Folgen
-
Við ákváðum að brjóta upp okkar tímabundnu pásu og taka upp þennan þátt.
Þátturinn er með öðru sniði en vanalega þar sem viðmælandinn Dan Sullivan er ekki af íslensku bergi brotinn. Dan byggði upp fyrirtækið Strategic Coach ásamt eiginkonu sinni Barböru. Þau mynda frábært teymi þar sem hann hefur verið hugmyndasmiðurinn og hún hefur byggt reksturinn upp á þeim hugmyndum.
Strategic Coach hjálpar fólki sem stundar viðskipti að ná betri árangri. Fyrirtækið hefur unnið með yfir 20 þúsund einstaklingum frá 46 löndum.
Það má segja að Dan sé meistari meistaranna í þeim skilningi að til hans leita margir frumkvöðlar og fyrirtækjaeigendur sem skara fram úr. Dan kennir einungis eitt námskeið sjálfur og það kostar litlar $100,000 á mann að fá fjóra daga með honum í 60 manna hóp.
Dan er með stór markmið fyrir sjálfan sig og fyrirtækið sitt, sem hann deilir með okkur í viðtalinu. Hann bendir einnig á ákveðin tækifæri fyrir Ísland sem gætu komið upp úr kófinu.
Margt úr efni Strategic Coach hefur gagnast okkur hjá Alfa Framtak og við vildum því deila því með ykkur kæru hlustendur. Okkur fannst líka sérstaklega viðeigandi að tala við Dan núna þar sem margt fólk og fyrirtæki eru með mótvind í fanginu í kjölfar Covid. Það er líka svo mikilvægt fyrir okkur að horfa reglulega út fyrir landsteinana og týnast ekki alveg í hringiðunni hérna heima.
Í þessu stutta spjalli okkar var aðeins hægt að stikla á stóru á því sem Dan hefur fram að færa. Hér að neðan eru tenglar á tól sem við ræðum um í samtalinu og hægt er að nálgast frítt:
Ókeypis rafbók, Self Managing Company: https://bit.ly/selfmanagingcompany
Impact Filter: https://bit.ly/impactfilter
Win Streak App: https://bit.ly/appwinstreak
Strategic Coach Podcast: https://bit.ly/podcast_strategiccoach
Kolbe Test: https://bit.ly/kolbetest -
Viðmælandi þessa þáttar, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir (eða Edda eins og hún er kölluð), hefur átt langan og farsælan feril sem einn af lykilstjórnendum í Actavis og forverum þess fyrirtækis, Pharmaco og Delta.
Í viðtalinu lýsir Edda hvernig lyfjaframleiðsla varð til sem atvinnugrein á Íslandi og þróaðist í að verða einn af burðarstólpum atvinnulífsins. Fyrirtækin Pharmaco og Delta voru leiðandi í þeirri uppbyggingu en þau fyrirtæki byrjuðu sem eitt, slitu svo samvistum en tóku aftur saman 2002 og breyttu síðan nafninu í Actavis.
Á árunum 1999-2008 margfaldaðist umfang starfsemi Actavis erlendis og félagið réðst í á annan tug yfirtakna og varð loks að þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims.
Edda sem hóf störf hjá félaginu árið 1980 vann sig upp og varð aðstoðarforstjóri Actavis Group árið 2008 og svo forstjóri Actavis á Íslandi 2010 þar til hún lét af störfum árið 2014. Árið eftir komst Actavis í eigu Teva og hætti stuttu síðar lyfjaframleiðslu á Íslandi.
Í viðtalinu deilir hún þessari sögu sinni og félagsins með okkur. Þess má geta að Edda hefur hlotið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til uppbyggingar íslensks atvinnulífs.
Edda hefur setið í ótal stjórnum undanfarin ár þ.m.t. hjá Össur sem og stjórnarformaður vísissjóðsins Brunns. Hún hefur sérstaka ástríðu fyrir nýsköpun og að styðja við framgang kynsystra sinna á því sviði.
Njótið vel
-
Fehlende Folgen?
-
Gestur þessa þáttar, Jón Björnsson, hefur verið í leiðandi hlutverki við umbreytingu á tveimur stærstu smásölufyrirtækjum landsins, Högum og Festi. Á milli þessara krefjandi verkefna þá tók Jón að sér að snúa við rekstri á krúnudjásni danskrar verslunar Magasin du Nord.
Jón hóf vinnu hjá dótturfyrirtækjum Haga árið 1996 og vann sig svo upp í fyrirtækinu og varð framkvæmdastjóri þess árið 2002. Hann lýsir þeim dýnamíska kúltúr sem varð til í fyrirtækinu sem hefur alið af sér margt besta rekstarfólk í smásölu á Íslandi.
Eftir 10 mánaða umhugsunartíma tók Jón stökkið til Danmerkur árið 2005 og tók við sem forstjóri Magasin du Nord. Verslunarkeðjan Magasin sem stofnuð var 1868 mátti svo sannarlega muna fífil sinn fegurri enda þá verið rekin í samfelldu tapi í yfir 10 ár.
Jón gaf Gullmundi okkar Guðmundssyni handboltaþjálfara lítið eftir í faglegum vinnubrögðum og náði undraverðum árangri að koma rekstri Magasin á réttan kjöl. Það tókst þrátt fyrir mikla mótvinda s.s. kreppuna 2009 og tíðar breytingar á eignarhaldi félagsins. Magasin veltir um 350 milljónum evra og þar starfa um 1500 starfsmenn.
Jón flutti heim með fjölskyldu sinni árið 2013 og var skömmu síðar boðið tækifæri að verða forstjóri Festi hf. þegar nýir eigendur komu að því félagi. Þar leiddi hann ásamt góðu samstarfsfólki umbreytingu á rekstri félagsins og þá sérstaklega Krónunni og Elko þar sem veltan tvöfaldaðist. Kaupverð félagsins var 8,8 milljarðar en félagið var árið 2017 selt til N1 á 23,2 milljarða króna. Ekki amarlegur árangur það!
Jón er gjafmildur á þekkingu sína og deilir því hvernig hann hefur þróast og þroskast á sinni vegferð í viðskiptum.
Njótið vel
-
Viðmælandi þessa þáttar er Guðrún Hafsteinsdóttir. Guðrún tók við sem forstjóri Kjörís aðeins 23 ára að aldri eftir að faðir hennar Hafsteinn Kristinsson, sem hafði stofnað og stýrt fyrirtækinu, varð bráðkvaddur aðeins 59 ára að aldri. Guðrún þurfti að leggja allar fyrirætlanir um háskólanám til hliðar og takast á við þetta krefjandi verkefni.
Guðrún ásamt systkinum sínum og móður ákváðu strax eftir fráfall Hafsteins að reka fyrirtækið í minningu hans. Kjörís hefur verið rekið í 50 ár sem fjölskyldufyrirtæki og hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir fagmennsku í rekstri, ráðdeild og vöruþróun.
Árið 2010 var Valdimar bróðir Guðrúnar, sem nú er forstjóri Kjörís, valinn viðskiptamaður ársins af Frjálsri Verslun. Félagið hefur einnig hlotið verðlaun Ímark fyrir markaðssetningu, en Guðrún er í dag markaðsstjóri félagsins og einn af eigendum þess.
Guðrún lauk háskólanámi í Mann- og kynjafræði árið 2008. Frá þeim tíma hefur Guðrún látið til sín taka í íslensku atvinnulífi. Hún segist þjást af formennskublæti.
Guðrún er m.a. formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Í viðtalinu fer hún yfir þær áskoranir og tækifæri sem iðnaður á Íslandi og lífeyrissjóðir landsins standa frammi fyrir.
Guðrún gefur góð ráð varðandi hvernig fólk getur gripið þau tækifæri sem þeim gefst í lífinu og viðhorfi til vinnu og þátttöku í félagsstarfi. Guðrún hlaut aðalverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2017 fyrir sín störf. Hún segir í viðtalinu sína sögu sem er bæði áhugaverð og lærdómsrík.
Njótið vel.
-
Gestur þessa þáttar er Hjálmar Gíslason. Hann hefur stofnað fimm fyrirtæki á Íslandi. Fyrstu tvö þeirra Lon&Don og Maskína runnu saman við önnur fyrirtæki. Það þriðja Spurl.net var keypt af Já hf. sem var dótturfyrirtæki Símans hf. á þeim tíma. Það fjórða Datamarket var svo selt til erlenda fyrirtækisins Qlik á 1,6 milljarð króna. Sú sala var valin viðskipti ársins af Fréttblaðinu árið 2014. Í viðtalinu fer Hjálmar yfir alla þessa sögu og deilir því helsta sem hann hefur lært á leiðinni.
Við ræðum m.a. um mikilvægi sölu- og markaðsmála fyrir fyrirtæki og hvernig verðandi frumkvöðlar ættu að prófa sínar hugmyndir.
Eftir 3 ár hjá Qlik er Hjálmar núna kominn aftur af stað með stofnun síns fimmta fyrirtækis GRID. Það hefur þegar tryggt sér öflugt teymi starfsmanna og $4,5 milljónir í fjármögnun frá virtum erlendum og innlendum fjárfestum.
Hjálmar deilir með okkur sínum brennandi áhuga á gagnagreiningu og hvar hann hefur séð tækifæri í gegnum tíðina að gera betur í þeim efnum. Þess má geta að Hjálmar fékk þann skemmtilega titil nörd ársins af upplýsingatæknifyrirtækinu Skýrr árið 2011.
Loks ræðum við ýmislegt efni sem hefur haft mótandi áhrif á hann.
Njótið vel
-
Gestur þáttarins er Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf. Jón er að eigin sögn slugsi frá Selfossi og móðir hans óttaðist að hann myndi aldrei áorka neinu. Jón féll bæði á gagnfræðiprófi sínu sem og inntökuprófi í rafvirkjanám.
Eftir frekar stefnulausa siglingu í gegnum lífið þá kviknaði á metnaðinum hjá Jóni. Hann fór aldrei í menntaskóla en tókst með sínum leiðum að ná sér í tvær háskólagráður, í Danmörku og Bandaríkjunum. Jón varð síðan viðskiptafulltrúi Íslands í New York þar sem hann kynntist fyrirtækinu Össur hf.
Jón var ráðinn til Össurar sem forstjóri árið 1996, en þá hafði félagið aðeins 40 starfsmenn og 400 m.kr. í veltu eftir 24 ára starfsemi.
Jón setti strax markið hátt. Hann leiddi skráningu félagsins á hlutabréfamarkað og nýtti sér svo krafta íslenska fjármálamarkaðarins til þess að ráðast í yfirtökur.
Stórtækustu kaupin voru á Flexfoot Inc. sem var margfalt stærra en Össur og velti þá 75 milljónum dollara. Í viðtalinu fer Jón yfir þessa sögu og greinir frá einu mjög afdrifaríku símtali.
Sá árangur sem Össur hefur náð undir forrystu Jóns er ótrúlegur. Hjá félaginu starfa í dag um 3000 starfsmenn í 25 löndum. Félagið veltir yfir 75 milljörðum króna og er metið á um 405 milljarða.
Slagorð félagsins er „Líf án takmarkana“ en fyrirtækið framleiðir m.a. stoðtæki fyrir fólk sem hefur misst útlimi.
Jón deilir í viðtalinu sinni sýn á stefumótun, kúltúr og mikilvægi gilda í starfsemi Össurar. Loks deilir Jón því hugarfari og vinnusemi sem fólk þarf að temja sér til þess að ná langt í viðskiptum.
Njótið vel
-
Í þessum þætti af Alfa Messunni fáum við til okkar tvo góða gesti þau Steinar Þór Ólafsson og Sesselju Vilhjálmsdóttur. Steinar er markaðsstjóri Skeljungs og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir virka umræðu um viðskipti á LinkedIn. Sesselja hefur komið að stofnun nokkurra sprotafyrirtækja og vinnur nú hjá tækni- og fjárfestingarbankanum Bryan, Garnier & Co. Sesselja framleiddi einnig myndina Startup Kids sem hlaut mikla útbreiðslu um allan heim.
Í þættinum ræða Gunnar og Rakel hjá Alfa við Steinar og Sesselju um það markverðasta í þáttum 4-7 af Alfa hlaðvarpinu. Það voru viðtölin við Andra Þór Guðmundsson, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Liv Berþórsdóttur. Einnig deila þau Steinar, Sesselja, Gunnar og Rakel ýmsu úr sínum reynsluheimi.
Við vonum að þið hafið gaman af greiningu okkar. Við hvetjum þig kæri hlustandi til að láta okkur líka vita hvað þér finnst. Við elskum virka hlustun og virka hlustendur.
Njótið vel
-
Liv Bergþórsdóttir hefur verið einskonar ofurkona í íslensku viðskiptalífi undanfarinn áratug. Hún stofnaði fjarskiptafyrirtækið Nova ásamt Jóakimi Reynissyni og Novator.
Félagið hóf starfsemi korter í kreppuna sem kom árið 2008. Nova réri lífróður og tapaði hundruðum milljóna króna fyrstu starfsár sín í baráttu við risana á markaðnum, Símann og Vodafone.
Liv, sem forstjóri félagsins, hafði skýra sín á hvað skipti máli til að ná árangri. Úthugsuð viðskiptaáætlun, fjögur skýr markmið, réttar ráðningar og mögnuð markaðssetning.
Á aðeins 8 árum náði Nova hæstu markaðshlutdeild í farsímaþjónustu á Íslandi, með 8 milljarða króna í veltu og 2 milljarða í rekstarhagnað. Við köfum í þetta allt.
Svo er það Wow. Liv lýsir því tækifæri sem hún sá í ferðamennsku fyrir Ísland og hvernig leiðir hennar og Skúla Mogensen lágu saman við stofnun Wow. Liv varð stjórnarformaður félagsins.
Það var margt líkt með Nova og Wow s.s. mikið hugrekki, framsækin markaðssetning, sterkur kúltúr og metnaður fyrir tækni.
Nova var selt á 15 milljarða króna árið 2016 til erlendra fjárfesta en Wow fór á hausinn 2019 eftir að vonir um erlendan fjárfesti urðu að engu. Liv fer yfir hvernig þetta horfir við henni, bæði afrekin og mistökin.
Þetta er mögnuð saga. Spennið beltin.
-
Það er líklega enginn Íslendingur sem hefur komið að gerð fleiri vinsælla tölvuleikja en viðmælandi okkar í þessum þætti hún Sigurlína Ingvarsdóttir.
Þetta ferðalag hefur tekið hana frá Reykjavík til Malmö, Stokkhólms, Vancouver og núna Los Angeles. Flestir hafa eflaust spilað einhvern tölvuleik sem Lína hefur komið að hönnun á.
Vegferðin hófst hjá CCP en svo dróst hún til fyrirtækisins Dice þar sem hún fékk tækifæri lífs síns að þróa tölvuleikinn Star Wars Battlefront. Þar vann hún náið með Disney og er í fámennum hópi fólks sem hafa fengið að fara á búgarðinn hans George Lucas, þar sem finna má ótal hluti úr öllum Star Wars myndunum allt frá árinu 1977.
Lína flutti sig svo vestur um haf er hún var ráðin til EA Sports að vinna við FIFA tölvuleikinn. Líkt og þegar hún réð sig til CCP og vissi ekkert um tölvuleiki, þá vissi hún ekkert um fótbolta. Hún fann þó sína leið og innleiddi ýmsar betrumbætur á FIFA leiknum sem hafa stuðlað að víðari útbreiðslu leiksins.
Nýlega gekk hún til liðs við sprotafyrirtækið Bonfire Studios sem er stofnað af yfirhönnuði World of Warcraft of fjármagnað af hinum virta sprotasjóð Andreessen Horowitz.
Við Lína þurftum að kallast á milli heimsálfa með hjálp Skype. Viðtalið var því smá tíma að detta í flæði og örlitlar hljóðtruflanir í upphafi. Í fyrri hluta viðtalsins förum við yfir sögu Línu hvernig hún rataði inn í heim tölvuleikja og í lok viðtalsins deilir hún gagnlegum ráðum fyrir þá sem hafa áhuga á því að ná því besta fram úr sjálfum sér í leik og starfi.
Njótið vel
-
Hvernig umbreytir þú rótgrónu framleiðslufyrirtæki í árangursdrifið sölu og markaðsfyrirtæki? Viðmælandi okkar í þessum þætti er arkitektinn á bak við undraverðan árangur Ölgerðarinnar.
Tekjur Ölgerðarinnar hafa vaxið úr þremur í átján milljarða undir hans stjórn og arðsemi aukist. Viðmælandinn er Andri Þór Guðmundsson og er forstjóri félagsins.
Hvernig breyttist popp og kók í popp og pepsí? Hvað gerðist eiginlega?
Andri trúir á lýðræðislegt einræði og lýsir því betur í viðtalinu. Hann kann þá list að setja stór markmið og virkja fólk með sér til þess að ná þeim.
Andri er hafsjór fróðleiks og reynslu í að stýra breytingum, setja stefnu og spila sókn. Það er hægt að læra ótal margt af honum um rekstur fyrirtækja og leiðtogahæfni.
Leið Andra upp á við var ekki alveg bein en hann var á sínum tíma rekinn sem aðstoðarforstjóri Lýsis hf. Andri fer yfir hvernig hann átti sér draum að eignast fyrirtæki og hvernig sá draumur rættist á endanum.
Andri hefur átt lærdómsríkt lífshlaup. Já og þetta er hlaup því hann gerir ekki neitt á hálfum hraða! -
Þessi þáttur er ekki með hefðbundnu sniði. Þátturinn ber heitið Alfa Messan og í honum er farið yfir það markverðasta sem kom fram í fyrstu þremur þáttum Alfa hlaðvarps.
Til þess að gera það hafa þau Gunnar Páll Tryggvason og Rakel Guðmundsdóttir hjá Alfa Framtak fengið til sín tvo góða gesti, Öldu Sigurðardóttur og Andrés Jónsson. Þau fylgjast vel með í íslensku viðskiptalífi og eru bæði með eigin rekstur.
Alda er stjórnendaþjálfari og rekur fyrirtækið Vendum. Andrés Jónsson er almannatengill og hausaveiðari og rekur fyrirtækið Góð samskipti. Rakel Guðmundsdóttir var áður rekstarstjóri hjá veitingahúsakeðjunni Gló áður en hún gekk til liðs við Alfa.
Hvetjum hlustendur til þess að líka við Alfa Framtak síðuna á Facebook eða LinkedIn. Þar koma tilkynningar um alla nýja þætti þegar þeir koma inn og einnig ýmislegt viðbótarefni sem getur gagnast hlustendum. Sem dæmi þá er þar að finna stutt hnitmiðuð ráð frá reyndu fólki íslensku viðskiptalífi.
-
Hvernig er hægt að vera fullur í fimm ár, taka sig svo saman í andlitinu, og á næstu 5 árum búa til eitt flottasta fyrirtæki landsins?
Viðmælandi þessa þáttar Haraldur Þorleifsson þekkir það af eigin raun. Hann deilir hér með okkur sinni átakanlegu sögu.
Haraldur er lítið þekktur á Íslandi, en er orðin einskonar rokkstjarna erlendis á sínu sviði. Það þarf ekki annað en að googla nafnið hans til að komast að því.
Hönnunarfyrirtæki Haraldar, Ueno, veltir um 2,5 milljarði króna og komst nýlega á lista Inc. í Bandaríkjunum yfir þau fyrirtæki sem hafa vaxið hvað hraðast.
Á meðal viðskiptavina Ueno eru Reuters, Facebook, RedBull, Airbnb, Lonely Planet, Cisco auk Símans og Nova hér heima. Sem dæmi þá kom Ueno að hönnun ESPN Body Issue árið 2017 og rebranding fyrir Uber 2018. Haraldur og Ueno hafa hlotið ótal alþjóðleg verðlaun fyrir hönnun sína.
Ueno er með skrifstofur í San Fransisco, Los Angeles og New York. Einnig glæsilega skrifstofu í Hafnartorgi þar sem fyrirtækið sinnir m.a. viðskiptavinum sínum hér heima.
Saga Haraldar er einstök. Haraldur sem er í hjólastól hefur unnið sig upp úr röð persónulegra áfalla og erfiðleika en stendur eftir reynslunni ríkari, sterkur, næmur og mjög ákveðinn í að ná árangri.
Hann er óvenju opinn, alla vega miðað við þessa tilfinningalegu tréhesta sem við Íslendingar oft erum. Það var magnað að tala við hann og við vonum að þú njótir viðtalsins.
-
Gestur þáttarins er Eva Sóley Guðbjörnsdóttir. Eva er í dag fjármálastjóri Icelandair Group og var þar á undan fjármálastjóri Advania, eins stærsta upplýsingatæknifyrirtækis landsins. Hún hefur einnig verið varaformaður bankaráðs Landsbankans og í stjórn Skeljungs.
Eva var ung komin á ábyrgðarstöður og aðeins 28 ára gömul var hún gerð að fjármálastjóra Kaupþings eftir hrun bankans. Þar þurfti hún að eiga við ágenga erlenda kröfuhafa sem svifust einskis til að hafa upp á henni og ná fram sínum hagsmunum.
Eva starfaði einnig um tíma sem sjálfstæður ráðgjafi þar til einn fremsti „hausaveiðari“ landsins gaf henni eftirminnileg ráð sem olli því að hún skipti um stefnu á sínum starfsferli.
Í fyrri part viðtalsins ræddum við um sameiginlega reynslu okkar af viðskiptanámi í Bandaríkjunum og árin sem við unnum hjá Kaupþing fyrir hrun. Í síðari hluta viðtalsins ræðir Eva vel heppnaða rekstrarumbreytingu Advania og þær áskoranir sem Icelandair stendur frammi fyrir. Loks gefur Eva frábær ráð fyrir fólk sem vill fóta framabrautina í viðskiptalífinu og þá einkum fyrir ungar metnaðarfullar konur.
-
Gestur þessa þáttar er Guðmundur Hafsteinsson. Á sínum magnaða ferli hefur Gummi starfað hjá tveimur verðmætustu fyrirtækjum heims, Google og Apple. Þar stýrði hann m.a. vöruþróun á Siri og Google Maps. Gummi stofnaði síðan sjálfur fyrirtæki sem síðar var keypt af Google og er í dag orðið Google Assistant. Yfir 1 milljarður tækja sem byggja á Google Assistant tækninni hafa verið seld í heiminum í dag. Gummi hefur bókstaflega unnið við að búa til framtíðina okkar síðan árið 2005.
Í viðtalinu ræðum við m.a. hvað Gummi hefur lært af því að stofna fyrirtæki, hvað honum finnst vera mikilvægustu þættir í vöruþróun fyrirtækja og hvernig sé að starfa í Bandaríkjunum í grjóthörðu samkeppnisumhverfi. Við ræðum einnig um tækifæri fyrir Ísland sem hann hefur komið auga á eftir að hafa nýlega flutt heim með fjölskyldu sinni.
Gummi segir margar skemmtilegar sögur m.a. frá samskiptum sínum við stofnendur Google, þá Larry Page og Sergey Brin, og frá skrautlegum fundum með Steve Jobs. Auk þess deilir Gummi með okkur þeim ráðum sem Jeff Bezos, stofnandi Amazon, gaf honum um hvað fólk ætti að hugsa um í sturtu.
Njótið vel!