Episodes

  • Morgunblaðið greindi frá því í gær að Samgöngustofa hafi gefið út leyfi til skoska eldflaugafyrirtækisins Skyrora til að skjóta upp einni tilraunaeldflaug frá Íslandi. Eldflauginni verður skotið upp einhvern tímann á næstu dögum eða vikum á Langanesi - en Skyrora hefur lýst því yfir að umrætt tilraunaskot eigi að verða stærsta geimskot frá Evrópu til þessa. Við heyrðum í Birni S. Lárussyni, sveitarstjóra Langanesbyggðar, en málið var rætt á fundi sveitarstjórnar í gær.

    Elísabet Englandsdrottning lést í gær, 96 ára gömul, eftir um 70 ár á valdastóli. Við völdum í Bretlandi tekur sonur hennar, prinsinn af Wales, Karl konungur þriðji. Við ræddum við Önnu Lilju Þórisdóttur, fréttakonu, um þennan merka þjóðhöfðingja, áhrif andlátsins á breskt samfélag og það sem tekur nú við.

    Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi benti á nýja skýrslu um Reykjanesið á Facebook síðu sinni í gær og dró þær ályktanir að því að þrátt fyrir allt þá væri fyrirhugað flugvallarstæði í Hvassahrauni það öruggasta á svæðinu, með tilliti til eldsumbrota. Hjálmar ræddi flugvallarmálin við okkur í dag.

    Fréttir vikunnar verða ansi litaðar af drottningum, bæði innlendum og erlendum, og því fengum við til okkar tvær fræknar blaðakonur af Fréttablaðinu, þær Nínu Richter og Ingunni Láru Kristjánsdóttur.

    Líf og starf Árna Arnþórssonar breyttist á einni nóttu fyrir rúmu ári síðan þegar Talibanar tóku yfir Afghanistan á undravert skömmum tíma. Þá var Árni aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl en hafa þurfti hraðar hendur við yfirtöku talíbana, eyða gögnum, reyna eftir fremsta megni að bjarga nemendum úr landi og halda skólastarfinu áfram með allt öðrum hætti. Árni var gestur okkar.

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tók í gær á móti Politician of the Year 2022 verðlaunum á One Young World ráðstefnunni sem fer fram í Manchester á Englandi - en ráðstefnan leiðir saman yfir tvö þúsund manns víðs vegar að úr heiminum sem öll eiga það sameiginlegt að vera leiðtogar á sínu sviði.

    Borgarfulltrúinn Hildur Björnsdóttir lét hafa eftir sér á dögunum að innviðir Reykjavíkurborgar væru að springa og skemmast þegar kaldavatnslögn í Hvassaleiti fór í sundur á samskeytunum svo gríðarlegur vatnselgur varð á svæðinu. Í gær var svo heitavatnslaust í Vesturbæ, Miðbæ og Hlíðum en miklar framkvæmdir hjá Veitum hafa einkennt svæðið undanfarna daga. Við fengum til okkar Sólrúnu Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Veitna til að svara því hvort þetta sé rétt - þ.e., eru innviðir borgarinnar að springa og ef svo er, hvað er þá hægt að gera í því?

    Til stendur að þrjátíu Úkraínskir flóttamenn fái inni á Eiðum, gamla kjarnanum í kringum skólabygginguna um 10 kílómetra frá Egilsstöðum - en von er á fólkinu á næstu dögum. Við heyrðum í Birni Ingimarssyni sveitarstjóra Múlaþings, sem stendur að komu flóttafólksins, og spurðum meðal annars um innviði á Eiðum og framtíðarhorfur fólksins á svæðinu.

    Sveitarfélögin hringinn í kringum landið þurfa að undirbúa sig undir loftslagsbreytingar - en búast má við því að hlýnun jarðar geti haft afar ólík, en hamfarakennd áhrif vítt og breytt um landið - allt frá aurskriðum til flóða og svo framvegis. Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands kom til okkar.

    Við ræddum við Höllu Ingólfsdóttur í Grímsey um skjálftana í nótt.

    Það hefur verið nokkuð líflegt í Kauphöllinni síðustu daga en í gær hækkaði úrvalsvísitalan um meira en eitt prósent, annan daginn í röð. Við ræddum við Snorra Jakobsson, hagfræðing hjá Jakobsson Capital, um horfur á mörkuðum hér heima og erlendis.

    Í gær var greint frá því að borgaryfirvöld í Haarlem í Hollandi hafa ákveðið að banna kjötauglýsingar á auglýsingaskiltum í eigu borgarinnar. Frá og með árinu 2024 má ekki auglýsa kjöt á strætisvögnum, biðskýlum og upplýsingaskjám sem borgin heldur úti. Bannið er sett af umhverfisástæðum en Græningjar eru í meirihluta í borgarstjórn Haarlem og talsmaður flokksins segir ekki forsvaranlegt að nýta borgarrými til að auglýsa vöru sem hefur neikvæð umhverfisáhrif. Við ætlum að ræða bannið við Valgerði Árnadóttur, formann Samtaka grænkera á Íslandi, og spyrja hvort að þau telji æskilegt að stjórnvöld hér ráðist í sambærilegar aðgerðir.

  • Missing episodes?

    Click here to refresh the feed.

  • Björn Þorfinnsson alþjóðlegur skákmeistari spjallar við okkur um skandalinn sem skekur skákheiminn en Magnus Carlsen heimsmeistari hefur gefið í skyn að mótherji hans hafi svindlað í móti í Bandaríkjunum.

    Laufey nærþjónusta er teymi í þróun á Landspítalanum sem ætlað er að þjónusta fólk með alvarlegan geð- og fíknivanda á vettvangi. Við ræddum við Birnu Óskarsdóttur, hjúkrunarfræðing og teymisstjóra, og Sunnu Siggeirsdóttur, verkefnastýru Laufeyjar, um þessa þjónustu og helstu verkefni.

    Íbúðaverð á Akureyri er í hæstu hæðum og nálgast nú fermetraverðið í Hafnarfirði - en húsnæðisverð fyrir norðan hefur hækkað meira en víða annarsstaðar á þessu ári. Hluti af sökinni er rakinn til þess að fólk sem ekki er búsett í bænum eigi fjölda eigna þar og því sé eftirspurn eftir húsnæði mun meiri en íbúafjöldinn segi til um. Við heyrðum í Ásthildi Sturludóttur bæjarstýru um ástandið.

    Í gær tókum við viðtal við Sigrúnu Sævarsdóttur Griffith, sem búsett er í Bretlandi, og hún sagði okkur upp og ofan af viðbrögðum Breta við nýjum forsætisráðherra Liz Truss en einnig því hversu mikil ólga sé almennt í samfélaginu eftir erfið Covid ár og áhrif Brexit sem nú eru að fullu að koma fram. Það er með öðrum orðum hart í ári og fólk er víst búið að fá sig fullsatt. Við spáðum í spilin með þeim Jóni Bjarka Bentssyni aðalhagfræðingi Íslandsbanka og Eiríki Bergmann stjórnmálafræðiprófessor og skoðuðum hvaða áhrif það kynni að hafa hér á landi ef allt fer á versta veg í Bretlandi.

    Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, skrifaði í gær grein um evrusvæðið, sem að hans mati hefur ekki fengið mikla umræðu undanfarið. Hann segir að evrusvæðið sé í alvarlegri skuldakreppu og ljóst að endurhugsa þurfi reglurnar um bæði hámarks halla á ríkissjóði og hámarks skuldir hins opinbera. Það komi að skuldadögum og aðgerðum sem verða ekki auðveldar. Við ræddum við Hilmar um stöðu evruna, skuldir og aðgerðir á evrusvæðinu.

    Upphæðirnar sem ensk knattspyrnufélög settu í að kaupa nokkra tugi leikmanna í sumar slá öll fyrri met - en heildareyðsla félaganna í úrvalsdeildinni var til að mynda meiri en árleg útgjöld íslenska ríkisins til heilbrigðismála. Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, fjallaði á dögunum um félagaskiptagluggann í enska boltanum og setti hann í efnahagslegt samhengi - við ræddum við Arnar í lok þáttar.

  • Heimsóknum á heilsugæsluna hefur fjölgað um 40% frá 2019 svo nú hefur Heilsugæslan blásið til herferðar til að auka heilsulæsi - já og hvetja fólk til að leita ekki til læknis þegar það er með umgangspestir sem ekkert bítur á nema ónæmiskerfið okkar og tíminn. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði okkur frá átakinu sem hefur fengið nafnið Heima er Pest.

    Tilkynningum peninvgaþvætti hér á landi hefur fjölgað mikið síðustu ár. Seðlabanki Íslands stóð í gær fyrir ráðstefnu um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka - og við ræddum þau mál við Unni Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra, sem segir hagkerfinu stafa ógn af slíkum glæpum.

    Lögreglan sektaði um helgina nokkra ökumenn sem tóku myndbönd af slysavettvangi - með þeim rökum að þeir hefðu notað símann undir stýri. Við veltum því fyrir okkur hvort myndbönd af slysavettvangi og slagsmálum hafi færst í aukana og hvort ekki sé nein lagastoð til að vernda friðhelgi fólks sem lendi í slíku. Til okkar kom Vigdís Eva Líndal sviðsstjóri hjá Persónuvernd.

    Alþingi á að koma saman eftir viku en mögulega verður þing kallað saman fyrr ef skýrsla ríkisendurskoðunar um umdeilda sölu ríkisins á hluta sínum í Íslandsbanka berst fyrir þingsetninguna 13. september. Fram kom á Vísi í gær að skýrslan sé væntanleg innan tíðar. Við ræddum þingveturinn framundan, stöðu flokkanna og líkleg deilumál við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

    Liz Truss verður skipuð forsætisráðherra Bretlands í dag eftir að hafa sigrað formannskjör í Íhaldsflokknum í gær. Það er fátt vitað um það hvernig Truss ætlar að gera til að rétta úr kútnum hjá landinu - en eitt er vitað, og það er að Margaret Thatcher er átrúnaðargoð hennar. Hvað svo sem það kemur til með að þýða. Við hringdum út til Bretlands og spjöllum við Sigrúnu Sævarsdóttur Griffith um kaffistofuumræðu Breta um hinn nýja forsætisráðherra.

    Og í lok þáttar kom Sævar Helgi Bragason til okkar og ræðir heim vísindanna - eins og alltaf annan hvern þriðjudag.

  • Samband sveitarfélaga á Austurlandi vonast til að lært verði af biturri reynslu ef haldið verður áfram í haust með hugmyndir um sameiningu sýslumannsembættanna. Í umsögn sambandsins um drög dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um sýslumenn kemur fram að síðustu breytingar hafi verið illa undirbúnar og vanfjármagnaðar. Við ræddum við Einar Má Sigurðarson, formann Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, um fyrirhugaðar breytingar á sýslumannsembættunum.

    Greint var frá því í gær að sextíu og fimm milljörðum evra verði varið í stuðningsaðgerðir til handa þýskum almenningi og fyrirtækjum, vegna hækkandi orkuverðs og verðbólgu. Eftirlaunaþegar og námsfólk fá eingreiðslu til að geta borgað orkureikninga, almenningssamgöngur verða niðurgreiddar og fyrirtæki fá ýmis konar aðstoð. Þá hafa verið kynntar nýjar reglur sem eiga að draga úr orkunotkun fyrirtækja og einstaklinga: til að mynda mega skrifstofurými nú ekki vera heitari en 19 gráður og bygginar og útilistaverk sem áður voru upplýst - verða það ekki áfram á meðan orkuskortur er í landinu. Við ræddum við Önnu Þorbjörgu Jónasdóttur, fréttakonu, sem nú er búsett í Berlín.

    Gunnar Smári Egilsson félagi í Sósíalistaflokki Íslands greindi frá því um helgina að að honum hefði verið veist fyrir pólitíska þátttöku sína á förnum vegi en eins að rúður hefðu verið brotnar í húsnæði flokksins. Hann var gestur okkar til að ræða þessi atvik betur.

    Í dag tekur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til umræðu skipan embættismanna án auglýsingar en nokkur tilvik hafa komið upp að undanförnu þar sem embættismenn eru skipaðir eða færðir til í starfi án þess að hefðbundið umsóknarferli eigi sér stað. Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar og þinggkona Samfylkingarinnar, og Halla Signý Kristjánsdóttir þingkona Framsóknarflokksins, sem einnig á sæti í nefndinni, voru gestir okkar.

    Við ræðum við Árna Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, sem var um helgina viðstaddur útför Mikhaíls Gorbatsjovs, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Útför Gorbatsjovs var ekki ríkisútför og því var Vladimír Pútín Rússlandsforseti ekki viðstaddur, ekki frekar en leiðtogar vestrænna ríkja þó að frátöldum Viktori Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands. Við ræddum við Árna um Gorbatsjov og stöðuna í Rússlandi.

    Já og við förum yfir íþróttirnar, eins og alltaf á mánudögum, með Þorkeli Gunnari Sigurbjörnssyni í lok þáttar.

  • Málefni MAST eru enn einu sinni í deiglunni vegna hrossa í Borgarfirðinum sem virðist alvarlega vanrækt og svelt - en íbúar á svæðinu hafa ítrekað biðlað til MAST að grípa til aðgerða vegna aðbúnaðar dýranna. Við heyrðum í Sveini Steinarssyni, formanni Félags Hrossabænda.

    Fossvogskirkjugarður er níræður um þessar mundir en hann hefur verið uppseldur í fjörutíu ár og á sér merkan stað í Íslandssögunni. Stefán Pálsson sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi stendur fyrir sögugöngu um garðinn en hann gaf okkur forskot á sæluna hér í upphafi þáttar og fara yfir sögu lifenda og dauðra.

    Kvennalandsliðið okkar í knattspyrnu mætir Hvíta-Rússlandi í dag klukkan hálf sex í afar mikilvægum leik í undankeppni HM 2023. Við heyrðum í landsliðskonunni Sif Atladóttur um undirbúninginn og leikinn í kvöld.

    Fréttablaðið fjallaði í gær um að sælgæti í Fríhöfninni væri í mörgum tilvikum mun dýrara en í lágvöruverðsverslunum höfuðborgarsvæðisins. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við blaðið álagningu hins opinbera gífurlega og algerlega út úr korti fyrir verslun sem ekki þarf að standa skil á virðisaukaskatti. Við ræddum þessi mál við Þorgerði Kristínu Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar.

    Eftir átta fréttir fórum við yfir fréttir vikunnar - eins og alltaf á föstudögum. Atli Bollason og Margrét Erla Maack komu til okkar.

    UN Women fara af stað í dag með nýja Fokk Ofbeldi herferð - en að þessu sinni er safnað fyrir málefni sem hefur verið mikið í deiglunni undanfarið, þ.e. málefni hinseginfólks. Við fengum til okkar Stellu Samúelsdóttur framkvæmdastýru UN Women.

    Stöð 2 hóf í sumar leit að nýrri íslenskri Idol-stjörnu. Áheyrnarprufur hafa farið út um allt land en þættirnir sjálfir verða á dagskrá Stöðvar 2 í vetur. Við ræddum við Birgittu Haukdal, sem er einn af Idol-dómurunum.

  • Nokkur hópur stórhuga fólks á Djúpavogi hefur tekið sig saman og skorað á bæjaryfirvöld að koma upp ylströnd við Búlandshöfn en fyrir áratug síðan fannst heitt vatn á svæðinu sem nú er leitt í ker sem hafa orðið vinsæl hjá ferðafólki. Eiður Ragnarsson fulltrúi fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi var á línunni.

    Ný rannsókn við Háskóla Íslands sýnir að almennt upplifi feður sem hitti börn sín lítið, þ.e. minna en aðra hverja helgi, mikla sorg en jafnframt að þeir hafi almennt átt sögu um ágreining við móður eða stjórnsýsluna. Nína Eck, nemi við Félagsráðgjafadeild HÍ, vann rannsóknina og kom til okkar.

    Nýjar tölur frá Landlæknisembættinu sýna að notkun ADHD lyfja jókst um heil 20% á milli áranna 2020 og 2021 - í miðjum heimsfaraldri. Rúm 16 prósent drengja á aldrinum 10-14 ára eru á þessum tegundum lyfja en þó má merkja aukna notkun kvenna á lyfinu undanfarin ár. Við ræddum þessa aukningu og almennt um notkun geðlyfja við Héðinn Unnsteinsson formann Geðhjálpar.

    Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, telur að leigubremsa á húsnæðismarkaði sé bæði raunhæf og skynsamleg. Við ræddum leiguþak, leigubremsu og aðgerðir á leigumarkaði við Kristján og Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs Íslands, sem segir leiguþak feita pælingu sem gengur ekki upp - leiguþak Berlínarbúa hafi til að mynda verið lestarslys í beinni útsendingu.

    Í gær var greint frá því að bandaríska dómsmálaráðuneytið telji líklegt að leyniskjöl hafi verið falin á heimili Donalds Trump, fyrrverandi forseta, í Flórída. Það hafi verið gert til þess að hindra rannsókn alríkislögreglunnar. Þá var samfélagsmiðlinn Trumps, Truth Social, fjarlægður af forritinu Google Play. Mikið hefur verið fjallað um sundrungu í bandarískum stjórnmálum og samfélagi undanfarið en samkvæmt niðurstöður nýrrar könnunar búast 40 prósent íbúa Bandaríkjanna við einhvers konar borgarastríði á næstu árum. Við ræddum við Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði, um stöðuna í Bandaríkjunum.

    Tæplega tveggja ára barn lést og tugir slösuðust í Katalóníu á Spáni í gær þegar mikið haglél féll þar. Höglin voru stór og þungt - þau stærstu um tíu sentímetrar að þvermáli - og rafmagnslínur, þök og rúður eyðilögðust. Við ræddum við Elínu Björk Jónasdóttur, veðurfræðing, um þetta veðurfyrirbæri.

  • Skyndilegur missir ástvina getur haft mikil og langvarandi áhrif á þau sem eftir standa en rætt verður um sorgarviðbrögð og óvæntan missi á ráðstefnu sem fer fram í dag í húsakynnum íslenskrar erfðagreiningar. Þau komu til að segja okkur frá viðfangsefnum sorgarinnar, Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir fagstjóri hjá Sorgarmiðstöðinni og Freyr Eyjólfsson fjölmiðlamaður sem verður fundarstjóri á ráðstefnunni.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu um að gripið verði til aðgerða til að koma böndum á máva í borginni. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem fór fyrir tillögunni, sagði í kvöldfréttum að mávurinn hafi slæm áhrif á dýralífið í miðborginni - en það eru ekki öll sammála um hvernig eigi að nálgast þetta mál. Við ræddum við Kjartan og Alexöndru Briem, sem fer fyrir skipulags- og samgönguráði borginnar.

    Stjórn Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri ákvað á dögunum að frysta leiguverð á stúdentaíbúðum og herbergjum og koma þannig til móts við stúdenta. Félagsstofnun Stúdenta við Háskóla Íslands ætlar hins vegar ekki að frysta leiguverðið. Við ræddum við Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra FS, um þá ákvörðun.

    Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra var gestur okkar upp úr klukkan átta í dag til að svara fyrir þær ráðningar og skipanir sem hún hefur ráðist í að undanförnu og sæta nú mikilli gagnrýni.

    Nokkuð hefur verið rætt um áhrif þeirra efnahags- og viðskiptaþvingana sem beinast að Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu síðustu vikur. Verðbólga í Rússlandi hefur hjaðnað undanfarna mánuði og gengu rússnesku rúblunnar styrktist verulega í sumar - sem er þó vitaskuld bæði gott og slæmt. Sömuleiðis virðast hinar svokölluðu BRICS-þjóðir, Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka ætla að standa nokkuð þétt saman efnahagslega séð. Við ræddum efnahagsmálin við Daða Má Kristófersson, prófessor í hagfræði.

    Nýjustu rannsóknir á hopun Grænlandsjökuls bæta gráu ofan á svart við þá sviðsmynd sem áður var talið að rætast myndi úr. Nú segja vísindamenn að bráðnun jökulsins muni óhjákvæmilega hækka sjávarmál um 30 sentimetra - að öllum líkindum fyrir næstu aldamót. Við ræddum þessa spá við Andra Gunnarsson formann jöklarannsóknafélags Íslands.

  • Morgunblaðið fjallaði í gær um hugmyndir um að styrkja Alexandersvöll á Sauðárkróki svo hann geti verið til vara fyrir millilandaflugið. Nokkuð hefur verið rætt um að eldgos á Reykjanesskaga sethi hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni í uppnám. Við ræddum við Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra í Skagafirði, um kosti og galla Alexandersvallar.

    Um hálf átta ræddum við við Gylfa Magnússon, prófessor í viðskiptafræði, um kosti og galla vegtolla og aðrar leiðir til að fjármagna rekstur vegakerfisins, en hann fjallar um málið í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Í grein sinni segir hann meðal annars að líklega væri hægt að eyða flestum umferðarhnútum á höfuðborgarsvæðinu með skynsamlegri verðlagningu. Hún gæti bæði fært umferð einka­bíla til í tíma og rúmi og búið til eðli­lega hvata til að nota aðrar sam­göngu­leiðir þar sem það er sam­fé­lags­lega hag­kvæmt.

    Í gær ræddum við hvernig skólar og vinnustaðir eða önnur lítil samfélög geta brugðist við þegar kynferðisbrot kemur upp innan hópsins - en málefni fjölbrautarskólans á suðurlandi hafa verið mikið í deiglunni frá því um helgina. Þar kom fram að mikilvægt væri að stofnanir hefðu skýra aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi, ekki plagg sem er allt loðið varðandi orðalagið, heldur skýra áætlun og verkferla sem virkuðu. Við ræddum þetta enn frekar í dag við þær Eygló Harðardóttur verkefnastjóra aðgerða gegn ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra og Benediktu Sörensen skólastjóra Ofbeldisforvarnaskólans.

    Flokksráð Vinstri grænna setti veiðigjöldin aftur á dagskrá um nýliðna helgi en flokksfólk í VG vill hækka veiðigjöldin. Þetta sætir ákveðnum tíðindum í núverandi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar - og setur eflaust aukinn þrýsting á Svandísi Svavarsdóttur sem er ráðherra málaflokksins um þessar mundir. Við fengum til okkar tvær þingkonur úr atvinnuveganefnd Alþingis til að ræða veiðigjöldin; þær Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þingkonu VG og Hönnu Katrínu Friðriksson frá Viðreisn.

    Bestu köldu pottar höfuðborgarsvæðisins voru afhjúpaðir í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudaginn, eftir að niðurstöður lágu fyrir í óformlegri könnun fréttastofunnar. Kristín Ólafsdóttir, fréttakona og sundspekingur, heimsótti besta - og versta - kalda pottinn en hún hafði áður kortlagt heitustu heitu pottana. Við ræddum niðurstöðurnar við Kristínu og áhrif þeirra köldu á líkamlega og andlega heilsu.

    Guðmundur Jóhannsson, tæknispekúlant, kom til okkar í lok þáttar, eins og alltaf annan hvern þriðjudag og ræddi heim tækninnar.

  • Það gekk illa að reka strætó frá flugvellinum á Akureyri í sumar svo fyrirtækið sem að því stóð, Sýsli - ferða- og ökukennsla, hefur ákveðið að hætta öllum slíkum tilraunum fram á næsta ár að minnsta kosti. Við heyrðum í eigandanum Jónasi Þór Karlssyni hér í upphafi þáttar.

    Auglýsingar sænska matvörufyrirtækisins Oatly, sem framleiðir ýmis konar hafravörur, voru gagnrýndar harðlega í síðustu viku fyrir að vera á ensku. Nokkur þeirra sem gagnrýndu fyrirtækið sögðu auglýsinguna ólöglega - auglýsingar sem höfða eigi til íslenskra neytenda eigi að vera á íslensku. Við ræddum við Önnu Kristínu Kristjánsdóttur, formann Sambands íslenskra auglýsingastofa.

    Formaður BHM sagði um helgina að ráðningar hátt settra embættismanna án auglýsingar geti grafið undan trausti til stjórnsýslunnar - og formaður skipulags- og eftirlitsnefndar sagði að nefndin taki að öllum líkindum slíkar ráðningar fyrir á fundi sínum. Þrír af fjórum ráðuneytisstjórum sem skipaðir hafa verið á þessu ári voru fluttir til í starfi úr öðrum embættum og sömu sögu er að segja um stöðu þjóðminjavarðar, sem skipað hefur verið í án auglýsingar. Við ræddum við Anitu Elefsen, formann félags íslenskra safna og safnamanna.

    Um helgina hafa málefni Fjölbrautarskólans á Suðurlandi verið í deiglunni eftir tilkynningu skólameistarans, Olgu Lísu Garðarsdóttur, þess efnis að kynferðisbrot hefði átt sér stað innan veggja skólans en báðir aðilar ættu þó rétt á að mæta áfram í skólann þar til dómur félli í málinu og það myndi reynast báðum aðilum þungt. Skólanefnd FSU hefur sömuleiðis gefið út yfirlýsingu þess efnis að stjórnendum og nefndinni hafi þarna fatast flugið og hafa viðurkennt mistök í málinu en nýjustu vendingar í því eru að drengurinn sem grunaður er um kynferðisbrotið komi ekki til með að mæta að minnsta kosti enn um sinn. Svona mál eru flókin, kynferðisbrot í litlum samfélögum á borð við skólastofnanir eða vinnustaði, og okkur leikur hugur á að vita hvernig hægt sé að taka ákvarðanir í þeim án þess að skerða mannréttindi eða valda óþarfa sársauka. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta var gestur okkar um átta.

    Greint var frá því á dögunum að vinnustaðaeftirlit ASÍ hafi það sem af er þessum mánuði sent mansalsteymi lögreglu þrjár tilkynningar um meint brot á kjarasamningum. Slíkum brotum hafi fjölgað samhliða auknum umsvifum í atvinnulífinu eftir faraldurinn. Við ræddum við Sögu Kjartansdóttur, verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits hjá ASÍ, um stöðu þessara mála, launaþjófnað og mansal.

    Við fórum síðan yfir íþróttir helgarinnar í lok þáttar.

  • Bændablaðið fjallaði um það í gær að skæður dýrbítur hafi drepið að minnsta kosti fjögur lömb í Kelduhverfi í sumar en að sögn heimamanna hefur talsvert sést af tófu við byggð - greinilega í ætisleit - og heyrst hefur af fleiri dýrbítum víðar um land undanfarna daga. Við ræddum við Ólaf Jónsson, bónda á Fjöllum í Kelduhverfi.

    Þjóðleikhúsið er um þessar mundir að kynna nýtt leikár sem fer að hefjast hvað úr hverju. Við fengum Þjóðleikhússtjórann, Magnús Geir Þórðarson, til okkar að segja okkur frá hápunktum ársins sem framundan er.

    Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra var gestur okkar í dag. Við ræddum fyrirhugaða þungaflutninga fyrirtækisins EP Power Minerals um Suðurland - en fyrirtækið hyggst vinna vikur úr Hafursey á Mýrdalssandi og keyra með efnið alla leið til Þorlákshafnar á fimmtán mínútna fresti, allan sólarhringinn næstu eitthundrað árin. Forstjóri Vegagerðarinnar var hjá okkur í síðustu viku og ræddi meðal annars álagið sem þessu myndi fylgja á íslenska vegakerfið en þungaflutningar myndu aukast um 30 prósent á svæðinu og áætlað er að hver vörubíll af þessari stærðargráðu spæni upp malbik eins og tíu þúsund smábílar. Þessar áætlanir hafa mætt mikilli mótstöðu í kjördæmi Sigurðar Inga og því full ástæða til að heyra hvað hann hefur að segja um málið.

    Eins og venja er á föstudögum rennum við yfir fréttir vikunnar með góðu fólki. Að þessu sinni komu til okkar Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður.

    Verðbólga er í um tíu prósentum og vöruverð hefur hækkað talsvert síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir sex mánuðum síðan. Krónan tilkynnti í fyrradag að hún hygðist frysta verð á 240 vörutegundum en framkvæmdastjóri Hagkaupa, sagði í gær Haga, sem á Hagkaup og Bónus, vera í þröngri stöðu þar sem félagið væri skilgreint sem markaðsráðandi - og framkvæmdastjóri Bónuss, sagðist ekki telja það ábyrgt að frysta vöruverð fyrirtækisins. Við ræddum við Láru Jóhannsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, um neytendahegðun og samfélagábyrgð fyrirtækja í dýrtíð sem þessari.

    Björn Steinbekk drónatökumaður og tónleikahaldari skrifaði grein á Vísi í gær þar sem hann fór yfir atburðarrás sem átti sér stað eftir að hann var þjófkenndur í hlaðvarpsþætti sem fjallar um knattspyrnu. Rúm sex ár eru síðan Björn komst í fréttirnar vegna miðasölumálsins á EM karla í knattspyrnu, mál þar sem Björn segist sjálfur hafa brugðist, en varla líður sá dagur að hann sé ekki minntur á málið sem hann segir að muni marka líf hans það sem eftir er.

  • Fyrsta hundahlaup UMFÍ fer fram í dag, en um er að ræða íþróttaviðburð þar sem hundar og þeirra fólk sameinast í heilnæmri útivist og hreyfingu í fögru umhverfi. Kolbrún Arna Sigurðardóttir dýrahjúkrunarfræðingur og -sjúkraþjálfari er ein þeirra sem að viðburðinum koma og Hulda Geirsdóttir heimsótti hana og hundana hennar og fékk að vita meira um hlaupið og hundadelluna.

    Eins og við fjölluðum aðeins um í gær hafa miklir hitar nær algerlega þurrkað upp fljót í þjóðgarði, sem kenndur er við risaeðlur, í Texas í Bandaríkjunum - og þurrkurinn hefur leitt í ljós fótspor eftir risaeðlur sem sérfræðingar telja hið minnsta 113 milljón ára gömul. Við ræddum þennan merkilega fund og áhrif hitabylgna og loftslagsbreytinga á fornleifauppgröft - bæði hér á landi og erlendis.

    Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sendi stjórnvöldum yfirlýsingu í gær þess efnis að bærinn vildi ekki taka við fleiri flóttamönnum eða hælisleitendum nema fjármagn fylgdi til uppbyggingar á innviðum bæjarins, svo sem menntastofnunum - en bæjarstjórnin gagnrýnir Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun harðlega í yfirlýsingunni og segir meðal annars að ríkið hafi tekið á leigu húsnæði í bænum fyrir 500 hælisleitendur án þess að gera ráð fyrir því hvort innviðir Reykjanesbæjar þyldu aukið álag. Við ræddum þessa yfirlýsingu betur við Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur forseta bæjarstjórnar.

    Staða flugvallarins í Vatnsmýri hefur enn einu sinni komist í umræðuna og nú síðast vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga - en mörgum þykir að þá sé úti um þær hugmyndir að færa flugvöllinn Við ræddum við Guðmund Kristján Jónsson borgarskipulagsfræðing og Lilju Karlsdóttur samgönguverkfræðing .

    Umræða hófst á samfélagsmiðlum í fyrradag um hlutverk og vinnubrögð fjölmiðla í tengslum við skotárásina á Blönduósi fyrr í vikunni. Við fengum til okkar Kolbein Tuma Daðason fréttastjóra Vísis.

    Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á vettvang mótmæla Sambands ungra Sjálfstæðismanna fyrir utan rússneska sendiráðið á þriðjudagskvöld. Sjálfstæðismenn mættu með bláar og gular máningarfötur - og höfðu í hyggju að mála úkraínska fánann á stétt fyrir utan sendiráðið - en það tókst ekki - og á myndbandi heyrist í lögreglumanni kalla mótmælin kjánaleg. Viðræddum við Lísbet Sigurðardóttur og Steinar Inga Kolbeins, formann og varaformann Sambands ungra sjálfstæðismanna.

  • Niðurstaða umhverfismatsskýrslu vegna landeldis á laxi í kvíum við Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum, sem kynnt var á dögunum, er að framkvæmdin hafi óveruleg umhverfisáhrif. Gert er ráð fyrir að framleiða þar um 11.500 tonn af laxi á ári þegar stöðin verður komin í fulla framleiðslu. Við ræddum stöðu verkefnisins við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, í upphafi þáttar.

    Fjöldi kvenna býr við skert lífsgæði vegna vandamála frá grindarbotni og vandamál eins og þvagleki eru algeng, en líka feimnismál og því lítið rædd. Margar trúa því að þær verði að lifa með vandamálinu út ævina, en við ætlum að forvitnast um möguleika á þjálfun þessara vöðva. Hulda ræddi þau mál við Maríu Barböru Árnadóttur sjúkraþjálfara á Landspítalanum.

    Það hefur ansi margt breyst um og eftir faraldur þegar kemur að vinnumarkaðnum. Við höfum þúsund sinnum heyrt að aukinn sveigjanleiki varðandi bæði vinnutíma og staðsetningu sé framtíðin og jafnvel eitthvað sem fyrirtæki geti gert til að laða að sér starfsfólk - en sitja allir við sama borð þegar kemur að þessum sveigjanleika? Í úttekt BBC frá því í gær kemur fram að ungt fólk sé mun frekar hlekkjað við skrifborðið en þeir sem eldri eru á vinnustöðum. Við fengum til okkar þær Sonju Þorbergsdóttur formann BSRB og Alexöndru Ýr van Erven forseta Landssambands íslenskra stúdenta.

    Það fór ekki mikið fyrir henni, fréttinni í Fréttablaðinu í gær sem greindi frá því að hópur rússneskra netglæpamanna, sem svíki fé úr fólki, hylji slóð sína í gegnum íslenska fyrirtækið Witheld for Privacy ehf. en heimili þess er skráð á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Þetta vekur upp spurningar um viðskipti við rússneska hópa en strangar viðskiptaþvinganir eru ríkjandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þetta er ekki eina dæmið um að netglæpamenn tengi síður sínar íslenskum lénum en spurningin er, hvort ekki sé hægt að koma böndum á þetta með neinum hætti? Við ræddum málið við Anton Egilsson aðstoðarforstjóra Syndis netöryggisfyrirtækis.

    Margar spurningar hafa vaknað um réttlæti íslenska skattkerfisins í kjölfar útgáfu Tekjublaðsins, þar sem birtar voru upplýsingar um útsvarsskyldar tekjur um fjögur þúsund Íslendinga á síðasta ári. Í gær birtist til að mynda skoðanagrein á Vísi þar sem fjallað var um að Guðmundur Kristjánsson í Brim hafi borgað hlutfallslega minna í skatt en fólk með meðaltekjur. Við ræddum ójöfnuð þegar kemur að skattbyrði við Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði.

  • Makrílveiðar standa nú sem hæst - já eða kannski öllu heldur leitin að makríl, sama hvernig hún svo gengur - og við heyrðum í mönnunum á miðunum hér í upphafi þáttar. Smári Einarsson var á línunni.

    Kjarninn greindi frá því í gær að á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því að kærunefnd útlendingamála felldi út gildi niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli einstaklings frá Venesúela hafi um 100 manns frá Venesúela verið veitt viðbótarvernd - og rúmlega 300 mál bíða enn afgreiðslu. Ekkert lát er á þeirri neyð sem ríkir í Venesúela - en við ræddum stöðuna þar við Walesko Giraldo Þorsteinsson, sem búsett er hér á landi.

    Í gær var greint frá því að Landlæknisembættið hefði kært fyrirtækið Köru connect, og nokkur önnur fyrirtæki sem bjóða stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu - til að fá hnekkt úrskurði kærunefndar útboðsmála sem í febrúar komst að þeirri niðurstöðu að Landlækni bæri að greiða sekt fyrir að kaupa slíka þjónustu dýrum dómum án útboðs. Þó málið sé ansi tæknilegs eðlis þá getur slík kæra verið erfið fyrir lítil fyrirtæki á borð við Köru connect en við ræddum stöðu þess fyrirtækis við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

    Í gær greindu stjórnendur frönsku verslunarkeðjunnar Carrefour frá því að fyrirtækið ætli að frysta vöruverð á um hundrað vörum til að bregðast við verðbólgu í landinu, sem mælist nú 6,8 prósent, og hefur sjaldan verið hærri. Ríkisstjórn Emmanuel Macrons, Frakklandsforseta, hafði þrýst á frönsk stórfyrirtæki að grípa til slíkra aðgerða, og við ræddum við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, um hvort æskilegt sé að íslensk fyrirtæki fylgi í fótspor frönsku verslunarkeðjunnar - og ábyrgð fyrirtækja í dýrtíð sem þessari.

    Rússneska leyniþjónustan heldur því fram að Úkraínuher beri ábyrgð á dauða Dariu Dugin, dóttur samverkamanns Vladimirs Putin Rússlandsforseta, Alexandr Dugin. Við ræddum við Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, um hugmyndafræði Dugins, sem hefur haft mikil áhrif á Rússlandsforseta og stöðu stríðsins í Úkraínu.

    Og í lok þáttar kom Sævar Helgi Bragason til okkar og ræddi heim vísindanna, eins og alltaf annan hvern þriðjudag.

  • Það er skortur á hjúkrunarfræðingum hér á landi eins og allir vita - nú síðast í síðustu viku bárust þær fréttir af landspítalanum að hann væri komin á heljarþröm og álagið óviðunandi - en hjúkrunarfræði Háskóla Íslands var að skora afskaplega hátt á viðurkenndum lista yfir bestu háskólanám í heimi - nánar tiltekið í 101 sæti af yfir 5000 skólum. Helga Bragadóttir prófessor og deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar sagði okkur betur frá þessum árangri.

    Heimsbyggðin er illa undirbúin fyrir hamfaragos samkvæmt nýrri grein í vís­inda­tíma­rit­inu Nat­ure. Þar kemur fram að skortur sé á rannsóknum, samhentum aðgerðum og fjármagi til að bregðast við slíku gosi sem gæti raskað öllum fram­leiðslu­keðjum alþjóða­hag­kerf­is­ins veru­lega, haft gríð­ar­leg áhrif á lofts­lag og ógnað fæðu­ör­yggi. Við ræddum hamfaragos við Þorvald Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.

    Tvö létust og einn er lífshættulega særður eftir skotárás á Blönduósi snemma í gærmorgun. Forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, ávarpaði fjölmiðla í gær og sagði að íbúar séu harmi slegnir og enn vera að vinna úr því að þetta hafi raunverulega gerst. Starfsfólk áfallateymis Rauða krossins er á Blönduósi að sinna aðstandendum og íbúum og við ræddum við Elfu Dögg Leifsdóttur, sálfræðing og teymisstjóra hjá Rauða krossinum um hvernig brugðist er við áföllum sem þessum.

    Í síðustu viku greindu fjölmiðlar frá því að lögreglan hefði lagt hald á stærsta kókaíninnflutning Íslandssögunnar þegar um 100 kg af efninu fundust í timbursendingu til landsins. Málið var afrakstur mikils samstarfsverkefnis á milli lögregluembætta hér á landi en embættið sem hefur forræði málsins í augnablikinu er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og það er einmitt lögreglustjórinn, Halla Bergþóra Björnsdóttir, sem var gestur okkar.

    Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur sætt gagnrýni eftir að myndbönd af henni dansandi og syngjandi var dreift á netinu. Einhver hafa sakað hana um fíkniefnanotkun og því fór Marin í fíkniefnapróf til þess að blása á þær sögusagnir. Við ræddum samband stjórnmálafólks og skemmtanalífs - og viðhorf kjósenda til þess - við Andrés Jónsson, almannatengil og Svanborgu Sigmarsdóttur, stjórnmálafræðing og framkvæmdastjóra hjá Viðreisn.

    Jú og svo renndum við lauflétt yfir helstu íþróttafréttir helgarinnar með Helgu Margréti Höskuldsdóttur af íþróttadeild RÚV.

  • Í næstu viku fer fram stór vísindaráðstefna í Hörpu um afdrif íss og snjós á Íslandi en jöklar hafa undanfarin ár rýrnað um alla jörð og hinar stóru ísbreiður Grænlands og Suðurskautslandsins leggja sífellt meira til hækkunar heimshafanna. Þar talar meðal annars Hrafnhildur Hannesdóttir sérfræðingur í jöklarannsóknum um það hvernig íslensku jöklarnir eru eins og lifandi tilraunastofa um loftslagsbreytingar. Hún var gestur okkar í upphafi þáttar.

    Landsbankinn spáir því að hámarki verðbólgu sé þegar náð og að í september megi strax sjá hjöðnun. Miklar hækkanir á húsnæðisverði hafa verið megindrifkraftur verðbólgunnar undanfarið, en nú sjáist hins vegar fyrstu merki kólnunar. Við ræddum efnahagshorfurnar við Unu Jónsdóttur, hagfræðing hjá Landsbankanum.

    Síðustu daga hafa Íslendingar geta forvitnast um laun samlanda sinna eftir að álagningarskrá einstaklinga fyrir síðasta ár var birt af ríkisskattstjóra. Tekjublað Frjálsar verslunar kom út í gær og þar var til að mynda hægt að rýna í hvaða forstjórar, íþróttamenn og áhrifavaldar hafa hæstu og lægstu launin - þó skekkjumörkin séu veruleg í mörgum tilfellum. Við ræddum við Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, um birtingu þessara upplýsinga.

    Já og af því það er föstudagur þá renndum við yfir fréttir vikunnar með góðum gestum. Að þessu sinni settust hjá okkur Atli Fannar Bjarkason samfélagsmiðlastjóri RÚV og María Rut Kristinsdóttir, kynningarstýra UN Women.

    Menningarnótt er á morgun og því fylgir að sjálfsögðu Tónaflóð Rásar 2, stórtónleikar á Arnarhóli þar sem öllu er til tjaldað. Unnsteinn Manúel Stefánsson er einn þeirra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni en hann var gestur okkar upp úr hálf níu.

    Borgarráð kynnti í gær sex tillögur til þess að bregðast við leikskólavanda í borginni og telur að það muni skila 553 nýjum leikskólaplássum á þessu ári. Kristín Tómasdóttir, sem staðið hefur fyrir mótmælum í Ráðhúsinu, gaf lítið fyrir tillögurnar í gær - og hélt mikla eldræðu sem vakið hefur mikla athygli. Við ræddum við Kristínu um framhaldið í lok þáttar.

  • Íbúar á Ísafirði hafa undanfarið kvartað mikið undan kríuvarpi undanfarið - en kríum hefur fjölgað mikið á svæðinu síðastliðin ár. Við ræddum við Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, sem var falið á síðasta fundi bæjarráðs að leita lausna á kríuvandanum.

    Ferðamannabransinn tók svo rækilega við sér hér á landi eftir heimsfaraldur Covid að mannekla einkenndi sumarið og víða var uppselt í bæði gistingu og ýmsa afþreyingu. Þessu fylgja auðvitað einhverjir vaxtaverkir og þess eru dæmi að fólk, sem búið hefur á landinu í afar skamma stund - jafnvel aðeins nokkrar vikur - sé komið í hlutverk leiðsögumanna að segja ferðamönnum upp og ofan af íslenskri sögu, náttúru og umhverfi. Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar var gestur okkar til að ræða þessi mál.

    Eins og fram hefur komið telja hagfræðingar Þjóðhagsráðs lítið svigrúm til launahækkana í vetur. Í ljósi verðbólgunnar er útlit fyrir erfiðar kjaraviðræður í haust. Tæplega 160 kjarasamningar renna út næsta hálfa árið, flestir í október eða nóvember, þar á meðal Lífskjarasamningurinn sem nær til yfir 100.000 launþega í stærstu stéttarfélögum landsins. Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu, segir hins vegar að fullyrðingar Þjóðhagsráðs séu villandi. Svigrúm til launahækkana ræðst öðru fremur af hagvexti og framleiðniaukningu, segir hann, og hvoru tveggja er í góðu lagi á Íslandi þetta árið og afkoma þorra fyrirtækja mjög góð.

    Það er ekkert lát á átökum í Úkraínu en eitt helsta áhyggjuefni alþjóðastofnana er staða kjarnorkuversins í Zaporizhzhia sem verið hefur á valdi Rússahers síðan í mars. Hart er barist í kringum kjarnorkuverið en talið er að dag frá degi aukist líkur á kjarnorkuslysi með tilheyrandi hörmungum fyrir Úkraínu og mögulega alla Evrópu. Til að ræða þessa áhættu og hvaða áhrif slys í kjarnorkuverinu myndi hafa, kom til okkar Gísli Jónsson viðbúnaðarstjóri Geislavarna ríkisins.

    Við heyrðum einnig í Boga Adolfssyni formanni björgunarsveitarinnar í Grindavík en þar á bæ má búast við því að opið verði að gosstöðvunum í dag.

    Í lok þáttar ræddum við við Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, en hann skrifaði áhugaverða grein í Viðskiptamoggann í gær þar sem hann velti fyrir sér hvort búið væri að prenta síðasta seðilinn.

  • Pysjueftirlitið greindi frá því í gær að fyrsta pysja þessa árs hefði fundist við Kertaverksmiðjuna í Vestmannaeyjum í gær - og að nú megi reikna með að fleiri pysjur fari að finnast í bænum. Við ræddum við Margréti Lilju Magnúsdóttur, sem komið hefur að þessum skráningum, og spyrja út í tímabilið framundan.

    Leiðtogar heims reyna nú enn á ný að komast að samkomulagi til að draga úr ofnýtingu úthafanna - en áratugur er liðinn síðan Sameinuðu þjóðirnar reyndu fyrst að fá sérstakan samning um verndun úthafanna samþykktan. Ísland er sagt í vegi slíks samnings en stjórnvöld á Íslandi og í Rússlandi vilja að fiskveiðar verði ekki settar inn í samning þjóðríkja um verndun hafsins. Við ræddum við Snjólaugu Árnadóttur, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðing í hafrétti, um samningaviðræðurnar og afstöðu Íslands.

    Höfuðið á Þorsteini Valdimarssyni skáldi hvarf úr Hallormsstaðaskógi fyrir helgi, en styttan hafði staðið þar í áratugi. Ekkert miðar áfram í rannsókn á hvarfinu en Margrét María Sigurðardóttir lögreglustjóri á Austurlandi var á línunni hjá okkur um málið.

    Forsætisráðherrar Norðurlandanna hittust á árlegum sumarfundi sínum á mánudag og samþykktu meðal annars þá ályktun að stefna að algjöru sjálfstæði frá viðskipum við Rússland þegar kemur að orkumálum. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri kom til okkar til að gera þetta upp.

    Sveitarstjórar á Suðurlandi leggjast gegn áformum um vikurflutninga frá Mýrdalssandi um þjóðveginn eins og áætlanir fyrirtækisins EP Powers Minerals gera ráð fyrir - en þar er stefnt að því að keyra, næstu hundrað árin, með fulla vörubíla af vikri frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar á fimmtán mínútna fresti. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar er búin að skoða málið undanfarna daga með sínu fólki, og kom til okkar.

    Á mánudaginn var ár liðið frá því að Talibanar náðu aftur völdum í Afganistan. Síðan þá hafa íbúar landsins þurft að glíma við skert réttindi og mikla efnahagskreppu. Við ræddum stöðu Afganistan í dag við Brynju Huld Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðing og fyrrum starfsmann Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.

  • Nokkuð hefur verið deilt um fyrirhugaðan vindorkugarð að Brekku í Hvalfjarðarsveit. Heil­brigð­is­eft­ir­lit Vest­ur­lands telur það mikla áskorun að ná sátt um bygg­ingu vind­orku­vers í svo lít­illi fjar­lægð frá sum­ar­húsum og lög­býlum og Skúli Mogensen, eigandi sjóbaðanna í Hvammsvík, að áformin einkennast af ?einhvers konar firringu?. Við ræddum við Andreu Ýr Arnarsdóttur, oddvita sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar - en sveitarstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til málsins.

    Brauðtertur skipa sérstakan sess á veisluborðum Íslendinga og þar skipta ekki bara bragðgæðin máli, ekki er síður mikilvægt að skreyta terturnar vel. Nú stendur yfir brauðtertukeppni með eldgosaþema hjá Brauðtertufélagi Erlu og Erlu og Hulda Geirsdóttir ræddi við aðra Erluna, Erlu Hlynsdóttur, sem sagði okkur betur frá.

    Við ræddum við Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, um áhrifavaldinn Andrew Tate, sem ýtt hefur undir ofbeldi og hatursorðræðu á samfélagsmiðlinum Tik tok og víðar. Nafn hans hefur verið slegið oftar upp í leitarvél Google en nöfn Kim Kardashian og Donald Trump til samans í síðasta mánuði.

    Forsætisráðherrar Norðurlandanna hittust í gær og ræddu meðal annars sameiginleg varnarmál og orkumál í Evrópu. Það eru uppi að minnsta kosti tvö sjónarmið hér á landi um hvort Ísland eigi að leggja rafstreng til Evrópu og selja þangað græna orku en okkur hér í Morgunútvarpinu leikur hugur á að vita hvort stríðið í Evrópu breyti siðferðislegum skyldum landsins að einhverju leyti í þeim efnum. Henry Alexander Henrysson doktor í heimspeki kíkir til okkar í þessar vangaveltur.

    Rithöfundurinn Salman Rushdie var stunginn á sviði í New York ríki á fimmtudag en um tíma leit ástand hans ekki vel út. Það eru rúm þrjátíu ár síðan kveðinn var upp dauðadómur í Íran yfir rithöfundinum og öllum þeim sem kæmu að útbreiðslu bókarinnar Söngvar Satans. Halldór Guðmundsson rithöfundur og þá útgefandi gaf þessa bók út á íslensku og hitti Rushdie fyrir aldarfjórðung af því tilefni að norskur útgefandi bóka hans hafði þá sloppið naumlega undan banatilræði vegna bókarinnar.

    Guðmundur Jóhannsson, tæknispekúlant, kom til okkar í lok þáttar, eins og alltaf annan hvern þriðjudag.

    Tónlist:
    Blisters in the sun - Violent Femmes
    Happy Hours - The Housemartins
    What a Life - Scarlet Pleasure
    No one dies from love - Tove Lo
    Lúser - Unnsteinn
    Upside Down - Diana Ross
    Poki - Birgir Hansen
    Elsku vinur - Kusk og Óviti
    Murder on the Dancefloor - Sophie Ellis Bextor
    Late night talking - Harry Styles

  • Hið árlega Sæunnarsund er framundan þar sem sjósundfólk stingur sér í klauffar kýrinnar Sæunnar sem varð fræg fyrir að bjarga sér frá slátrun með því að steypa sér í sjóinn og leggjast til sunds. Bryndís Sigurðardóttir er manneskjan sem alltaf veit allt um þennan skemmtilega viðburð og við heyrðum í henni.
    Nú eru bara örfáir dagar í Reykjavíkurmaraþon og mikil stemming í kringum það. Við fengum Silju Úlfarsdóttur hjá ÍBR, sem jafnframt er sjálf hlaupaþjálfari og hlaupari, til að heimsækja okkur og fara yfir það sem framundan er og hvernig er best að haga undirbúningi þessa síðustu daga fyrir hlaup.
    Bretar hafa áhyggjur af því að orkuverð hækki enn frekar í vetur, um 100.000 manns hafa lýst stuðningi við áform um að hætta að borga reikninga í byrjun október, þegar næsta verðhækkun tekur gildi, og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, ætlar í dag að leggja til að orkuverð verði fryst í haust. Við ræddum þetta og fleira sem tengist efnahagslífinu í Evrópu og Bandaríkjunum við Hafstein Hauksson, hagfræðing hjá Kviku banka í Lundúnum.
    Frá og með deginum í dag eru tíðavörur aðgengilegar öllum endurgjaldslaust í Skotlandi. Skotland er fyrsta landið í heiminum sem fer þessa leið, en í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að sveitarstjórnum, heilbrigðis- og menntastofnunum á öllum skólastigum sé nú skylt að gera tíðavörur aðgengilegar, ókeypis öllum þeim sem þær þurfa. Við ræddum þessa nálgun skoskra stjórnvalda, hvort fari eigi sömu leið hér á landi og bleika skattinn við Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, doktor í kynjafræði og sérfræðing í kynjuðum fjármálum, en hún situr einnig í stjórn Femínískra fjármála.
    Hug­mynda­smiðir er heiti á verk­efn­i sem er ætlað að efla sköp­un­ar­gleði og frum­kvöðla­kraft barna á skemmti­legan hátt. Umræða um nýsköpun og frumkvöðla er aldeilis ekki ný af nálinni hér á landi, en sjaldnast tengjum við hana við börn, frekar viðskiptalífið. Svava Björk Ólafsdóttir, sérfræðingur í nýsköpun er ein þeirra sem standa að baki Hugmyndasmiðum og hún kom til okkar og sagði okkur af þessu forvitnilega verkefni.
    Svo hringdum við í Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamann í Róm og heyrðum af Evrópumeistaramótum í ýmsum greinum íþrótta.

    Tónlist:
    Una Torfadóttir - En.
    Eagles - Best of my love.
    Phil Collins - Against all odds.
    Friðrik Dór - Bleikur og blár.
    Aldous Harding - The barrel.
    Ásgeir - Snowblind.
    Junior Senior - Move your feet.
    Grafík - Presley.
    U2 - Beautiful day.
    Stebbi og Eyfi - Helga.
    Lenny Kravitz - Stillness of heart.