verið undir stjórn Kúrda síðustu misseri, Erdogan Tyrklandsforseta til gremju. Vopnin hafa verið lögð til hliðar, að minnsta kosti um stundarsakir - þar sem samningar náðust um vopnahlé á fimmtudag. En þessi innrás varpar ljósi á stormasamt samband Tyrkja og Kúrda. Augu heimsbyggðarinnar hafa verið á Tyrklandi í vikunni - og verða það líklega áfram, þótt vopnin hafi verið lögð til hliðar um sinn. Kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei er orðið það stærsta í heimi. Þeir ætla að hasla sér völl í þjónustu á 5G farsímaneti - en aðrar þjóðir, einkum Bandaríkjamenn, óttast að kínversk stjórnvöld muni misnota aðstöðu fyrirtækisins til njósna og jafnvel meiri óskunda. Evrópusambandið hefur líka áhyggjur en þó ekki öll Evrópulönd. Hallgrímur Indriðason skoðar þennan mikla vöxt Huawei, áhrifin sem hann hefur, óttann sem hann vekur og mögulegar blikur á lofti í rekstri fyrirtækisins. Margir af stærstu og virtustu fjölmiðlum vesturlanda hafa undanfarið fjallað um deilu milli tveggja eiginkvenna breskra knattspyrnumanna. Um hvað snýst þessi deila? Birta Björnsdóttir segir okkur af hverju miðlarnir að fjalla um það - að tveimur konum út í heimi hafi sinnast. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í níunda þætti Heimskviðna er fjallað um hvernig Bandaríkjaforseti nýtir sér innrás Tyrkja inn í Sýrland til draga athyglina frá vandræðum heima fyrir, þar sem hann á yfir höfði sér ákæru fyrir embættisglöp. Bjarni Pétur Jónsson fjallar um forsetann, en ólíklegt er að heitasta ósk Demókrata, um að koma forsetanum frá völdum, rætist. Svo er það körfuboltinn og pólitíkin. Það fór allt á hvolf í Kína eftir að aðalframkvæmdastjóri NBA liðsins Houston Rockets lýsti yfir stuðningi við mótmælendur í Hong Kong. Yfirlýsing hans hefur dregið dilk á eftir sér og ljóst er að NBA deildin verður af umtalsverðum tekjum vegna þessa. Deilan varpar ljósi á flókið samband íþrótta og kapítalisma. Danir hafa aukið viðveru herafla við Grænland, enda fáir meðvitaðari um mikilvægi Grænlands á Norðurslóðum. Það er viðeigandi umfjöllunarefni nú þegar Arctic Circle þingið stendur sem hæst hér á landi. Bogi Ágústsson ræðir við danska sagnfræðinginn Rasmus Dahlberg. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í áttunda þætti Heimskviðna er fjallað um sjötíu ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína, en árið 1949 komst kommúnistaflokkur Maós formanns til valda. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, og þetta stórveldi - sem gerir sig sífellt meira gildandi á alþjóðavettvangi - er gjörbreytt frá því fyrir 70 árum. Guðmundur Björn ræðir við Magnús Björnsson, forstöðumann Konfúsíusarstofnunarinnar á Íslandi, um fortíð, nútíð og framtíð Kína. Blæðingaskömm er hugtak sem er kannski ekki á allra vörum daglega, en hún getur verið dauðans alvara. Unglingsstúlka í Kenýa fyrirfór sér á dögunum eftir að kennarinn hennar hafði smánað hana fyrir að vera á blæðingum. Og víðar um heim blasir viðlíka smánun mörgum konum um það bil einu sinni í mánuði. Birta Björnsdóttir ræðir við Sigríði Dögg Arnardóttur, kynfræðing. Eitt þúsund beinagrindum, 6750 kvörtunum og 569 vinnuslysum síðar var ný metró leið opnuð með pompi og prakt í Kaupmannahöfn síðastliðna helgi. Framkvæmdirnar eru þær umfangsmestu í borginni í ein 400 ár. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í sjöunda þætti Heimskviðna komumst við að því hvað fór fram á sérstökum fundi Sameinuðu þjóðanna í New York í vikunni, þar sem loftslagsmál voru til umræðu. Ríki heims voru krafin um skýr svör um hvernig þau ætli að sporna við hlýnun jarðar, og uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Greta Thunberg sagði ráðamönnum til syndanna, og vísaði sem fyrr í vísindalegar rannsóknir. Rætt er við Halldór Þorbergsson, formann Loftslagsráðs, og Elínu Björk Jónsdóttur veðurfræðing. Þá halda Heimskviður til Súdan. Forsetanum Omar al-Bashir var steypt af stóli fyrr á þessu ári eftir margra mánaða mótmæli í landinu. Hann er einmitt eftirlýstur af Alþjóðaglæpadómstólunum í Haag fyrir aðild að þjóðarmorði. Ólöf Ragnarsdóttir fjallar um þennan umdeilda forseta og stöðuna í þessu stríðshrjáða landi. Ekki verður komist hjá því að ræða Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Demókratar ætla að hefja formlega rannsókn á því hvort forsetinn hafi gerst brotlegur í starfi þegar hann óskaði eftir því við yfirvöld í Úkraínu myndu rannsaka mál Joe Bidens, sem þykir líklegur til að verða forsetaefni Demókrataflokksins í forsetakosningunum á næsta ári. Við hlýðum á samtal Boga Ágústssonar og Silju Báru Ómarsdóttur, dósents í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um þetta merkilega mál og sýn hennar á hvernig Donald Trump hefur tekist að breyta bandarískum stjórnmálum. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

 • Í sjötta þætti Heimskviðna er fjallað drónaárásir Írana, eða Jemena, það fer eftir því hverjum þið trúið - á olíuvinnslustöðvar í Sádí Arabíu. Málið er sem olía á eld milliríkjadeilu Bandaríkjanna og Írana. Þá fjallar Hallgrímur Indriðason um elda í regnskógum Amazon í Suður-Ameríku - aðallega Brasilíu - sem hafa vakið meiri athygli nú en oft áður. Eldar hafa reyndar brunnið í skógunum árum saman, ýmist af mannavöldum eða af náttúrulegum orsökum. En nú eru áhyggjur manna meiri af áhrifum eldanna á loftslag heimsins. Og svo er það pólitíkin, forseti Brasilíu er harðlega gagnrýndur fyrir að hafa dregið úr aðgerðum stjórnvalda til að vernda skóginn. Svo er það Abbey Road, síðasta platan sem Bítlarnir hljóðritðu allir saman. Samband Bítlanna hafði oft verið betra, og Yoko Ono lá í hjónarúmi inni í hljóðverinu á meðan platan var tekin upp. Ásgeir Tómasson rifjar þessa sögu upp því í næstu viku verða 50 ár liðin frá því Abbey Road kom út. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.