Bölümler

  • Þarf alltaf að vera vín? Brúðkaupið í Kana getur verið erfitt að skilja ef áfengismagnið truflar okkur. Hvað var Jesús að fara með þessu? Og tengist þessi saga Bakkusarátrúnaði? Var Jesús dónalegur við mömmu sína? Og hvaða Guð er það sem við sjáum bara hnakkann á? Þetta og fleira og fleira til umræðu í þætti um texta 2. sunnudags eftir þrettánda. Textarnir eru hér: 

    Lexía: 2Mós 33.17-23
    Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“

    Pistill: Róm 12.6-15
    Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.
    Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
    Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

    Guðspjall: Jóh 2.1-11
    Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
    Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
    Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
    Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
    Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.

  • Eksik bölüm mü var?

    Akışı yenilemek için buraya tıklayın.

  • Fyrsta Pétursbréf hefur stutta en dularfulla setningu um að Jesús hafi predikað fyrir öndunum í varðhaldi. Tengist það etv. frásögn í apókrýfu Pétursguðspjalli? Og hvað þýðir skírnin? Hver sá dúfuna og heyrði röddina? Það eru engin einföld svör en ótal spurningar í þessu hlaðvarpi um texta fyrsta sunnudags eftir Þrettándann 2022. 

    Hér eru textarnir sem eru til umræðu: 

    Pistill: 1Pét 3.18-22
    Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

    Guðspjall: Matt 3.13-17
    Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
    Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
    En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

  • Hvað er í jólagruðspjallinu og hvað er ekki. Hvað höldum við að sé þar og hvað hugsum við aldrei um? Og hversu lengi er hægt að ræða um gríska orðið και (kæ eða ke)? Hvað sögðu englarnir? Þetta og ýmislegt annað í jólaþættinum sem vísar talsvert til þáttar nr. 21 um jólagruðspjallið. Mælt með hlustun á hann líka - já og 22 og 23! Gleðileg jól.

  • Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson er gestur þáttarins að þessu sinni og ræðir við okkur um þýðingaraðferðir. Sérstaklega er rætt um Jesaja og þakkarsálm Hiskia konungs, sem var viðfangsefni doktorsrannsóknar hans. Þar kemur margt forvitnilegt í ljós, t.d. leysir hann þýðingarvanda sem aðrir hafa verið ráðþrota yfir. En hér er textinn sem er til umræðu og það er 16 versið sem hefur valdið mestum heilabrotum. 

    9 Sálmur sem Hiskía, konungur Júda, orti þegar hann hafði náð sér af veikindum sínum:
    10Ég sagði: Á miðjum aldri verð ég að fara burt,
    kvaddur að hliði heljar
    þau ár sem ég á eftir.
    11Ég sagði: Ég fæ ekki að líta Drottin
    á landi lifenda,
    fæ ekki framar menn að sjá
    meðal þeirra sem byggja heiminn.
    12Bústaður minn var rifinn niður,
    vafinn saman eins og tjald hjarðmanns.
    Þú vafðir líf mitt upp eins og vefari,
    skarst mig frá uppistöðunni.
    Frá morgni til kvölds þjakar þú mig.
    13Allt til morguns hrópaði ég á hjálp,
    hann molaði öll mín bein eins og ljón.
    14Ég tísti eins og svala,
    kurraði sem dúfa,
    augu mín mæna til hæða.
    Drottinn, ég er aðþrengdur,
    bjargaðu mér.
    15Hvað get ég sagt?
    Hann hefur bæði sagt mér þetta
    og gert það sjálfur.
    Ég vil ganga í auðmýkt öll æviár mín
    þrátt fyrir beiskju lífs míns.
    16Drottinn, vegna þessa lifa menn
    og því mun líf mitt styrkjast
    og þú munt veita mér heilsu og líf.
    17Beiskja mín varð mér til góðs,
    þú varðveittir líf mitt
    frá gröf eyðingarinnar
    því að þú varpaðir öllum syndum mínum
    aftur fyrir þig.
    18Helja þakkar þér ekki,
    dauðinn lofar þig ekki,
    þeir sem hverfa í gröfina
    vona ekki á trúfesti þína.
    19Sá einn sem lifir þakkar þér
    eins og ég nú í dag.
    Feður munu segja börnum sínum
    frá trúfesti þinni.
    20Drottinn, þér þóknaðist að hjálpa mér,
    því skulum vér leika á strengi
    við hús Drottins
    alla ævidaga vora.

  • Voru lærisveinarnir hræddir við smá golu? Af hverju beitti Páll umvöndunarhætti þátíðar? Og hver er þessi maður að vindur og vatn hlíða honum? Textar sjómannadags skoðaðir í stuttu spjalli um textanna, sjómennsku og sjómannadaginn.

    Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
    Þakkið Drottni því að hann er góður,
    því að miskunn hans varir að eilífu.
    Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
    þeir er hann hefur leyst úr nauðum
    sendi orð sitt og læknaði þá
    og bjargaði þeim frá gröfinni.
    Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
    og dásemdarverk hans við mannanna börn,
    færa honum þakkarfórnir
    og segja frá verkum hans með fögnuði.
    Þeir sem fóru um hafið á skipum
    og ráku verslun á hinum miklu höfum
    sáu verk Drottins
    og dásemdarverk hans á djúpinu.
    Því að hann bauð og þá kom stormviðri
    sem hóf upp öldur hafsins.
    Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
    og þeim féllst hugur í háskanum.
    Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
    og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
    Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
    og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
    Hann breytti storminum í blíðan blæ
    og öldur hafsins lægði.
    Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
    og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
    Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
    og dásemdarverk hans við mannanna börn,

    Pistill: Post 27.13-15, 20-25
    Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

    Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af.
    Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

    Guðspjall: Matt 8.23-27
    Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
    Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
    Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

  • Ekki er allt sem sýnist þegar þrír menn heimsækja Abraham. Þekkt saga sem segir margt. Kunnug úr fleiri trúarhefðum, túlkuð á ýmsan hátt, meðal annars í tengslum við þrenninguna. Textar þrenningarhátíðar skoðaðir.

    Lexía: 1Mós 18.1-5
    Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
    „Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
    Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

    Pistill: 2Kor 13.11-13
    Að öðru leyti, bræður mínir og systur,[ verið glöð. Verið fullkomin, áminnið hvert annað, verið samhuga, lifið saman í friði. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með ykkur.Heilsið hvert öðru með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa ykkur.
    Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.

    Guðspjall: Matt 11.25-27
    Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
    Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

  • Hvítasunnuundrið, Kinnin og Nasaret, besta veðrið til að þurrka steinbít, hið eilífa vor og mál beggja kynja - hér er komið víða við í spjalli um texta hvítasunnu. 

    Lexía: Jl 3.1-5
    Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
    Synir yðar og dætur munu spá,
    gamalmenni yðar mun dreyma drauma
    og ungmenni yðar munu fá vitranir,
    jafnvel yfir þræla og ambáttir
    mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
    Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
    blóð, eld og reykjarstróka.
    Sólin verður myrk
    og tunglið sem blóð
    áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
    En hver sem ákallar nafn Drottins
    verður hólpinn.
    Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
    munu nokkrir lifa af
    eins og Drottinn hefur heitið.
    Hver sem ákallar nafn Drottins
    mun frelsast.

    Pistill: Post 2.1-4 (-11)
    Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

    (Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)

    Guðspjall: Jóh 14.23-31a
    Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
    Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.

  • Hér er farið vítt og breytt um Sálmana, bænabókarinnar sem Jesús þekkti. Við skoðum orð og þýðingar, merkingar, hugsanarím og harma og lítum að eins á tengsl þeirra við þekkta þætti í menningu og málfari. Útgangspunkturinn er Sálmur 102 sem hér er birtur: 

    Bæn hrjáðs manns þá er hann örmagnast
    og úthellir harmi sínum fyrir augliti Drottins.
    Drottinn, heyr þú bæn mína,
    hróp mitt berist til þín.
    Byrg eigi auglit þitt fyrir mér
    þegar ég er í nauðum staddur,
    hneig eyra þitt að mér,
    svara mér skjótt þegar ég kalla.
    Dagar mínir líða hjá sem reykur
    og bein mín brenna sem í eldi,
    hjarta mitt er mornað og þornað sem gras
    því að ég gleymi að eta brauð mitt.
    Af kveinstöfum mínum
    er ég sem skinin bein.
    Ég líkist pelíkana í eyðimörkinni,
    er eins og ugla í eyðirúst,
    ég ligg andvaka,
    líkist einmana fugli á þaki.
    Fjandmenn mínir smána mig liðlangan daginn;
    þeir sem hamast gegn mér nota nafn mitt til formælinga.
    Já, ég neyti ösku sem brauðs,
    blanda drykk minn tárum
    vegna reiði þinnar og bræði
    því að þú hófst mig upp og varpaðir mér aftur til jarðar.
    Dagar mínir eru sem síðdegisskuggi
    og ég visna sem gras.
    En þú, Drottinn, ríkir að eilífu
    og þín er minnst frá kyni til kyns.
    Þú munt rísa upp, sýna Síon miskunn
    því að nú er tími til kominn að líkna henni,
    já, stundin er runnin upp.
    Því að þjónar þínir elska steina Síonar
    og harma yfir rústum hennar.
    Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins
    og allir konungar jarðarinnar dýrð þína
    því að Drottinn byggir upp Síon
    og birtist í dýrð sinni.
    Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu
    og hafnar ekki bæn þeirra.
    Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð
    og þjóð, sem enn er ekki sköpuð, skal lofa Drottin.
    Drottinn lítur niður frá sinni heilögu hæð,
    horfir frá himni til jarðar
    til að heyra andvörp bandingja
    og leysa börn dauðans,
    til að kunngjöra nafn Drottins á Síon
    og lofa hann í Jerúsalem
    þegar þjóðir safnast þar saman
    og konungsríki til að þjóna Drottni.
    Hann bugaði kraft minn á miðri ævi,
    fækkaði ævidögum mínum.
    Ég segi: „Guð minn, sviptu mér ekki burt á miðri ævi
    því að ár þín vara frá kyni til kyns.“
    Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina
    og himinninn er verk handa þinna;
    þau munu líða undir lok en þú varir,
    þau munu fyrnast sem fat,
    þú leggur þau frá þér sem klæði og þau hverfa
    en þú ert hinn sami og ár þín fá engan enda.
    Börn þjóna þinna munu búa óhult
    og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

  • Staðgöngumæðrun, þrælahald, afbrýðissemi, talhlýðni og grimmd eru til umræðu í þættinum, ásamt myndarlegu magni af ritskýringu. Lexían á sviðið en tæpt er á pistli og guðspjalli.

    Lexía: 1Mós 21.8b-21
    Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“
    Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns. En Guð sagði við Abraham:
    „Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak. En ambáttarsoninn mun ég einnig gera að þjóð því að hann er afkvæmi þitt.“
    Snemma næsta morgun tók Abraham brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, lyfti drengnum á öxl henni og sendi hana á braut. Reikaði hún um eyðimörkina við Beerseba.
    Er vatnið þraut úr skinnbelgnum lagði hún drenginn undir runna einn, gekk þaðan og settist skammt undan eins og í örskots fjarlægð því að hún hugsaði: „Ég vil ekki horfa á drenginn deyja.“ Og hún tók að gráta hástöfum.
    Þá heyrði Guð grát sveinsins og engill Guðs kallaði til Hagar af himni og sagði:
    „Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“
    Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka.
    Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. Hann hafðist við í Paranóbyggðunum og móðir hans tók handa honum konu frá Egyptalandi.

    Pistill: 1Jóh 3.19-24
    Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.

    Guðspjall: Jóh 8.25-30
    Fólkið spurði hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði því: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“
    Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann.

  • Textarnir bjóða upp á spjall allt frá málfræði yfir í trúfræði, þjóðfélagsmál og fleira. 

    Lexía: Sak 8.16-18
    Þetta er það sem ykkur ber að gera:
    Segið sannleikann hver við annan
    og fellið dóma af sanngirni
    og velvilja í hliðum yðar.
    Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
    og fellið yður ekki við meinsæri.
    Allt slíkt hata ég,
    segir Drottinn.

    Pistill: Róm 8.9-11
    En þið eruð ekki á hennar valdi heldur andans sem í ykkur býr. En sá sem hefur ekki anda Krists er ekki hans. Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.

    Guðspjall: Jóh 15.1-8
    „Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.

  • Hér er rætt um góða og slæma hirða, aðeins um sauðfjárverndina og dálítið um dyr. Guðspjallið er snúið og sumir hafa burtskýrt hluta þess en það er ekki alveg keypt í þessu spjalli. 

    Textar vikunnar: 

    Lexía: Jer 23.1-6
    Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn.
    Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

    Pistill: Heb 13.20-21
    Guð friðarins, sem leiddi Drottin vorn, Jesú, hinn mikla hirði sauðanna,upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, styrki yður í öllu góðu í hlýðni við vilja sinn. Láti hann allt það verða í oss sem honum er þóknanlegt fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

    Guðspjall: Jóh 10.1-10
    „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi en sá sem kemur inn um dyrnar er hirðir sauðanna. Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir heyra raust hans og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. Þegar hann hefur látið út alla sauði sína fer hann á undan þeim og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans. En ókunnugum fylgja þeir ekki heldur flýja frá honum því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“
    Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En menn skildu ekki hvað það þýddi sem hann var að tala við þá.
    Því sagði Jesús aftur: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir sem á undan mér komu eru þjófar og ræningjar enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast og hann mun ganga inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.

  • Hinir fyrstu kristnu seldu eigur sínar og gáfu öllum jafnt. Hvað þýðir það fyrir okkur? Og hver vann postullega spretthlaupið að gröfinni og af hverju er sagt frá því? Stutt spjall um texta næsta sunnudags og guðspjall páskadags með viðkomu í fornöld og nútíma. 

    Textar 1. sun eftir páska: 

    Lexía: Slm 145.1-7
    Lofsöngur Davíðs.
    Ég tigna þig, Guð minn og konungur,
    og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
    Ég vegsama þig hvern dag
    og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
    Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
    veldi hans er órannsakanlegt.
    Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,
    segir frá máttarverkum þínum
    og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:
    „Ég vil syngja um dásemdir þínar.“
    Þær tala um mátt ógnarverka þinna:
    „Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“
    Þær víðfrægja mikla gæsku þína
    og fagna yfir réttlæti þínu.

    Pistill: Post 4.32-35
    En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

    Guðspjall: Mrk 16.9-14
    Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
    Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki.
    Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur. Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn.

    Guðspjall páskadags:

    Guðspjall: Jóh 20.1-10
    Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
    Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans. Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
    Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

  • Sérþáttur um nýútkomið Kirkjurit með fjölbreyttu efni. Blaðið sjálft má nálgast hér. 

    Við ræðum við sr. Arnald Mána Finnsson sem situr í ritnefnd ritsins um skráningu sögunnar - um það sem gerðist en hvergi er skráð, til dæmis varðandi samskipti fólks í Samtökunum 78 og Þjóðkirkjunni, um trúarhóp samtakanna, alnæmi og fleira sem litaði meðal annars 10. áratuginn. Kirkjan og kófið er annað umræðuefni, hin eilífa bið eftir nýrra handbók og svo þær viðamiklu skipulagsbreytingar sem fylgja áherslunni á sameiningu prestakalla. 

  • Við fögnum árs afmæli Guð-spjalls þáttanna með köku og í sykurvímu ákveðum við að fjalla um einhverja texta sem við höldum upp á og tengjast dymbilviku og páskum, frekar en texta næsta sunnudags. Þetta eru eiginlega óskalögin. Við völdum Sálm 22 og upprisufrásögn Markúsar. 

    Sálmur 22

    Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?
    Ég hrópa en hjálp mín er fjarlæg.
    „Guð minn!“ hrópa ég um daga en þú svarar ekki,
    og um nætur en ég finn enga fró.
    Samt ert þú Hinn heilagi
    sem ríkir yfir lofsöngvum Ísraels.
    Þér treystu feður vorir,
    þeir treystu þér og þú hjálpaðir þeim,
    hrópuðu til þín og þeim var bjargað,
    treystu þér og vonin brást þeim ekki.
    En ég er maðkur og ekki maður,
    smánaður af mönnum, fyrirlitinn af öllum.
    Allir, sem sjá mig, gera gys að mér,
    geifla sig og hrista höfuðið.
    Hann fól málefni sitt Drottni,
    hann hjálpi honum,
    og frelsi hann, hafi hann þóknun á honum.
    Þú leiddir mig fram af móðurlífi,
    lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
    Til þín var mér varpað úr móðurskauti,
    frá móðurlífi ert þú Guð minn.
    Ver eigi fjarri mér
    því að neyðin er nærri
    og enginn hjálpar.
    Sterk naut umkringja mig,
    Basans uxar slá hring um mig,
    glenna upp ginið í móti mér,
    sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
    Ég er eins og vatn sem hellt er út,
    öll bein mín gliðnuð í sundur,
    hjarta mitt er sem vax,
    bráðnað í brjósti mér.
    Kverkar mínar eru þurrar sem brenndur leir,
    tungan loðir við góminn,
    þú leggur mig í duft dauðans.
    Hundar umkringja mig,
    hópur illvirkja slær hring um mig,
    þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur.
    Ég get talið öll mín bein,
    þeir horfa á og hafa mig að augnagamni.
    Þeir skipta með sér klæðum mínum,
    kasta hlut um kyrtil minn.
    En þú, Drottinn, ver ekki fjarri,
    styrkur minn, skunda mér til hjálpar.
    Frelsa mig undan sverðinu
    og líf mitt frá hundunum.
    Bjarga mér úr gini ljónsins
    og frá hornum villinautanna.
    Þú hefur bænheyrt mig.

    [...]
    Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni
    og óbornum mun boðað réttlæti hans
    því að hann hefur framkvæmt það.

    Mark. 16:1-8

    Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
    En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“
    Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar.

  • Þegar stórt er spurt reyna spekingar gjarnan að svara. Við  tökumst á við þessa spurningu og fleiri í þætti dagsins þar sem fyrir koma skúffaðir embættismenn, harðstjórar í heimspekisamræðum, hugtökin synd og fyrirgefning og svo hún María sem gladdist við að hitta Elísabetu, sem skildi hvað hún var að ganga í gegnum. 

    Textar dagsins eru bæði textar 5. su. í föstu, sem og guðspjall Boðunardags Maríu. 

  • Matur er miðlægt þema í textum dagsins, mettun og styrking og gnægð. Og líf. Og út frá því fer spjall okkar í ýmsar áttir, frá sögum úr sveitum yfir í frumkirkjuna og bókina Sapiens og hvort landbúnaðarbyltingin hafi veirð mannkyni böl. 

    Lexía: 2Kon 4.42-44
    Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

    Pistill: Post 27.33-36
    Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

    Guðspjall: Jóh 6.52-58
    Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“
    Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“

  • Hér er rætt um Samúelsbækur, versin sem ekki eru inni í textum dagsins og margar sviðsmyndir dregnar upp í anda umræðu vikunnar. Páll postuli kemur einnig við sögu og glannalegar tengingar milli hans, Neró og ofsókna á hendur kristnum. Þá er þeirri spurningu velt upp hvers vegna í ósköpunum Jesús var að amast við því að hægt væri að gera það sem nauðsynlegt var í musterinu. 

    Lexía: 2Sam 22.2-7,29-33,36
    Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
    Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
    skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
    háborg mín og hæli,
    frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
    Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
    og bjargast frá fjandmönnum mínum.
    Holskeflur dauðans umluktu mig,
    eyðandi fljót skelfdu mig.
    Bönd heljar herptust að mér,
    snörur dauðans ógnuðu mér.
    Í angist minni kallaði ég á Drottin,
    til Guðs míns hrópaði ég.
    Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
    óp mitt barst honum til eyrna.
    Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
    Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
    Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
    með Guði mínum stekk ég yfir múra.
    Vegur Guðs er lýtalaus,
    orð Drottins er áreiðanlegt,
    skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
    Hver er Guð nema Drottinn?
    Hver er bjarg nema Guð vor?
    Guð er mitt trausta vígi,
    hann greiddi mér götu sína.

    Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
    heit þitt gerði mig mikinn.

    Pistill: Róm 16.17-20
    Ég minni ykkur, systkin, á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum ykkar.

    Guðspjall: Jóh 2.13-22
    Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“
    Ráðamenn Gyðinga sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um það að þú megir gera þetta?“
    Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“
    Þá sögðu þeir: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“
    En Jesús var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og þeir trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði talað.

  • Við förum vítt og breitt í þessum þætti. Opinberunarbókin og tala dýrsins, spekirit og drottningin af Saba sem hitti Salómon (og hve náin voru þau kynni), trú, vantrú og demónar. 

    Lexía: Okv 4.23-27
    Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru
    því að þar eru uppsprettur lífsins.
    Haltu munni þínum fjarri fláum orðum
    og vörum þínum fjarri lygamálum.
    Beindu augum þínum fram á við
    og sjónum þínum að því sem fram undan er.
    Veldu fótum þínum beina braut,
    þá verður ætíð traust undir fótum.
    Víktu hvorki til hægri né vinstri,
    haltu fæti þínum frá illu.

    Pistill: Op 3.10-13
    Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
    Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

    Guðspjall: Mrk 9.14-29
    Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“
    En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“
    Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“
    Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
    Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“
    Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“
    Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“
    Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“
    Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur.
    Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“
    Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“