Episódios
-
'Season tvö' af blaðvarpi Trúnós er hafið ásamt glænýju ári. Nína og Tómas snúa aftur í spjall eftir viðburðaríka fjarveru í lífi þeirra beggja. Nína skaust til Ástralíu og hefur nýlokið MA ritgerð sinni um rannsókn hennar á innleiðingu jafningjastuðnings í geðheilbrigðisþjónustu. Tómas hefur verið á fullu í nýrri vinnu og að hlaupa á milli kvikmyndasetta. Síðan voru víst einhver jól þarna á milli.
Trúnó-teymið veltir fyrir sér umfjöllunarefni þessarar ritgerðar og hversdagslegan kvíðann í kringum hátíðirnar. Rætt er um listina að vera aleinn á aðfangadegi, æskutengingar við flugelda, staðalmyndir þunglyndis, kerfishindranir, ýmsa stressfaktora og ólíkar skilgreiningar á hvað 'bati' getur þýtt. Mögulega leynast þarna fáein hvöss 'teik' og eitthvað af erfiðum spurningum, að venju.
Samtalið kann að hafa verið hljóðritað. Og skemmtilegt.
-
Breen-istar, hatursorðræður, fordómar, þjóðarskömm, íslensk smábæjarhyggja, innlendir fréttamiðlar, prakkaralegir pólitíkusar og merku ættartengsl Nínu. Þetta ku vera hinn víði völlur sem þau Tómas kryfja á einlægum nótum. Hvössum líka. Vitaskuld.Innihald innslagsins að sinni er í persónulegri kantinum. Samtalið kann að hafa verið hljóðritað. Alveg óvart.
-
Hvað þýðir það að vera 'geðveikur?' Hvað þýðir að vera 'eðlilegur?' Hver er munurinn á eðlilegum hugsanagangi og 'ofhugsara'?
Nína fer yfir sín hjartans mál í gegnum lífsleið sína á meðan bæði þau Tómas mikla fyrir sér stærri spurningum lífsins.
Samtalið var vissulega hljóðritað - Þáttastjórnendum óafvitandi.
-
Nína og Tómas kölluðu eftir alls konar ‘heimskulegum’ spurningum, frá hlustendum og víðar. Því persónulegri, því betra. Það er nefnilega ekkert til sem heitir heimskuleg spurning. En sérdeilis verða málin persónuleg.
Samtalið gæti hafa verið hljóðritað.
Hjálpi okkur.
-
Mál gerenda og þolenda eru ávallt viðkvæm sama hvar þau eru rædd. Nína lýsir frá persónulegri upplifun sinni á meðan Tómas spyr hana spjörunum úr (afsakið orðbragðið) í tengslum við hitamál og skoðanir sem margir hafa gagnrýnt hana fyrir - og þá bara nokkuð nýverið.
Það er eðli Trúnós að taka óþægilegri umræðurnar og þessi er svo sannarlega í þeim stíl.
Glætan að þetta samtal hafi verið hljóðritað.
-
Nína og Tómas mikla fyrir sér gagnlega gildi dagbóka úr æskunni, samfélagsmiðla, börnin og komandi kynslóðir YouTube’ara. Þá er stórri spurningu jafnframt svarað í upphafi þáttar og annar þáttastjórnandinn gerir heiðarlega tilraun að átaki í miðri upptöku.
Ætli það hafi nokkuð verið kveikt á míkrafóninum?
-
Nú skal 'settla' málin (endanlega vonandi) um Sound of Freedom, hina vægast sagt umdeildu endursögn af svaðilförum fyrrum leyniþjónustumannsins Tim Ballard. Þá er mansal, barnaníð, áfallastreita og alls konar kristilegt kanaþvaður í brennidepli.
Nína skoðar myndina út frá sálfræðilegu sjónarmiði og Tómas gramsar aðeins í hlið kvikmyndagerðarinnar. Í sameiningu reyna þau að komast til botns á því hvers vegna myndinni fylgir svona mikil heift og reiði frá ólíkum hópum og hvað er vert að setja undir smásjánna.
Ætli það hafi verið kveikt á hljóðnemanum?
-
Hvað er það sem við sækjumst eftir í pörun við aðra? Hvað er ‘eðlileg’ krafa og hvenær eða hvar erum við að tapa hluta af okkur sjálfum? Og af hverju í kvensköpunum eru bíómyndirnar Sound of Freedom og Barbie að skipta fólki í svona sterkar, ólíkar fylkingar? Nína og Tómas grandskoða þessar pælingar út frá eigin reynslum. Samtalið gæti hafa verið hljóðritað.
-
Gervigreind og mannleg tengsl við spjallbotta er umræða til upphitunar áður en Nína úskýrir reynslu sína af verkferlabrotum Neyðarlínunnar. Það sem hófst sem einföld og eðlileg starfsumsókn með kennslu varð fljótlega að dæmisögu um hvernig ófagleg vinnubrögð hjá fjarskiptaþjónustunni (auk brot á persónuverndarlögum getur valdið vantrausti á þjónustu sem ofar öllu á að stuðla að því að hjálpa. Tómas útskýrir nokkur klaufabrögð sín og ‘NeyðarNína’ fær orðið.Samtalið kann að hafa verið hljóðritað.
-
Heilinn er magnað fyrirbæri en þarf gjarnan að hlúa vel að honum á verstu tímabilum. Í öðrum þætti Trúnós segja Nína og Tómas sögur sínar af ýmsum botnum og erfiðleikum. Einnig er sérstök áhersla lögð á hin mögnuðu samtímagildi tölvuleiksins Farming Simulator og hversu ólíkar myndir geta fylgt því að kalla á hjálp þegar heilinn (og sálarorkan) er nálægt því að gefast upp.
Athugið að samtalið gæti hafa verið hljóðritað.
-
Í fyrsta þætti hlaðvarpsins Trúnó stúdera þáttastjórnendur ýmis konar ‘brot’ úr fortíð sinni, stefnumótaforrit, kynjamyndir og viðhorf Íslands til útlendinga (enda þau Nína og Tómas sjálf útlensk…). Þá veltur dúóið líka fyrir sér 'Like þumalinn' alræmda, hvað er við hæfi í samskiptum almennt og hvernig er best að tækla það þegar eitthvað liggur… eða ‘lyktar’ í loftinu.