Episodes

 • Þetta er seinasti þáttur Lestarinnar fyrir sumarfrí og, við erum svolítið þreytt. Ekki á ykkur ? elsku hlustendur ? bara á því að sitja við skrifborðið og á öllu þessu erfiða sem er í fréttum og við reynum að fjalla um og okkur finnst við eiga að fjalla um og trúum því ekki að við þurfum ennþá að fjalla um... svo í dag tölum við við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, doktor í heimspeki og nýbakaða móður sem rannsakar þreytu, bæði í vinnunni og einkalífinu, sem nýbökuð móðir. Mikil hátíðarhöld hafa farið fram í alþýðulýðveldinu Kína í dag, því er fagnað að fyrir nákvæmlega öld var kommúnistaflokkur landsins stofnaður í Sjanghæ. Á hundrað árum hefur fámennur hópur róttæklinga orðið að einhverjum valdamesta afli á jörðinni. Við kynnum okkur kínverska kommúnistaflokkinn og heyrum um viðhorf kínverja til hans. Ingólfur Eiríksson flytur okkur sitt sjötta bréf til Birnu. Meðal þess sem ber á góma eru starfsumsóknir, samkennd og evrópumeistaramót í fótbolta - en eins og álfan sat Ingólfur í losti ásamt föður sínum fyrir framan sjónvarpið þegar danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen hneig niður.

 • Við hringjum til Nairobi í Kenýa og ræðum við rapparann Lexa Picasso sem er þar búsettur um þessar mundir. Lexi bjó lengi í Atlanta höfuðborg rappsins í Bandaríkjunum og vakti mikla athygli þegar hann flaug í einkaþyrlu inn á sviðið í íslensku rappi árið 2016. Við ræðum við Lexa um lífið í afríku, um föðurhlutverkið og nýja plötu sem hann er að leggja lokahönd á, þar sem hann rappar í fyrsta skipti á hinu ástkæra ylhýra. Frie mænd nefnist útskritftarverkefni leikstjórans Óskars Kristins Vignissonar úr danska kvikmyndaskólanum. Þessi hálftíma grínmynd um tvo lánlausa starfsmenn í fiskvinnslu í danmörku hefur verið valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni í Cannes, en þetta er í fyrsta skipti í 18 ár sem nemandi úr skólanum fær inni á hátíðinni með útskriftarverkefni sitt. Við ræðum við Óskar í Lestinni í dag um Cannes, um danska kvikmyndaskólann og kúnstina að gera kómedíur. Og við köfum ofan í eina af yfirstandandi sýningum safnasafnsins: sýningu tengda manni sem var ?biskup? yfir sjálfum sér, sýningu sem inniheldur bæði frímerkja mósaík og HM 95 trefil, sýningu sem fylgir dularfull ráðgáta sem safnstjórinn leitar svara við.

 • Missing episodes?

  Click here to refresh the feed.

 • Góðan daginn faggi er einleikur þar sem fertugur söngleikjahommi, Bjarni Snæbjörnsson leikari, leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Og já, verkið er að sjálfsögðu söngleikur. Ég er ekki hamingjusöm, sagði Britney Spears við dómarann í Los Angeles sem hefur sjálfræðismál hennar á sínum snærum. Skyldi engann undra. Á síðustu misserum hafa aðstæður hennar sem líkja má við vinnuþrælkun, smám saman orðið almenningi ljósar, en í vitnisburði Spears kom einnig fram að hún hafi verið svipt frjósemi sinni með hormónalykkjunni, nauðug viljug. Við heyrum svo í Hildi Maral sem fer fyrir plötuútgáfunni Mercury KX, sem er undirfyrirtæki Decca. Útgáfan fer óhefðbundna leið við útgáfu á nýrri plötu skoska tónlistarmannsins Erlands Coopers en eina eintak plötunnar verður grafið í jörð á Orkneyjum og látin óhreifð næstu þrjú árin, ef enginn hefur rambað á hana fyrr verður hún gefin út nákvæmlega eins og jörðin skilar henni af sér. En við ætlum að byrja á sannri sögu úr samtímanum. Jónas Reynir Gunnarsson, rithöfundur, flytur fyrir okkur færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum twitter í gær.

 • Tónskáldið og kvikmyndagerðarmaðurinn Jóhann Jóhannsson lést langt fyrir aldur fram árið 2018. Indí, diskó, rafrænar hljóðtilraunir og kvikmyndatónlist, allt þetta og meira tók hann þessi fjölhæfi listamður sér fyrir hendur á meira en þriggja áratugalöndum tónlistarferli. The creative space of Jóhann Jóhannsson er umfangsmikið verkefni þar sem sköpunaraðferðum og listferli Jóhanns verða gerð skil í heimildarmynd, veglegu bókverki og gagnasafni. Orri Jónsson kemur og segir frá verkefninu og ástæðum þess að farið var af stað. Við rennum úr höfuðborginni norður á bóginn, inn á Safnasafnið á Svalbarðsströnd þar sem við fáum leiðsögn um nokkrar af sýningum ársins og ræðum við safnstjórann Níels Hafstein um íslenska alþýðulist. Og Melkorka Gunborg Briansdóttir segir okkur sérkennilega sögu bresku tvíburanna Fridu og Gretu Chaplin sem lifðu algjörlega samhæfðu lífi, klæddu sig eins og töluðu samtímis.

 • Við lítum við hjá einu sjónvarpsstöð landsins með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. N fjórir skilgreinir sig sem landsbyggðamiðil og dagskráin ber þess svo sannarlega merki en digurbarkaleg borgarbörn ættu að fara varlega í að kalla N fjóra ?lítin? fjölmiðil. Við ræðum við tónskáldið og gítarleikarann Hafdísi Bjarnadóttur um nýtt verkefni hennar og Passepartout Dúósins.En þau vinna nú að tónlist sem á að höfða til sauðkindarinnar ekki síður en mannfólksins. Og við tökum forskot á sæluna og rýnum í nýja plötu Skratta, plötuna Hellraiser IV sem kemur út á næstunni. Davíð Roach Gunnarsson sekkur sér í djöfullegan tónheim sveitarinnar.

 • Nú á dögunum kom út mikið og þykkt safnrit, Handbók Oxford um Feminíska heimspeki, þar sem reynt er að ná utan um ýmsar stefnur og strauma, já og spurt hvað það eiginlega er, feminísk heimspeki. Annar ritstjóranna er Ásta Kristjana Sveinsdóttir prófessor í heimspeki við ríkisháskólann í San Francisco. Ásta sest um borð í Lest dagsins. Við hringjum til Seyðisfjarðar og ræðum við tónlistarmanninn og plötuútgefandann Daníel Laxness, sem kallar sig Daníel Ness. Eins og nafnið gefur til kynna er Daníel barnabarnabarn nóbelsskáldsins en hann hefur alist upp og er allrajafna búsettur í London. Og Lestin brunar svo til Hjalteyrar þar sem sýniningin Powerhouse/Spennistöð opnar um helgina. Þar koma saman verk ólíkra listamenn sem ekki hafa mæst áður: Vídeóverk, teikningar og skúlptúrar sem tendra vélarafl umhverfisins að nýju: Þenja strengi, byggja upp spennu, umbreyta, hreyfa og keyra áfram.

 • Við rýnum í Kötlu, nýja sjónvarpsþætti Baltasars Kormáks og Netflix. Júlía Margrét Einarsdóttir sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar spændi í gegnum þættina átta um helgina eins og svo margir aðrir, og hún segir okkur hvað henni finnst. Við heimsækjum grasrótargalleríið Kaktus á Akureyri þar sem norðlenskir listamenn rækta andann. Og tónlistarmaðurinn Holy Hrafn sest um borð í Lestina og segir frá nýrri plötu sem hann gaf út á dögunum, S.S. Tussunæs. En við byrjum á heimildarmyndum. Ingibjörg Halldórsdóttir frá heimildarmyndahátíðinni Icedocs sem hefst á morgun á Akranesi, og stendur yfir fram á sunnudagskvöld, mætir og segir okkur frá því helsta á hátíðinni í ár.

 • Á laugardagskvöldið var afrísk menning allsráðandi við Grundarstíg í Reykjavík. Björk Guðmundsdótti þeytti skífum með taktföstum afrískum tónum og gambíski kokkurinn Alex Jallow galdraði fram dýrindis kvöldverð. Allt átti þetta sér stað í skugga þeirrar vitneskju að daginn eftir myndi rýmið - Hannesarholt - loka dyrum sínum. Melkorka Gunborg Briansdóttir fjallar um Youtube-rásina Style like you, þar sem bandarískar mæðgur með áhuga á tísku og stíl spyrja fjölbreytta viðmælendur sínar spjörunum úr, bókstaflega, en í lok situr viðmælandann varnarlaus og hálfnakinn á nærfötunum einum fata. Og við veltum fyrir okkur vofum með Veru Knútsdóttur sem varði fyrir helgi doktorsritgerð sína um vofulegar minningar í íslenskri menningu.

 • Eftir því sem tölvuleikjaiðnaðurinn hefur stækkað hafa áhrif hans orðið víðtækari, efnahagslega, menningarlega og ekki síst á persónuleg samskipti fólks. Einstaklingar spjalla, þeir kynnast, verða vinir, fella hugi saman í gegnum stafræna hliðarheima tölvuleikjanna. Tölvuleikir geta á vissan hátt virkað eins og vináttuvélar. Það er að minnsta kosti kenningin sem liggur að baki nýju netnámskeiði Háskóla Íslands sem er unnið í samstarfi við tölvuleikjaframleiðandann CCP. Annar kennara námskeiðsins, Ársæll Arnarson, heimsækir Lestina í dag og ræðir vináttuna. Við rýnum í tvær nýjar kvikmyndir í þætti dagsins, hryllingsmyndina A Quiet Place 2 eða Þöglavík, eins og Ásgeir H. Ingólfsson kvikmyndagagnrýnandi þýðir það, og nýja íslenska kvikmynd á ensku, Shadow Town, Skuggahverfið. Við gerum okkur ferð á Borgarbókasafnið í grófinni þar sem innsetningin Koddahjal - Endurhlaða eftir Sonju Kova?evi? var opnuð á dögunum. Framsetningin er einföld ; hátalarar hafa verið settir á samanbrjótanlega bedda, eins og notaðir eru sem rúm fyrir hælisleitendur og úr hátölurum heyrast síðan frásagnir flóttamanna á Íslandi. Í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní veltum við fyrir okkur staðhæfingu Vigdísar Finnbogadóttur frá 1980 að þjóðin ætti ekki að kjósa hana vegna þess að hún væri kona heldur af því að hún væri maður.

 • Við fáum þriðja og síðasta pistilinn frá Xinyu Zhang bókmenntafræðing í pistlaröð sem hefur yfirskriftina Formsatriði. Að þessu sinni veltir hann fyrir sér andstæðunum að standa upp og leggjast út af, og segir meðal annars frá hreyfingu og hugmyndafræði sem mætti kalla ?að-liggja-út-af-isma" en sífellt fleiri kínversk ungmenni nota þá athöfn eða athafnaleysi sem felst í að liggja út af sem andspyrnu gegn væntingum samfélagsins um virkni og velgengni. Melkork Gunborg Briansdóttir flytur innslag byggt á viðtölum hennar við þrjár ungar konur um stöðu kvenna í heimalöndum þeirra. Viðtalið var tekið árið 2017, en á enn vel við. Ein er frá Eistlandi, önnur frá Pakistan og sú þriðja frá Tælandi, en þar er hlutverki kvenna líkt við afturfætur fíls. Við höldum svo áfram að rýna í það hvernig ýmis konar annarleg sjónarmið hafa haft áhrif á framleiðslu Hollywood-kvikmynda í gegnum tíðina. Að þessu sinni fjallar Steindór Grétar Jónsson um hugmyndafræði hvitrar kynþáttahyggju og hvernig hún hefur mótað kvikmyndasöguna. Og við fáum til okkar hljómsveitina Súpersport sem var að gefa út fyrsta lagið af væntanlegri fyrstu breiðskífu sinni, Tveir dagar. Þau ætla að spjalla við okkur og leika lifandi tónlist hér í útvarpshúsinu, troða sér inn í hljóðver númer 9.

 • Við hringjum til Suður Afríku og ræðum við Baltasar Kormák, kvikmyndaleikstjóra. Hann er þar staddur við tökur á kvikmyndinni Beast með Idris Elba í aðalhlutverki. Á sama tíma er verið að frumsýna eitthvað stærsta sjónvarpsverkefni íslandssögunnar, náttúruvísindafantasíuna Kötlu, sem Baltasar á heiðurinn af. Baltasar ræðir einnig um vísindi og þjóðtrú, Hollywood og íslenskan-kvikmyndaiðnað.

 • Við einbeitum okkur að plötum og plötubúðum í tilefni af alþjóðlega plötubúðadeginum sem verður haldinn hátíðlegur nú á laugardag. Þó að hægt sé að nálgast endalaust magn tónlistar á streymisveitum á borð við Spotify er enn margir sem kaupa plötur og geisladiska, og eldhugar eru meira að segja enn að opna nýjar plötubúðir. Plötubúðin.is opnaði sem netverslun í byrjun síðasta árs en hefur nú opnað verslun í Trönuhrauni í Hafnarfirði. Við heimsækjum búðina í Lest dagsins. Í meira en aldarfjórðung hefur GusGus verið í framvarðasveit danstónlistarinnar. Meðlimaskipan hefur breyst reglulega í gegnum tíðina og nú hefur sveitin bætt við sig Margréti Rán Magnúsdóttur söngkonu úr hljómsveitinni Vök. Hún spilar stórt hlutverk á nýjustu plötu Gus Gus, Mobile Home, en Davíð Roach Gunanrsson rýnir í plötuna í þættinum. Það eru margir tengdir sterkum tilfinningaböndum þeirri plötu, kasettu eða geisladisk sem þeir keyptu fyrst. Í Lestinni í dag fáum við nokkra vel valda tónlistarunnendur í útvarpshúsinu til að segja okkur frá fyrstu plötunni sem þeir keyptu. En við byrjum á örstuttu símtali um skemmdarverk á listasýningu í Gerðubergi.

 • Síðastliðin tvö ár hefur listkennsludeild Listaháskólans unnið að uppbyggingu nýrrar námslínu við deildina, sniðna að listamönnum sem vilja vinna með jaðarhópum, og nýta listina til að stuðla að velferð, tengslamyndun og valdeflingu. Verkefnið verður kynnt á sérstakri málstofu á morgun en við fáum forsmekkinn í Lestinni í dag, þar sem þær Kristín Valsdóttir og Halldóra Arnardóttir segja okkur meðal annars frá vinnu sinni með Alzheimer sjúklingum. Við horfum inn í heim þar sem samfélagið hefur þurrkast út vegna banvænnar veiru, þar sem öll börn fæðast sem einvherskonar krúttlegir blendingar af mönnum og dýrum. Katrín Guðmundsdóttir rýnir í sjónvarpsþættina Sweet Tooth á Netflix. Tónlistarmaðurinn Haki heimsækir Lestina á eftir, en það styttist í aðra breiðskífu þessa 19 ára rappara, Undrabarnið, sem kemur út á næstu vikum. Við ræðum samstarf við Bubba, Hverfisgötuna og hvort ný kynslóð íslenskra rappara sé að stíga fram á sjónarsviðið um þessar mundir.

 • Við höldum áfram að sökkva okkur ofan í sögu annarlegra hagsmuna við gerð Hollywood-kvikmynda. Að þessu sinni ræðir Steindór Grétar Jónsson um samkrull skemmtanaiðnaðarins og Bandaríkjahers, eða það sem kallað hefur verið á ensku ?the military-entertainment complex?. Líklega hafa konur alltaf haft leiðir til að vara hvora aðra við óþægilegum, ágengum eða hættulegum karlmönnum, alltaf getað hvíslað sín á milli og vonað að skilaboðin berist réttum eyrum áður en það er.. um seinan. Á síðustu árum hafa boðleiðirnar orðið styttri, fundið sér leiðir í svokölluðum hvíslkerfum á veraldarvefnum en stundum líkur hvísluleiknum með því að einhver segir nafn þess sem rætt er um stundarhátt. Það gerðist í gær, þegar nafn lansþekkts listamanns var loks sagt í fjölmiðlum eftir margra vikna hvísl. Við skoðum aðvaranir og afsakanir. Við sláum á þráðinn til Ástralíu og ræðum við eitt heitasta númerið í neðanjarðardanstónlist í dag, hinn tvítuga pródúsent Mutant Joe, sem segir okkur frá upplifunum sínum af svokölluðum svefnhöfgaskynjunum, ofsjónum milli svefns og vöku, og nýju plötunni hans Draumspilli ? Dream corruptor - sem byggir á þessum upplifunum. Við byrjum hins vegar á internetinu. Í morgun var ég að flakka milli vefsíða í leit að erlendu umfjöllunarefni fyrir þátt dagsins, fór á milli fréttamiðla og samfélagsmiðla þegar eitthvað byrjaði að klikka. ?Error 503 service unavailable? stóð á skjánum þegar ég reyndi að opna fréttasíðu á eftir fréttasíðu. Eftir að hafa slökkt og kveikt á ráternum heima hjá mér sá ég að vandamálið var ekki mín megin. Gat þetta verið stór netárás, hugsaði ég? New York Times, Guardian, BBC, CNN lágu allar niðri auk netsíða eins og Reddit og Twitch, og svo voru undarlegir hluti í gangi á Twitter, þar birtust engin lyndistákn, emojis. Þetta var ekki bara fréttahrun heldur líka emoji-hrun. Hvaða hakkarar væru svo andstyggilegir að taka frá okkur lyndistáknin. Það var allavegana útséð að ég myndi örugglega ekki finna neitt umfjöllunarefni fyrir þáttinn á fréttasíðunum. Þess í stað ákvað ég að reyna að skilja hvað hafði átt sér stað og bauð sérfræðingi hingað í hljóðverið.

 • Í síðustu viku ræddi Lára Herborg Ólafsdóttir lögfræðingur við okkur um reglugerðardrög evrópusambandsins um gervigreind og þau tækifæri og hindranir sem felast í að setja skorður á sköpun hennar. Í dag segir hún okkur frá einni hindruninni, álitamálum um höfundarrétt þar sem mögulegur höfundarréttur apa gæti verið fordæmisgefandi. Melkorka Gunborg Briansdóttir mun flytja okkur pistla hér í Lestinni næstu mánudaga og pistli sínum í dag frá óvenjulegu skiptinámi í London á tímum heimsfaraldurs, mannlausar götur og súrrealískar messur koma meðal annars við sögu. Við heyrum líka um nýja kvikmynd hollenska listamannsins og pólitísku broddflugunnar Renzo Martens, mynd sem nefnist White Cube, en þar gerir hann tilraun til að tengja saman tvo gjörólíka en þó tengda heima, pálmaolíuplantekrur stórfyrirtækisins Unilever í einu fátækasta ríki heims, og listasöfn í stórborgum Evrópu sem eru styrkt af þessu sama stórfyrirtæki. En við ætlum að byrja á djamminu. Síðasti þáttur Lestarinnar, nú á fimmtudag var tileinkaður djamminu. Við ræddum næturhagkerfið, röktum sögu djammtónlistar og kíktum á röltið um hinsegin skemmtistaðasögu Reykjavíkur með Guðjóni Ragnari Jónssyni. Þegar við settumst niður, fótalúin eftir labbið, rákumst við á annan einstakling með sterk tengsl við samtíma sögu hinsegin djammsins. Hún er þáttastjórnandi á KissFM, hún er rappari og meðlimur Reykjavíkurdætra og hún rak til skamms tíma, hinsegin skemmtistað.

 • Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur samlífi og gagnvirkum áhrifum skemmtanalífs og nýsköpunar í tónlist. Við fræðumst um rannsóknir á næturhagkerfinu, við röltum milli sögufrægra hinsegin skemmtistaða og við skellum okkur á skrallið í Reykjavík. Milli innslaga í dag heyrum við stutt brot úr íslensku næturlífi í gegnum árin: Könnun útvarpsmannsins Páls Heiðars Jónssonar á skemmtanalífinu í Reykjavík 1973, göngutúr Markúsar Arnar Antonssonar þáverandi borgarstjóra um miðbæinn eftir lokun árið 1990, heimsókn nokkurra kvenna á skemmtistaði árið 1993 á vegum sjónvarpsþáttarins Dagsljóss, og goðsagnakennda þjóðfélagsgreiningu Páls Óskars Hjálmtýssonar úr heimildarmyndinni Popp í Reykjavík frá árinu 1998.

 • Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur möguleikanum á því að nota hraunrennsli úr eldgosum á borð við það sem nú stendur yfir á Reykjanesi til þess að búa til undirstöður nýrra og umhverfisvænni borga. Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt en arkitektarnir og mæðginin Arnhildur Pálmardóttir og Arnar Skarphéðinsson segja það þó ekkert fáránlegra en mengandi byggingariðnaður dagsins í dag. Við heyrum um þriðju þáttaröð rómantísku gaman-seríunnar Master of None en hún er sú fyrsta sem kemur út eftir að ung kona sagði nafnlaust frá stefnumóti með skapara og aðalleikara þáttanna Aziz Ansari og sagði hann hafa verið ágengan, óþægilegan og fara langt yfir mörk hennar. Júlía Margrét Einarsdóttir er hins vegar ánægð með nýju seríuna og hvernig höfundar þáttanna vinna úr málinu. Veraldarvefurinn er á einhvern máta eitt villtasta vestur samtímans sem erfitt er að koma böndum á. Þó freistar evrópusambandið þess ítrekað, fyrst svo eftir var tekið, með persónuverndarreglugerð og nú með nýjum reglum um gervigreind. Við fáum Láru Herborgu Ólafsdóttur lögmann til þess að útskýra fyrir okkur um hvað málið snýst.

 • Ef þú kíkir inn á vefsíðu Gallerí Foldar hlustandi góður þá getur þú ekki bara boðið í olímálverk, prent eða skúlptúra, þú getur freistað þess að eignast gjörning sem hófst í nóvember í fyrra og stendur enn yfir. Það er listamaðurinn Odee sem býður til sölu stafrænt upprunavottvorð fyrir gjörninginn Mom Air, en í lok síðasta árs blekkti hann fjölda fólks og fjölmiðla með falskri ásýnd nýs flugfélags. Við sökkvum okkur ofan í sögu duldar markaðssetningar í Hollywood kvikmyndum. Þetta er fyrsti pistillinn af þremur þar sem Steindór Grétar Jónsson veltir fyrir sér annarlegum sjónarmiðum við framleiðslu kvikmynda. James Bond og Josie and the Pussycats koma meðal annars við sögu. Og við veltum fyrir okkur híbýlanna litadýrð. Húsaverndarstofa vinnur nú að útgáfu leiðbeiningabæklings sem aðstoða á fólk við viðeigandi val á litum á húsamálningu eftir aldri og hönnun bygginganna. Alma Sigurðardóttir og Hjörleifur Stefánsson hjá Húsverndarstofu ræða um húsamálningu og val á réttu hefðbundnu litunum á hús

 • Í síðustu viku fór hin árlega hljómsveitakeppni Músíktilraunir fram eftir að hafa fallið niður í fyrra. Úrslitakvöldið fór fram í Hörpu á laugadag og þá kepptu 12 hljómsveitir og listamenn um sigurinn. Hljómsveitin Grafnár lenti í þriðja sæti, Eilíf sjálfsfróun var í öðru sæti en sigurvegarinn var kvintettinn Ólafur Kram. Þau stíga um borð í Lestina undir lok þáttar og segja okkur hvernig tilfinning það er að vinna Músíktilraunir. Pétur Guðmannsson réttarlæknir hefur á síðustu árum orðið var við mikinn áhuga á störfum sínum, ekki síst frá rithöfundum sem vilja vera vissir um að lýsingar þeirra á morðrannsóknum standist skoðun. Því ákvað Pétur að halda námskeið í haust, í réttarlæknisfræði fyrir rithöfunda. Og við fáum pistil númer tvö frá Xinyu Zhang (Sinn-juu Djang) bókmenntafræðing og þýðanda í pistlaröð sem hefur yfirskriftina Formsatriði. Að þessu sinni talar hann um veggi og gagnsemi þess að tala við veggi.

 • Það hafa margir beðið með eftirvæntingu eftir sérstökum Friends-endurfundaþætti sem kom út í dag. Vinir nutu áður óséðra vinsælda þegar þeir voru sýndir á árunum 1994 til 2004, og halda áfram að draga til sín nýja og nýja áhorfendur. Í Lestinni í dag veltum við fyrir okkur áhrifum og arfleifð Friendsþáttanna með Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra. Ash Walker hefur getið sér gott orð í danstónlistarsenu Lundúna með því að blanda saman sál, jazz, rhythma & blús, og latínusmellum. Davíð Roach gunnarsson segir frá þessum taktvissa tónlistarmanni og plötusnúð í Lestinni í dag. Við kíkjum svo á leiklistarnema sem undirbúa nú útskriftarsýningu sína, Krufning á sjálfsmorði nefnist verkið sem verður frumsýnt um helgina. Meira um það á eftir. En við byrjum á emórappi.