Episodi

 • Eftir því sem tölvuleikjaiðnaðurinn hefur stækkað hafa áhrif hans orðið víðtækari, efnahagslega, menningarlega og ekki síst á persónuleg samskipti fólks. Einstaklingar spjalla, þeir kynnast, verða vinir, fella hugi saman í gegnum stafræna hliðarheima tölvuleikjanna. Tölvuleikir geta á vissan hátt virkað eins og vináttuvélar. Það er að minnsta kosti kenningin sem liggur að baki nýju netnámskeiði Háskóla Íslands sem er unnið í samstarfi við tölvuleikjaframleiðandann CCP. Annar kennara námskeiðsins, Ársæll Arnarson, heimsækir Lestina í dag og ræðir vináttuna. Við rýnum í tvær nýjar kvikmyndir í þætti dagsins, hryllingsmyndina A Quiet Place 2 eða Þöglavík, eins og Ásgeir H. Ingólfsson kvikmyndagagnrýnandi þýðir það, og nýja íslenska kvikmynd á ensku, Shadow Town, Skuggahverfið. Við gerum okkur ferð á Borgarbókasafnið í grófinni þar sem innsetningin Koddahjal - Endurhlaða eftir Sonju Kova?evi? var opnuð á dögunum. Framsetningin er einföld ; hátalarar hafa verið settir á samanbrjótanlega bedda, eins og notaðir eru sem rúm fyrir hælisleitendur og úr hátölurum heyrast síðan frásagnir flóttamanna á Íslandi. Í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní veltum við fyrir okkur staðhæfingu Vigdísar Finnbogadóttur frá 1980 að þjóðin ætti ekki að kjósa hana vegna þess að hún væri kona heldur af því að hún væri maður.

 • Við fáum þriðja og síðasta pistilinn frá Xinyu Zhang bókmenntafræðing í pistlaröð sem hefur yfirskriftina Formsatriði. Að þessu sinni veltir hann fyrir sér andstæðunum að standa upp og leggjast út af, og segir meðal annars frá hreyfingu og hugmyndafræði sem mætti kalla ?að-liggja-út-af-isma" en sífellt fleiri kínversk ungmenni nota þá athöfn eða athafnaleysi sem felst í að liggja út af sem andspyrnu gegn væntingum samfélagsins um virkni og velgengni. Melkork Gunborg Briansdóttir flytur innslag byggt á viðtölum hennar við þrjár ungar konur um stöðu kvenna í heimalöndum þeirra. Viðtalið var tekið árið 2017, en á enn vel við. Ein er frá Eistlandi, önnur frá Pakistan og sú þriðja frá Tælandi, en þar er hlutverki kvenna líkt við afturfætur fíls. Við höldum svo áfram að rýna í það hvernig ýmis konar annarleg sjónarmið hafa haft áhrif á framleiðslu Hollywood-kvikmynda í gegnum tíðina. Að þessu sinni fjallar Steindór Grétar Jónsson um hugmyndafræði hvitrar kynþáttahyggju og hvernig hún hefur mótað kvikmyndasöguna. Og við fáum til okkar hljómsveitina Súpersport sem var að gefa út fyrsta lagið af væntanlegri fyrstu breiðskífu sinni, Tveir dagar. Þau ætla að spjalla við okkur og leika lifandi tónlist hér í útvarpshúsinu, troða sér inn í hljóðver númer 9.

 • Episodi mancanti?

  Fai clic qui per aggiornare il feed.

 • Við hringjum til Suður Afríku og ræðum við Baltasar Kormák, kvikmyndaleikstjóra. Hann er þar staddur við tökur á kvikmyndinni Beast með Idris Elba í aðalhlutverki. Á sama tíma er verið að frumsýna eitthvað stærsta sjónvarpsverkefni íslandssögunnar, náttúruvísindafantasíuna Kötlu, sem Baltasar á heiðurinn af. Baltasar ræðir einnig um vísindi og þjóðtrú, Hollywood og íslenskan-kvikmyndaiðnað.

 • Við einbeitum okkur að plötum og plötubúðum í tilefni af alþjóðlega plötubúðadeginum sem verður haldinn hátíðlegur nú á laugardag. Þó að hægt sé að nálgast endalaust magn tónlistar á streymisveitum á borð við Spotify er enn margir sem kaupa plötur og geisladiska, og eldhugar eru meira að segja enn að opna nýjar plötubúðir. Plötubúðin.is opnaði sem netverslun í byrjun síðasta árs en hefur nú opnað verslun í Trönuhrauni í Hafnarfirði. Við heimsækjum búðina í Lest dagsins. Í meira en aldarfjórðung hefur GusGus verið í framvarðasveit danstónlistarinnar. Meðlimaskipan hefur breyst reglulega í gegnum tíðina og nú hefur sveitin bætt við sig Margréti Rán Magnúsdóttur söngkonu úr hljómsveitinni Vök. Hún spilar stórt hlutverk á nýjustu plötu Gus Gus, Mobile Home, en Davíð Roach Gunanrsson rýnir í plötuna í þættinum. Það eru margir tengdir sterkum tilfinningaböndum þeirri plötu, kasettu eða geisladisk sem þeir keyptu fyrst. Í Lestinni í dag fáum við nokkra vel valda tónlistarunnendur í útvarpshúsinu til að segja okkur frá fyrstu plötunni sem þeir keyptu. En við byrjum á örstuttu símtali um skemmdarverk á listasýningu í Gerðubergi.

 • Síðastliðin tvö ár hefur listkennsludeild Listaháskólans unnið að uppbyggingu nýrrar námslínu við deildina, sniðna að listamönnum sem vilja vinna með jaðarhópum, og nýta listina til að stuðla að velferð, tengslamyndun og valdeflingu. Verkefnið verður kynnt á sérstakri málstofu á morgun en við fáum forsmekkinn í Lestinni í dag, þar sem þær Kristín Valsdóttir og Halldóra Arnardóttir segja okkur meðal annars frá vinnu sinni með Alzheimer sjúklingum. Við horfum inn í heim þar sem samfélagið hefur þurrkast út vegna banvænnar veiru, þar sem öll börn fæðast sem einvherskonar krúttlegir blendingar af mönnum og dýrum. Katrín Guðmundsdóttir rýnir í sjónvarpsþættina Sweet Tooth á Netflix. Tónlistarmaðurinn Haki heimsækir Lestina á eftir, en það styttist í aðra breiðskífu þessa 19 ára rappara, Undrabarnið, sem kemur út á næstu vikum. Við ræðum samstarf við Bubba, Hverfisgötuna og hvort ný kynslóð íslenskra rappara sé að stíga fram á sjónarsviðið um þessar mundir.

 • Við höldum áfram að sökkva okkur ofan í sögu annarlegra hagsmuna við gerð Hollywood-kvikmynda. Að þessu sinni ræðir Steindór Grétar Jónsson um samkrull skemmtanaiðnaðarins og Bandaríkjahers, eða það sem kallað hefur verið á ensku ?the military-entertainment complex?. Líklega hafa konur alltaf haft leiðir til að vara hvora aðra við óþægilegum, ágengum eða hættulegum karlmönnum, alltaf getað hvíslað sín á milli og vonað að skilaboðin berist réttum eyrum áður en það er.. um seinan. Á síðustu árum hafa boðleiðirnar orðið styttri, fundið sér leiðir í svokölluðum hvíslkerfum á veraldarvefnum en stundum líkur hvísluleiknum með því að einhver segir nafn þess sem rætt er um stundarhátt. Það gerðist í gær, þegar nafn lansþekkts listamanns var loks sagt í fjölmiðlum eftir margra vikna hvísl. Við skoðum aðvaranir og afsakanir. Við sláum á þráðinn til Ástralíu og ræðum við eitt heitasta númerið í neðanjarðardanstónlist í dag, hinn tvítuga pródúsent Mutant Joe, sem segir okkur frá upplifunum sínum af svokölluðum svefnhöfgaskynjunum, ofsjónum milli svefns og vöku, og nýju plötunni hans Draumspilli ? Dream corruptor - sem byggir á þessum upplifunum. Við byrjum hins vegar á internetinu. Í morgun var ég að flakka milli vefsíða í leit að erlendu umfjöllunarefni fyrir þátt dagsins, fór á milli fréttamiðla og samfélagsmiðla þegar eitthvað byrjaði að klikka. ?Error 503 service unavailable? stóð á skjánum þegar ég reyndi að opna fréttasíðu á eftir fréttasíðu. Eftir að hafa slökkt og kveikt á ráternum heima hjá mér sá ég að vandamálið var ekki mín megin. Gat þetta verið stór netárás, hugsaði ég? New York Times, Guardian, BBC, CNN lágu allar niðri auk netsíða eins og Reddit og Twitch, og svo voru undarlegir hluti í gangi á Twitter, þar birtust engin lyndistákn, emojis. Þetta var ekki bara fréttahrun heldur líka emoji-hrun. Hvaða hakkarar væru svo andstyggilegir að taka frá okkur lyndistáknin. Það var allavegana útséð að ég myndi örugglega ekki finna neitt umfjöllunarefni fyrir þáttinn á fréttasíðunum. Þess í stað ákvað ég að reyna að skilja hvað hafði átt sér stað og bauð sérfræðingi hingað í hljóðverið.

 • Í síðustu viku ræddi Lára Herborg Ólafsdóttir lögfræðingur við okkur um reglugerðardrög evrópusambandsins um gervigreind og þau tækifæri og hindranir sem felast í að setja skorður á sköpun hennar. Í dag segir hún okkur frá einni hindruninni, álitamálum um höfundarrétt þar sem mögulegur höfundarréttur apa gæti verið fordæmisgefandi. Melkorka Gunborg Briansdóttir mun flytja okkur pistla hér í Lestinni næstu mánudaga og pistli sínum í dag frá óvenjulegu skiptinámi í London á tímum heimsfaraldurs, mannlausar götur og súrrealískar messur koma meðal annars við sögu. Við heyrum líka um nýja kvikmynd hollenska listamannsins og pólitísku broddflugunnar Renzo Martens, mynd sem nefnist White Cube, en þar gerir hann tilraun til að tengja saman tvo gjörólíka en þó tengda heima, pálmaolíuplantekrur stórfyrirtækisins Unilever í einu fátækasta ríki heims, og listasöfn í stórborgum Evrópu sem eru styrkt af þessu sama stórfyrirtæki. En við ætlum að byrja á djamminu. Síðasti þáttur Lestarinnar, nú á fimmtudag var tileinkaður djamminu. Við ræddum næturhagkerfið, röktum sögu djammtónlistar og kíktum á röltið um hinsegin skemmtistaðasögu Reykjavíkur með Guðjóni Ragnari Jónssyni. Þegar við settumst niður, fótalúin eftir labbið, rákumst við á annan einstakling með sterk tengsl við samtíma sögu hinsegin djammsins. Hún er þáttastjórnandi á KissFM, hún er rappari og meðlimur Reykjavíkurdætra og hún rak til skamms tíma, hinsegin skemmtistað.

 • Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur samlífi og gagnvirkum áhrifum skemmtanalífs og nýsköpunar í tónlist. Við fræðumst um rannsóknir á næturhagkerfinu, við röltum milli sögufrægra hinsegin skemmtistaða og við skellum okkur á skrallið í Reykjavík. Milli innslaga í dag heyrum við stutt brot úr íslensku næturlífi í gegnum árin: Könnun útvarpsmannsins Páls Heiðars Jónssonar á skemmtanalífinu í Reykjavík 1973, göngutúr Markúsar Arnar Antonssonar þáverandi borgarstjóra um miðbæinn eftir lokun árið 1990, heimsókn nokkurra kvenna á skemmtistaði árið 1993 á vegum sjónvarpsþáttarins Dagsljóss, og goðsagnakennda þjóðfélagsgreiningu Páls Óskars Hjálmtýssonar úr heimildarmyndinni Popp í Reykjavík frá árinu 1998.

 • Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur möguleikanum á því að nota hraunrennsli úr eldgosum á borð við það sem nú stendur yfir á Reykjanesi til þess að búa til undirstöður nýrra og umhverfisvænni borga. Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt en arkitektarnir og mæðginin Arnhildur Pálmardóttir og Arnar Skarphéðinsson segja það þó ekkert fáránlegra en mengandi byggingariðnaður dagsins í dag. Við heyrum um þriðju þáttaröð rómantísku gaman-seríunnar Master of None en hún er sú fyrsta sem kemur út eftir að ung kona sagði nafnlaust frá stefnumóti með skapara og aðalleikara þáttanna Aziz Ansari og sagði hann hafa verið ágengan, óþægilegan og fara langt yfir mörk hennar. Júlía Margrét Einarsdóttir er hins vegar ánægð með nýju seríuna og hvernig höfundar þáttanna vinna úr málinu. Veraldarvefurinn er á einhvern máta eitt villtasta vestur samtímans sem erfitt er að koma böndum á. Þó freistar evrópusambandið þess ítrekað, fyrst svo eftir var tekið, með persónuverndarreglugerð og nú með nýjum reglum um gervigreind. Við fáum Láru Herborgu Ólafsdóttur lögmann til þess að útskýra fyrir okkur um hvað málið snýst.

 • Ef þú kíkir inn á vefsíðu Gallerí Foldar hlustandi góður þá getur þú ekki bara boðið í olímálverk, prent eða skúlptúra, þú getur freistað þess að eignast gjörning sem hófst í nóvember í fyrra og stendur enn yfir. Það er listamaðurinn Odee sem býður til sölu stafrænt upprunavottvorð fyrir gjörninginn Mom Air, en í lok síðasta árs blekkti hann fjölda fólks og fjölmiðla með falskri ásýnd nýs flugfélags. Við sökkvum okkur ofan í sögu duldar markaðssetningar í Hollywood kvikmyndum. Þetta er fyrsti pistillinn af þremur þar sem Steindór Grétar Jónsson veltir fyrir sér annarlegum sjónarmiðum við framleiðslu kvikmynda. James Bond og Josie and the Pussycats koma meðal annars við sögu. Og við veltum fyrir okkur híbýlanna litadýrð. Húsaverndarstofa vinnur nú að útgáfu leiðbeiningabæklings sem aðstoða á fólk við viðeigandi val á litum á húsamálningu eftir aldri og hönnun bygginganna. Alma Sigurðardóttir og Hjörleifur Stefánsson hjá Húsverndarstofu ræða um húsamálningu og val á réttu hefðbundnu litunum á hús

 • Í síðustu viku fór hin árlega hljómsveitakeppni Músíktilraunir fram eftir að hafa fallið niður í fyrra. Úrslitakvöldið fór fram í Hörpu á laugadag og þá kepptu 12 hljómsveitir og listamenn um sigurinn. Hljómsveitin Grafnár lenti í þriðja sæti, Eilíf sjálfsfróun var í öðru sæti en sigurvegarinn var kvintettinn Ólafur Kram. Þau stíga um borð í Lestina undir lok þáttar og segja okkur hvernig tilfinning það er að vinna Músíktilraunir. Pétur Guðmannsson réttarlæknir hefur á síðustu árum orðið var við mikinn áhuga á störfum sínum, ekki síst frá rithöfundum sem vilja vera vissir um að lýsingar þeirra á morðrannsóknum standist skoðun. Því ákvað Pétur að halda námskeið í haust, í réttarlæknisfræði fyrir rithöfunda. Og við fáum pistil númer tvö frá Xinyu Zhang (Sinn-juu Djang) bókmenntafræðing og þýðanda í pistlaröð sem hefur yfirskriftina Formsatriði. Að þessu sinni talar hann um veggi og gagnsemi þess að tala við veggi.

 • Það hafa margir beðið með eftirvæntingu eftir sérstökum Friends-endurfundaþætti sem kom út í dag. Vinir nutu áður óséðra vinsælda þegar þeir voru sýndir á árunum 1994 til 2004, og halda áfram að draga til sín nýja og nýja áhorfendur. Í Lestinni í dag veltum við fyrir okkur áhrifum og arfleifð Friendsþáttanna með Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra. Ash Walker hefur getið sér gott orð í danstónlistarsenu Lundúna með því að blanda saman sál, jazz, rhythma & blús, og latínusmellum. Davíð Roach gunnarsson segir frá þessum taktvissa tónlistarmanni og plötusnúð í Lestinni í dag. Við kíkjum svo á leiklistarnema sem undirbúa nú útskriftarsýningu sína, Krufning á sjálfsmorði nefnist verkið sem verður frumsýnt um helgina. Meira um það á eftir. En við byrjum á emórappi.

 • Á laugardag fögnuðu áhugamenn um hljóðgervilinn, synthesizerinn, alþjóðlegum degi hljóðfærisins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim á fæðingardegi Roberts Moog sem fann upp fyrsta hljóðgervilinn. Hér á landi var deginum fagnað með hljóðgervlamessu í borgarbókasafni Reykjavíkur. Lestin kíkti við, prófaði græjurnar og ræddi við syntha-áhugafólk. Kvikmyndahátíðin Stockfish fer fram þessa dagana í Bíó Paradís. Í þættinum í dag rýnir Ásgeir Ingólfsson í nýja íslenska heimildarmynd Apausalypse sem er frumsýnd á hátíðinni og segir frá myndum í stuttmyndahluta hátíðarinnar, Sprettfisknum svokallaða, sem fór fram um helgina. Indípoppsveitin BSÍ gaf út sína fyrstu breiðskífu á dögunum, plata sem skiptist í tvennt eftir takti og viðfangsefnum, Fyrri parturinn nefnist Stundum þunglynd... og sá síðari En Alltaf andfasískt. Við ræðum við tvíeykið BSÍ um pólitíska texta og hvað það þýðir að spila pönk.

 • Óli Valur Pétursson meistaranemi í fjölmiðla- og boðskiptafræði við Háskólann á Akureyri skilaði lokaritgerð sinni á dögunum: viðtalsrannsókn um upplifun rappara ? og þá sérstaklega kvenkyns rappara - á fjölmiðlaumfjöllun. Hann deilir með okkur nokkrum af sínum megin niðurstöðum og sögunum sem hann fékk að heyra við gerð rannsóknarinnar. Hvernig stöndum við með undirokuðum og minnihlutahópum, hvernig sýnum við samstöðu og hvernig erum við bandamenn hópa í réttindabaráttu? Chanel Björk Sturludóttir ræðir um samstöðu og bandamenn við Hjalta Vigfússon og Miriam Petru Awad. Á sunnudag lauk heimildaþáttaröðinni Ísland Bíóland eftir Ásgrim Sverrisson, sem má vafalaust segja að sé brautryðjendaverk, 10 þátta röð um sögu íslenskra kvikmynda. Það hefur verið halfgerð kvikmyndaveisla á RÚV undanfarna mánuði þar sem fjöldi íslenskra mynda hafa verið sýnda og gerðar aðgengilegar í spilara RÚV. Við í lestinni höfum tekið þátt með því að ræða við Ásgrím um þær myndir, þá íslensku bíóklassík, sem hefur verið sýnd á eftir þættinum hvert sunnudagskvöld og nú ræðum við um kvikmyndina Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson.

 • Sumir myndu kalla fimmtudagsviðtölin í Lestinni drottningarviðtöl og það er svo sannarlega nafn með rentu í þetta skiptið. Fimmtudagsgestur Lestarinnar þessa vikuna er Kristín Þorkelsdóttir, myndlistarkona og einn helsti brautryðjandi landsins á sviði grafískrar hönnunar. Hún á ótal þjóðþekkt verk sem voru og eru hvað mest áberandi í hversdagsleikanum: matarumbúðir, bækur, vörumerki, og peningaseðla - en nú stendur yfir sýning í Hönnunarsafni Íslands, þar sem gefur að líta verkin sjálf og í sumum tilvikum, skissur og uppköst að þeim.

 • Metoo bylgja síðustu vikna fleytti sumum sögum upp á yfirborðið. Aðrar mara enn í undiröldunni. Undanfarið hefur ein slík risið hærra og hærra, saga af þjóðþekktum einstakling sem sagður er krefja fólk sem hann sængar með um undirritun NDA samnings ? nokkurs konar loforð um trúnað. En ef slíkir samningar eru gerðir, standast þeir lög? Við ræðum NDA samninga við Védísi Evu Guðmundsdóttur lögmann. Á dögunum kom út bókin Eikonomics, hagfræði á mannamáli, þar sem Eiríkur Ragnarsson notar tæki hagfræðinnar til að velta fyrir sér hver á að vaska upp eftir matinn, af hverju fleiri atvinnuíþrótta eru fæddir í janúar en aðra mánuði, og af hverju tónlistarmenn verða óvinsælli með aldrinum. Katrín Guðmundsdóttir sjónvarpsrýnir kemur svo við í Lestinni og segir frá heimildarmyndinni My Octupus Teacher, Kolkrabbakennarinn minn, sem fjallar um stórmerkilega vinátta manns og kolkrabba, mynd sem hlaut óskarsverðlaunin sem besta heimildarmyndin nú á dögunum.

 • Veiran kom fyrst yfir landamærin snemma árs 2020, kannski með skíðafólki úr efri lögum samfélagsins, kannski eitthvað fyrr. Á síðustu mánuðum hafa augu samfélagsins hinsvegar beinst að öðrum hópum: farandverkafólki og innflytjendum, og umræðan varð á tíma svo hatrömm að þríeykinu þótti ástæða til að vara við henni. Chanel Björk Sturludóttir grípur hljóðnemann í Lestinni í dag og ræðir við mannfræðinginn Önnu Wojty?ska um útlendingaandúð í orðræðu og athöfnum íslendinga í heimsfaraldri. Ingólfur Eiríksson flytur okkur sitt fimmta og síðasta bréf til Birnu. Að þessu sinni er það ábyrgð og alvara fullorðinsáranna sem er viðfangsefnið, atvinnuviðtöl og húsnæðislán, og lífsviskan og náungakærleikurinn í grínmyndinni Stepbrothers með Will Ferrell. Og raftónlistartríóið Sideproject heimsækir Lestina, en nokkuð suð hefur verið í kringum sveitina í tilraunakenndari kimum reykvísku jaðartónlistarsenunnar. Þeir ræða um nýjustu plötu sína Radio Vatican EP og það hvernig best er að tala um raftónlist og hvernig þeir sjá fyrir sér hljóðin.

 • Hin árlega hönnunarhátíð Hönnunarmars hefst á miðvikudag, tveimur mánuðum á eftir áætlun. Alfrun Palsdóttir kynningarstjóri heimsækir lestina í síðari hluta þáttarins og segir frá hátíðinni. Og meira af hönnun. Hún var fatahönnuður, hann teiknaði myndasögur. Gæti einu sinni Avril Lavigne gert þetta nokkuð augljósara? Jú kannski, því í fyrstu virðast Eygló og Hugleikur Dagsson ekki augljós samsetning listamanna en nú hafa þau engu að síður unnið saman að fatalínu sem sýnd verður á hönnunarmars. En hvernig föt eru þau eiginlega að sýna? Xinyu Zhang (Sinn-ju Dhjang), bókmenntafræðingur og þýðandi, flytur okkur pistil í Lestinni í dag um það ?að kunna ekkert annað? og hvað þetta þýðir í raun og veru. En við byrjum vikuna eins og alltaf þessa dagana á íslenskri bíóklassík. Í þetta sinn er það Vonarstræti.

 • Tæknin er að breyta raunveruleika okkar. Hin svokallaða AR-tækni, augmented reality eða breyttur veruleiki felst í því að færa stafrænar upplýsingar úr snjalltækjum og inn á sjónsvið okkar. Í gegnum snjallgleraugu og í náinni framtíð jafnvel í linsur. Við ræðum um viðbættan veruleika við Þorgeir F. Óðinsson, framkvæmdastjóra tölvuleikjafyrirtækisins Directive Games. Í gær voru 40 ár síðan fimmta stúdíó plata jamaísku tónlistarkonunnar Grace Jones kom út. Sú heitir Nightclubbing og er í miklu uppáhaldi hjá tónlistargagnrýnanda Lestarinnar, Davíð Roach Gunnarssyni. Lovísa Tómasdóttir ólst upp í næstu sveit við Árný Fjólu Ásmundsdóttur og núna er hún fatahönnuður Gagnamagnsins. Við hringjum til Rotterdam þar sem Lovísa lifir í draumi. Í síðustu viku birtist umslag á skrifborði Nichole Leigh Mosty, forstöðumanns Fjölmenningarseturs á Ísafirði. Umslagið bar nafnið hennar ? skrifað vitlaust ? og innihélt geisladiska með námsefni í íslensku fyrir byrjendur. Jelena Ciric er hugsi yfir þessu atviki og tengir það við eigin upplifanir, þar sem áhyggjur af stöðu íslenskunnar voru nýttar sem yfirvarp fyrir fordóma.

 • Nýjasta bylgjan í Metoo-hreyfingunni svokölluðu á Íslandi hefur skollið á okkur undanfarna viku, enn eitt uppgjör samfélagsins við rótgróið kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi, Nú birtir fólk, að mestu leyti konur, frásagnir sínar undir nafni á samfélagsmiðlinum Twitter, sögur sem segja stundum frá alvarlegum nauðgunum og kynferðisofbeldi og stundum frá áreitni eða atvikum þar sem mörkin eru óljósari. Í þessari bylgju hefur umræðan ekki síst snúist um það hvernig samfélagið á það til að trúa og taka afstöðu með gerendum í slíkum málum. Og hún verður stöðugt háværari krafan um að karlar þurfi að taka ábyrgð á sjálfum sér, sinni hegðun og skorist ekki undan samtalinu við vini og vandamenn sem gerast brotlegir. En hvernig gerum við þetta, hvernig taka karlar ábyrgð sem hópur og sem einstaklingar, hvernig getur maður tekið þátt í að breyta þessari menningu. Í Lest dagsins verður boðað til pallborðsumræða með þremur körlum þar sem ábyrgð karla verður rædd, gestir eru Matthías Tryggvi Haraldsson, sviðshöfundur og Hatari, Árni Matthíasson, blaðamaður og fyrrverandi bátsmaður, og Garðar Gunnlaugsson, knattspyrnumaður og innréttingamógúll. Í lok þáttar verður svo rætt við Hjálmar G. Sigmarsson ráðgjafa hjá Stígamótum um námskeiðið Bandamenn þar sem hann aðstoðar karlmenn að taka ábyrgð og stuðla að breytingum.