Episoder

 • Hvernig á kirkjan að ná til ungu kynslóðarinnar? Þessi spurning er nánast samgróin starfi þjóðkirkjunnar sem hefur undanfarið leitað ýmissa leiða til að boða ungum eyrum fagnaðarerindið. Séra Dagur Fannar Magnússon, prestur í Heydal í Austfjarðaprestakalli hefur sjálfur reynt ýmislegt í þeim efnum, haldið uppi stuði á TikTok og stýrt hlaðvarpinu Kirkjukastið. Nýjasti þátturinn hefur raunar vakið mikla athygli, þrátt fyrir að vera enn ekki kominn út - en hann fjallar um kristni og kynlíf. Davíð Roach Gunnarsson segir frá raftónlistarmanninum Andra Eyjólfsson sem gengir undir listamannsnafninu Andi, Nú á dögunum gaf hann út tveggja laga stuttskífinu Á meðan, sem fylgir á eftir hinni frábæru breiðskífu, Allt í einu, sem kom út árið 2018. En við ætlum að byrja á deilum um ljósmyndir. Kambódíumenn eru margir hverjir ósáttir við írskan listamann sem hefur undanfarið unnið að því að lita svarthvítar ljósmyndir frá Kambódíu og bæta við brosi á andlit fólks sem er ekki alveg nógu glaðlegt að hans mati.

 • Við kynnum okkur 30 ára gamla rússneska sjónvarpsmynd byggða á Hringadróttinssögu, mynd sem hefur slegið í gegn á Youtube, þrátt fyrir - eða kannski einmitt vegna þess - hversu hrá og heimagerð hún er. Við hringjum á Blönduós og ræðum rússnesku hringadróttinssögu við Rúnar Þór Njálsson, einhvern mesta Lord of the rings aðdáanda landsins. Þær tröllriðu tíunda áratugnum en hurfu svo nánast með öllu. Núna virðast þær hinsvegar loksins vera að sækja í sig veðrið að nýju. Við spyrjum okkur hvað olli andláti rómantísku gamanmyndanna og hvað það var sem vakti þær upp frá dauðum. Og Una Björk Kjerúlf flytur okkur pistil um djók og ólíkan húmor kynslóðanna. Um þessar mundir fara átök um það hvað telst gott grín ekki síst fram á Twitter, þar sem hinir yngri grilla en talsmenn eldri kynslóðanna græða sár sín.

 • Mangler du episoder?

  Klikk her for å oppdatere manuelt.

 • Í dag eru nákvæmlega 60 ár liðin frá því að hinn sovéski Yuri Gagarín varð fyrsti maðurinn í geimnum, fór hringinn í kringum jörðina á klukkutíma og 48 mínútum. Við nýtum tilefnið og kíkjum með Atla Þór Fanndal á kaffihús en Atli er verkefnastjóri hjá geimvísinda- og tækniskrifstofunni Space Iceland. Við höldum áfram að horfa á íslenska bíóklassík meðfram heimildarþáttunum Ísland: Bíóland sem eru sýndir um þessar mundir á RÚV. Í dag spjallar Ásgrímur Sverrisson leikstjóri þáttanna um stemningsmyndina Sódóma Reykjavík sem hefur öðlast stóran sess í dægurmenningu þjóðarinnar. Og við heyrum um einkennisbúning íslensku húsmóðurinnar á seinni hluta 20. Aldarinnar, Hagkaupssloppinn sem var til á nánast hverja einasta heimili hér á landi.

 • Silja Hauksdóttir, leikstjóri, sest um borð í Lestina þennan fimmtudaginn. Silja hefur í hátt í tvo áratugi skrifað handrit, leikstýrt kvikmyndum og sjónvarpsseríum: Dís, Stelpurnar, Ríkið, Ástríður, Agnes Joy, Kópavogskrónika og nú síðast Systrabönd, sex þátta sería á Sjónvarpi Símans um þrjár miðaldra æskuvinkonur sem þurfa að takast á við gamlar syndir þegar lík unglingsstúlku finnst í námu á Snæfellsnesi nálægt bænum þar sem þær ólust upp. Við ræðum við Silju um kvenlæga leikstjórn, fjölbreytileika á skjánum og konur sem beita ofbeldi.

 • Ingólfur Eiríksson flytur okkur sitt annað bréf til Birnu hér í Lestinni á miðvikudegi, að þessu sinni koma nördar, augnlæknar og stafsetningapróf meðal annars við sögu. Anna Marsibil kynnur sér deilur um nýjasta myndband og lag rapparans Lil Nas X, en í mynbandi við lagið Montero dansar suðurríkjarapparinn við sjálfan djöfullinn í tilraun til að hneyksla góðborgara heimsins. Og við förum í heimsókn til Þorsteins Úlfars Björnssonar áhugamanns um svepparíkið en hann hefur gefið út bók um þessa mögnuðu lífveru og sambúð manns og sveppa.

 • Yfir hátíðarnar hljómuðu þættir um heim Walt Disney teiknimynda hér á Rás 1, þættir sem nefnast Veröldin hans Walts. Þeir fóru um víðan völl, veltu fyrir sér hvort fataskápar gætu verið kynæsandi og afhverju disney dýr eru með ofvaxin augu auk þess sem sitthvor þátturinn tók fyrir illmenni og fatlanir. En hvað þá með fötluð illmenni? Við heyrum það sem út af stóð af samtali við Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, barnabókahöfund og Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur, listfræðing og baráttukonu. Sjónvarpsþættirnir Systrabönd rötuðu inn á Sjónvarp Símans fyrir páska og sjónvarpsrýnir Lestarinnar, Katrín Guðmundsdóttir sá þá alla. Þættirnir fjalla um þrjár æskuvinkonur sem þurfa að horfast í augu við drungalega fortíð. Og við kynnum okkur athyglisverða söguna á bakvið safnplötuna Red Wave, sem kom út fyrir 35 árum, árið 1986. Á plötunni heyrðu vesturlandabúar í fyrsta skipti tónlist úr sovésku neðanjarðarrokksenunni, en rokktónlist hafði verið bönnuð að mestu leyti þar í landi. Til að gera útgáfuna að veruleika smyglaði ung amerísk tónlistarkona, Joanna stingray, græjum og upptökum yfir landamærin. Við heyrum um Jóhönnu Stingskötu og síð-sovésku nýbylgjuna.

 • Júlía Margrét Einarsdóttir rýnir í Netflix-sjónvarpsþættina The One, vísindatrylli sem fjallar um leitina að hinum fullkomna maka, hina einu sönnu ást, með hjálp erfðatækni. Í upphafi vikunnar tókst eftir mikla vinnu að losa risavöruflutningaskipið Ever Given sem sat strandað í Súes-skurðinum í miðri eyðimörkinni í Egyptalandi í tæpa viku. Við veltum því fyrir okkur Lindu Björg Árnadóttur, fatahönnuður, dósent við Listaháskóla Íslands og eigandi textíl merkisins Scintilla hoppar um borð í Lestina í dag. Við ræðum við Lindu um hennar daglegu störf en spjöllum einnig við hana um einkennisbúninga: hvíta kraga, bláa kraga og kragaleysi.

 • Eydís Evensen, píanóleikari og tónskáld, er upprennandi stjarna í heimi samtímaklassíkur. Bylur nefnist hennar fyrsta plata sem kemur út á næstunni. Við heimsækjum Eydísi í dag, spjöllum um nýju plötuna og heyrum hvernig það gerðist að hún landaði samning hjá útgáfurisanum Sony. Nekt hefur verið vinsælt þema í listsköpun mannskepnunnar frá örófi alda. Stundum er hún blátt áfram, stundum er hún kynferðisleg, stundum er hún list. En hvenær er hún list? Við veltum fyrir okkur sköpum og listsköpun á nektarsjálfum samtímans. Og við heimsækjum hljómsveitin Hvörf sem gerir tónlist innblásna af svokallaðri Library Music hljóðbankatónlist, sem var fjöldaframleidd fyrir bíómyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar á seinni hluta 20. aldar. Önnur platan frá Hvörf, Music Library 02 kemur út á fimmtudag.

 • Ungur maður að nafni Bassi Maraj skapaði mikla ólgu á netheimum um helgina, eftir að hafa svarað tísti frá fjármálaráðherra Íslands fullum hálsi. Stjórnmálafræði prófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson blandaði sér í málin en uppskar einnig væna - ef glettnislega - pillu úr ranni Bassa. Bassi þessi á vinsælt lag um þessar mundir, nefnt eftir honum sjálfum, en hann er þó best þekktur úr raunveruleikaþáttunum Æði, þar sem áhrifavaldarnir Binni Glee, Patrekur Jaimie (Hæme) og auðvitað Bassi eiga sviðið. Við fáum leikstjóra þáttanna, Jóhann Kristófer Stefánsson, til að kryfja atburði helgarinnar. Við rifjum upp snilldina Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson, víkingamynd sem sækir jafnt í íslenskan sagnaarf sem ítalskra spagettívestra og japanskra samúræjamyndir. Við heyrum um ástæður þess að nánast hver einasti skandinavi þekkir þessa línu úr myndinni. Og Gígja Sara Björnsson heldur áfram að kynna sér sviðslistir í samkomubanni. Fyrir tveimur vikum ræddi hún við Friðrik Friðriksson framkvæmdastjóra Tjarnarbíós, en nú sest hún niður með Hallfríði Þóru Tryggvadótttur, listrænum stjórnanda, amerísk-skandinavíska sviðslistahópnum í New York sem hefur þurft að fara nýjar leiðir til að kynna sviðslistir norðurlanda í heimsfaraldri.

 • Bergur Ebbi Benediktsson sest um borð í Lestina í þætti dagsins. . Nýir sjónvarpsþættir hans, Stofuhiti, hefjast á Stöð 2+ í dag. Þar ætlar hann að fara með áhorfendur í hugmyndaferðalag um tækni og samtímamálefni og setja í óvænt samhengi. Þetta eru nýstárlegir þættir í sjónvarpi, hálfgerðir fyrirlestrar byggðir á bókum sem hann hefur gefið út undanfarin árið, Skjáskot og Stofuhiti. Við ræðum við Berg Ebba um samtímann, framtíðina, tæknina og hjartað.

 • Gunnar Theodór Eggertsson flytur gagnrýni um tvær myndir sem sýndar eru í íslenskum kvikmyndahúsum þessa dagana, hina óskarstilnefndu Nomadland eftir Chloé Zhao og nýja íslenska mynd Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórisson. Við veltum líka fyrir okkur internetvídd eldgossins í Geldingadölum, er gosið að eiga sér stað í raun og veru eða bara á samfélagsmiðlum? Við sláumst í för með eldri og yngri jarðfræðingum á leið að gosstöðvunum. Með í för eru einnig þrír mismunandi hljóðnemar sem velta fyrir sér: hvernig hljómar eldfjall?

 • Mexíkóski tónlistarmaðurinn og söngvarinn Chalino Sanchez er mikil alþýðuhetja í Mexíkó, Bandaríkjunum og víðar, eins konar mexíkóskur Tupac segir Þórður Ingi Jónsson. Tónlist þeirra er kannski ólík en í báðum tilvikum skrásetja textarnir ofbeldi sem var alltumlykjandi í nærumhverfi tónlistarmannanna. Chalino var ráðinn af dögunum í Mexíkó árið 1992 og er líf hans í rauninni ennþá eitt stórt spurningarmerki. Þórður Ingi segir frá merkilegu og blóði drifni lífshlaupi og dauða söngvarans Chalino Sanchez. Við kynnum nýjan pistlahöfund Ingólf Eiríksson til leiks og pistaröðina Bréf til Birnu. Ingólfur mun fara um víðan völl í bréfum sínum í lestinni. Í þessu fyrsta bréfi koma meðal annars við sögu: timburhús, steypa, myspace, aristóteles og hnakkar. Og við setjumst niður í Hljómskálagarðinum með Elíasi Arnari ljósmyndara og landfræðinema og spjöllum um landfræðiljósmyndun, um klisjuna sem er íslensk náttúra og verkefni hans Árstíðir Birkis, þar sem hann skoðar tengsl manns og náttúru í gegnum birktréð.

 • Við kynnum okkur deilur þungarokkarans Nergal úr hljómsveitinni Behemoth og stjórnvalda í heimalandi hans Póllandi. Hann hefur verið ákærður fyrir guðlast fyrir mynd sem hann deildi á instagram-síðu sinni, en stöðugt fleiri guðlastsmál eru eitt dæmið um íhaldssamari stefnu stjórnvalda Laga og Réttlætisflokksins þar í landi. Við heimsækjum Ásgrím Sverrisson kvikmyndagerðarmann og spjöllum við hann um íslenska bíóklassík 79 af stöðinni sem var sýnd í sjónvarpinu í gær á eftir heimildarþættinum Ísland Bíóland. Og Star Trek leikarinn William Shatner er níræður. Hvort hann sé geymdur í formalíni, bótoxi eða einhverju þaðan af sterkara er óljóst en hann er í það minnsta enn í fullu fjöri: leikur í kvikmyndum og kemur fram á ráðstefnum. Það var einmitt á einni slíkri sem Sveinn Ólafur Lárusson hitti hann í eigin persónu.

 • Heimildarmyndin Hálfur Álfur segir sögu manns sem undirbýr hundrað ára afmælið sitt en einnig eigin jarðarför. Í myndinni má merkja mikla nánd milli kvikmyndagerðarmannsins, Jóns Bjarka Magnússonar og viðfangsins, Trausta Breiðfjörð Magnússonar - en Trausti var afi Jóns Bjarka. Þar er nándinni þó ekki lokið, því eftir hverjar tökur kom Jón Bjarki heim til sambýliskonu sinnar, Hlínar Ólafsdóttur, og krufði daginn ? enda er hún meðframleiðandi myndarinnar og þess utan, tónskáld: spilar á gamlar og móðar harmonikkur sem kallast á við 100 ára þanin lungu Trausta. Við heimsækjum ljósmyndagalleríið Ramskram við Njálsgötu en þar opnar um helgina ljósmyndasýningin Rökræður. Jóna Þorvaldsdóttir, ljósmyndari, var viðstödd árlegan rökræðufund tíbetskra búddanunna í Indlandi árið 2012 og skrásetti á svarthvítar filmuljósmyndir. Og Davíð Roach Gunnarsson, tónlistargagnrýnandi Lestarinnar, rýnir í nýjustu plötu tyrknesk-hollensku þjóðalagasíkadelíupartýsveitarinnar Altin Gun.

 • Það er að riðja sér til rúms, enn eina ferðina, hárið sem fólk elskar að hata. Greiðslan sem gerir fólk geðveikt, klippingin sem sem er svo hallærisleg að hún er kúl. Hér er að sjálfsögðu mælt um möllettið - hártísku sem kemur aftur og aftur og rekur uppruna sinn aftur til áttunda áratugarins. ?En lágum hlífir hulinn verndarkraftur // hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur?, en hvað ætli hlífi þá sviðinni jörðu norsku útrásarvíkinganna í Exit? Katrín Guðmundsdóttir rýnir í aðra seríu norsku sjónvarpsþattanna útrás. Kínverski leikstjórinn Chloé Zhao varð á dögunum fyrsta konan af asískum uppruna og önnur konan yfirhöfuð til að hljóta Golden Globe verðlaunin fyrir leikstjórn. Hún var aftur sett á sögulegan pall á mánudag þegar hún hlaut tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn, en hingað til hefur aðeins karlmönnum og hvítum konum hlotnast sá heiður. Kínverjar voru ánægðir með Chloe sína, en fagnaðarlætin voru fljót að breytast í baul eftir að gömul ummæli hennar um upprunalandið voru dregin upp af þjóðernissinnuðum netverjum á dögunum.

 • Úrslitakvöld Skrekks fór fram í gær, en þar keppa grunnskólar Reykjavíkur í gamalgróinni hæfileikakeppni. Fjöldi unglinga tekur þátt í atriðunum sem innihalda frumsaminn hópdans og söng, oftar en ekki með heilnæmum boðskap. Að þessu sinni var það Langholtsskóli sem sigraði í keppninni með atriðið Borðorðin 10. Við heimsækjum skólann og spyrjum hvaða boðorð það eru sem íslenskir unglingar þurfa að fylgja í dag - og lærum örlítið um ný hugtök í unglingaorðaforðanum. Una Björk Kjerúlf er eins og svo margir búnir að rifja upp menntaskólajarðfræðinai. Hún hefur rifjað upp jarðhræringar fyrri tíma og veltir fyrir sér sviðsmyndum þess sem gæti átt sér stað síðar, hún skoðar bjartsýnustu sviðsmyndir veðurstofunnar en pælir þó aðallega í þeim svartsýnustu. Og við heyrum um segulbandaframleiðslu á Ólafsfirði á tíunda áratugnum.

 • Í gær hófst heimildaþáttaröðin Ísland: Bíóland eftir Ásgrím Sverrisson, 10 þátta röð þar sem saga íslenskrar kvikmyndagerðar er rakin í máli og myndum. Á eftir þættinum á sunnudagskvöldum sýnir sjónvarpið svo eina sígilda bíómynd sem tengist efni þáttarins á undan. Við í Lestinni ætlum að taka þátt í þessari kvikmyndasöguveislu og á mánudögum næstu vikur ætlum við að kíkja í kaffi til Ásgríms og fáum hann til að segja okkur aðeins nánar frá klassík vikunnar. Að þessu sinni er það hin sænsk-íslenska Salka Valka frá 1954. Faðir segulbandsins, uppfinningamaðurinn Lou Ottens lést í síðustu viku 94 ára að aldri. Kassettann átti sinn blómatíma á áttunda og níunda áratugnum, en allar yfirlýsingar um andlát segulbandsins eru hins vegar ótímabærar. Þrátt fyrir að muna fífil sinn fegurri lifir kasettann enn ágætu lífi á jaðri tónlistarlífsins. Gígja Björnsson ætlar á næstu vikum að taka púlsinn á íslensku leikhúsi fyrir okkur í Lestinni. Í fyrsta innslagi sínu heimsækir hún Tjarnarbíó og ræðir þar við Friðrik Friðriksson framkvæmdastjóra um lífróður leikhúsanna í heimsfaraldri og hvernig sviðslistin skoðanir þennan undarlega samtíma. Við heyrum líka um Grammy-verðlaunahátíðina og tilnefningar til óskarsverðlauna sem voru opinberaðar í dag.

 • Mikil leynd hefur ríkt yfir framlagi Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, en tónlistarmaðurinn Daði Freyr, sigurvegari undankeppinnar í fyrra, var fenginn til að semja lag fyrir keppnina í ár. Seint í gærkvöldi bárust þær fréttir að hinu leyndardómsfulla lagi hafi verið lekið á netið en sérfræðingarnir í Fáses segja að raunar hafi nær öllum lögum ársins hingað til verið lekið á rússnenskan samfélagsmiðil. Við heimsækjum tilraunarýmið Space Oddyssey sem opnaði nú um helgina. Það eru tónlistarmaðurinn Pan Thorarensen og fatahönnuðurinn Guðrún Lárusdóttir sem halda rýminu úti við laugarveg, þar sem þau verða með allt í senn plötubúð, fataskipti og tónleikarými fyrir sveimandi tilraunatónlist. Leikarinn Jonah Hill hefur mátt þola mikið aðkast frá fjölmiðlum vegna líkama síns síðasta rúma áratuginn en segist nú í fyrsta sinn sáttur í eigin skinni. Við kynnum okkur málið og fjöllum um fitusmánun í Hollywood. Og við heyrum um þýska kvikmyndadaga sem hefjast í Bíó Paradís um helgina.

 • Gunnar Theodór Eggertsson rýnir í tvær kvikmyndir sem eru í bíó þessa dagana, Disneymyndina Raya og síðasti drekinn og heimildarmyndina A Song Called Hate þar sem skyggnst er bakvið tjöldin í umdeildri Eurovision-þátttöku Hatara í Ísrael fyrir rétt um tveimur árum síðan, mynd sem tekst á við mótsagnirnar í list hatara og flækjurnar í pólitískri listsköpun Við ræðum líka við hjónin Ársæl Rafn og Lovísu Láru um afkvæmi þeirra, hryllingsmyndahátíðina Frostbiter, sem fer fram í fimmta skipti á Akranesi um helgina. Auk nýrra og sígildra mynda í fullri lengd verða hátt í fjörtíu stuttmyndir verða sýndar á hátíðinni í ár, bæði erlendar og íslenskar - en hrollvekjur hafa að mati þeirra hjón ekki verið nógu áberandi í íslensku kvikmyndalandslagi. Það hefur lítið verið um íslenska framleiðslu á raunveruleikaþáttum undanfarin ár, en það gæti breyst með vinsældum sjónvarpsþáttanna Æði en þar er fylgt eftir vinunum og samfélagsmiðladívunum Patreki Jamie, Binna Glee og Bassa. Önnur þáttaröð Æði var sýnd á stöð 2 á dögunum, Júlía Margrét Einarsdóttur hefur skemmt sér yfir hámhorfi á þættina, en mælir hins vegar frekar með að fólk taki þá í smærri skömmtum

 • Halldór Armand hefur verið að horfa á nýjustu þáttaröð breska heimildarmyndagerðarmannsins Adam Curtis, sem nefnist Can?t Get you out of my head. Þessi 8 klukktutíma vídjóesseyja Curtis gerir tilraun til að greina tilurð samtímans í gegnum tilfinningar og persónulegar sögur fólks. Halldór Armand tengir hana við klassísk þemu um sjálfið og farsæld Við pælum í borgaralegri óhlýðni og réttinum til að mótmæla. Hópur aðgerðasinna vill nú vekja athygli á því sem þau vilja meina að sé misnotkun íslenskra yfirvalda á 19. Grein lögregluyfirvalda, það er greinin sem segir að hlýða beri fyrirmælum lögreglu. Þau vilja meina að með víðri túlkun á greininni, handtökum, ákærum og dómum á grundvelli hennar, sé í raun búið að glæpavæða friðsöm mótmæli. Kvikmyndargerðarmaðurinn Kristín Andrea Þórðardóttir tekur sér far með Lestinni í dag. Hún segir okkur frá heimildarmyndinni Er ást, sem hlaut áhorfendaverðlaunin Einarinn á Skjaldborgarhátíðinni í fyrra en verður loks tekin til almenna sýninga í Bíó Paradís á fimmtudag. Er ást segir söguna af sambandi tveggja listamanna, þeirra Þorvaldar Þorsteinssonar og Helenu Jónsdóttur, og staðsetur sig í sorginni sem fylgdi fráfalli Þorvaldar.